Fiskar, brauð og skilvinda

Mér finnst alltaf jafn gaman að fylgjast með spurningaþáttum í sjónvarpi hvort sem boðið er upp á Útrás eða Gettu betur á RUV, Meistarann á Stöð tvö eða Skarpari en skólakrakki á Skjá einum. Oft hafa líka verið góðir spurningaþættir í útvarpi og nú hefur t.d. þátturinn Orð skulu standa gengið á Rás 1 árum saman, enda býsna sérstakur og skemmtilegur.

Nú er hafin árleg úrslitalota Gettu betur í sjónvarpinu og má ég helst ekki af honum missa. Að vísu eru ópin og skrækirnir í stuðningsliðunum hvimleið, en þá er bara að vera snögg með fjarstýringuna. Sömuleiðis er til baga hversu erfitt er oft að heyra svör keppenda við hraðaspurningunum og mætti stjórnandinn alveg gera hlustendum þann greiða að lesa upp réttu svörin þegar æðibunugangur keppenda er yfirstaðinn.

Liðin sem keppa til úrslita hafa vitneskju um hina ótrúlegustu hluti og tefla fram sérfræðingum um íþróttir og teiknimyndasögur, rokk og raunvísindi, bíómyndir og mannkynssögu svo að eitthvað sé nefnt. Athyglisvert er að sitthvað úr gamla tímanum stendur gjarna í blessuðu fólkinu að ekki sé nú minnst á landafræði Íslands. Hún virðist sem lokuð bók framhaldsskólanemum sem vita meira um forseta Bandaríkjanna aftur í aldir en um fjöll og bæi á Fróni.

Viðureign Kvennaskólans og MH sl. föstudag var afar spennandi og tók greinilega á taugar keppendanna. Þegar úrslitin loks réðust var allt að því aumkunarvert að fylgjast með keppendunum. Fyrirliðinn í liði Kvennaskólans virtist að gráti kominn og einn liðsmanna MH lá lengi eins og sprungin blaðra yfir stólbakið. MH–ingar reyndust sigurvegarar með eitt stig yfir eftir bráðabana. Úrslitin hefðu þó allt eins getað orðið Kvennaskólanum í vil því bæði liðin höfðu svar við úrslitaspurningunni, en MH-ingar voru sneggri á bjöllunni.

Eftir þessa spennandi viðureign urðu svo sárindi og eftirmál. Kvennaskólaliðið situr í sárum eftir rangan dóm um fjölda fiska og brauða sem Jesús notaði til að metta 5000 manns samkvæmt biblíunni. Dómarinn viðurkennir mistök, en liðið fær enga leiðréttingu. Um þetta er mikið fjallað í fjölmiðlum og á bloggsíðum, en minna um það að MH-ingar þurftu einnig að sæta mistökum dómarans, sem ekki vildi gefa þeim rétt fyrir að kalla skilvindu skilju. Mér fannst raunar bæði liðin illa að sér að þekkja ekki orðið skilvinda, en MH-ingar giskuðu á að þetta gagnmerka tæki héti skilja og Íslensk orðabók er sátt við það. Liðin standa því í raun jöfn gagnvart mistökum dómarans.

Samstaða með Sólarfólki

Enn er ástæða til að mótmæla virkjunaráformum Landsvirkjunar. Nú er það Neðri-Þjórsá sem sótt er að. Ætla mætti að nú sé þegar nóg virkjað í þessu mikla fljóti sem veitir gríðarlegu magni orku bæði til almennings og atvinnulífs í landinu. En mikið vill meira og enn þarf að berjast gegn náttúruspjöllum.

Náttúruverndarsamtökin Sól á Suðurlandi héldu baráttufund gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá í gær. Fundurinn var haldinn í Fríkirkjunni í Reykjavík. Dagskráin var glæsileg og hvert sæti skipað samkvæmt fréttum enda eiga félagar Sólar á Suðurlandi dyggan stuðning náttúruverndarsinna um land allt. Lokaatriði fundarins hefur örugglega verið þrælmagnað, þ.e. gjörningur eftir Rúrí í flutningi fjallkvenna.

Mér þótti afleitt að komast ekki á fundinn til að sýna samstöðu með Sólarfólki og varð því harla fegin að fá í morgun sent ávarp Birgis Sigurðssonar rithöfundar og skynja andrúmsloft fundarins við lestur þess. Ég birti það hér með og vonast eftir að fá fleiri slík til lesturs og birtingar.

Ávarp Birgis Sigurðssonar:

Frá sigri til sigurs

Góðir áheyrendur.

Þegar menn eiga í erfiðri og langvinnri baráttu við ofurefli er stundum hollt að rifja upp það sem hefur áunnist. Það stælir kjark, vekur von og eykur þrek. Á þessu þrennu þarf náttúruverndarfólk mjög að halda. Saga náttúruverndarbaráttu á Íslandi sýnir hinsvegar að það er unnt að sigra ofureflið.

Í nóvember árið 1998 var haldinn baráttufundur í Háskólabíói undir kjörorðinu „Með hálendinu – gegn náttúruspjöllum“. Til fundarins boðaði svonefndur Hálendishópur. Í honum voru einstaklingar úr fjölmörgum útivistar- og náttúruverndarsamtökum. Þetta fólk hafði verið kallað saman í skyndi til þess að snúast gegn yfirvofandi náttúruspjöllum á miðhálendinu. Það lá mikið við: Landsvirkjun áformaði að drekkja votlendisparadísinni Eyjabökkum norðan Vatnajökuls með miðlunarlóni. Sömu örlög voru búin stórum hluta Þjórsárvera.

