Hver verður “næstsætasta stelpan”?

Kosningabaráttan er frá og niðurstöður kosninganna fengnar. Eftir alla spennuna og kraftmikið fjörið er spennufallið mikið. Kosningabarátta Vinstri grænna var að flestu leyti vel rekin og uppskeran í samræmi við þá ágætu vinnu. Þess ber þó að gæta að árangur VG má að miklu leyti rekja til starfs flokks og þingflokks allar götur síðan 1999 þegar fyrst var boðið fram. Kosningabarátta síðustu vikna er punkturinn yfir i-ið.

Það er vissulega ástæða til að fagna árangri VG, sem hlaut 14,3 % á landsvísu og fékk 9 þingmenn kjörna samtals í öllum kjördæmum. Fylgisaukningin er 5,5% og fá dæmi kunn um svo mikla fylgisaukningu. Það er því ögn ankannalegt að vera ekki einfaldlega í skýjunum yfir svo glæsilegum árangri. Ég er það hins vegar ekki og fyrir því eru þrjár ástæður.

Í fyrsta lagi er það beinlínis áfall að ekki tókst að fella ríkisstjórnina og munar þar einum einasta manni. Aðalástæðan er vafalaust öll dauðu atkvæðin sem féllu Íslandshreyfingunni í skaut. Samt álasa ég ekki þeim sem stóðu að því framboði. Þau nýttu sinn lýðræðislega rétt til að bjóða fram lista eins og frjálst er öllum sem telja sig eiga erindi á Alþingi.

Í öðru lagi höfðu skoðanakannanir ítrekað sýnt meira fylgi við Vinstri græna og gefið ástæðu til að búast við allt að 16–18% kosningafylgi, jafnvel um 20% að mati hinna bjartsýnustu. Sjálf taldi ég raunhæft að búast við 16-17% fylgi. Þannig er það oft í kosningabaráttu sem gengur vel, að væntingar geta hlaupið með mann í gönur.

Þriðja og síðasta ástæðan, en ekki sú sísta, er að Guðfríður Lilja skyldi ekki ná kjöri. Í rauninni hef ég ekkert leyfi til að vera ósátt við útkomu okkar í Suðvesturkjördæmi. Við höfum ekki fyrr átt þingmann þar og erum bæði stolt og einkar ánægð með Ögmund sem okkar þingmann. Betri kost get ég varla hugsað mér. En mikið vill meira, og eftir því sem leið á kosningabaráttuna varð æ ljósara hvílíka öndvegis manneskju við höfðum í 2. sætinu til að tala okkar máli. Allt benti til að hún ætti raunverulega möguleika til að ná kjöri og það var gífurleg stemmning í okkar hópi að tryggja þann möguleika. Svo varð ekki og vonbrigðin eru mikil.

Hvað gerist svo nú í breyttu landslagi stjórnmálanna? Ekki er útilokað að Framsókn hreiðri um sig í skjóli stóra bróður rétt einn ganginn þrátt fyrir hraklega útkomu í kosningunum. Líklegra finnst mér þó að Samfylkingin taki að sér hlutverk “næstsætustu stelpunnar á ballinu”.