Er velviljinn að súrna?

Yfirleitt er ég stolt og ánægð með að vera Íslendingur, en stundum skammast ég mín sárlega fyrir þjóðernið. Við erum svo lánsöm að hingað kemur fólk frá ýmsum löndum til að starfa hér um stundarsakir þegar á þarf að halda og er hagur beggja. Aðrir setjast að til frambúðar og festa hér rætur.

Almennt höfum við tekið innflytjendum vel, en nú virðist velviljinn tekinn að súrna í sumum. Alltof oft heyrum við fréttir af leiðinlegri og jafnvel háskalegri framkomu í garð nýrra Íslendinga. Oftast eru þar drukknir eða dópaðir karlar á ferð, en einnig heyrist af ungum kjánum sem telja sig eiga eitthvað sökótt við útlendinga. Og vont er til þess að vita að unglingar láti hafa sig í hreinan og kláran rasisma á Netinu.

Ég hef ekki ennþá kynnst vondu fólki úr hópi innflytjenda þótt sjálfsagt sé það innan um og saman við eins og í röðum innfæddra. En ég velti því nánast daglega fyrir mér hvers vegna í ósköpunum fólk flytur hingað í frostið og snjóinn, rokið og rigninguna. Mig dauðlangar oft að vinda mér að fólki og spyrja það hvaðan það komi og hvers vegna það valdi Ísland.

Daglega hitti ég fólk af erlendu bergi hér á Seltjarnarnesi. Um daginn fór ég í Björnsbakarí á Nesinu og lenti á spjalli við Ítala. Ég hélt hann yrði kátur að heyra að ég væri nýkomin frá Ítalíu, himinsæl með skíðafæri og fegurð ítalskra Alpa, en hann hafði meiri áhuga á að standa sig við afgreiðsluna og gera sig skiljanlegan. Það gekk prýðilega þótt íslenskan væri ekki upp á marga fiska.

Í Hagkaupum handan götunnar er margt útlendinga. Nafnspjöld afgreiðslufólksins á kössunum sýna nánast eingöngu erlend nöfn og litarhátturinn er oftast dökkur. Allt er þetta fólk elskulegt og þægilegt og talar ágæta íslensku.

Í sundlauginni á Seltjarnarnesi er gott og glaðlegt starfsfólk, þar af a.m.k. þrír útlendingar. Ekki veit ég hvaðan þeir eru ættaðir, enda skiptir það engu í sjálfu sér, en mig dauðlangar oft að spyrja. Það eitt skiptir þó máli að þeir eru glaðværir og þægilegir.

Fólk af erlendu bergi gæti verið Íslendingum fyrirmyndir í þjónustustörfum. Hér er alltof algengt að Íslendingar séu áhugalitlir og stundum hrokafullir gagnvart viðskiptavinum og einnig reyndar sem viðskiptavinir, ætlast til alls af öðrum. Þá skortir þjónustulund. Við mættum líta í eigin barm og koma sómasamlega fram við nýja Íslendinga sem langflestir leggja sig fram við að læra íslensku, aðlagast samfélaginu og vinna því vel.

Nú verða umhverfismálin ekki þögguð niður

Framboðslistar VG í Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmunum tveimur voru kynntir og samþykktir einróma á sameiginlegum fundi kjördæmanna þriggja í sal Menntaskólans í Kópavogi 14. febrúar sl. Það var skemmtileg stund. Salurinn þéttsetinn og andi samheldni, bjartsýni og baráttugleði sveif yfir vötnum. Listarnir endurspegla aukna breidd í hreyfingunni og vaxandi tiltrú kjósenda.

Mér varð hugsað átta ár aftur í tímann, þegar við vorum harla fá og lítt skipulögð að strekkjast við að fylla framboðslista hinnar nýju hreyfingar um land allt. Ekki síst var róðurinn erfiður í Reykjaneskjördæmi sem þá var og hét. Þar þurfti nú heldur betur að þrýsta á fólk að gefa kost á sér, jafnvel snúa blíðlega upp á einn og einn handlegg, og þar mátti finna bæði hjón og mæðgin á listanum. Trú á þetta nýja framboð mældist ekki í mörgum prósentum, í Reykjaneskjördæmi byrjuðum við með innan við 2% fylgi.

