Hafnfirðingar greiða atkvæði laugardaginn 31. mars um skipulag, eins og það er látið heita. Í rauninni snýst málið um stækkun eða ekki stækkun álversins í Straumsvík. Um það fá Hafnfirðingar einir að greiða atkvæði og ótrúlega margir hamra á því að málið varði ekki aðra landsmenn. Það er náttúrlega rangt.
Í fyrsta lagi kallar stækkun verksmiðjunnar á mikla orku sem ætlunin er að fá bæði úr nýjum vatnsaflsvirkjunum í Þjórsá og jarðvarmavirkjunum í Svartsengi og jafnvel víðar. Verður þá enn bætt í línuskógana á aðflutningsleiðum.
Og í öðru lagi er þessi verksmiðja í vegi allra sem eiga erindi um þessar slóðir og þeir eru margir. Þetta mannvirki og línufylgifiskar stinga óneitanlega í stúf við þá ímynd Íslands sem ferðaþjónustan selur erlendum ferðamönnum.
Samkvæmt könnunum getur orðið mjótt á munum með niðurstöður atkvæðagreiðslunnar 31. mars. Svo virðist sem afstaða Hafnfirðinga skiptist nokkuð jafnt með og á móti stækkun og báðar fylkingar heyja harða kosningabaráttu þessa síðustu daga. Þar er þó ólíku saman að jafna þar sem annars vegar er Alcan-veldið með fúlgur fjár og hins vegar grasrótarsamtök íbúa í Hafnarfirði með samskotafé að baki.
Alcan-veldið skirrist ekki við að beita öllu sínu afli, það eys fé í útvarpsauglýsingar og heilsíðuauglýsingar í dagblöðum, það setur upp heilu dagskrárnar fyrir gesti og gangandi og lætur jafnvel starfsmenn verksmiðjunnar reka baráttuna að hluta með símahringingum og áróðri. Stærsta gulrótin sem otað er framan í bæjarbúa er að sjálfsögðu sótt til Mammons gamla. Skilaboðin eru þau að bærinn hagnist um nokkra milljarða við stækkun, en – og þá kemur hræðsluáróðurinn – ef bæjarbúar hafna stækkun þá neyðist fyrirtækið sennilega til að pakka saman fyrr en seinna. Því virðast margir trúa þótt álverksmiðjan í Straumsvík sé ein besta gullnáma Alcan-veldisins eins og hún er. En mikið vill alltaf meira.
Grasrótarsamtökin Sól í Straumi eru ekki af baki dottinn þrátt fyrir gríðarlegan aflsmun. Sólarfólk vinnur sínum málstað af öllum mætti, hringir í bæjarbúa og dreifir blaði í öll hús. Og þótt leikurinn sé átakanlega ójafn er ekki örvænt um sigur 31. mars. Það yrði sigur fyrir náttúruna og sigur fyrir lýðræðið.