Með þessum fundi var tekin mikil áhætta. Það yrði að nást fullt hús; annað yrði túlkað sem ósigur. Fundurinn heppnaðist; Háskólabíó troðfylltist og stemmingin var mögnuð. Þetta var mikill áfangasigur. Ekki er vafi á því að þessi fundur markaði tímamót í náttúruverndarbaráttunni. Hann var ómetanlegt framlag til þeirrar hnífskörpu baráttu sem í hönd fór. Á fundinum var samþykkt skorinorð ályktun gegn virkjunum á miðhálendinu og fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum á Eyjabökkum og í Þjórsárverum harðlega mótmælt. Könnun sem gerð var ári seinna sýndi að 80% þjóðarinnar voru andvíg miðlunarlóni á Eyjabökkum. Skömmu síðar heyktust ríkisstjórnin og Landsvirkjun á miðlunarlóni þar. Þessari vin gróðurs og fugla var borgið. Það var mikil hamingju- og sigurstund.

Meirihluti þjóðarinnar snerist líka þvert gegn áformum Landsvirkjunar í Þjórsárverum. Með hverju árinu sem leið varð erfiðara fyrir ríkisstjórnina að standa gegn þjóðinni í átökunum um þetta dýrmæta landsvæði. Í þeirri baráttu hefur náttúruverndarfólk ekki enn haft fullan sigur, en sigur samt. Og ég trúi að brátt muni Þjórsárverum vera alveg borgið. Tíminn ber það í sér.

Og innan skamms mun Vatnajökulsþjóðgarður verða að veruleika. Hann verður ekki eins víðáttumikill og þeir bjartsýnustu vonuðu. Hann verður ekki heldur jafn lítilfjörlegur og þeir svartsýnustu óttuðust. En án baráttu undangenginna ára hefði hann ekki orðið til.

Við biðum sáran ósigur við Kárahnjúka. Virkjunin þar felur í sér mesta óhappaverk sem unnið hefur verið á íslenskri náttúru í einni svipan. En baráttan gegn virkjuninni var samt ekki án sigurs. Því skipulagsstjóri úrskurðaði með náttúrunni og á móti virkjuninni. Það fól í sér siðferðislegan sigur fyrir náttúruverndarfólk; óvilhalla staðfestingu á réttmæti baráttunnar. Þáverandi umhverfisráðherra, Sif Friðleifsdóttur, gafst kostur á að sýna pólitíska og siðferðislega reisn en hún kaus að gera það ekki, ómerkti niðurstöðu skipulagsstjóra með bellibrögðum og úrskurðaði gegn náttúrunni.

En sú andólfsalda sem reis upp gegn þessum háskalegu virkjunaráformum og náttúruspjöllum varð ekki og verður ekki stöðvuð. Hún er ákall úr sjálfu þjóðardjúpinu og samhljóma kalli tímans.

Náttúra landsins verður okkur sífellt nákomnari. Þeim fjölgar stöðugt sem leita til hennar að lífsnæringu og endurnýjun sálarkrafta. Okkur verður sífellt ljósara að þar sem við erum þar er náttúran. Og þar sem náttúran er þar erum við. Því sterkari sem þessi tillfinningatengsl eru þeim mun betra líf. Jafnframt vitum við og finnum að við erum ekki ein með náttúru landsins. Hún er hluti af náttúru heimsins. Umhyggja sem við sýnum íslenskri náttúru er umhyggja auðsýnd heiminum. Ábyrgð okkar á eigin náttúru er þeim mun meiri.

Ég fullyrði að flestum Íslendingum sé orðið þetta ljóst, meira og minna. Tímarnir eru að breytast. Og þessi breyting er hröð. Ný lífssýn er að verða til. Þegar Náttúruverndarsamtök Íslands voru stofnuð 1997 litu ýmsir á þau sem einskonar terroristasamtök. Og formaður þeirra, Árni Finnson, var í augum þessara manna eiginlega State Enemy Number one. Nú njóta Náttúruverndarsamtökin virðingar – og jafnvel Árni líka.

Það er náttúrverndarbaráttan sem hefur skilað af sér deiglu þessarar verðandi nýju lífssýnar. Og það er einn af sigrunum stóru. Þessi mikla deigla vaxandi umhverfisvitundar leiðir af sér ýmislegt sem er nágtengt náttúruverndarbaráttu, bæði beint og óbeint. Við viljum ekki spúandi álver við húsdyrnar hjá okkur, sögðu Hafnfirðingar. Við viljum náttúrugæði í nánasta umhverfi okkar og mannvænt skipulag, segja Kópavogsbúar, Seltirningar, Reykvíkingar . . . Við tökum undir með þeim. Því allt er þetta greinar af sama meiði. Og snýst í eðli sínu um eitt og hið sama, nær og fjær; gæði mannlegs lífs, tengsl okkar við umhverfið og landið.

Og nú erum við komin á enn einn fundinn til þess að berjast fyrir náttúruperlu. Berjast gegn Landsvirkjun og þeim stjórnmálamönnum sem sitja á Alþingi og í ríkisstjórn en eru í vinnu hjá Landsvirkjun. En í þetta sinn er náttúruperlan í byggð.

Gleymum því ekki hér í dag að Gnúpverjar voru fyrstir landsmanna til þess að halda baráttufund til verndar landsvæði langt utan alfaraleiða. Gleymum því ekki heldur að meðal okkar hér í dag er fólk sem tók við af þessum gnúpversku frumherjum í baráttunni fyrir verndun og friðun Þjórsárvera. Höfum líka í huga að með baráttu sinni fyrir verndun Þjórsár í byggð hefur þetta fólk úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi, ásamt fólki úr öðrum sveitarfélaögum sem land eiga að Þjórsá, sýnt frumkvæði sem það má svo sannarlega vera stolt af.

Fyrir tíu árum sögðum við í Háskólabíói: Með hálendinu – gegn náttúrspjöllum. Við segjum það enn. Og við segjum líka: Með náttúrugæðum í byggð. Við segjum með Þjórsá í byggð, gegn spjöllum á henni. Því hún er ekki bara vatn sem rennur til sjávar, ekki bara H2O. Hún er mikilfenglegur þáttur í ásýnd landsins og gerir nálægar byggðir aðlaðandi fyrir þá sem þar búa og þá sem þangað koma. Ósködduð af virkjunum í byggð verður Þjórsá dýrmæt náttúruperla um ófyrirsjánlega framtíð. Ekki aðeins fyrir þá sem lifa í návist hennar heldur fyrir okkur öll.

