Orkan sótt í Reykjadalinn

Eftir tíu mínútur legg ég af stað norður í Reykjadalinn minn að vitja rótanna og hlaða orkugjafana. Þar mun ég dveljast út júnímánuð, snyrta í kringum Varmahlíð, stunda nýju góðu sundlaugina á Laugum, lesa heilan bókahlaða og eiga góðar stundir með afkomendunum sem finnst Varmahlíðarheimsókn tilheyra sumrinu.

Seinna í sumar ætla ég svo með góðu fólki í hestaferð um Þingeyjarsýslur.

Hver verður “næstsætasta stelpan”?

Kosningabaráttan er frá og niðurstöður kosninganna fengnar. Eftir alla spennuna og kraftmikið fjörið er spennufallið mikið. Kosningabarátta Vinstri grænna var að flestu leyti vel rekin og uppskeran í samræmi við þá ágætu vinnu. Þess ber þó að gæta að árangur VG má að miklu leyti rekja til starfs flokks og þingflokks allar götur síðan 1999 þegar fyrst var boðið fram. Kosningabarátta síðustu vikna er punkturinn yfir i-ið.

Það er vissulega ástæða til að fagna árangri VG, sem hlaut 14,3 % á landsvísu og fékk 9 þingmenn kjörna samtals í öllum kjördæmum. Fylgisaukningin er 5,5% og fá dæmi kunn um svo mikla fylgisaukningu. Það er því ögn ankannalegt að vera ekki einfaldlega í skýjunum yfir svo glæsilegum árangri. Ég er það hins vegar ekki og fyrir því eru þrjár ástæður.

Í fyrsta lagi er það beinlínis áfall að ekki tókst að fella ríkisstjórnina og munar þar einum einasta manni. Aðalástæðan er vafalaust öll dauðu atkvæðin sem féllu Íslandshreyfingunni í skaut. Samt álasa ég ekki þeim sem stóðu að því framboði. Þau nýttu sinn lýðræðislega rétt til að bjóða fram lista eins og frjálst er öllum sem telja sig eiga erindi á Alþingi.

Í öðru lagi höfðu skoðanakannanir ítrekað sýnt meira fylgi við Vinstri græna og gefið ástæðu til að búast við allt að 16–18% kosningafylgi, jafnvel um 20% að mati hinna bjartsýnustu. Sjálf taldi ég raunhæft að búast við 16-17% fylgi. Þannig er það oft í kosningabaráttu sem gengur vel, að væntingar geta hlaupið með mann í gönur.

Þriðja og síðasta ástæðan, en ekki sú sísta, er að Guðfríður Lilja skyldi ekki ná kjöri. Í rauninni hef ég ekkert leyfi til að vera ósátt við útkomu okkar í Suðvesturkjördæmi. Við höfum ekki fyrr átt þingmann þar og erum bæði stolt og einkar ánægð með Ögmund sem okkar þingmann. Betri kost get ég varla hugsað mér. En mikið vill meira, og eftir því sem leið á kosningabaráttuna varð æ ljósara hvílíka öndvegis manneskju við höfðum í 2. sætinu til að tala okkar máli. Allt benti til að hún ætti raunverulega möguleika til að ná kjöri og það var gífurleg stemmning í okkar hópi að tryggja þann möguleika. Svo varð ekki og vonbrigðin eru mikil.

Hvað gerist svo nú í breyttu landslagi stjórnmálanna? Ekki er útilokað að Framsókn hreiðri um sig í skjóli stóra bróður rétt einn ganginn þrátt fyrir hraklega útkomu í kosningunum. Líklegra finnst mér þó að Samfylkingin taki að sér hlutverk “næstsætustu stelpunnar á ballinu”.

Hugsað á leið á kjörstað

Oft velti ég fyrir mér hvað fólki er efst í huga þegar það neytir lýðræðislegs réttar síns á kjördag. Hvað skyldi það hugsa á leið á kjörstað á morgun, laugardaginn 12. maí?

