Umræðan um náttúru Íslands er líkt og vatnið, stundum eins og hljóður lækur, stundum eins og harðfrosið heiðarvatn, stundum eins og ólgandi fljót í vorleysingum og einmitt þannig er umræðan um þessar mundir. Að miklu leyti getum við þakkað boðaföll síðustu vikna þeim Andra Snæ og Ómari sem eru hreinlega að springa af orku og hugmyndaólgu. Það er stórkostlegt að hafa fengið slíka liðsmenn í baráttuna því hún er óralangt frá endalokum. Framundan er áframhaldandi stríð við virkjanaöflin.
Jökulsárgangan niður Laugaveg 26. september sl. var ótrúleg reynsla, minnti á 24. október 1975 þegar konur fylltu miðbæinn. Veðrið var yndislegt, þátttakan margfalt meiri en nokkur bjóst við, samkenndin var beinlínis áþreifanleg. Mannfjöldinn var vel með á nótunum og lét til sín heyra. Heim var svo haldið með þakklæti í huga og von um að baráttan mundi vinnast að lokum.
Það angrar hins vegar huga minn þegar hver af öðrum talar eins og loksins núna hafi eitthvað gerst til verndunar íslenskrar náttúru, að í þessu máli hafi verið sofið á verðinum og gott ef ekki í náttúruverndarbaráttunni yfirleitt. Fólki hafi almennt ekki verið ljóst hvað var að gerast á hálendinu, það hafi ekki vitað um stærð verkefnisins og allan kostnaðinn, ekki vitað hvílíkar gersemar voru í húfi o.s.frv.
Það er vissulega rétt að það hefur tekið tímann sinn að ná eyrum fólks, en mikið hefur verið gert og mikið unnið og enginn hefði þurft að láta umhverfisspjöllin á víðernunum norðan Vatnajökuls koma sér á óvart. Þau voru ekki að hefjast 28. september sl., þau hafa staðið yfir hátt í 5 ár að undangenginni mikilli umræðu og baráttu á báða bóga. Og vegna allra þessara athugasemda “…sofið á verðinum…”, “…of seint við brugðist…”, “…ekki nægar upplýsingar…” o.s.frv. er bæði rétt og sanngjarnt að rifja upp nokkrar staðreyndir.
Vissulega er býsna langt síðan farið var að vinna að umhverfis- og náttúruvernd og erfitt að setja upphafspunkt þeirrar baráttu. En vegna þess sem nú er efst á baugi er rétt að minna á baráttufundinn í Háskólabíói í nóvember 1998. Í mínum huga markar hann ákveðið upphaf baráttunnar fyrir verndun víðernanna norðan Vatnajökuls. Tilefnið var áformin um Fljótsdalsvirkjun sem hefði kaffært hina dýrmætu Eyjabakka. Salurinn var troðfullur og andrúmsloftið tilfinningaþrungið og mynd Páls Steingrímssonar frá Eyjabökkum kallaði fram tilfinningaöldu. Höfuðkempa fundarins var Guðmundur Páll Ólafsson sem þá þegar hafði vakið marga til umhugsunar með táknrænum mótmælum gegn myndun Hágöngulóns á miðhálendinu. Hann hefur bæði þá og síðar lagt sitt lóð á vogarskálarnar, ekki síst í stórkostlegum bókum sínum um náttúru Íslands.
Ári síðar hófst svo barátta Umhverfisvina sem söfnuðu á 2 mánuðum undirskriftum ríflega 45 þúsund manns undir kröfuna um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum vegna Fljótsdalsvirkjunar. Framkvæmdin var engu að síður samþykkt af meirihluta á Alþingi, en síðar blásin af og tók þá ekki betra við þegar stríðið um Kárahnjúkavirkjun hófst. Í þeirri baráttu lögðu margir sitt af mörkum af miklum eldmóði.
Umhverfisvinir voru ekki einu samtökin sem urðu til á þessum tíma og bættust þar með við náttúruverndarsamtök í öllum landshlutum, Landvernd, Fuglavernd og fleiri félög á sviði náttúruverndar. Þar má sérstaklega nefna Náttúruvaktina sem var mjög virk á þeim tíma og síðar urðu til fleiri hópar sem allir höfðu það að markmiði að upplýsa og hvetja til baráttu gegn náttúruspjöllum. Það er í rauninni aðdáunarvert hvílíkum árangri öll þessi barátta hefur skilað, barátta lítt skipulagðra fjárvana áhugasamtaka gegn virkjanaöflum í skjóli ríkisstjórnar og meirihluta Alþingis, barátta Davíðs við Golíat.
