Hugsað á leið á kjörstað

Oft velti ég fyrir mér hvað fólki er efst í huga þegar það neytir lýðræðislegs réttar síns á kjördag. Hvað skyldi það hugsa á leið á kjörstað á morgun, laugardaginn 12. maí?

Hugsar það um hag barnanna, aldraðra, öryrkja, sjúkra og bágstaddra?

Veltir það fyrir sér stöðu kvenna og hverjir séu líklegastir til að tryggja hag þeirra, útrýma kynbundnum launamun, vinna gegn ofbeldi gagnvart konum og börnum?

Hugsar það um landið okkar og dýrmæta náttúruna sem við höfum til varðveislu? Man það áralanga baráttu gegn hrikalegustu náttúruspjöllum af manna völdum á öræfunum norðan Vatnajökuls? Man það baráttuna um Þjórsárverin sem er hvergi nærri lokið? Man það Langasjó, Skjálfandafljót, Jökulsárnar í Skagafirði, Brennisteinsfjöllin?

Hugsar það um möguleikana til að vinna að friði í heiminum? Man það Írak og framferði formanna stjórnarflokkanna þegar þeir flæktu okkur inn í það viðbjóðslega stríð og blóðbað sem engan endi er að taka?

Eða veltir fólk kannski fyrir sér hvaða flokkur skaffi best? Er það ef til vill eigin budda sem mestu ræður?

Sem betur fer hugsa ekki allir þannig, en alltof margir. Það er t.d. ein helsta skýringin á miklu fylgi við Sjálfstæðisflokkinn því ótrúlega margir trúa því að hann einn sé fær um að fást við efnahagsmálin. Þeir sem því trúa kjósa líklega ekki Vinstri græn.

Og nú er liðinn sá tími sem við höfum haft til að minna á alla hina þættina sem ég taldi upp áðan og skipta svo miklu máli fyrir framtíð okkar allra.

Kosningabaráttan hefur verið málefnaleg og árangursrík og sanngjörn af okkar hálfu. Við getum verið stolt af góðum verkum, glæsilegum bæklingum og heiðarlegri framgöngu talsmanna. Nú er hins vegar komið að fólkinu vítt og breitt um landið að dæma okkar verk, ekki bara í þessari kosningabaráttu, heldur ekki síður á Alþingi Íslendinga síðastliðin 8 ár.

Hlutur kvenna í kosningabaráttunni er athyglisverður. Stjórnmálaskýrendur hafa rýnt með nokkurri undrun í skoðanakannanir – þær hafa nú ekki verið svo fáar – og komist að þeirri niðurstöðu að konur geti ráðið miklu um úrslit kosninganna. Má greina að ýmsum þyki jafnvel nóg um þetta mikla vald kvenna sem þannig birtist. Öðrum finnst mál til komið og þótt fyrr hefði verið.

Vinstri græn hafa allt frá stofnun flokksins unnið mikið starf og stefnumótun um frelsi og bætta stöðu kvenna og jafnræði kynjanna á öllum sviðum. Um það vitna bæði þingmál og útgefin rit á vegum flokksins. Engan þarf að undra þótt konur hafi þar látið til sín taka, enda hefur kvennabaráttan að mestu verið í höndum kvenna um langt árabil. Það er hins vegar sérlega ánægjuleg og mikilvæg staðreynd, að karlar í VG sýna sífellt meiri áhuga og taka æ meiri þátt í umræðum og stefnumótun á þessu sviði, og einmitt sú staðreynd styrkir verulega allt þetta starf og eykur trúverðugleika flokksins í þessu efni.

Árangurinn af þessu starfi er vel sýnilegur á framboðslistum Vinstri grænna og ef úrslit kosninganna verða í samræmi við fylgiskannanir verða margar öflugar konur í þingliði VG á næsta kjörtímabili. Hugsanlega verða konur jafnvel fleiri en karlar í þingflokki Vinstri grænna og slík niðurstaða yrði saga til næsta bæjar. Þá rættist gamall draumur gamallar kvennalistakonu þess efnis að í fyllingu tímans ynnu konur og karlar saman að úrlausn mála, ynnu saman á jafnréttisgrunni með virðingu hvert fyrir annars sjónarmiðum að leiðarljósi.

Vondu fréttirnar eru hins vegar þær, að á heildina litið fjölgar ef til vill konum á þingi ekki nokkurn skapaðan hlut eða aðeins um eina eða í mesta lagi tvær og ástæðan er sú að hinir flokkarnir ná engan veginn að jafna árangur Vinstri grænna í þessu efni.

Vinstri græn hafa unnið vel. Á þessari stundu verður ekki meira að gert. Kosningabaráttunni er lokið og nú er bara að bíða dóms þjóðarinnar. Vinstri græn hafa fulla ástæðu til að vonast eftir verðugri viðkenningu fólksins í landinu. Vonandi gengur okkur öllum vel um allt land.