Hugsar það um hag barnanna, aldraðra, öryrkja, sjúkra og bágstaddra?

Veltir það fyrir sér stöðu kvenna og hverjir séu líklegastir til að tryggja hag þeirra, útrýma kynbundnum launamun, vinna gegn ofbeldi gagnvart konum og börnum?

Hugsar það um landið okkar og dýrmæta náttúruna sem við höfum til varðveislu? Man það áralanga baráttu gegn hrikalegustu náttúruspjöllum af manna völdum á öræfunum norðan Vatnajökuls? Man það baráttuna um Þjórsárverin sem er hvergi nærri lokið? Man það Langasjó, Skjálfandafljót, Jökulsárnar í Skagafirði, Brennisteinsfjöllin?

Hugsar það um möguleikana til að vinna að friði í heiminum? Man það Írak og framferði formanna stjórnarflokkanna þegar þeir flæktu okkur inn í það viðbjóðslega stríð og blóðbað sem engan endi er að taka?

Eða veltir fólk kannski fyrir sér hvaða flokkur skaffi best? Er það ef til vill eigin budda sem mestu ræður?

Sem betur fer hugsa ekki allir þannig, en alltof margir. Það er t.d. ein helsta skýringin á miklu fylgi við Sjálfstæðisflokkinn því ótrúlega margir trúa því að hann einn sé fær um að fást við efnahagsmálin. Þeir sem því trúa kjósa líklega ekki Vinstri græn.

Og nú er liðinn sá tími sem við höfum haft til að minna á alla hina þættina sem ég taldi upp áðan og skipta svo miklu máli fyrir framtíð okkar allra.

Kosningabaráttan hefur verið málefnaleg og árangursrík og sanngjörn af okkar hálfu. Við getum verið stolt af góðum verkum, glæsilegum bæklingum og heiðarlegri framgöngu talsmanna. Nú er hins vegar komið að fólkinu vítt og breitt um landið að dæma okkar verk, ekki bara í þessari kosningabaráttu, heldur ekki síður á Alþingi Íslendinga síðastliðin 8 ár.

Hlutur kvenna í kosningabaráttunni er athyglisverður. Stjórnmálaskýrendur hafa rýnt með nokkurri undrun í skoðanakannanir – þær hafa nú ekki verið svo fáar – og komist að þeirri niðurstöðu að konur geti ráðið miklu um úrslit kosninganna. Má greina að ýmsum þyki jafnvel nóg um þetta mikla vald kvenna sem þannig birtist. Öðrum finnst mál til komið og þótt fyrr hefði verið.

Vinstri græn hafa allt frá stofnun flokksins unnið mikið starf og stefnumótun um frelsi og bætta stöðu kvenna og jafnræði kynjanna á öllum sviðum. Um það vitna bæði þingmál og útgefin rit á vegum flokksins. Engan þarf að undra þótt konur hafi þar látið til sín taka, enda hefur kvennabaráttan að mestu verið í höndum kvenna um langt árabil. Það er hins vegar sérlega ánægjuleg og mikilvæg staðreynd, að karlar í VG sýna sífellt meiri áhuga og taka æ meiri þátt í umræðum og stefnumótun á þessu sviði, og einmitt sú staðreynd styrkir verulega allt þetta starf og eykur trúverðugleika flokksins í þessu efni.

Árangurinn af þessu starfi er vel sýnilegur á framboðslistum Vinstri grænna og ef úrslit kosninganna verða í samræmi við fylgiskannanir verða margar öflugar konur í þingliði VG á næsta kjörtímabili. Hugsanlega verða konur jafnvel fleiri en karlar í þingflokki Vinstri grænna og slík niðurstaða yrði saga til næsta bæjar. Þá rættist gamall draumur gamallar kvennalistakonu þess efnis að í fyllingu tímans ynnu konur og karlar saman að úrlausn mála, ynnu saman á jafnréttisgrunni með virðingu hvert fyrir annars sjónarmiðum að leiðarljósi.