Kosningabaráttan var býsna erfið þessar vikur á útmánuðum 1999 og þurfti að glíma við bæði tortryggni og beinan fjandskap, ekki síst vegna þess að ýmsum þótti þessi vinstrigræna hreyfing spilla uppfyllingu draumsins um samfylkingu gjörvallra vinstri manna í landinu. Erfiðast fannst mér þó að skynja áhugaleysi bæði kjósenda og hinna flokkanna á umhverfis- og náttúruverndarmálum. Þau komust varla á dagskrá hvernig sem við reyndum. Í kosningunum 2003 tók ekki mikið betra við. Frambjóðendur VG komu nokkuð móðir til leiks eftir harða baráttu undangenginna ára gegn virkjunum við Eyjabakka og Kárahnjúka og stóðu þar einir gegn öllum hinum flokkunum. Þreyta og vonbrigði eftir þau átök settu mark sitt á kosningabaráttuna vorið 2003.

Nú er hins vegar öldin önnur. Málefni umhverfis og náttúruverndar eru í brennidepli og æ fleiri skynja mikilvægi þeirra fyrir nútíð og framtíð þessa lands og raunar heimsins alls. Allir flokkar reyna nú að sýna lit í þessum efnum, jafnvel núverandi stjórnarflokkar reyna að láta sem þeir bjóði upp á stefnu í umhverfismálum, sem verður þó býsna ótrúverðug í ljósi verka þeirra. Meðan þeir setja stóriðju- og stórvirkjanastefnu öllu ofar í atvinnumálum hljóma yfirlýsingar um umhverfisvitund og náttúruvernd eins og lélegir brandarar. Og enn verður ekki annað séð en að ráðamenn þessara flokka trúi því að venjulegt íslenskt rok sjái um að eyða loftslagsmengun og öðrum leiðindum og því óþarfi að bregðast við með einhverjum aðgerðum. Stefna þessara flokka er innantómt orðagjálfur.

En hvað sem því líður er ljóst að umhverfismál og náttúruvernd verða á dagskrá í kosningabaráttunni að þessu sinni. Þau verða ekki þögguð niður eins og raunin varð í kosningabaráttunni 1999 og aftur 2003. Vinstri græn hafa staðið vaktina frá upphafi og nú stefnir í að þau uppskeri eins og þau hafa sáð til.

Framboðsloginn blaktir

Það er ekkert lát á spennandi uppákomum í landslagi stjórnmálanna um þessar mundir og langt frá því útséð með framboðsmálin fyrir vorið. Öryrkjar og eldri borgarar fara þó hljótt og virðast ekki enn vita hvernig bregðast skuli við þeim undarlegheitum að vera allt í einu komnir með tvo hópa sem stefna að framboði um sama málefni. En kannski tekst þeim að rifja upp sannleiksorðin um hvað verður um hina sameinuðu og hvað þá hina sundruðu. Það gildir raunar hið sama um þessa hópa og Framtíðarlandið, öll þessi samtök gera mun meira gagn með vinnu úti á akrinum, áminningum og aðhaldi heldur en að reyna að koma sér inn á Aþingi.

Á fundi Framtíðarlandsins 7. febrúar var samþykkt að bjóða ekki fram til Alþingis á vegum samtakanna og var það skynsamleg ákvörðun. En það er ekki þar með sagt að framboðsloginn hafi slokknað hjá þeim sem telja vænlegt að stefna á þing og er þess nú beðið hvað verður úr þreifingum þeirra. Augljóslega reynir Margrét Sverris að leggja út netin fyrir hægri grænt framboð með skilaboðum um að hún hafi áhuga á einhverju nýju og spennandi til hægri. Það hljómar að vísu einkennilega með tilliti til þess sem hún hefur sagt og gert síðustu árin. Hægristefnan hefur ekki verið fyrirferðarmikil í máli hennar eða greinaskrifum.

Athyglisvert er hversu margir hafa áhuga á að bjóða fram til Alþingis og er það að mörgu leyti hið besta mál. Það er lýðræðislegur réttur fólks, og við ræddum t.d. talsvert um þá hlið mála í nefndinni sem fjallaði um fjármál stjórnmálaflokkanna. Okkur var í mun að skerða ekki möguleika nýrra framboða, en eins og mál hafa þróast á undanförnum árum er kostnaðurinn við síkt óneitanlega nokkur þröskuldur. Það er hins vegar gulls ígildi að hafa eitthvað nýtt fram að færa. Ný framboð með eitthvað nýtt og merkilegt til málanna að leggja njóta gjarna þeirrar athygli fjölmiðla og áhuga almennings sem er þeim meira virði en fjárframlög.

