Kristín Jóns og innri röddin

Það var sérstakt andrúmsloft í Norræna húsinu í hádeginu í gær. Kristín Jónsdóttir sagnfræðingur flutti þar erindi á vegum Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, sem hún kallaði “Hlustaðu á þína innri rödd” og fjallaði þar um ákveðið tímabil í sögu Kvennaframboðs og Kvennalista. Kristín átti drjúgan þátt í mótun og starfi beggja greina á þessum meiði og sveik sannarlega ekki áheyrendur, sem voru reyndar að stórum hluta kvennalistakonur. Það var því fagnaðarfundur vinkvenna til margra ára og fortíðarþráin lá í loftinu.

Kristín hafði aðeins rúman hálftíma fyrir erindið, en hún nýtti tímann vel og dró upp heillega mynd af því sem gerðist á þessu árabili, þ.e. frá 1982 – 1987. Hún lýsti aðdragandum, stöðu kvennabaráttunnar og þörfinni fyrir breytingar, hvernig framboðshugmyndin fæddist og þróaðist og myndaði þann grundvöll sem dugði til að skila árangri. Allt það ferli gekk að sjálfsögðu ekki átakalaust, konur komu og fóru, og stundum var hurðum skellt. Hún lýsti uppbyggingu samtakanna og hugmyndafræðinni sem starfið byggðist á og hún sagði frá viðbrögðum fólks í gömlu stjórnmálaflokkunum. Loks lagði hún mat sitt á árangurinn, hverju allt þetta starf skilaði. Að erindinu loknu urðu líflegar umræður og auðheyrt á máli spyrjenda í salnum, að enn brennur margt á konum – karlar voru fáir – og enn er gælt við hugmyndir um sérframboð kvenna. Hvar veit nema efnt verði enn á ný til slíkra aðgerða fyrr en síðar.

Þessi stund í Norræna húsinu var bæði fróðleg og einstaklega skemmtileg. Hins vegar hefðu gjarna mátt vera fleiri í hópi áheyrenda, sem stóðu utan við þetta ævintýri þegar kvennabarátta þessa tíma stóð sem hæst, sum jafnvel ekki einu sinni fædd í þennan heim þegar ævintýrið hófst. Það er furðu fljótt að fenna í sporin og mætti oftar og meira halda á lofti því sem Kvennaframboðið og Kvennalistinn áorkaði. Það var ekki lítið. Að minni hyggju var tilkoma Kvennalistans, hugmyndafræðin, starfið allt og árangur þess það merkilegasta og áhrifamesta sem gerðist í íslenskum stjórnmálum á nýliðinni öld.