Vondu fréttirnar eru hins vegar þær, að á heildina litið fjölgar ef til vill konum á þingi ekki nokkurn skapaðan hlut eða aðeins um eina eða í mesta lagi tvær og ástæðan er sú að hinir flokkarnir ná engan veginn að jafna árangur Vinstri grænna í þessu efni.

Vinstri græn hafa unnið vel. Á þessari stundu verður ekki meira að gert. Kosningabaráttunni er lokið og nú er bara að bíða dóms þjóðarinnar. Vinstri græn hafa fulla ástæðu til að vonast eftir verðugri viðkenningu fólksins í landinu. Vonandi gengur okkur öllum vel um allt land.

Konur ráða úrslitum

Margt er athyglisvert og sumt ánægjulegt í kosningabaráttunni að þessu sinni.

Í fyrsta lagi skipa umhverfismálin loksins verðugan sess í umræðunni og er engum flokki lengur stætt á því að skila auðu í þeim efnum. Margir þeirra bera sig saman við okkur Vinstri græn og taka sitthvað að láni frá okkur. Það er í góðu lagi og eðlilegt að aðrir flokkar leiti í þá smiðju, en hallærislegt þegar þeir vilja jafnvel krýna sig sem hina einu sönnu merkisbera eins og örlar á hjá sumum. Vinstri græn fagna hins vegar vaxandi áhuga og stuðningi við náttúruvernd og umhverfismál sem skipta í raun sköpum fyrir framtíð lands og komandi kynslóða. Vonandi endist áhugi og vilji til góðra verka fram yfir kosningar.

Konur ráða úrslitum

Annað og ekki síður merkilegt er aukinn og mun sýnilegri hlutur kvenna í baráttunni en áður. Stjórnmálaskýrendur rýna með nokkurri undrun í skoðanakannanir og komast að þeirri niðurstöðu að konur geti ráðið miklu um úrslit kosninganna. Má greina að ýmsum þyki jafnvel nóg um þetta mikla vald kvenna sem þannig birtist. Öðrum finnst mál til komið og þótt fyrr hefði verið.

Vinstri græn hafa allt frá stofnun flokksins unnið mikið starf og stefnumótun um bætta stöðu kvenna og jafnræði kynjanna á öllum sviðum. Um það vitna bæði þingmál og útgefin rit á vegum flokksins. Engan þarf að undra þótt konur hafi þar látið til sín taka, enda hefur kvennabaráttan að mestu verið í höndum kvenna um langt árabil. Vaxandi þátttaka og áhugi karla í VG er hins vegar ánægjuleg staðreynd og styrkir verulega allt þetta starf.

Árangurinn er vel sýnilegur á framboðslistum Vinstri grænna og ef úrslit kosninganna verða í einhverju samræmi við fylgiskannanir síðustu vikna verða margar öflugar konur í þingliði VG á næsta kjörtímabili. Því hljóta bæði karlar og konur að fagna.

Einvalalið

Konur leiða báða listana í Reykjavík og alls staðar eru þær mjög virkar og sýnilegar. Í Suðvesturkjördæminu gefst kjósendum færi á að tryggja frábærri konu sæti á Alþingi. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forseti Skáksambands Íslands, gekk til liðs við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð á síðasta ári og fékk hlýjar móttökur. Hún bauð sig fram í 2. sæti í sameiginlegu forvali á framboðslista VG í kjördæmunum á suðvesturhorninu og hlaut öflugan stuðning félaganna. Niðurstaðan varð 2. sætið í Suðvesturkjördæmi við hlið Ögmundar Jónassonar, baráttumannsins landsþekkta, og Hafnfirðingsins skelegga, Gests Svavarssonar. Þar er einvalalið í boði!

Guðfríður Lilja er kunn skákkona og þekkt fyrir störf sín sem forseti Skáksambandsins um árabil. Hún er sagnfræðingur og heimspekingur að mennt, hefur lært og starfað erlendis, m.a. með heimilislausu fólki og börnum innflytjenda. Hún var ritari á alþjóðasviði Alþingis og vann m.a að ýmsum verkefnum sem lúta að náttúruvernd á norðurslóðum. Slíkur reynslusjóður mun reynast Guðfríði Lilju gott veganesti inn á Alþingi.