Það var svo margt sem þetta fólk gerði. Mér eru t.d. minnisstæðir hádegisfundirnir á Austurvelli hvern einasta virkan dag frá því í ágúst 2002 og fram eftir ári 2003. Við hittumst þar undir styttu Jóns og ræddum stöðuna, fengum heimsóknir manna sem uppfræddu og skemmtu, enduðum svo með söng sem var reyndar misjafnlega fagur eftir því hvort tenórinn okkar, Jón Rúnar Arason, var viðstaddur eður ei. Upp úr þessu hófst mikil fundaröð á Grand Rokk með fyrirlestrum fræðimanna um virkjunaráformin og frjálsum umræðum að þeim loknum. Þar má ætla að kviknað hafi hugmynd þeirra Óskar og Ástu í Augnabliki að skipuleggja ferðir um landið sem nú er verið að eyðileggja. Það ómetanlega starf opnaði mörgum sýn.
Tónleikar voru haldnir og sérstakt blað, Hálendisblaðið, gefið út með fræðandi lesefni og upplýsandi myndum. Síðar kom svo út kortið “Ísland örum skorið” sem ýtti við mörgum. Myndir vógu þungt í baráttunni, myndir sem margir okkar bestu ljósmyndara tóku og fengu birtar í blöðum og bókum, á kortum og á sýningum, m.a. í Kringlunni undir heitinu “Landið sem hverfur”. Þessar myndir eru orðnar vel þekktar sem bakgrunnur fjölda funda, m.a. útifunda á Austurvelli, sem eru orðnir margir.
Eftirminnilegur er baráttufundur í troðfullu Borgarleikhúsinu 15. janúar 2003 undir yfirskriftinni “Leggjum ekki landið undir – björgum þjóðarverðmætum.” Og daginn eftir söfnuðust mótmælendur hundruðum saman við Ráðhúsið til að sýna hug sinn vegna umræðu og atkvæðagreiðslu um ábyrgðir Reykjavíkurborgar vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þar var heldur betur hiti í mannskapnum enda skynjaði fólk að þarna var gullið tækifæri til að koma í veg fyrir framkvæmdaáformin. Úrslit atkvæðagreiðslunnar urðu gífurleg vonbrigði sem drógu nokkurn þrótt úr baráttunni.
Hlutur fjölmiðla fólst að mestu leyti í aðsendum greinaskrifum sem voru sannarlega í gríðarlegu magni og buðu upp á gagnleg skoðanaskipti. Umfjöllun fjölmiðla var ekki markviss af þeirra hálfu, fremur fréttaflutningur líðandi stunda, með þeirri undantekningu að Morgunblaðið birti mjög góðan og upplýsandi greinaflokk í september og október 1998 um þau meginsjónarmið og þá kosti sem Íslendingar stæðu frammi fyrir í virkjanamálum og verndun hálendis Íslands. Ragna Sara Jónsdóttir vann textann og Ragnar Axelsson lagði til flestar myndirnar auk þess sem kort af helstu svæðum skýrðu málið.
Draumalandið hans Andra Snæs hefur hreyft við mörgum og örvað til umhugsunar. Eldmóður hans, hugmyndaflug og fljúgandi mælska valda því að hann er eftirsóttur fundargestur þar sem hefðbundin ræðuhöld blikna þegar hann fer á flug. Hann er örugglega ekki búinn að segja sitt síðasta um þessi mál frekar en önnur.
Engin spurning er að þrátt fyrir einbeitta viðleitni Ómars Ragnarssonar til að láta ekki hanka sig á hlutdrægni í sambandi við virkjanamálin þá hefur hann lagt mikið af mörkum til að upplýsa og fræða um áhrifin af framkvæmdum á hálendinu og sýna þau ómetanlegu svæði sem um er að ræða. Ótrúleg elja hans verður aldrei fullþökkuð, en hægt er að leggja honum lið og bæta honum að einhverju leyti þann gríðarlega kostnað sem hann hefur orðið fyrir í sínu hugsjónastarfi. Nú sýnir hann okkur myndir og segir fréttir á www.hugmyndaflug.is Þar má m.a. sjá undurfallega og táknræna mynd af litfögrum gróðri á og undir bakka Hálslóns.
Á Alþingi börðust Vinstri græn ein við ofureflið í Kárahnjúkamálinu og unnu þrotlaust að því innan og utan þings að varpa ljósi á alla þætti málsins. Þau reyndu m.a. að sannfæra stjórnvöld um réttmæti þess að landsmenn fengju að segja sitt um þessar framkvæmdir í þjóðaratkvæðagreiðslu, en fengu ekki einu sinni stuðning Samfylkingarinnar við þá tillögu. Þau hafa aldrei kvikað í baráttu sinni og eiga skilið bæði lof og stuðning. Vonandi skynja náttúruunnendur sinn vitjunartíma í þingkosningunum að vori.
Þannig hafa margir lagt hönd á plóg í baráttunni fyrir verndun náttúru Íslands. Sá hópur getur bara stækkað. Verkefnin eru ærin framundan. Jökulsárnar í Skagafirði, Langisjór, Skjálfandafljót, Brennisteinsfjöll, Grændalur. Hvað dettur mönnum næst í hug?