Í þessari baráttu fyrir verndun Þjórsár í byggð skulum við minnast þess að ósigrar eru til þess að læra af þeim. Sigrar eru hinsvegar það veganesti sem okkur er fengið til enn frekari sigra. Þannig munum við ganga frá sigri til sigurs og til fullnaðarsigurs.

Hvað varð um “Fagra Ísland”?

Enn og aftur gýs upp umræða um byggingu og rekstur fleiri álvera á Íslandi. Rætt er um álver á Bakka við Húsavík, álver í Helguvík á Reykjanesi og álver í Þorlákshöfn að ógleymdum endalausum hugmyndum um stækkun í Straumsvík og á Grundartanga. Nú síðast var vitnað til bæjarstjórans í Reykjanesbæ sem segir álver í Helguvík á næstu grösum, undirbúningi sé nánast lokið og framkvæmdir gætu þess vegna hafist í næsta mánuði. Álversfíklum er ekki við bjargandi.

Ekki minntist Árni Sigfússon bæjarstjóri á nein vandkvæði við orkuöflun né umhverfisáhrif og ekkert ræddi hann um virkjunarhugmyndir á Hellisheiði sem tekist var á um fyrir örfáum mánuðum. Þaðan af síður virtist hann muna að fjöldi fólks gerði athugasemdir við umhverfismat vegna fyrirhugaðrar Bitruvirkjunar og tók undir kröfu Landverndar um heildstætt mat vegna álvers í Helguvík. Í slíku mati þarf að skoða alla þætti, álver, orkuöflun á hinum ýmsu stöðum, orkuflutning með háspennulínum eftir ýmsum leiðum, hafnarframkvæmdir og flæðigryfjur.

Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar hefur sagt óraunhæft að framkvæmdir við álver í Helguvík geti hafist í næsta mánuði og rétt að bíða með allar yfirlýsingar þar til niðurstaða úr kæru Landverndar á umhverfismatinu liggur fyrir. Bergur bendir sérstaklega á að ólíklegt verði að teljast að sátt verði um hvernig orkan yrði flutt til álversins.

Stjórnmálamenn hafa látið til sín heyra og birtist afstaðan eftir nokkurn veginn hefðbundnum nótum. Mesta athygli vekur vandræðagangur Samfylkingarinnar sem lagði mikla áherslu á umhverfismál í aðdraganda síðustu kosninga og gaf út sérstakt rit um þann málaflokk undir því háleita nafni “Fagra Ísland”.

Fullyrðingar Árna bæjarstjóra eru ekki síst einkennilegar í ljósi þess að á liðnu hausti kynnti stjórn Landsvirkjunar þá ákvörðun sína að hún mundi “…ekki ganga til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- og Vesturlandi.”

Yfirlýsing Landsvirkjunar vakti gífurlega athygli og var m.a. rædd á Alþingi. Þar viðurkenndi Geir H. Haarde að þessi ákvörðun þýddi það að óbreyttu að ekki yrði reist álver í Þorlákshöfn eða nýtt álver á Suðvesturlandi. Og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagði orðrétt: “Ekki verða fleiri ný álver á þessum hluta landsins á næstu árum og missirum, það liggur ljóst fyrir eftir þessa ákvörðun.”

Í athugasemd frá Náttúruverndarsamtökum Íslands í morgun er minnt á þessi orðaskipti á Alþingi og sett fram sú krafa að ráðherrar standi við orð sín. Í athugasemdinni segir m.a.:

“Af yfirlýsingum ráðamanna Sjálfstæðisflokksins undanfarna daga virðist sem svo að þessar yfirlýsingar forsætis- og viðskiptaráðherra fyrir þremur mánuðum hafi fallið í gleymsku. Á hinn bóginn hafa talsmenn Samfylkingarinnar kosið að tjá sig ekki um fyrirhugað álver í Helguvík þrátt fyrir að ráðamenn fyrirtækisins hyggist hefja framkvæmdir án starfsleyfis, án tilskilinna leyfa til losunar gróðurhúsalofttegunda og án þess að úrskurður umhverfisráðherra um heildstætt mat virkjunar- orkuflutninga og álversframkvæmda liggi fyrir. Að sama skapi liggur enn ekki fyrir loftslagsstefna ríkisstjórnar Íslands.

Samfylkingin boðaði nýja umhverfisstefnu fyrir kosningar s.l. vor og kynnti áform um stóriðjustopp þar til fram hefði farið Rammaáætlun um náttúruvernd og sættir náðst um frekari virkjanauppbyggingu. Iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, gengisfelldi þessa stefnu strax eftir kosningar með því að hafna því að afturkalla rannsóknarleyfi í Gjástykki sem forveri hans, Jón Sigurðsson, veitti einungis tveimur dögum fyrir kosningar án lögboðinnar aðkomu umhverfisráðuneytisins. Vitaskuld þvert á kosningaloforð síns flokks. Þar með tók Össur ábyrgð á spillingu Framsóknarflokksins.

Náttúruverndarsamtök Íslands gera þá kröfu til ráðherra og þingmanna Samfylkingarinnar að þeir standi við orð sín og veiti þjóðinni andrúm til að meta náttúruverndargildi þeirra svæða sem orkufyrirtækin sækjast eftir að eyðileggja. Jafnframt ber forsætisráðherra skylda til að standa við þau orð sem hann flytur þingi og þjóð.”

Sjónarspil við ströndina

Tvo hundaeigendur hitti ég í dag sem kvarta sáran yfir erfiðleikum við að fá hundana til að fara út að pissa í vonda veðrinu. Slíka erfiðleika þekkjum við ekki hér á bæ. Moli er alltaf jafn kátur að komast í gönguferð og gildir einu hvort sólin skín eða snjónum kyngir niður.

