Fyrir réttum áratug stóð ég í fyrsta sinn á barmi Dimmugljúfra og gleymi aldrei þeirri stundu. Ég vissi ekki um þessi gljúfur og var hreint agndofa yfir hrikalegri fegurð náttúrunnar sem þar birtist. Magnað, var eina orðið sem þá kom mér í hug. Á þeim tíma voru þessi einstæðu gljúfur fáum kunn. Nú vita allir um tilvist þeirra og fólk hefur streymt þangað nú síðustu árin að sjá þau og annað umhverfi Kárahnjúkanna sem nú standa hnípnir og sárir og bíða örlaga sinna.
Ég flaug með Ómari Ragnarssyni yfir svæðið um miðjan ágúst. Hrifning og reiði börðust um völdin í huga mér. Afleiðingar ofbeldisaðgerða virkjanasinna skera í augun þegar flugvélin sveimar yfir framkvæmdasvæðinu. Hver náttúruperlan af annarri gleðja hins vegar þegar vélin stingur sér niður í gljúfrin og flýgur yfir nágrennið. Öræfakyrrðin umlykur mann á göngu um Kringilsárrana þar sem sérstæðar náttúrumyndanir vekja furðu og hvert lítið blóm vekur aðdáun. Tilhugsunin um lónið mikla, sem innan skamms kaffærir ómetanlegt landsvæði, sker í hjartað. Það landsvæði verður aldrei endurheimt.
Það hefur verið bæði ótrúlegt og sárt að fylgjast með tilurð Kárahnjúkavirkjunar allt frá því byrjað var að kynna hugmyndina til þessa dags. Hópur andmælenda var ekki fjölmennur í upphafi og afl hans og aðgerðir máttu sín lítils gagnvart stjórnvöldum. Þar var í raun við algjört ofurefli að etja og minnisstæð eru orð Halldórs Ásgrímssonar í ágúst 2001 þegar Skipulagsstofnun hafði fellt þann úrskurð að virkjunaráformunum skyldi hafnað vegna mikilla óafturkræfra náttúruspjalla. “Það er stefna stjórnvalda að þessi virkjun verði byggð og þessi úrskurður Skipulagsstofnunar breytir engu þar um,” segir Halldór Ásgrímsson í DV 3. ágúst það ár.
Á Alþingi börðust Vinstri græn hetjulega gegn málinu og eru enn að. Þau eru í rauninni fyrst núna að uppskera árangur erfiðis síns og þrautseigju. Og þótt virkjunin verði að veruleika skilar sér til framtíðar ótrúleg elja mótmælenda við að draga upplýsingar fram í dagsljósið og vekja fólk til umhugsunar um það sem var að gerast, um umfang fyrirhugaðra framkvæmda, um landsvæðið sem skyldi sökkt og þannig fórnað um alla framtíð, um kostnaðinn og vafasama arðsemi framkvæmdanna, en fyrst og fremst um þetta ofbeldi mannsins gagnvart náttúrunni.
Kunningi minn lýsti því nýlega fyrir mér þegar hann fór fyrst upp að Kárahnjúkum og virti fyrir sér framkvæmdirnar af útsýnispallinum. Nákvæmlega á þeim stað er fátt sem hrífur hugann nema menn séu þannig innstilltir að hrífast af vinnuvélum og hrikalegu jarðraski. Hann sagðist hafa velt fyrir sér hverju í fjandanum andstæðingar virkjunarinnar væru eiginlega að mótmæla, þarna væri fátt merkilegt að sjá. Nú hefur hann kynnt sér umhverfið betur og er skelfingu lostinn yfir því sem er að gerast. Hann tilheyrir þar með sífellt stækkandi hópi fólks sem hefur verið að vakna til vitundar um náttúruspjöllin norðan Vatnajökuls, fólks sem hefur nú séð náttúruundrin með eigin augum, gengið um lónbotninn, séð fossana sem ýmist hverfa eða verða ekki svipur hjá sjón, tínt berin og séð gróðurinn sem virkjanasinnar hafa gert lítið úr.
Þökk sé öllum þeim sem hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að vekja og upplýsa, opna augu fólks fyrir ómetanlegum náttúruperlum öræfanna, gildi þess að eiga slíkar perlur ósnertar og hvernig þær geta verið okkur margfalt verðmætari óspjallaðar en sundurgrafnar og kaffærðar. Fjöldi fólks hefur kynnt sér víðernin norðan Vatnajökuls síðustu mánuði og ár, m.a. fyrir tilstilli hugsjónakvennanna Ástu og Óskar í Augnabliki og eldhugans Ómars sem hefur nánast rúið sig inn að skinni til að kynna og fræða og gera fólki kleift að sjá og skilja.
Einstæð náttúra Íslands hefur eignast mikinn fjölda vina sem munu verja hana fyrir vægðarlausri ágengni öfgafullra virkjanasinna í framtíðinni. Hryllingurinn við Kárahnjúka má aldrei aftur eiga sér stað