Þau framboð sem hafa verið og eru enn til umræðu hafa þó tæpast það nýmeti upp á að bjóða sem dygði þeim til árangurs ef þau létu af verða. Mér hefur verið sagt að á fundum Framtíðarlandsins hafi hugmyndum um nýtt grænt framboð verið líkt við framboð Kvennalistans á sínum tíma. Þar er þó alls ólíku saman að jafna. Fyrir kosningarnar 1983 sátu aðeins 3 konur á Alþingi og höfðu aldrei skriðið yfir 5% markið á þeim bænum. Það var því brýnt að leggja til atlögu við þann fáránlega lýðræðishalla og breyta umræðunni í íslenskum stjórnmálum. Það var erindi Kvennalistans og augljóst á þeim tíma að það erindi gátu ekki gömlu hefðbundnu flokkarnir rekið. Þeir hvorki gátu það né vildu.

Glampandi sól og glimrandi færi

Flugvélin sem flutti okkur frá ítalska skíðabænum Madonna lenti í slyddunni á Keflavíkurflugvelli laugardagskvöldið 3. febrúar, en eiginlega er ég ekki ennþá andlega lent, þótt ég sé búin að renna yfir öll dagblöðin frá því við fórum utan. Efni þeirra var ótrúlega fjarlægt og óspennandi þessa dagana í skíðabænum góða, helst þó að handboltinn sækti á hugann, enda samferðafólkið býsna upptekið af gengi Íslendinganna í HM.

Vikudvölin í Madonna var öldungis frábær, glampandi sól og glimrandi færi frá morgni til kvölds alla dagana. Þó höfðu veðurguðirnir verið sparir á snjókomuna þennan veturinn, það snjóaði myndarlega á þessum slóðum snemma í desember, en síðan ekki fyrr en í vikunni áður en við komum þangað. En það dugir alveg þeim sem annast brekkurnar í Madonna, því þar eru snjóframleiðslutæki í hundraðavís, enda byggist nánast öll atvinna og afkoma bæjarins á skíðamennsku og reyndar einnig á gönguferðum um fjöll og dali á sumrin. Þarna eru hrikaleg fjöll og feiknarleg náttúrufegurð, bærinn fremur lítill og fallegur og skemmtilegur til dvalar.

Þessa vikuna voru um 100 Íslendingar í bænum á aldrinum 2ja til 78 ára og mikil gleði í brekkunum. Evert fararstjóri leysti hvers manns vanda og tók okkur í tíma ef vilji og þörf var fyrir hendi. Hann reyndi að kenna þá list að láta skíðin líða með okkur í gegnum beygjurnar án fyrirhafnar og svei mér ef árangurinn var ekki bara orðinn nokkuð góður að lokum. Við í litla hópnum mínum vorum farin að svífa um brekkurnar með útrétta arma eins og englar með vængi, en það verður að virðurkennast að í bröttustu brekkunum breyttist a.m.k. minn engill í einhverja undarlega veru með furðulegan fótaburð og allt að einn metra milli hægri og vinstri. Datt mér þá í hug:

Að skemmta mér á skíðum

finnst mér skuggalega gaman

Vil þó helst að vinstri og hægri

haldi betur saman.

Það er eins og mig rámi eitthvað í harðsperrur og einn og einn marblett ef grafið er djúpt í minnið, en allt annað var svo mikil skemmtun og endurnæring líkama og sálar að hugsanleg óþægindi eru einfaldlega gleymd og grafin.

Stóriðja, knattspyrna og kvenfrelsi

“Það er svo gaman á fundum í VG að við ættum bara að prófa að selja aðgang að flokksráðsfundum okkar!” sagði vinstri græn kona að norðan og uppskar bæði hlátur og lófatak. Orð hennar og viðbrögð fundarmanna eru lýsandi fyrir vel heppnaðan og skemmtilegan flokksráðsfund 19. og 20. janúar sl. Andrúmsloftið á fjölsóttum fundinum einkenndist af glaðværð, bjartsýni og baráttugleði. Sá tónn sem þar var sleginn lofar sannarlega góðu um framgöngu vinstri grænna á næstu vikum.