Snemma í morgun vaknaði ég við drunur hafsins við ströndina. Það var hásjávað langt fram eftir morgni og brimið þeytti sjónum langt upp á land fram með Norðurströndinni og öllum Grandanum. Í Ánanausti var mikill viðbúnaður lögreglu vegna sjávargangsins og Eiðisgrandanum var lokað nær hádegi enda þá orðið ófært vegna grjóthnullunga.

Við Moli drifum okkur í langa gönguferð eftir sjávarströndinni og áttum bágt með að slíta okkur frá þessu magnaða sjónarspili hafsins. Þvílíkur heljarkraftur. Og sums staðar þurftum við að stökkva undan pusinu. Við sáum aðeins tvær manneskjur alla leiðina og þessar tvær stigu út úr bíl til að skoða hamfarirnar. Mér finnst þetta ótrúlega hrífandi þótt ég sé í rauninni smeyk við hafið í slíkum ham.

Umhleypingar vetrarins taka vissulega á taugarnar og ég er ekki viss um að ég væri jafn dugleg að njóta veðursins ef ég hefði ekki hann Mola litla. En ég finn að það gerir manni gott að takast á við veður og vind, rok og rigningu, snjó og ófærð. Og ekki er þörf að kvarta þegar alltaf er jafn gott og styrkjandi að fara í sund og klæða sig í útiklefanum hvernig sem viðrar.

Það eina sem verulega angrar mig er að komast ekki á Kaldbak til hestanna. Þangað hefur alllengi verið ófært og vonlaust að koma þangað kerru til að sækja nokkra hesta. Góðir menn komast þangað á sérbúnum bílum og gefa hestunum nóg að éta, en stíurnar þeirra bíða tómar í Víðidal.

Magnað í Madonna

Enn einu sinni brugðum við okkur í skíðaferð í útlöndum dagana 26. janúar til 2. febrúar. Mér telst svo til að slíkar ferðir séu nú orðnar átta alls og alltaf eru þær jafn skemmtilegar. Fyrstu tvö skiptin fórum við til Lech í Austurríki, en svo ákváðum við að fara hinum megin Alpanna og prófa brekkurnar sem bjóðast í ítalska skíðabænum Madonna di Campiglio og höfum síðan haldið tryggð við þann stað.

Madonna hefur marga kosti. Bærinn er lítill, telur um 700 íbúa sem byggja allt sitt á þjónustu við skíðafólk og að einhverju leyti göngufólk á sumrin. Við förum alltaf á svipuðum tíma rétt áður en aðalskíðatíminn hefst fyrstu heilu vikuna í febrúar. Bærinn er prýddur jólatrjám og hvers kyns jólaskrauti fram eftir öllu ári sem okkur þætti óviðeigandi hér heima, en passar ágætlega í þessum jólalega fjallabæ. Hrikaleg fjöll ramma inn bæinn og geyma kletta og skóglendi með skíðabrekkum af öllu tagi inn á milli. Snjóframleiðslutæki í hundraðavís varða brekkurnar, en í þetta sinn var nægur snjór og engin þörf fyrir gerfisnjó.

Vikan leið með nokkuð hefðbundnum hætti. Við tókum það fremur rólega fyrsta daginn til að reyna að komast hjá harðsperrum, en fljótlega gleymist öll varúð í þeim efnum. Þriðja daginn var farin hópferð með fararstjórum til nágrannabæjanna Marileva og Folgarida. Þangað er yfirleitt farið einu sinni í hverri viku og mjög gaman að takast á við brekkurnar þar. Veðrið var frábært, heiðskírt og tært loft sem tryggði okkur magnað útsýni af hæstu toppum. Alltaf jafn gaman að koma á þessar slóðir, enda man ég hreinlega ekki til þess að veður og færi hafi brugðist í þeim ferðum.

Veðrið var reyndar heldur kaldara en oftast áður og kallaði á tíðar heimsóknir í fjallakofanna, sem eru nú reyndar engir kofar, til að fá sér súpuskál eða sötra heitt kakó með rjóma. Einn daginn þvældist fyrir okkur þykk þoka, en við létum hana ekki eyðileggja daginn og kosturinn við þokuna var óvenju fátt fólk í brekkunum.

Við gistum á Hubertus, þægilegu hóteli þótt herbergin séu lítil og svolítið þreytuleg enda komin til ára sinna. Hótelið er í miðbænum, stutt að fara í eina af aðallyftunum, stutt í skíðaleigu og allt annað sem á þarf að halda. Morgunverðurinn er fjölbreyttur og ríkulega útilátin, m.a.s. boðið upp á tertur og annað sætabrauð í morgunsárið fyrir þá sem þola slíkt svo snemma dags.

Margir Íslendingar gista á Hubertus og er vel tekið af frúnni sem ræður ríkjum. Þar gistir t.d. ár hvert fullorðinn maður, nú tæplega áttræður. Hann er einn á báti og byrjaði skíðamennskuna eftir að hann fékk skíði frá systkinum sínum á sjötugsafmælinu. Hann er alltaf 2 vikur í senn og stundar brekkurnar af miklum dugnaði nema í þoku, segist ekki öruggur þegar hann sjái ekki hót. Mér verður hins vegar hrollkalt að sjá hann berhöfða á skíðunum.

Það er kostur að Hubertus býður ekki upp á kvöldverð og því hægt að prófa hina ýmsu staði í bænum. Le Roi er mjög vinsæll og líflegur staður, góð þjónusta og ágætur matur. Annar góður er Antica Focolare, en allra besta matinn er að fá á Alfiero. Matur og þjónusta er þar í hágæðaflokki, en verðið leyfir aðeins eina heimsókn á ári.

Ferðafélagarnir voru að vanda þau Ingibjörg Bjarnadóttir og Ævar Guðmundsson, en einnig hittum við gamla kunningja frá fyrri ferðum þau Svanhildi Gunnarsdóttur og Sturlaug Filippusson. Þessi góði hópur borðaði saman öll kvöld og skemmti sér frábærlega saman.

