Álver við Helguvík – ekkert mál!

Áberandi er í fréttum og umræðum um óbyggð álver og óreistar virkjanir að talað er um allt slíkt sem frágengið mál og framkvæmdir á næsta leiti. “Garður og Reykjanesbær skipta jafnt tekjum af álveri” er fyrirsögn á bls. 17 í Morgunblaðinu í dag, 9. janúar. Ekki er að sjá neina fyrirvara í langri frétt um málið, heldur eins og allt sé nánast klappað og klárt, enda eru bæjarstjórarnir í Garði og Reykjanesbæ búnir að skrifa undir samkomulag sín á milli. Er það nóg?

“Gert hefur verið ráð fyrir álveri með 120 til 150 þúsund tonna framleiðslugetu í fyrsta áfanga sem gæti verið tekið í notkun á árinu 2010. Fimm árum síðar verði framleiðslugetan komin upp í 250 þúsund tonn.” Svo segir í niðurlagi fréttarinnar eftir miklar upplýsingar um lóðamál og staðarval fyrir ker- og steypuskála, súrálsgeyma og skrifstofubyggingu. Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði, segir að álverið fari betur þar í landinu en áður hafi verið í umræðunni. Og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir lausnina hagstæða út frá umhverfislegum sjónarmiðum! Það kemur svo enn betur fram í forsíðufrétt í Fréttablaðinu: “Umhverfið tekið fram yfir tugi milljóna”. Þessi hjartnæma umhyggja fyrir umhverfinu minnir á Álgerði í áramótaskaupinu sem hneykslaðist á manninum sem henti rusli á virkjanasvæðinu.

Ekkert er fjallað um orkuöflun vegna þessa álvers sem bæjarstjóraparið hefur komið sér svo rækilega saman um, aðeins að Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur vilji sjá um þann þátt málsins. Er þá komið að aðalatriði málsins sem furðulegt er að rétt nefna si svona til sögunnar eins og smámál sem varla taki að minnast á!

Stóra álitamálið er auðvitað hvar Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur ætla að taka þá orku sem afla þarf til að knýja 250 þúsund tonna álver, sem að sjálfsögðu kallar fyrr en síðar á stækkun á stækkun ofan.

Orkuveita Reykjavíkur hefur illu heilli liðist að spóla upp Hellisheiðina og eyðileggja hana með furðulegri röralagningu og a.m.k. þrenns konar háspennulínum um þvera og endilanga heiðina. Þar á bæ treysta menn sjálfsagt á að fáum þyki lengur taka því að reyna að bjarga því sem eftir er óraskað.

Hitaveita Suðurnesja horfir til Brennisteinsfjalla, þar sem er hið eina fjögurra eldfjallakerfa á Reykjanesi, sem ekki hefur verið spillt með borunum, vegagerð og línulögnum og má með sanni segja að þetta merkilega svæði hafi lengi verið eins og falinn fjársjóður við bæjardyr höfuðborgarsvæðisins. Verndargildi þessa svæðis er metið afar hátt, en mat virkjunarsinna byggist því miður á öðrum gildum en verndargildum.