Félagar undirbúa nú komandi landsfund og kosningabaráttu af fullum krafti og ræddu starfið í helstu málaflokkum á flokksráðsfundinum. Í flestum málaflokkum er stefnan vel undirbyggð og mótuð, en nauðsynlegt er að sofna aldrei á verðinum og bregðast við nýjum aðstæðum. Nú er t.d. stór hópur félaga að endurskoða hið ágæta rit um sjálfbæra þróun sem unnið var að fyrir 6 árum og ætlunin að gefa það út í handbók á næstunni. Þá eru vel virkir starfshópar um innflytjendamál, fjölskyldumál, heilbrigðismál, kvenfrelsismál og landbúnaðarmál, og fleiri slíkir hyggjast láta til sín taka á landsfundinum 23. – 25. febrúar nk.

STÓRIÐJUSTEFNUNNI MÓTMÆLT

Stóðiðjustefnan var að sjálfsögðu til umfjöllunar, enda víða unnið af kappi að undirbúningi álbræðslu og tilheyrandi virkjanaframkvæmdum. Um þau efni var samþykkt eftirfarandi ályktun sem Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði hafði frumkvæði að:

“Í ljósi þeirra víðtæku afleiðinga sem stóriðjustefna undanfarinna ára hefur haft fyrir landið allt og íbúa þess er ljóst að afdrifaríkar ákvarðanir á þessu sviði geta ekki verið einkamál einstakra sveitarfélaga. Stóriðjustefnan og virkjanaframkvæmdir í þágu stóriðju eru á kjörseðlum landsmanna 12. maí.

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur engan veginn nægjanlegt að láta aðeins kjósa um afmarkaða skipulagsþætti s.s. deiliskipulag lands í einstaka sveitarfélögum eins og nú stendur til í Hafnarfirði vegna álbræðslunnar í Straumsvík.

Flokksráðsfundurinn leggst gegn fyrirhugaðri stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, áformum um byggingu álbræðslu í Helguvík og við Húsavík, virkjunum í neðrihluta Þjórsár og Jökulsánum í Skagafirði, jarðvarmavirkjunum á Reykjanesskaga, Hengilsvæðinu og í Þingeyjarsýslum.

Ákvarðanir um byggingu og stækkun álbræðslu og virkjanaframkvæmdir í þágu stóriðju munu hafa veruleg áhrif á náttúru Íslands, umhverfi og efnahag um landið allt. Það er ekki einkamál sveitarfélagsins Hafnarfjarðar, Norðurþings, Reykjanesbæjar eða annarra að taka einhliða ákvörðun um virkjanakosti eða um nýtingu auðlinda fjarri sinni heimabyggð. Ákvarðanir sem binda hendur þjóðarinnar á öðrum sviðum ógna stöðugleika efnahagslífsins og breyta náttúru, ásýnd og ímynd lands.”

BLÓMSTRANDI HUGSJÓNIR KVENFRELSIS

Athyglisvert er hvernig hugsjónir kvenfrelsis blómstra nú sem aldrei fyrr innan hreyfingarinnar. Á fyrstu árum hennar gætti nokkurrar tortryggni og jafnvel andúðar sumra félaga gagnvart kvenfrelsismálum og þurfti að hafa talsvert fyrir því að fá fólk til að hlusta á þessi sjónarmið og ræða þau. Þó hafa þau frá upphafi átt sinn sess í stefnuyfirlýsingu og málefnahandbók og ýtarlega var farið yfir sviðið í sérstökum bæklingi sem saminn var fyrir landsfund 2001 og gefinn út fyrir kosningarnar 2003. Okkur sem unnum að þessum málum þótti viðtökurnar ekki beinlínis leiftrandi af skilningi og áhuga.

En nú er öldin önnur og allt annar blær yfir umræðum. Viðhorfsbreytingin stafar e.t.v. ekki síst af því að karlar hafa komið til liðs við málstaðinn af einlægni og þekkingu og ekki á neinn hallað þótt Atli Gíslason og synir hans séu nefndir til sögunnar. Á flokksráðsfundinum stýrði Gestur Svavarsson hópnum sem fjallaði um kvenfrelsismálin og kynnti niðurstöður í fundarlok. Og Stefán Pálsson lagði fram tillögu að eftirfarandi ályktun sem fundurinn samþykkti fúslega og fagnandi:

“Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn 19.-20. janúar 2007 fagnar því að kona hafi í fyrsta skipti boðið sig fram til formennsku í Knattspyrnusambandi Íslands.

