Konur ráða úrslitum

Margt er athyglisvert og sumt ánægjulegt í kosningabaráttunni að þessu sinni.

Í fyrsta lagi skipa umhverfismálin loksins verðugan sess í umræðunni og er engum flokki lengur stætt á því að skila auðu í þeim efnum. Margir þeirra bera sig saman við okkur Vinstri græn og taka sitthvað að láni frá okkur. Það er í góðu lagi og eðlilegt að aðrir flokkar leiti í þá smiðju, en hallærislegt þegar þeir vilja jafnvel krýna sig sem hina einu sönnu merkisbera eins og örlar á hjá sumum. Vinstri græn fagna hins vegar vaxandi áhuga og stuðningi við náttúruvernd og umhverfismál sem skipta í raun sköpum fyrir framtíð lands og komandi kynslóða. Vonandi endist áhugi og vilji til góðra verka fram yfir kosningar.

Konur ráða úrslitum

Annað og ekki síður merkilegt er aukinn og mun sýnilegri hlutur kvenna í baráttunni en áður. Stjórnmálaskýrendur rýna með nokkurri undrun í skoðanakannanir og komast að þeirri niðurstöðu að konur geti ráðið miklu um úrslit kosninganna. Má greina að ýmsum þyki jafnvel nóg um þetta mikla vald kvenna sem þannig birtist. Öðrum finnst mál til komið og þótt fyrr hefði verið.

Vinstri græn hafa allt frá stofnun flokksins unnið mikið starf og stefnumótun um bætta stöðu kvenna og jafnræði kynjanna á öllum sviðum. Um það vitna bæði þingmál og útgefin rit á vegum flokksins. Engan þarf að undra þótt konur hafi þar látið til sín taka, enda hefur kvennabaráttan að mestu verið í höndum kvenna um langt árabil. Vaxandi þátttaka og áhugi karla í VG er hins vegar ánægjuleg staðreynd og styrkir verulega allt þetta starf.

Árangurinn er vel sýnilegur á framboðslistum Vinstri grænna og ef úrslit kosninganna verða í einhverju samræmi við fylgiskannanir síðustu vikna verða margar öflugar konur í þingliði VG á næsta kjörtímabili. Því hljóta bæði karlar og konur að fagna.

Einvalalið

Konur leiða báða listana í Reykjavík og alls staðar eru þær mjög virkar og sýnilegar. Í Suðvesturkjördæminu gefst kjósendum færi á að tryggja frábærri konu sæti á Alþingi. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forseti Skáksambands Íslands, gekk til liðs við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð á síðasta ári og fékk hlýjar móttökur. Hún bauð sig fram í 2. sæti í sameiginlegu forvali á framboðslista VG í kjördæmunum á suðvesturhorninu og hlaut öflugan stuðning félaganna. Niðurstaðan varð 2. sætið í Suðvesturkjördæmi við hlið Ögmundar Jónassonar, baráttumannsins landsþekkta, og Hafnfirðingsins skelegga, Gests Svavarssonar. Þar er einvalalið í boði!

Guðfríður Lilja er kunn skákkona og þekkt fyrir störf sín sem forseti Skáksambandsins um árabil. Hún er sagnfræðingur og heimspekingur að mennt, hefur lært og starfað erlendis, m.a. með heimilislausu fólki og börnum innflytjenda. Hún var ritari á alþjóðasviði Alþingis og vann m.a að ýmsum verkefnum sem lúta að náttúruvernd á norðurslóðum. Slíkur reynslusjóður mun reynast Guðfríði Lilju gott veganesti inn á Alþingi.

Skákdrottningin heillar

Guðfríður Lilja hefur vakið mikla og verðuga athygli í kosningabaráttunni, enda vel að sér á mörgum sviðum, frábær ræðukona, málefnaleg og skelegg. Hún á sinn stóra þátt í góðu fylgi Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi. Það er nú undir kjósendum komið hvort Guðfríður Lilja nær kjöri á Alþingi í kosningunum 12. maí. Skoðanakannanir sýna að það er raunverulegur möguleiki.

Guðfríður Lilja yrði kröftugur merkisberi velferðar, jafnaðar og kvenfrelsistefnu, sjálfbærrar atvinnu- og umhverfisstefnu, auk þess sem hún er einstaklega vel að sér í alþjóðamálum. Það væri fengur að Guðfríði Lilju á Alþingi.