Samfélag, félag framhaldsnema við félagsvísindadeild HÍ, efndi til hádegisfundar í gær undir yfirskriftinni “Nauðganir á Íslandi. Hvað getum við gert?”. Þar fjallaði Eyrún Jónsdóttir, deildarstjóri hjá Neyðarmóttöku vegna nauðgana, um tölfræðilega stöðu þessara mála og kallaði eftir aukinni áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Og Gísli Hrafn Atlason, fulltrúi karlahóps Femínistafélagsins, flutti áhrifamikla ræðu um þessi mál og kallaði sterkt eftir ábyrgð karla í þeim efnum. Stjórnmálaflokkarnir áttu hver sinn fulltrúa í pallborði pallborði og þekktu auðheyrilega misjafnlega vel til mála.
Upplýst var að rúmlega 1.400 þolendur nauðgana hafa leitað til Neyðarmóttökunnar á árabilinu 1993-2006. Þolendur eru á aldrinum 10-78 ára, en 67% þeirra eru yngri en 25 ára. 60-70% brotanna voru framin inni á heimilum. Árið 2005 fjölgaði fórnarlömbum mest í aldurshópnum 10-15 ára.
Þetta eru allt uggvænlegar tölur og upplýsingar, en það skelfilegasta er í rauninni að þær eru fjarri því að ná yfir öll brot og glæpi af þessu tagi. Vitað er að fjöldi slíkra glæpa er ekki kærður og hvergi skráður. Það sanna erlendar rannsóknir og engin ástæða til að ætla að ástandið hér á landi sé eitthvað betra í þeim efnum.
Á fundinum í gær var nokkuð rætt um nauðsyn þess að setja á laggirnar nefnd eða starfshóp til að fara yfir stöðu mála og móta tillögur til úrbóta. Varð mér þá hugsað til tillögunnar sem við kvennalistakonur fengum samþykkta fyrir rúmum 22 árum um nefnd til að kanna “…hvernig háttað er rannsókn og meðferð nauðgunarmála og geri tillögur til úrbóta í þeim efnum”.
Tillagan var samþykkt vorið 1984 og leiddi til þess að nefnd fagaðila vann mikið og gott starf næstu fimm árin. Nefndin skilaði ítarlegri skýrslu og lagði fram margar tillögur um lagabreytingar og úrbætur á meðhöndlun þessara mála. Minnist ég þess að einn nefndarmanna, Jónatan Þórmundsson prófessor, lýsti sérstakri ánægju með það hvernig staðið væri að málum við undirbúning breytinga og umbóta í löggjöf og meðferð mála.
Í framhaldi af þessu starfi hefur jafnt og þétt verið unnið að bættri meðferð nauðgunarmála og eitt stærsta framfaraspor í þeim efnum var stigið þegar Neyðarmóttöku vegna nauðgunar var komið á laggirnar árið 1993. Stærstan þátt í undirbúningi þess átti Guðrún Agnarsdóttir læknir og fyrrverandi þingkona Kvennalistans sem hafði síðan yfirumsjón með þessu starfi allar götur til ársins 2004 þegar stjórnendur LSH töldu ekki lengur þörf á 20% starfi yfirlæknis við Neyðarmóttökuna. Það var misráðið og í raun til vitnis um skilningsleysi ráðamanna í þessum efnum.
Það er ömurlegt að allt það góða sem hefur verið gert í þessum málum síðustu 20 árin skuli ekki hafa skilað sér eins og vonast var til. Meðferð mála er sannarlega betri, aðkoma lögreglu er allt önnur en var og jafnvel dómskerfið er talsvert skárra þrátt fyrir allt. Mestu munar um starfsemi Neyðarmóttökunnar sem hefur vakið alþjóðlega athygli og verið skilgreind sem fyrirmynd á alþjóðamælikvarða.
En nauðgunum hefur því miður ekki fækkað og þær virðast jafnvel hrottalegri en nokkru sinni fyrr. Klámi, ruddaskap og kvenfyrirlitningu er haldið að ungum strákum, hópnauðgunum hefur fjölgað og það þykir “kúl” að stæra sig af kynlífi í hvaða mynd sem er.
Þessi mál koma okkur öllum við. Aðgerðir hingað til hafa fyrst og fremst beinst að brotaþolum og bættri meðferð nauðgunarmála. Nú þarf að leggja áherslu á þá sem brotin fremja og þá sem eru í þeirri hættu að fremja slík brot. Ábyrgðinni verður að beina þangað sem hún á heima, til karla sem nauðga og til stráka á þroskaskeiði sem er í rauninni innrætt með ýmsu móti að það sé í lagi að nauðga.
Karlahópur Femínistafélagsins hefur rutt brautina í þessu efni og þeirra starf þarf að styrkja. Umræðuna þarf að færa til unga fólksins og senda þangað réttu skilaboðin: ÞAÐ ER EKKI Í LAGI AÐ NAUÐGA.