Knattspyrna hefur fram til þessa verið eitt helsta vígi karlmennskunnar og innan knattspyrnusambandsins hefur ríkt óviðunandi misrétti milli karla og kvenna. Framboðið er til marks um að konur gera tilkall til þess að þeirra íþróttaiðkun sé jafnmikils metin og karla. Til þess þurfa konur að koma að ákvarðanatöku og stefnumótun innan íþróttahreyfingarinnar.

Þessum tímamótum í frelsisbaráttu kvenna fagnar flokksráðsfundur Vinstri grænna.”

Pólitíska þvargið á ís

Einhver mest notaða klisja stjórnmálamanna er á þá leið að ein vika sé löng í pólitík og er þá átt við að margt geti breyst í stjórnmálunum á einni viku. Nú er ekki ólíklegt að atburðir næstu viku gætu orðið til að sanna þessa útjöskuðu klisju. Ég ætla að hafa það í huga þegar ég loks fletti blöðum og skanna netsíður eftir heila viku í skíðabrekkunum í Madonna á Ítalíu, en þar ætla ég hreinsa hugann af pólitísku þvargi og reyna að stilla mig um að fara á netkaffistofu.

Hvernig verður svo staðan eftir viku? Verður Margrét Sverrisdóttir orðin varaformaður Frjálslyndra eða verður hún komin í undirbúning framboðs með Kristni Gunnarssyni? Verður hún komin í 2. sæti á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi eða verður hún komin í slagtog með Ómari Ragnarssyni & co? Eða hefur hún þegið 5. sæti hjá Samfylkingunni í Reykjavík norður? Svei mér ef ég veðja ekki á það síðasttalda.

Og hvað gerir Magnús Þór ef hann tapar varaformannsslagnum? Renna þá ekki fylgismenn hans saman við karlana í Nýju afli og etja kappi í kosningunum við liðið í gamla aflinu? Raunar er útilokað að skilja þetta endemis rugl í þessum litla flokki og ekki bætir skilninginn að lesa ruddalegt þruglið á heimasíðum Margrétar og Magnúsar.

Ekki virðist mjög líklegt að botn verði kominn í framboðstunnu öryrkja og eldri borgara á þessari einu viku. Mjög skiljanlegt er að þar fæðist hugmyndir um framboð sem hafa raunar verið á flögri í þeim röðum lengi. Óánægja þessara hópa með kjör sín og aðstæður hefur magnast jafnt og þétt og eðlilegt að framboðsleiðin sé mörgum ofarlega í huga. En klúðrið sem nú blasir við lofar ekki góðu. Svo virðist sem enn og aftur snúist málið um persónur, en ekki málefni, og ef báðir hópar ætla að bjóða fram lista um allt land er viðbúið að eftirtekjan verði rýr.

En ég ætla sem sagt hvorki að láta framboðsraunir öryrkja og eldri borgara né forystuslag Frjálslyndra trufla brekkusveiflurnar í Madonna næstu vikuna, en geri því skóna að hafa nóg að lesa í fjölmiðlunum að liðinni viku.

Friðurinn úti?

Það er mikill lúxus að geta brugðið sér dag hvern í notalega sundlaug, synt í vel volgu og mjúku vatni og látið líða úr sér í heitum potti, jafnvel nuddpotti. Hvarvetna erlendis er vatnið hins vegar kalt og hart og sundlaugarmenning með allt öðrum brag.

Vatnið í sundlauginni á Seltjarnarnesi er mjög sérstakt, það kemur beint úr borholum á svæðinu og er að einhverju leyti sjávarblandað. Af þeim sökum er léttara að synda í þessari sundlaug en víðast hvar annars staðar. Miklar lagfæringar fóru fram á aðstöðunni 2005 til 2006 og var sundlaugin lokuð í heila 7 mánuði, en var opnuð örskömmu fyrir bæjarstjórnarkosningar þótt sitthvað væri reyndar þá enn ógert. Máttu fastagestir reyna að sætta sig við ýmsa kosti hjá nágrönnum okkar í Reykjavík og jafnvel víðar meðan þessi langa lokun stóð yfir.

