Sumardagurinn fyrsti er okkur flestum sérstaklega kær, þótt stundum sé hann bæði kaldur og drungalegur og sendi okkur jafnvel rigningu eða slyddu. En hvernig sem viðrar þennan merkisdag tekst okkur alltaf að trúa því að nú sé vorið komið og sumarið á næsta leiti. Í dag var hann okkur víðast hvar að skapi, sólin skein og yljaði vel þótt hitastigið færi ekki langt yfir frostmarkið.
Þessi kærkomni dagur er nú orðið harla ólíkur því sem ég upplifði í æsku. Mér finnst eins og þá hafi mamma alltaf sest við útvarpið að morgni og hlustað á Lárus Pálsson fara með ljóðið sem hefst á orðunum “Kom heitur til míns hjarta, blærinn blíði”, og svo hljómuðu vorlögin hvert af öðru allan daginn. Mamma gaf okkur bækur í sumargjöf og það er mikil gleði tengd þessum degi í endurminningunni þótt ekki væri mikið um viðburði að öðru leyti.
Nú er öldin önnur og hvarvetna um landið er boðið upp á skemmtun af ýmsu tagi svo að varla verður yfir allt komist. Flest miðast við að gleðja börnin stór og smá og vonandi tekst það sem oftast þótt ofgnótt viðburða og tilheyrandi læti gangi stundum úr hófi fram og þreyti og rugli börnin frekar en að veita þeim gleði.
Á kosningaári bætast kosningamiðstöðvarnar í fjölda þeirra sem bjóða upp á viðburði dagsins og þar er mikið kaffi drukkið og börnin fá blöðrur og eitthvað gott í munn. Hjá Vinstri grænum krítuðu þau á gangstéttir á meðan fullorðna fólkið krítaði liðugt innan dyra yfir kaffi og vöflum.
Ég átti að sjálfsögðu að leggja mitt af mörkum í gestamóttöku á okkar fínu miðstöð í Hamraborg 1-3 í Kópavogi. Við köllum hana Kragakaffi og þar er gaman að koma og skoða fallegu myndverkin hennar Mireyu Samper, fá kaffisopa og spjalla. Þar er opið alla daga kl. 15 – 18 og stundum sitja þar ungliðar að spjalli eða öldungaráðið okkar og alltaf notalegt að líta inn. Ég veit að góðir félagar stóðu vaktina þar í dag og sáu um að þar væri alltaf nóg af kaffi og meðlæti handa gestum, en ég kom þar hvergi nærri.
Síðastliðin 24 ár hef ég verið dyggur þátttakandi í hverri einustu kosningabaráttu sem gefist hefur og þess vegna örlar stundum á samviskubiti um þessar mundir þegar ég tek ýmislegt annað fram yfir í þetta sinn. Einkum eru það hestarnir sem taka tímann. Við erum með sex á húsi og þeir þurfa sína umönnun og hreyfingu. Minn sumarfagnaður helgaðist nú eins og reyndar oft áður af reiðtúrum um Víðidal, Rauðavatn og Rauðhóla. Þetta var góður dagur og vonandi til marks um marga góða daga í sumar.
Gleðilegt sumar!