Skákdrottningin heillar

Guðfríður Lilja hefur vakið mikla og verðuga athygli í kosningabaráttunni, enda vel að sér á mörgum sviðum, frábær ræðukona, málefnaleg og skelegg. Hún á sinn stóra þátt í góðu fylgi Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi. Það er nú undir kjósendum komið hvort Guðfríður Lilja nær kjöri á Alþingi í kosningunum 12. maí. Skoðanakannanir sýna að það er raunverulegur möguleiki.

Guðfríður Lilja yrði kröftugur merkisberi velferðar, jafnaðar og kvenfrelsistefnu, sjálfbærrar atvinnu- og umhverfisstefnu, auk þess sem hún er einstaklega vel að sér í alþjóðamálum. Það væri fengur að Guðfríði Lilju á Alþingi.

Gleðilegt sumar

Sumardagurinn fyrsti er okkur flestum sérstaklega kær, þótt stundum sé hann bæði kaldur og drungalegur og sendi okkur jafnvel rigningu eða slyddu. En hvernig sem viðrar þennan merkisdag tekst okkur alltaf að trúa því að nú sé vorið komið og sumarið á næsta leiti. Í dag var hann okkur víðast hvar að skapi, sólin skein og yljaði vel þótt hitastigið færi ekki langt yfir frostmarkið.

Þessi kærkomni dagur er nú orðið harla ólíkur því sem ég upplifði í æsku. Mér finnst eins og þá hafi mamma alltaf sest við útvarpið að morgni og hlustað á Lárus Pálsson fara með ljóðið sem hefst á orðunum “Kom heitur til míns hjarta, blærinn blíði”, og svo hljómuðu vorlögin hvert af öðru allan daginn. Mamma gaf okkur bækur í sumargjöf og það er mikil gleði tengd þessum degi í endurminningunni þótt ekki væri mikið um viðburði að öðru leyti.

Nú er öldin önnur og hvarvetna um landið er boðið upp á skemmtun af ýmsu tagi svo að varla verður yfir allt komist. Flest miðast við að gleðja börnin stór og smá og vonandi tekst það sem oftast þótt ofgnótt viðburða og tilheyrandi læti gangi stundum úr hófi fram og þreyti og rugli börnin frekar en að veita þeim gleði.

Á kosningaári bætast kosningamiðstöðvarnar í fjölda þeirra sem bjóða upp á viðburði dagsins og þar er mikið kaffi drukkið og börnin fá blöðrur og eitthvað gott í munn. Hjá Vinstri grænum krítuðu þau á gangstéttir á meðan fullorðna fólkið krítaði liðugt innan dyra yfir kaffi og vöflum.

Ég átti að sjálfsögðu að leggja mitt af mörkum í gestamóttöku á okkar fínu miðstöð í Hamraborg 1-3 í Kópavogi. Við köllum hana Kragakaffi og þar er gaman að koma og skoða fallegu myndverkin hennar Mireyu Samper, fá kaffisopa og spjalla. Þar er opið alla daga kl. 15 – 18 og stundum sitja þar ungliðar að spjalli eða öldungaráðið okkar og alltaf notalegt að líta inn. Ég veit að góðir félagar stóðu vaktina þar í dag og sáu um að þar væri alltaf nóg af kaffi og meðlæti handa gestum, en ég kom þar hvergi nærri.

Síðastliðin 24 ár hef ég verið dyggur þátttakandi í hverri einustu kosningabaráttu sem gefist hefur og þess vegna örlar stundum á samviskubiti um þessar mundir þegar ég tek ýmislegt annað fram yfir í þetta sinn. Einkum eru það hestarnir sem taka tímann. Við erum með sex á húsi og þeir þurfa sína umönnun og hreyfingu. Minn sumarfagnaður helgaðist nú eins og reyndar oft áður af reiðtúrum um Víðidal, Rauðavatn og Rauðhóla. Þetta var góður dagur og vonandi til marks um marga góða daga í sumar.