Fastagestirnir skiluðu sér ekki allir aftur, en sjálf var ég ósköp fegin að komast aftur á gamla staðinn þótt ýmislegt væri breytt og ekki allt betra en áður og sumt raunar furðu misheppnað. Sem dæmi má nefna rennibraut eina mikla sem gnæfir upp fyrir alla veggi, en er svo ólánlega hönnuð að krakkar eiga beinlínis erfitt með að nota hana. Og til hvers er þá leikurinn gerður? Besta viðbótin er hins vegar stór og góður nuddpottur sem gott er að liggja í að loknu sundi.

Yfirleitt er ósköp notalegt að sækja sundlaugina “mína”. Viðmót starfsfólks er hlýlegt, sjaldan er óþægilega margt fólk í lauginni og yfirleitt friðsælt á staðnum, ekkert útvarp glymjandi eða annað sem truflar. Þannig á þetta að vera og yfirleitt kemst ekki annað að en vellíðan að heimsókn lokinni.

Í gær var ekki jafn notaleg aðkoma og venjulega því mættir voru á svæðið traktorar og gröfur og starfsfólkið sagði mér að nú væri að hefjast umbylting jarðvegs og vísuðu á bls. 31 í Morgunblaðinu. Og mikið rétt, þar blasti við tölvuteiknuð mynd af því sem koma skal, þ.e. heilsuræktarstöð World Class, stöð sem á að rúma ríflega tvö þúsund manns. Sjálfsagt verða einhverjir kátir að fá þarna aðstöðu fyrir sitt sprikl og hopp, færibandahlaup og teygjur, en ég sé fram á ófriðlega daga næstu mánuði og jafnvel ár.

Þarna mun sem sagt rísa 1.530 fermetra heilsuræktarstöð á stað þar sem mér finnst reyndar lítið pláss fyrir slíkt hús og altént ljóst að ekki verður mikið pláss fyrir annað en bílastæði með tilheyrandi umferð í kringum þetta ferlíki. Er þetta endilega nauðsynlegt?

Í morgun var búið að rústa skemmtilega rjóðrinu við innganginn í sundlaugina, þar sem Nes-hlauparagengið er vant að teygja sig og beygja fyrir og eftir hlaupin. Fallegu tréin sem smáfuglarnir hafa sótt í lágu eins og hráviði í drullunni sem komin var um allt og groddalegir vinnubílar óku um svæðið. Hávaðinn af þessu öllu saman spillti friðsældinni eftirsóknarverðu og notalegheitin í sundlauginni “minni” voru ekki söm og venjulega. Og hvað svo þegar ferlíkið er risið og umferðin tekur völdin? Skyldi friðurinn vera endanlega úti?

Slappleiki og metnaðarleysi

Í útvarpslögum frá árinu 2000 er m.a. fjallað um skyldur útvarpsstöðva í sérstökum kafla og hljóða fyrstu 2 greinar þess kafla svo:

IV. kafli. Skyldur útvarpsstöðva.

7. gr. Dagskrárframboð.

Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Þó skal heimilt, ef sérstaklega stendur á, að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku.

Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu. Með útsendingartíma er í þessu sambandi átt við heildarútsendingartíma sjónvarpsstöðva að frádregnum þeim tíma sem varið er til frétta, íþróttaviðburða, leikja, auglýsinga, textavarpsþjónustu og fjarsölu.

Í reglugerð1) skal það nánar skilgreint hvað telst vera evrópskt efni.

1)Rg. 911/2000.

8. gr. Tal og texti á íslensku.

Efni á erlendu máli, sem sýnt er á sjónvarpsstöð, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.

Ákvæði greinar þessarar eiga ekki við þegar um er að ræða endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva. Þau eiga ekki heldur við þegar útvarpsstöð hefur fengið leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku, sbr. 1. mgr.

Svo er nú það og spurningin stóra hvernig ljósvakamiðlarnir skilja þessi lagaákvæði, hvort þeir yfirleitt skilja þau eða brjóta þau einfaldlega viljandi.

Ef litið er yfir dagskrárkynningar sjónvarpsstöðvanna í dag er nokkuð ljóst að fyrirmæli laganna um “..að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu” eru þverbrotin, þótt að vísu skorti nokkuð á að yfirleitt sé hægt að gera sér grein fyrir hvað er verið að kynna og hvaðan það kemur. Sjónvarp Ríkisútvarpsins virðist þó í góðum málum, enda kynning þess miklum mun skýrari og ítarlegri en annarra stöðva. Reyndar er ekki ljóst hvaðan sumir dagskrárliðir fyrir kvölddagskrá eru ættaðir, en eftir kvöldfréttir er aðeins einn þáttur bandarískur, hinir eru frá Bretlandi og Þýskalandi. Heiti dagskrárliða eru á íslensku með erlenda heitið innan sviga. Og skilur þar rækilega á milli RÚV og annarra miðla. Dagskrárkynningar allra hinna stöðvanna sýna einfaldlega slappleika og metnaðarleysi.