Að týna sólarhring

Að týna næstum því heilum sólarhring úr lífi sínu er ekki notaleg reynsla. Það fékk ég að reyna fyrir skemmstu.

Flesta morgna ársins stunda ég þá firnagóðu líkamsrækt að synda og hef gert það árum saman. Oftast verður Neslaugin fyrir valinu, enda í næsta nágrenni. Ég fer í útiklefa, geri æfingar fyrir fætur og bak í sturtunni, teygi á hálsvöðvum í heitum potti, syndi þúsund metra skriðsund, bringusund og baksund til skiptis og slaka loks á í notalegum nuddpotti. Við svo búið finnst mér ég í góðu formi til að takast á við verkefni dagsins. Það brást hins vegar að morgni laugardagsins 13. október.

Laugardagsmorgnar eru svolítið sérstakir því þá hittumst við Svana systir mín gjarna í Neslauginni og þá bætist við spjall um atburði vikunnar. Stundum er ekki nógu notalegt að hanga í barnalauginni og þá ljúkum við spjalltímanum í 38 gráðu pottinum. Það gerðum við einmitt þennan laugardagsmorgun. Í þetta sinn varð þó setan venju fremur löng, enda vikan óvenju viðburðarík, og þegar við stigum upp úr pottinum fann ég að eitthvað voru fæturnir þungir og ekki laust við svimakennd í kollinum. Ég bar mig auðvitað eins mannalega og ég frekast gat og snaraðist undir sturtu í útiklefanum, en þar með lauk öllum virðuleika og íþróttamannslegum þokka því nú sortnaði mér fyrir augum og fætur sviku.

Ég var svo heppin að detta beint í fangið á systur minni og njóta síðan umönnunar hennar og fleiri góðra sundkvenna svo og starfsfólks og síðan læknis og sjúkraflutningsmanna, svo að lokum varð ekki þverfótað fyrir fólki í litla útiklefanum. Þar reyndist stærsti vandinn að koma þessari máttlausu og meðvitundarlitlu konu út úr klefanum og á sjúkrabörur, sem komust engan veginn inn um fáránlega hannaðar dyr útiklefans. Við útiklefanotendur höfum löngum hlegið að þessari asnalegu hönnun, en nú kom í ljós að hún er ekki aðeins hlægileg, heldur beinlínis hættuleg. Væri ég ögn þéttari á skrokkinn hefðu blessaðir karlarnir aldrei komið mér fyrir horn á hurðinni sem opnast upp að vegg inn í klefann!

Lá nú leiðin á slysavarðstofuna í Fossvoginum, en ekki get ég lýst atburðarásinni frekar þar sem öngvitið varð nánast algjört eftir að í mig var dælt einhverju sem dugði til að reka burt ógleðina og önnur herjans ónot. Sitthvað mun hafa verið gert næstu klukkustundirnar til að kanna ástand mitt, en ég vissi ekki einu sinni af því þegar ég var send í heilaskönnun, ef ég hef tekið rétt eftir í frásögn læknis næsta dag.

Snemma á sunnudagsmorgni rankaði ég við mér og hlustaði næsta kastið á ergelsi konunnar í tjaldinu til vinstri við mig og stunur karlmannsins í tjaldinu hægra megin. “Veistu hvað kom fyrir þig?”, spurði læknirinn hann. “Nei”, stundi maðurinn. “Það var ekið á þig”, sagði læknirinn. “Shit”, sagði aumingja maðurinn, sem ég las síðar í einhverju blaðinu að hefði uppskorið brotin bein þessa örlaganótt.

Ég fékk hafragraut og mjólk, kaffi og brauð með osti áður en ég var send heim. Ég hefði víst betur innbyrt slíkar kræsingar áður en ég fór í sundið sólarhring fyrr.

Af reynslu er rétt að draga lærdóm, og sá lærdómur sem ég bætti nú í safnið mitt er að fara ekki í sund á fastandi maga og eyða ekki of miklum tíma í heita pottinum, jafnvel ekki þótt Friðrik Sóphusson sé mættur þar og hafi fréttir að færa af sinni ágætu eiginkonu, Sigríði Dúnu, sem nú gegnir störfum sendiherra (Sirrý Dúna “herra”!) í Suður-Afríku.

Þessa mun ég gæta héðan í frá. Það er svo fjári ónotalegt að týna næstum því heilum sólarhring úr lífi sínu.

Sitt er hvað Frón eða Flórída

Fátt er líkt með gamla Fróni og bænum Naples í Flórída. Veður, umhverfi, gróðurfar, húsnæði, skólar, verslanir, allt er með ólíku sniði og mætti lengi áfram telja. Ég var kölluð til verka í þessum ameríska bæ í september og var þar í þrjár vikur, hefði reyndar þurft meiri tíma til að kynnast þessu öllu betur. Ég átti harla bágt með að afbera hitann og rakann og daglegt þrumuveður var oft spennandi, en stundum ansi ógnvænlegt fyrir manneskju sem heyrir þrumur í mesta lagi einu sinni á ári.

Naples er snyrtilegur bær á vesturströnd Flórída við Mexíkóflóann. Þar er flugskóli sem nokkrir Íslendingar hafa sótt og þar stundar dóttir mín flugnám. Og þar búa nú þau Dóra, Sindri og Breki í snotru og þægilegu húsi í vernduðu hverfi og flest þægindi innan seilingar. Bíll er þó algjör nauðsyn á hverju heimili. Almenningssamgöngur eru ekki málið á svona stað, en skólabörn geta þó nýtt sér skólabíla þótt margir foreldrar kjósi heldur að sjá sjálfir um að koma börnum sínum í skólann – þveröfugt við hér þar sem verið er að reyna að fá börnin til að ganga í skólann sinn.