Gleðilegt sumar!

Beðið eftir afburðafólkinu!

Loks kom að því að flokkur Margrétar Sverrisdóttur fengi nafn og stöðu í flokkaflórunni. Íslandshreyfingin er nafnið og að sögn Margrétar sker flokkurinn sig frá öðrum með því að vera “hreinn og grænn og til hægri”. Og Ómar Ragnarsson, sem Margrét hefur gert að formanni, leggur mikla áherslu á að þótt Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafi umhverfis- og náttúruvernd í hávegum þá sé sá flokkur fyrst og fremst vinstrihreyfing af því að það orð kemur á undan í nafni flokksins! Pottþétt röksemdafærsla?!

Ekki er gott að spá í framtíð Íslandshreyfingarinnar meðan fátt eitt er ljóst um stefnuna annað en áhersluna á að staldrað verði við í virkjana- og stóriðjumálum og beðið eftir árangri tilrauna við djúpboranir eftir jarðhita til orkuframleiðslu. Hvað fleira? Margrét og Ómar hafa lagt mikla áherslu á að þetta framboð verði kostur fyrir hægri sinnað fólk, en hafa ekki sett fram nokkurn skapaðan hlut sem styðji slíkar fullyrðingar.

Svo virðist sem mikið starf sé eftir við stefnumótun og annan undirbúning fyrir kosningarnar og óljóst hvaða fólk mun leiða lista sem ætlunin er að bjóða fram í öllum kjördæmum. Flestir búast við að einmitt þau sem kynntu stofnun flokksins 22. mars sl., þ.e. Margrét Sverrisdóttir, Ómar Ragnarsson, Jakob Frímann Magnússon og Ósk Vilhjálmsdóttir, verði í efstu sætum einhverra lista, en ekki vildu þau staðfesta það á kynningarfundinum. “Við ætlum ekki að setja okkur í fyrsta sætið neins staðar fyrr en fullreynt er hvaða afburðafólk annað er reiðubúið að ganga til liðs við okkur”, sagði Jakob Frímann Magnússon af sinni alkunnu hógværð og lítillæti í Morgunblaðinu í gær. Við bíðum spennt eftir hinu afburðafólkinu.

Þannig er Íslandshreyfingin ennþá óþekkt stærð, en þó eru fjölmiðlar og álitsgjafar þegar farnir að velta fyrir sér fylgistölum og spyrja fólk í skoðanakönnunum. Og þar virðist koma í ljós að síst sæki Íslandsfólkið atkvæðin í greipar stóriðjuflokkanna, Sjálfstæðisflokks eða Framsóknar, sem var þó aðalmarkmið a.m.k. Ómars, heldur virðist sem fylgið verði frekast sótt til þeirra flokka sem gætu fellt núverandi ríkisstjórn, þ.e. VG og Samfylkingar. Enda á Morgunblaðið bágt með að leyna ánægju sinni.

Ómar hefur margítrekað að nýtt grænt framboð megi alls ekki spilla fyrir raunverulegum náttúruverndarsinnum (eðalgrænum eins og hann kallar þá) á þingi, heldur sé markmiðið að fjölga þeim. Niðurstaðan gæti hins vegar orðið sú að fyrir tilstilli Íslandshreyfingarinnar yrði næsta ríkisstjórn skipuð stóriðjuflokkunum Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Frjálslynda flokknum! Einhverjum gæti dottið í hug gamalkunna spakmælið “Það sem hann einkum varast vann, varð þó að koma yfir hann”.

Það verður áhugavert að fylgjast með þróun þessa nýja framboðs, en það er mín skoðun að Ómar hefði gert umhverfismálum og náttúruvernd miklu meira gagn með því að halda áfram þeirri baráttu sem hann hefur svo ötullega staðið í síðustu árin.

