Beðið eftir afburðafólkinu!

Loks kom að því að flokkur Margrétar Sverrisdóttur fengi nafn og stöðu í flokkaflórunni. Íslandshreyfingin er nafnið og að sögn Margrétar sker flokkurinn sig frá öðrum með því að vera “hreinn og grænn og til hægri”. Og Ómar Ragnarsson, sem Margrét hefur gert að formanni, leggur mikla áherslu á að þótt Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafi umhverfis- og náttúruvernd í hávegum þá sé sá flokkur fyrst og fremst vinstrihreyfing af því að það orð kemur á undan í nafni flokksins! Pottþétt röksemdafærsla?!

Ekki er gott að spá í framtíð Íslandshreyfingarinnar meðan fátt eitt er ljóst um stefnuna annað en áhersluna á að staldrað verði við í virkjana- og stóriðjumálum og beðið eftir árangri tilrauna við djúpboranir eftir jarðhita til orkuframleiðslu. Hvað fleira? Margrét og Ómar hafa lagt mikla áherslu á að þetta framboð verði kostur fyrir hægri sinnað fólk, en hafa ekki sett fram nokkurn skapaðan hlut sem styðji slíkar fullyrðingar.

Svo virðist sem mikið starf sé eftir við stefnumótun og annan undirbúning fyrir kosningarnar og óljóst hvaða fólk mun leiða lista sem ætlunin er að bjóða fram í öllum kjördæmum. Flestir búast við að einmitt þau sem kynntu stofnun flokksins 22. mars sl., þ.e. Margrét Sverrisdóttir, Ómar Ragnarsson, Jakob Frímann Magnússon og Ósk Vilhjálmsdóttir, verði í efstu sætum einhverra lista, en ekki vildu þau staðfesta það á kynningarfundinum. “Við ætlum ekki að setja okkur í fyrsta sætið neins staðar fyrr en fullreynt er hvaða afburðafólk annað er reiðubúið að ganga til liðs við okkur”, sagði Jakob Frímann Magnússon af sinni alkunnu hógværð og lítillæti í Morgunblaðinu í gær. Við bíðum spennt eftir hinu afburðafólkinu.

Þannig er Íslandshreyfingin ennþá óþekkt stærð, en þó eru fjölmiðlar og álitsgjafar þegar farnir að velta fyrir sér fylgistölum og spyrja fólk í skoðanakönnunum. Og þar virðist koma í ljós að síst sæki Íslandsfólkið atkvæðin í greipar stóriðjuflokkanna, Sjálfstæðisflokks eða Framsóknar, sem var þó aðalmarkmið a.m.k. Ómars, heldur virðist sem fylgið verði frekast sótt til þeirra flokka sem gætu fellt núverandi ríkisstjórn, þ.e. VG og Samfylkingar. Enda á Morgunblaðið bágt með að leyna ánægju sinni.

Ómar hefur margítrekað að nýtt grænt framboð megi alls ekki spilla fyrir raunverulegum náttúruverndarsinnum (eðalgrænum eins og hann kallar þá) á þingi, heldur sé markmiðið að fjölga þeim. Niðurstaðan gæti hins vegar orðið sú að fyrir tilstilli Íslandshreyfingarinnar yrði næsta ríkisstjórn skipuð stóriðjuflokkunum Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Frjálslynda flokknum! Einhverjum gæti dottið í hug gamalkunna spakmælið “Það sem hann einkum varast vann, varð þó að koma yfir hann”.

Það verður áhugavert að fylgjast með þróun þessa nýja framboðs, en það er mín skoðun að Ómar hefði gert umhverfismálum og náttúruvernd miklu meira gagn með því að halda áfram þeirri baráttu sem hann hefur svo ötullega staðið í síðustu árin.