Stöð tvö auglýsir sína dagskrárliði óútskýrða í belg og biðu, að mestu leyti framhaldsþætti og að því er virðist að stærstum hluta bandaríska. Nánast hver einasti dagskrárliður er með ensku heiti og ekki talin ástæða til að þýða það á íslensku né heldur að láta neytendur vita hvað þar er á ferðinni. Einn liður ber ítalska heitið “Viola bacia tutti” og er það reyndar íslenskað samviskusamlega auk þess að tekið er fram að hér sé um rómantíska ítalska vegamynd að ræða.

Stöð tvö bíó íslenskar ekki einn einasta titil þeirra mynda sem boðið er upp á og engar aðrar upplýsingar um þær að hafa. Sama er að segja um dagskrána á Skjá einum, hver einasti liður með enskum titli og að því er virðist hver einasti frá Ameríku. Ekki er fjölbreytninni fyrir að fara. Lágkúran ræður ríkjum.

Þetta er engin undantekning, svona var þetta í gær og svona verður þetta örugglega á morgun. Svona hefur þetta verið í langan, langan tíma og öllum virðist vera sama. Nú segir að vísu ekki í lagatextanum að íslenska skuli heiti dagskrárliða, en liggur það ekki einfaldlega í hlutarins eðli miðað við ákvæðin um tal og texta á íslensku? Og hvers vegna eru engar kröfur gerðar til stöðvanna að þær a.m.k. reyni að fara eftir lögum um framboð dagskrárefnis?

Um skyldur hljóðvarpsstöðva segir ekki margt sérstaklega, en um þær gildir auðvitað hið sama, að “Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu.” Með það í huga er varla hlustandi á nokkra einustu hljóðvarpsstöð aðra en rás 1 á RÚV – og reyndar Rás 2 á stundum.

Orðaslagur á Alþingi

Þessa dagana er orðaslagur á Alþingi um eina merkustu stofnun landsins, sjálft Ríkisútvarpið. Alþingismenn komu beint í þá orrahríð úr fundahléi jólanna og henni er ekki ætlað að ljúka fyrr en mælendaskrá er tæmd í málinu og atkvæðagreiðslu endanlega lokið. Margir vilja tala og það mikið, en ekki er líklegt að Þorgerður ráðherra víki að þessu sinni eftir margar tilraunir til að koma málinu í höfn.

Málþóf, málþóf, segja ráðherra og stjórnarþingmenn og fjölmiðlar bergmála hróp þeirra. Sú ásökun hljómar alltaf þegar tekist er á um mikil ágreiningsmál á þingi og andstæðingar máls nýta sér rétt sinn til ræðuhalda eins og þeir frekast geta. Málþófsheitið á stundum rétt á sér, en það er ofnotað að mínu mati. Þegar allt hefur verið reynt til þrautar í nefndarstarfi er hljóðneminn í ræðustóli Alþingis oft eina leiðin til að hafa hugsanlega áhrif á málalok. Löng ræðuhöld um mál á lokastigi geta virst tilgangslaus nema í því skyni að tefja, en yfirleitt þjóna þau þeim tilgangi fyrst og fremst að vekja sem mesta athygli á málinu og koma upplýsingum og skilaboðum út í samfélagið. Breytingar á rekstrarformi og starfsháttum Ríkisútvarpsins, útvarpi allra landsmanna eins og gjarna er sagt, varða okkur öll.

Það er athyglisvert að skoða gögn málsins á Alþingisvefnum, en af þeim verður ekki annað séð en að hægt hefði verið að ná sáttum um helstu ágreiningsatriðin, ef vilji hefði verið til þess. En það er einmitt viljinn sem vantar. Auðvitað er ástæða þess að stórum hluta sú að framundan eru kosningar og mikið í húfi. Menntamálaráðherra fer mikinn þessa dagana, hún skrifar nánast daglega undir samninga um eitt og annað og lofar fjárframlögum upp í ermar næstu ráðherra svo að milljörðum skiptir. Og hún ætlar að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi hvað sem tautar og raular. Það er sannfæring margra að það þýði aðeins eitt: Ríkisútvarpið verður fyrr eða síðar einkavætt.