Á degi vatnsins

Ætla mætti að veðurguðirnir hafi ákveðið að láta okkur á suður- og vesturhelmingi landsins fá nóg af vatni á þessum merka degi sem er tileinkaður vatninu. Við erum svo sem öllu vön í þeim efnum, bítum bara á jaxlinn og bölvum í hljóði, verkum upp úr niðurföllum og troðum tuskum í glugga- og hurðarföls og dettur ekki í hug að þakka fyrir allt þetta vatn. Víða annars staðar í heiminum væri slík ausandi rigning talin til guðsgjafa og tákn þess að líklega heppnist uppskeran í ár.

Við erum slík lúxusdýr að við tökum vatninu eins og sjálfsögðum hlut sem óþarft sé að prísa daglega. Að vísu gerir undirrituð einmitt það í daglegu morgunsundi og leiðir satt að segja hugann margoft að því láni okkar Íslendinga að hafa alla þessa gnægð af góðu vatni jafnt heitu sem köldu. Við ættum að kunna að meta þann mikla auð að hafa alltaf nóg drykkjarvatn, nóg vatn til matseldar, þvotta og þrifa og yfrið nóg vatn til að fylla sundlaugar í hverjum bæ og hverri sveit í landinu okkar. Það er lúxus.

Við eigum erfitt með að setja okkur í spor þeirra sem búa við vatnsskort, þurfa að sækja vatnið langar leiðir og spara hvern dýrmætan dropa sem stundum er jafnvel naumast drykkjarhæfur. Við þekkjum ekki langvarandi þurrka sem valda uppskerubresti, hungri og sjúkdómum. Vatnsskortur er mikið vandamál víða um heim og ýmsir spá því að baráttan um vatnið muni leiða af sér gríðarleg átök og jafnvel styrjaldir þegar fram í sækir.

Það kostar okkur ekkert annað en umhugsun að þakka fyrir allt heilnæma vatnið sem við fáum notið. Grenjandi rigning kostar aðeins smávægileg óþægindi í samanburði við það böl sem leiðir af vatnsskorti.

Alcan-veldið beitir öllu sínu afli

Hafnfirðingar greiða atkvæði laugardaginn 31. mars um skipulag, eins og það er látið heita. Í rauninni snýst málið um stækkun eða ekki stækkun álversins í Straumsvík. Um það fá Hafnfirðingar einir að greiða atkvæði og ótrúlega margir hamra á því að málið varði ekki aðra landsmenn. Það er náttúrlega rangt.

Í fyrsta lagi kallar stækkun verksmiðjunnar á mikla orku sem ætlunin er að fá bæði úr nýjum vatnsaflsvirkjunum í Þjórsá og jarðvarmavirkjunum í Svartsengi og jafnvel víðar. Verður þá enn bætt í línuskógana á aðflutningsleiðum.

Og í öðru lagi er þessi verksmiðja í vegi allra sem eiga erindi um þessar slóðir og þeir eru margir. Þetta mannvirki og línufylgifiskar stinga óneitanlega í stúf við þá ímynd Íslands sem ferðaþjónustan selur erlendum ferðamönnum.

Samkvæmt könnunum getur orðið mjótt á munum með niðurstöður atkvæðagreiðslunnar 31. mars. Svo virðist sem afstaða Hafnfirðinga skiptist nokkuð jafnt með og á móti stækkun og báðar fylkingar heyja harða kosningabaráttu þessa síðustu daga. Þar er þó ólíku saman að jafna þar sem annars vegar er Alcan-veldið með fúlgur fjár og hins vegar grasrótarsamtök íbúa í Hafnarfirði með samskotafé að baki.

Alcan-veldið skirrist ekki við að beita öllu sínu afli, það eys fé í útvarpsauglýsingar og heilsíðuauglýsingar í dagblöðum, það setur upp heilu dagskrárnar fyrir gesti og gangandi og lætur jafnvel starfsmenn verksmiðjunnar reka baráttuna að hluta með símahringingum og áróðri. Stærsta gulrótin sem otað er framan í bæjarbúa er að sjálfsögðu sótt til Mammons gamla. Skilaboðin eru þau að bærinn hagnist um nokkra milljarða við stækkun, en – og þá kemur hræðsluáróðurinn – ef bæjarbúar hafna stækkun þá neyðist fyrirtækið sennilega til að pakka saman fyrr en seinna. Því virðast margir trúa þótt álverksmiðjan í Straumsvík sé ein besta gullnáma Alcan-veldisins eins og hún er. En mikið vill alltaf meira.

