Ætla mætti að veðurguðirnir hafi ákveðið að láta okkur á suður- og vesturhelmingi landsins fá nóg af vatni á þessum merka degi sem er tileinkaður vatninu. Við erum svo sem öllu vön í þeim efnum, bítum bara á jaxlinn og bölvum í hljóði, verkum upp úr niðurföllum og troðum tuskum í glugga- og hurðarföls og dettur ekki í hug að þakka fyrir allt þetta vatn. Víða annars staðar í heiminum væri slík ausandi rigning talin til guðsgjafa og tákn þess að líklega heppnist uppskeran í ár.
Við erum slík lúxusdýr að við tökum vatninu eins og sjálfsögðum hlut sem óþarft sé að prísa daglega. Að vísu gerir undirrituð einmitt það í daglegu morgunsundi og leiðir satt að segja hugann margoft að því láni okkar Íslendinga að hafa alla þessa gnægð af góðu vatni jafnt heitu sem köldu. Við ættum að kunna að meta þann mikla auð að hafa alltaf nóg drykkjarvatn, nóg vatn til matseldar, þvotta og þrifa og yfrið nóg vatn til að fylla sundlaugar í hverjum bæ og hverri sveit í landinu okkar. Það er lúxus.
Við eigum erfitt með að setja okkur í spor þeirra sem búa við vatnsskort, þurfa að sækja vatnið langar leiðir og spara hvern dýrmætan dropa sem stundum er jafnvel naumast drykkjarhæfur. Við þekkjum ekki langvarandi þurrka sem valda uppskerubresti, hungri og sjúkdómum. Vatnsskortur er mikið vandamál víða um heim og ýmsir spá því að baráttan um vatnið muni leiða af sér gríðarleg átök og jafnvel styrjaldir þegar fram í sækir.
Það kostar okkur ekkert annað en umhugsun að þakka fyrir allt heilnæma vatnið sem við fáum notið. Grenjandi rigning kostar aðeins smávægileg óþægindi í samanburði við það böl sem leiðir af vatnsskorti.