Ein þýðingarmesta menningarstofnun þjóðarinnar fer á markað! Það er hryggileg niðurstaða og vonandi hafa andstæðingar málsins þrek til að skrá þá forsmán rækilega í Alþingistíðindi.

Ferðalag um Netheima

Tölvunotkun landans hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og ærin fyrirhöfn að hanga í skottinu á þróuninni. Enn eru þó margir sem eru harðákveðnir í því að láta þessa byltingu gjörsamlega framhjá sér fara og mjög margir láta sér nægja að nota tölvuna nánast eingöngu til ritvinnslu. Þetta merkilega tæki býður upp á mikla möguleika og ótal hliðar, það tengir saman fólk á annan og auðveldari hátt en áður fyrr og er frábært til öflunar upplýsinga og gagna. En það er líka útbært á alls kyns óþarfa og óheppilegt efni, jafnvel andstyggilegan sora. Og það reynist mörgum óhóflegur tímaþjófur.

Ég hef aldrei verið sérlega dugleg að ferðast um Netið, hvað þá að leita uppi allar heimasíðurnar og bloggsíðurnar, sem einar og sér gætu fullnægt lestrarþörfinni á hverjum degi. Sjálf kom ég mér upp þessari síðu minni fyrir 8 árum þegar ég var að demba mér út í enn eina kosningabaráttuna og þóttist vera að svara kröfum nútímans. Og þótt ekki sé lengra síðan voru ekki ýkja margir stjórnmálamenn farnir að nota þessa tækni, enda var það býsna kostnaðarsamt á þeim tíma. Nú úir og grúir af þessum síðum, enda hentugar til að koma upplýsingum á framfæri.

Síðuhaldarar eru misjafnlega duglegir að bæta í sarpinn og liggur enda misjafnlega mikið á hjarta. Sjálf hef ég tekið þetta í rokum, enda ekki litið á mínar færslur sem ómissandi inn í daglegar umræður, hef meira notað þær til að geyma eitthvað sem mig langar að muna eða fá svolitla útrás fyrir tilfinningar þegar þannig blæs vindurinn. Því brá mér ögn í brún þegar vinur minn Ögmundur, einn ástríðufyllsti síðuhaldari landsins, birti í fyrradag þessa fínu mynd af okkur Víkingi Leóssyni, barnabarni Dreyra frá Álfsnesi, og mælti með minnisbókinni minni til lestrar. Ég ætti kannski að fara að vanda mig!

Af þessu tilefni eyddi ég dágóðum tíma í ferðalag um Netheima og skannaði ótal heimasíður einstaklinga af mjög ólíku tagi. Margar þessara síðna eru bara illa skrifað bull, sem meiðir svo sem engan. Verra er þegar fólk notar miðil sem þennan til að meiða og særa í skjóli nafnleyndar. En svo eru margar síður bráðskemmtilegar heim að sækja, fallega upp settar og skemmtilegar aflestrar jafnvel hjá bláókunnugu fólki. Óneitanlega er þó forvitnilegra að skanna síðurnar hjá kunnuglegu fólki, og ein þeirra www.this.is/lilja er komin á fastalistann hjá mér, síðan hennar Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur sem er alltaf full af athyglisverðum pælingum, oft býsna djúpum.

Athyglisvert er svo að skoða heimasíður þingmanna, sem sumir eru mjög iðnir við kolann. Þriðjungur þingmanna hefur ekki séð ástæðu til að koma sér upp heimasíðu og eftirtektarvert að í hópi síðuleysingja eru 4 flokksformenn, aðeins formaður Frjálslyndra er með síðu, en sinnir henni reyndar lítið. Sumar síðurnar hafa fengið að rykfalla allt upp í 4 – 5 ár, þær eru ekki heimsóknar virði og sama má segja um margar aðrar þótt þeim sé oftar sinnt. Nokkrar eru hins vegar vel virkar, en afar misjafnar og aðeins örfáar þannig að maður nenni að skoða þær reglubundið. Hins vegar má bóka að yfirleitt er mikið fjör á síðunum hjá Össuri og Ögmundi.