Erindi Vinstri grænna eru mörg og brýn

Þegar ég var í fyrsta sinn kjörin til starfa á Alþingi árið 1983 var það sem sjöundi landskjörinn þingmaður eins og það var kallað. Það fannst mér mjög flott og ólíkt betra en uppbótarþingmaður og fannst landskjörin vísa til þess að ég væri fyrir landið allt og miðin, eins og ég sagði gjarna. Vissulega tilheyrði ég þó hópi þingmanna í Reykjaneskjördæmi sem þá var og hét. En mér hefur alltaf fundist mjög mikilvægt að þingmenn skynjuðu hlutverk sitt og starf í þágu allra landsmanna, þótt það sé að hinu leytinu hagkvæmt að ákveðnir hópar setji sig sérstaklega inn í staðbundin verkefni í kjördæmunum og sinni þeim. Slíkt má þó ekki leiða til þess að hagsmunir heildarinnar víkji úr fyrirrúmi.

Það er mjög ríkt í fólki úti um land að telja nauðsynlegt að hafa sinn eigin þingmann og helst að þekkja hann inn að beini. Það hefur t.d. heyrst mjög rækilega og grímulaust í tengslum við prófkjör undanfarinna vikna og nægir að minna á óánægju Suðurnesjamanna sem ekki hafa riðið feitum hesti frá samkeppninni um efstu sæti flokkanna að undanförnu. Á endanum bönkuðu Framsóknarmenn þar upp á hjá Hjálmari Árnasyni og skoruðu á hann að freista þess að velta Guðna Ágústssyni úr sessi sem leiðtoga Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. Árangurinn kemur í ljós næstu daga.

Vinstri græn stigu merkilegt skref á suðvesturhorninu gegn þessum viðhorfum sem mörgum þótti nokkuð djarft, en fyrst og fremst forvitnilegt. Þau buðu upp á sameiginlegt forval í Suðvesturkjördæmi og jafnframt í báðum kjördæmum Reykjavíkur. Ljóst var frá upphafi að þar með réði heimilisfesti litlu um niðurstöður, og eigum við nú eftir að sjá hvort kjósendur setja það fyrir sig. Ég viðurkenni að ég hafði í upphafi nokkrar efasemdir um þetta fyrirkomulag, en þær efasemdir hafa minnkað verulega og það verður spennandi að fylgjast áfram með því starfi og þeim breyttu vinnubrögðum sem þetta fyrirkomulag kallar á.

Það er nú ljóst að Ögmundur Jónasson mun leiða lista VG í Suðvesturkjördæmi, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skipar 2. sæti, Gestur Svavarsson 3., Mireya Samper 4. og Andrea Ólafsdóttir 5. sætið. Frábær hópur af skemmtilegu og bráðduglegu fólki sem gaman verður að fylgjast með. Framboðslistinn er ekki fullfrágenginn, en þessi fimm bíða að sjálfsögðu ekki boðanna, heldur eru strax farin að skipuleggja baráttuna og máta sig í kjördæminu. Vinstri græn á Seltjarnarnesi fengu þetta ágæta fólk í heimsókn og leyndi sér ekki eftirvæntingin og ánægjan á báða bóga.

Suðvesturkjördæmið er vissulega um margt sérstætt, en Vinstri græn beita sér þar fyrir sömu málum og alls staðar annars staðar á landinu. Það kom skýrt fram á fundinum með fimmmenningunum. Þar sem annars staðar setja Vinstri græn umhverfismál og náttúruvernd á oddinn, lýðræðislegt og réttlátt samfélag, kvenfrelsi og afnám kynbundins misréttis og sjálfstæða utanríkis- og friðarstefnu. Erindi Vinstri grænna eru mörg og brýn í íslenskum stjórnmálum, brýnni en nokkru sinni fyrr eftir alltof langa stjórnartíð núverandi valdaflokka.

Niðurstöður hins nýstárlega forvals Vinstri grænna lofa góðu, skoðanakannanir lofa góðu, bjartsýni og baráttugleði félaga um allt land lofa góðu. Ég bið ekki um meira í bili.