Grasrótarsamtökin Sól í Straumi eru ekki af baki dottinn þrátt fyrir gríðarlegan aflsmun. Sólarfólk vinnur sínum málstað af öllum mætti, hringir í bæjarbúa og dreifir blaði í öll hús. Og þótt leikurinn sé átakanlega ójafn er ekki örvænt um sigur 31. mars. Það yrði sigur fyrir náttúruna og sigur fyrir lýðræðið.

Vinstri græn á flugi

Um þessar mundir er ákaflega gaman að vera vinstri græn og hefur reyndar alltaf verið. Hver skoðanakönnunin af annarri staðfestir vaxandi stuðning við VG og spáir flokknum allt að þreföldu fylgi frá síðustu kosningum. Slíkt veldur bæði gleði og glímuskjálfta og rétt að muna að mey skal að morgni lofa og úrslit kosninga á kosninganóttu.

Menn velta fyrir sér hvað veldur þessu flugi vinstri grænna og vilja ekki allir samþykkja það sem beinast liggur við, þ.e. að þau eru nú að uppskera eins og þau hafa sáð til. Þau hafa áunnið sér þann orðstír að hafa skýra stefnu og standa við hana hvernig sem vindurinn blæs. Stefna VG og framganga í umhverfis- og náttúruvernd ræður sennilega mestu um vaxandi fylgi, en einnig er ljóst að kvenfrelsismálin skipta mjög miklu máli og ekki síst hvað raddir karla hljóma sterkt innan flokksins, það eflir trú kvenna á að flokkurinn sé heill í þeim efnum. Framboðslistarnir bera það líka með sér og styrkja kvenfrelsisstefnuna.

Keppinautum okkar um hylli kjósenda stendur ekki á sama um þessa þróun og kom það glöggt fram í Silfri Egils í dag þar sem Ögmundur mætti fyrir VG. Þar sat húsvískur framsóknarmaður Hafliði að nafni, Illugi sjálfstæðismaður og Árni Páll úr Samfylkingunni. Allir sem einn jusu þeir úr skálum vanstillingar sinnar í garð vinstri grænna og Ögmundar. Húsvíski framsóknarmaðurinn gneistaði af hatri á þessum skelfilega flokki, Illugi hamaðist við að sverja af sér vinsamlegt viðhorf til vinstri grænna og rifjaði upp gömlu klisjuna um vangetu vinstrimanna í efnahagsmálum, og Árni Páll gat engan veginn leynt gremju sinni í garð vinstri grænna, enda horfir ekki vel með árangur hans í 4. sætinu í Suðvestrinu. Framkoma Árna Páls var honum eiginlega til skammar og afar óskynsamleg með hliðsjón af því að VG og Samfylkingin eiga góða möguleika á samstarfi í næstu ríkisstjórn. Ögmundur hélt sinni ró og yfirvegun og hefur þó áreiðanlega blöskrað ýmislegt sem á honum dundi frá hinum þremur.

Þessi viðbrögð annarra flokka vegna velgengni vinstri grænna eru vissulega skiljanleg þótt lítilmótleg séu og sýna fyrst og fremst áhyggjur vegna þeirra eigin gengisfalls. Þeir eiga bágt með að skilja og hvað þá sætta sig við ástæðurnar fyrir þessari þróun. Þeir ættu að svipast um á heimaslóðum og íhuga stöðuna í eigin flokkum.