Ástæðan fyrir óvæntu ferðalagi mínu til Naples var sú að blessaðir dóttursynirnir áttu harla bágt fyrstu vikurnar í amerískum skóla þar sem kennsluhættir eru talsvert frábrugðnir þeim íslensku. Agi og allar venjur eru ólíkar og kröfur meiri en börn í íslenskum skólum eiga að venjast. Skiljanlega er það erfitt ungum börnum að vera allt í einu sett í skóla þar sem þau skilja lítið af því sem sagt er og eiga bágt með að tjá sig.

Svo hittist á að einmitt þegar þeir Sindri, 9 ára síðan í apríl, og Breki, sem verður 7 ára í nóvember, voru að hefja skólagöngu í Laurel Oak Elementary School, var sérlega mikið að gera hjá Dóru sem var að ljúka æfingum og prófum fyrir einkaflugmannsréttindi sem hún gat ekki ýtt til hliðar til þess að aðstoða drengina sína í skólanum. Það reyndist þeim erfitt og Breka reyndar ofviða, svo að amman einfaldlega skellti sér út með dags fyrirvara og settist á skólabekk með Breka til að létta honum fyrstu vikurnar. Svo lengi lærir sem lifir segir máltækið og þetta var mikil og merkileg reynsla.

Eftirlit í Laurel Oak er mikið og rækilega fylgst með öllum. Ég þurfti að mæta á skrifstofu skólans hvert eitt sinn, sýna passa, gera grein fyrir erindinu og fá sérstaka merkingu í barminn. Ef koma barnanna í skólann er með einhverjum öðrum hætti en venjulega verður að gera rækilega grein fyrir því og eins að skólatíma loknum. Að morgni stilla þau sér í einfaldar raðir og bíða þess að aðalkennarinn leiði þau til sinnar stofu. Þaðan er þeim fylgt í skipulagðri röð til matsalar um hádegisbil eða til sérkennslu í tölvudeild, í leikfimi, söngtíma, listatíma eða á bókasafn. Nemendur fara ekki út í frímínútur eins og hér tíðkast, enda er loftslagið yfirleitt mun þolanlegra í bekkjarstofunum en utan dyra. En það er skondið að fylgjast með þessum krakkastrollum þrammandi milli stofa og allt að því heraga beitt til að enginn skjóti sér út úr sinni röð.

Mikill agi ríkir í skólastofunum og ríkt eftir því gengið að nemendur fylgist með. “One two three, eyes on me”, segir kennarinn og ætlast til að allir horfi og hlusti á hann/hana. Það reynist erfitt þeim sem lítið eða ekkert skilja í málinu. Nokkur barnanna í bekknum hans Breka eiga spænsku að móðurmáli, eitt þeirra portúgölsku og eitt rússnesku og svipað mun vera í mörgum hinna bekkjanna. Þau fá reyndar góða hjálp tveggja kennara sem fara á milli bekkja og allt kemur þetta smám saman.

Þrjú íslensk börn eru í öllum skólanum og vekja talsverða forvitni, ekki vegna þess að þau séu svo frábrugðin, heldur er það landið sem virðist vera mjög dularfullt í huga flestra. Breki sló algjörlega í gegn þegar hann sýndi bekkjarfélögunum myndir af íslensku landslagi, sem þeim fannst ótrúlega merkilegt og ekki síður kennaranum sem fór á flug að útskýra fyrir börnunum eldgos og hveri.

Lestur, skrift og reikningur skipa háan sess, en mörgu öðru er skotið inn á milli, ekki síst uppeldisfræði. T.d. er lögð áhersla á að börnin sýni ekki aðeins kennaranum virðingu, heldur einnig hvert öðru. Þau eiga að fylgjast með og mega ekki trufla hvert annað og getur það oft reynst sprækum börnum erfitt. Þau læra að sýna tillitssemi og vinna úr misklíð eftir ákveðnum reglum og var merkilegt að fylgjast með því. Ég get ekki ímyndað mér að nokkurt barn í þessum skóla komist nokkurn tíma upp með einelti í annars garð. Börnin læra að sýna ábyrgð, skiptast t.d. daglega á um að gegna ýmsum hlutverkum, hjálpa kennaranum, vera dyraverðir o.s.frv. Kennararnir eru nokkuð strangir og kröfuharðir, en þeir eru líka ósparir á hrós og verðlaun sem greinilega skipta miklu máli.

Mér fannst mjög gaman að kynnast þessu öllu, þótt margt væri framandi og jafnvel óþægilegt. Ég tók með mér myndavél í skólann þegar brottför nálgaðist og tók í grandaleysi myndir bæði af umhverfinu og börnunum. En það reyndist ekki vel séð. Skólastjórinn kom til mín og leiddi mig í allan sannleika um það að í Laurel Oak mætti ekki taka mynd af neinum án leyfis. Til þess að geta myndað í skólastofum dóttursona minna yrði ég að hafa formlegt undirritað leyfi foreldra hvers einasta barns.

Sinn er siður í landi hverju, það lærði ég m.a. þessar vikur í Naples á Flórída. Skemmtilegast er þó að kynnast því hvað börn eru fljót að læra nýtt tungumál og aðlagast nýjum aðstæðum.

Ekki af baki dottin!

Hestaferð sumarsins var mjög skemmtileg eins og reyndar allar hestaferðir okkar sem ég kann ekki lengur tölu á. Í þetta sinn fluttum við hestana okkar á norðausturhorn landsins og könnuðum lendur Þingeyjarsýslna, aðallega þó Norðursýslunnar og enduðum í Suðursýslunni eftir tveggja vikna ferðalag. Ferðalangar voru aðallega 13 að meðtöldum Sigfúsi Almarssyni, sérvöldum trússara og eðalkokki. Ferðina skipulögðu Jónas og Finnur af stakri snilld. Aðrir voru við Fanney, Haidi og Níels, Reynir, Ingólfur, Guðjón og Guðný, Guðrún og Þóra. Þá var annar Guðjón með í förinni fyrri vikuna, auk þess sem vinir og vandamenn , s.s. Þorbjörg, Guðlaug og Kristján, stungu sér inn í hópinn dag og dag eftir hentugleikum.

