Í tilefni dagsins

Baráttudagur kvenna naut ekki beint náðar veðurguðanna suðvestanlands að þessu sinni, en baráttufúsar konur hafa séð það svartara. Mín barátta hófst þennan dag sem aðra daga í sundlaug Seltjarnarness, en á leiðinni þangað hlustaði ég á viðtal Morgunvaktarinnar í tilefni dagsins við tvö ungmenni, Kristínu Hrefnu Halldórsdóttur, formann ungra sjálfstæðismanna í Árborg, og Magnús Má Guðmundsson, formann ungliða í Samfylkingunni. Ekki veitti af sundspretti á eftir þeim ósköpum.

Spyrill (minnir það væri Ólöf Rún) var áhugalaus með öllu og spurði heimskulega. Samfylkingarsveinninn þurfti sífellt að verjast athugasemdum um það að flokkur hans væri að tapa fylgi og einkum kvenna, og Sjálfstæðisstúlkan svaraði með kunnuglegum klisjum ættuðum í beinan karllegg frá Sjálfstæðisflokknum. Stúlkan tíundaði þetta allt saman af stakri hlýðni: Það á ekki að hugsa í hólfum, sagði hún, við viljum ekki kynjakvóta, konur þurfa ekki á jákvæðri mismunun að halda, við getum þetta sjálfar á eigin forsendum og vegna eigin verðleika, við þurfum enga forgjöf, þetta snýst um hugarfarsbreytingu. Því miður spurði spyrill ekki hvort fæð kvenna í stjórnmálum og í stjórnunarstörfum væri þá einfaldlega vegna skorts á verðleikum kvenna. Og ekki var leiðréttur misskilningurinn lífseigi um jákvæða mismunun í lögum, hún er ekki fyrir hendi, heldur er hreinlega óheimilt lögum samkvæmt að mismuna á grundvelli kynferðis og á það við um bæði kynin.

En rétt eina ferðina var minnt á að allt þokast þetta áfram (kona gæti gubbað). Og viti menn, rétt eina ferðina var nefnt til sögunnar það ágæta framtak að tryggja feðrum þriggja mánaða fæðingarorlof, sem lögbundið var árið 2000, en af því hreykja sér lon og don bæði Sjálfstæði og Framsókn. Mér datt náttúrulega enn eina ferðina í hug málshátturinn góðkunni: Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá. Þetta blessaða fæðingarorlof feðra á sér uppruna sinn og upphaf hjá Kvennalistanum sáluga, að ekki sé minnst á 9 mánaða orlofið.

Hvað ætli margir muni hvenær fæðingarorlof mæðra spannaði heila 3 mánuði? Til vonar og vara skal minnt á að slík var staðan árið 1983 þegar Kvennalistinn kom inn á Alþingi og hafði lengingu fæðingarorlofs sem sitt aðalmál árum saman. Í þá daga var þingflokkur Framsóknar eingöngu skipaður körlum og var óttalega kindarlegur gagnvart “skössunum” í Kvennalistanum. Nú hafa konur í Framsókn látið til sín taka og sett heils árs fæðingarorlof á loforðalistann fyrir næstu kosningar. Skyldi það duga þeim til að lagfæra ömurlega og verðskuldaða stöðu þeirra um þessar mundir?

Kvenfrelsis- og jafnréttismálin eru eins og bögglað roð fyrir brjósti hvers einasta Sjálfstæðismanns. Þeir eru alltaf jafn ótrúlega víðs fjarri því að skilja og viðurkenna stöðu kvenna og hvað gera þarf til að lagfæra hana. Konur þurfa bara að taka á honum stóra sínum, þær þurfa bara að sækja sinn rétt gagnvart körlum, konur geta þetta allt saman rétt eins og karlar!!! Sjálfstæðismenn (og reyndar svo margir, margir aðrir) hafa ekki ennþá skilið að leikreglurnar á leiksviði lífsins voru mótaðar og samþykktar af körlum og fyrir karla og það er ekkert annað en óréttlæti heimsins sem neyðir þá skoðun upp á konur sem karla, að karlinn sé normið sem allt skal miðast við og þær leikreglur sem hann hefur mótað og sett skuli gilda. Punktur