Í tilefni dagsins

Baráttudagur kvenna naut ekki beint náðar veðurguðanna suðvestanlands að þessu sinni, en baráttufúsar konur hafa séð það svartara. Mín barátta hófst þennan dag sem aðra daga í sundlaug Seltjarnarness, en á leiðinni þangað hlustaði ég á viðtal Morgunvaktarinnar í tilefni dagsins við tvö ungmenni, Kristínu Hrefnu Halldórsdóttur, formann ungra sjálfstæðismanna í Árborg, og Magnús Má Guðmundsson, formann ungliða í Samfylkingunni. Ekki veitti af sundspretti á eftir þeim ósköpum.

Spyrill (minnir það væri Ólöf Rún) var áhugalaus með öllu og spurði heimskulega. Samfylkingarsveinninn þurfti sífellt að verjast athugasemdum um það að flokkur hans væri að tapa fylgi og einkum kvenna, og Sjálfstæðisstúlkan svaraði með kunnuglegum klisjum ættuðum í beinan karllegg frá Sjálfstæðisflokknum. Stúlkan tíundaði þetta allt saman af stakri hlýðni: Það á ekki að hugsa í hólfum, sagði hún, við viljum ekki kynjakvóta, konur þurfa ekki á jákvæðri mismunun að halda, við getum þetta sjálfar á eigin forsendum og vegna eigin verðleika, við þurfum enga forgjöf, þetta snýst um hugarfarsbreytingu. Því miður spurði spyrill ekki hvort fæð kvenna í stjórnmálum og í stjórnunarstörfum væri þá einfaldlega vegna skorts á verðleikum kvenna. Og ekki var leiðréttur misskilningurinn lífseigi um jákvæða mismunun í lögum, hún er ekki fyrir hendi, heldur er hreinlega óheimilt lögum samkvæmt að mismuna á grundvelli kynferðis og á það við um bæði kynin.

En rétt eina ferðina var minnt á að allt þokast þetta áfram (kona gæti gubbað). Og viti menn, rétt eina ferðina var nefnt til sögunnar það ágæta framtak að tryggja feðrum þriggja mánaða fæðingarorlof, sem lögbundið var árið 2000, en af því hreykja sér lon og don bæði Sjálfstæði og Framsókn. Mér datt náttúrulega enn eina ferðina í hug málshátturinn góðkunni: Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá. Þetta blessaða fæðingarorlof feðra á sér uppruna sinn og upphaf hjá Kvennalistanum sáluga, að ekki sé minnst á 9 mánaða orlofið.

Hvað ætli margir muni hvenær fæðingarorlof mæðra spannaði heila 3 mánuði? Til vonar og vara skal minnt á að slík var staðan árið 1983 þegar Kvennalistinn kom inn á Alþingi og hafði lengingu fæðingarorlofs sem sitt aðalmál árum saman. Í þá daga var þingflokkur Framsóknar eingöngu skipaður körlum og var óttalega kindarlegur gagnvart “skössunum” í Kvennalistanum. Nú hafa konur í Framsókn látið til sín taka og sett heils árs fæðingarorlof á loforðalistann fyrir næstu kosningar. Skyldi það duga þeim til að lagfæra ömurlega og verðskuldaða stöðu þeirra um þessar mundir?

Kvenfrelsis- og jafnréttismálin eru eins og bögglað roð fyrir brjósti hvers einasta Sjálfstæðismanns. Þeir eru alltaf jafn ótrúlega víðs fjarri því að skilja og viðurkenna stöðu kvenna og hvað gera þarf til að lagfæra hana. Konur þurfa bara að taka á honum stóra sínum, þær þurfa bara að sækja sinn rétt gagnvart körlum, konur geta þetta allt saman rétt eins og karlar!!! Sjálfstæðismenn (og reyndar svo margir, margir aðrir) hafa ekki ennþá skilið að leikreglurnar á leiksviði lífsins voru mótaðar og samþykktar af körlum og fyrir karla og það er ekkert annað en óréttlæti heimsins sem neyðir þá skoðun upp á konur sem karla, að karlinn sé normið sem allt skal miðast við og þær leikreglur sem hann hefur mótað og sett skuli gilda. Punktur