Við lögðum upp frá Leirhöfn í Öxarfirði 23. júlí, riðum framhjá Grjótnesi og Núpskötlu í Blikalón, þaðan Blikalónsdal og Austursléttuheiði austur fyrir Raufarhöfn, síðan vestan Bláskriðu og Fjallgarðs og yfir fjallaskarð niður í Þistilfjörðinn. Frá Flautafelli í Þistilfirði riðum við upp með Svalbarðsá í Laufskála, þaðan norður á Öxarfjarðarheiði um Hrauntanga að Efrihólum og síðan austan við Valþjófsstaðafjall og Þverárhyrnu og með Sandá að Bjarnastöðum. Við vörðum nokkrum dögum í nálægð Jökulsár á Fjöllum og nutum fegurðar og mikilfengleiks landslagsins, riðum meðfram Jökulsánni bæði að austan og vestan, stundum í fylgd heimamanna eins og víðar á leiðinni. Svo var t.d. alla leið úr Svínadal vestur í Þeistareyki, þaðan suður að Gæsafjöllum og vestur á Hólasand að Geitafelli og síðan í Laxárdalinn. Lokaáfanginn var svo 5. ágúst yfir heiðina meðfram Hvítafelli og niður í Reykjadal.

Allt gekk þetta stórslysalaust og raunar mjög vel. Nokkuð var um flugferðir knapa sem meiddust þó ekki að neinu gagni. Ég reyndi að monta mig af því að hafa sloppið við allt slíkt, en ferðafélagarnir minntu þá á að ég hefði rækilega séð um þann þátt í ferðinni sumarið áður, þegar Prúði mínum tókst að fleygja mér þrisvar af baki. Í þetta sinn sem sagt var ég ekki af baki dottin.

Við Jónas vorum með 8 hesta, Kára, Loga, Garp, Djarf, Létti, Gauk, Prins og Storm talda í aldursröð, elstur er Kári 21 vetra, yngstur Stormur 9 vetra. Þeir stóðu sig allir mjög vel og komu heilir heim, líka Djarfur sem reyndar heltist af sparki í lend og fékk nokkurra daga frí. Blessaðir trukkarnir mínir hefðu mátt vera ögn rennilegri, þeir Gaukur og Prins kunna sér ekki magamál, en ekki vantar þá dugnaðinn og kraftana. Enginn bilbugur var á Kára þrátt fyrir aldurinn, hann er alltaf jafn jákvæður og glaður í langferðum. Og gaman er að finna Storm sífellt eflast að færni og dugnaði.

Við gistum á eyðibýlum, í fjallaskálum, á gistiheimilum og í skólahúsnæði og enduðum í félagsheimilinu á Breiðumýri sem kallaðist reyndar þinghús í mínu ungdæmi. Gaman var að gista eyðibýlin Oddsstaði og Harðbak, þótt nokkuð skorti á þægindin, rúmin með gamla laginu og alltof stutt fyrir lappalanga liðið, en andrúmsloftið bætti upp það sem á skorti í þeim efnum. Þá var sérstakt að gista á Geitafelli þar sem ég þekkti sumt fólkið þaðan í gamla daga. Fjallakofarnir hafa sinn þokka þar sem oft skapast alveg sérstök stemmning með söng og kátínu og hvergi annars staðar var líflegar sungið úr Melrakkabók Ingólfs. Listakokkurinn okkar kann hins vegar betur að meta aðstæður í ögn þróaðri húsakynnum.

Við hittum fjöldann allan af góðu fólki um allar sveitir sem greiddi götur okkar á margan hátt. Kunnugir sögðu okkur til vegar og margir fylgdu okkur einn og einn dag til að tryggja að við rötuðum bestu leiðirnar. Einar, Silli, Árni, Halldór, Rúnar, Böðvar, allir gerðu sitt til að auka á gildi ferðarinnar. Ekki veit ég t.d. hvernig þeir félagar Finnur og Jónas, svo glúrnir og ratvísir sem þeir annars eru, hefðu átt að rata um Þeistareykjaheiðina í dumbungsveðri þar sem ótrúlega margar götur krossa hver aðra, en Böðvar og Rúnar vísuðu veginn.

Í Miðtúni í Leirhöfn var okkur eitt kvöldið boðið til veislu sem verður í minnum höfð. Þar voru linnulaus ræðuhöld, mikil sönggleði og varðeldur að áliðnu kvöldi. Gaman var að kynnast því hvað afkomendur Helgu Sigríðar Kristinsdóttur og Árna Péturs Lund sýna foreldrum sínum og þeirra gömlu heimkynnum mikla ræktarsemi. Og ekki var verra að komast að því að Norður-Þingeyingar eru ekki minni á lofti en Suður-Þingeyingar!

Landslagið, gróðurfarið og hófvænar reiðgöturnar glöddu ferðalangana og ýmislegt kom okkur á óvart. Flest okkar höfðu skapað sér ákveðna mynd af þessum slóðum og bjuggust við einhæfara og gróðursnauðara umhverfi en í ljós kom. Eftirminnilegt er landslag og gróðurfar undir Fjallgarði og sérlega fallegt var að ríða upp með Svalbarðsá þar sem bakkar og hólmar eru gróðri vafðir, grávíðirinn vöxtulegur og víða mikið blágresi sem puntaði heldur betur upp á víðirunnana. Eftirminnilegur er dagur á austurbakka Jökulsár undir leiðsögn Halldórs á Bjarnastöðum sem sýndi okkur ótal staði sem við hefðum varla fundið hjálparlaust. Þá var mjög sérstakt að koma fram á heiðarbrún í Laxárdal ofan við Kasthvamm og ríða niður í þennan fallega dal sem eitt sinn var vel byggður en er nú fáum setinn.

Þannig á ég margar fallegar myndir í huganum frá þessari ferð. Ein sú fallegasta er af himbrimanum á Kringluvatni austan Laxárdals, hann sparaði ekki fögur sönghljóð fuglinn sá. Er hægt að hugsa sér öllu ljúfara en að ríða góðum hesti eftir dúnmjúkri reiðgötu með angan heiðagróðurs í vitunum og hlusta á konsert himbrima syndandi í sólskininu um spegilslétt vatnið?

