Jæja, þá eru jól og áramót að baki og allt heldur litlausara orðið í kotum manna. En þótt jólaskreytingar og ljósadýrð hverfi smám saman úr gluggum, af trjám og handriðum, jafnvel skorsteinum og þökum, taka himnaljósin við og gleðja enn frekar. Daglega hænufetið er farið að skila sér og hressa upp á andann.
Árið 2007 er spennandi, ekki síst vegna komandi kosninga. Flokkarnir eru flestir langt komnir með undirbúning sinn, prófkjör og forvöl flest yfirstaðin og ljóst hverjir leiða munu lista þeirra, og nú dynja yfir fundir og fjölmiðlaumræður sem hlé varð á um hátíðarnar. Það er kominn vorhugur í Vinstri græn þrátt fyrir frost og kuldatíð og þau bjóða upp á fundi þessa dagana í öllum kjördæmum. Frjálslynd undirbúa landsfund af kappi og forvitnilegt hvernig þeim gengur að ná samstöðu eftir átökin í haust. Og svo er spurningin hvort Hjálmari tekst að leggja Guðna í forvalinu í Suðurkjördæmi á næstunni. Fáir hafa trú á því.
Þessa dagana og væntanlega næstu vikur er áhugaverðast að sjá hvernig málin þróast hjá eldri borgurum og ekki síður hjá Framtíðarlandinu. Talsverður áhugi virðist á framboði hjá hvorum tveggja hópum, en líka mikil andstaða og alls óvíst hvað verður ofan á. Minni spenna er þó í kringum eldri borgara og harla óljóst hvað þar er að gerast. En tíminn er svo sem nægur enn, framboð þarf ekki að tilkynna formlega fyrr en 15 dögum fyrir kjördag og enn langt í apríllokin.
Meiri eldur virðist kraumandi hjá félögum í Framtíðarlandinu og það raunar á báða bóga. Þar eru ákafir framboðssinnar, en þar er líka mjög mikil andstaða sem byggist ekki síst á því að sérstakt framboð kæmi hugsanlega verst við þá sem mest og best hafa staðið vörð um náttúruna og barist fyrir vernd hennar og virðingu á Alþingi. Það væri afar óheppileg og í rauninni sorgleg niðurstaða.
Mér er auðvitað málið skylt og þætti það afskaplega miður ef þessi yrði niðurstaðan. Vinstri græn hafa unnið af miklum heiðarleik og dugnaði og háð feiknarlega öfluga baráttu fyrir þeim hugsjónum sem hreyfing okkar byggist á og þar hefur græni þráðurinn styrkst með degi hverjum. Það er ekki hrist fram úr erminni að byggja upp stjórnmálahreyfingu, en við höfum verið mjög lánsöm með félaga, bæði í forystu og grasrót sem hafa af óeigingirni og elju lagt uppbyggingunni lið. Og nú blasir árangurinn við. Æ fleiri styðja málstað náttúruverndar og fylkja sér um hugsjónir og stefnu Vinstri grænna. Það væri synd ef þeim árangri væri spillt.
Framtíðarlandið er kraftmikill og spennandi kostur fyrir fólk sem vill vinna á uppbyggilegan hátt að umhverfismálum og náttúruvernd, eins og reyndar svo margar hreyfingar og félagasamtök sem hafa risið og hnigið á undanförnum árum. Það hefur verið hrein opinberun oft og tíðum að kynnast alls konar samtökum á þessu sviði, sem hafa skapað tækifæri til umræðna og skoðanaskipta, fræðslu og margs konar athafna, mótmæla og uppbyggjandi starfa. Mörg slík samtök hafa náð heilmiklum árangri þótt þau störfuðu stutt. En það er gríðarlega mikilvægt að hafa öflug samtök af þessu tagi sem láta vel í sér heyra þegar þörf er á.