Bitur reynsla í Reykjadal

Þá er ég aftur komin á mölina eftir mánaðardvöl í sveitinni minni fyrir norðan. Dvölin sú var að flestu leyti ánægjuleg, veður frábært flesta daga, mikil sól og blíða og margt hægt að gera. Og ekki síst var gaman hversu mörg úr stórfjölskyldunni gerðu sér ferð norður í Varmahlíð þar sem öllum finnst gott og gaman að vera.

Einn skugga bar á sveitasæluna að þessu sinni, svo stóran að mér finnst ég og systkini mín hafa orðið fyrir miklu ranglæti og í rauninni lítilsvirðingu af hálfu sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar og stjórnar Framhaldsskólans á Laugum. Öll atburðarás þess máls sýnir hvað manneskjan er vanmáttug gagnvart stjórnsýslunni sem ákvarðar og framkvæmir að eigin vild þrátt fyrir háværar og tíðar yfirlýsingar um vilja til að tryggja rétt almennings.

Sem ég nýkomin norður sat sallaróleg og hamingjusöm í heita pottinum í sundlauginni góðu á Laugum og rabbaði við nágrannakonu dembdust yfir mig þau tíðindi að nú ætti að fara að byggja 2 einbýlishús rétt framundan Varmahlíð, þar sem okkur hafði áður verið sagt að ekkert slíkt stæði til. Á heimleið úr sundinu sá ég hvar 3 menn röltu fram og aftur um blettinn rétt við túnfótinn í Varmahlíð, bentu í allar áttir og veltu augljóslega fyrir sér aðstæðum til vegalagnar og bygginga.

Ég flýtti mér heldur betur á fund sveitarstjóra Þingeyjarsveitar og komst að hinu sanna um þessi áform og ennfremur að enn lifðu 3 dagar af þeim fresti sem gefinn hafði verið til athugasemda. Skall þar hurð nærri hælum þar eð ekkert okkar systkina, eigenda Varmahlíðar, hafði veitt athygli auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi í landi Laugaskóla, enda höfðum við enga ástæðu til að ætla að við þyrftum að vera á varðbergi.

Eftir athuganir af ýmsu tagi og samráð við systkini mín skilaði ég athugasemdum okkar á skrifstofu sveitarfélagsins, þar sem við lögðum til að tillögunni yrði hafnað og aðrar jafngóðar eða betri lóðir fundnar handa væntanlegum húsbyggjendum. Við lýstum því að okkur þætti nærri okkur höggvið með því að ætla 2 byggingum stað svo nálægt Varmahlíð og bentum á að gildi lóðar og húss mundi rýrna verulega ef af þessum byggingum yrði, þær kæmu til með að gjörbreyta og skerða útsýni frá Varmahlíð og jafnframt gjörbreyta sýn til Varmahlíðar.

Skömmu síðar kom í ljós mér til undrunar að skólameistari FL hafði fengið athugasemdirnar sendar og brugðist snarlega við skriflega. Fékk ég þær athugasemdir til aflestrar og fannst það ekki góður texti, heldur einkennast af nokkrum hroka og óbilgirni og reyndar misskilningi í sumum atriðum. Setti ég því saman annað bréf til sveitarstjórnar og afhenti fyrir fund hennar þar sem málið var til umræðu og afgreiðslu.

Einn sveitarstjórnarmanna þáði heimboð í Varmahlíð með þökkum og taldi sig hafa verulegt gagn af heimsókninni. Því miður gat hann ekki setið fund sveitarstjórnar um afgreiðslu málsins. Við ræddum við fleiri fulltrúa í sveitarstjórninni og fannst þeir sýna skilning og vinsemd, en ekki varð fundið að þeir vildu kanna málið frekar. Enginn þeirra hafði frumkvæði að viðræðum við okkur vegna athugasemda okkar og ekki varð vart við neins konar athuganir af hálfu fulltrúa í skipulags- og umhverfisnefnd sveitarinnar, sem mæltust einfaldlega til þess að tillagan yrði samþykkt óbreytt.

Þann texta gerði sveitarstjórn að sínum og sá ekki ástæðu til að svara athugasemdum okkar systkinanna ítarlegar en þar kemur fram. Aldrei var reynt að ræða mögulegar lausnir til sátta í málinu sem sýnir kannski best stöðu okkar gagnvart þeim sem valdið hafa.

Ekki var svarað endurteknum athugasemdum um lóðir á öðrum svæðum í landi Laugaskóla og engin tilraun virðist hafa verið gerð til að leita uppi staðfestingu þess að við hefðum áður verið fullvissuð um að ekki yrði byggt nær Varmahlíð en þegar hefur verið gert. Enginn rökstuðningur felst í því að segja “Vandséð er að gildi lóðar og húss Varmahlíðar rýrni við það að skipulagðar verði tvær nýjar lóðir og byggð á þeim einlyft hús”, eins og segir í fundargerðum skipulagsnefndar og sveitarstjórnar, ekki síst með tilliti til þess að fæstir fulltrúanna hafa nokkurn tíma komið í Varmahlíð og metið málið frá því sjónarhorni. Athugasemd um skógrækt til samanburðar vekur furðu.

Í pistlinum hér á undan, SÓTT AÐ VARMAHLÍÐ, eru birtar athugasemdir okkar bæði hinar fyrri og síðari, einnig athugasemdir skólameistara og liður úr fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar, sem sveitarstjórn tók upp orðréttan í fundargerð þess fundar þar sem málið var afgreitt.

Þannig var ferill þessa máls sem spillti annars einkar góðri sumardvöl í Varmahlíð. Hugsanir mínar og aðgerðir þessa heitu sumardaga snerust óneitanlega mikið um þetta mál og hvað væri hægt að segja og gera.

Þetta var bitur reynsla. Mér leið á stundum eins og ég hefði orðið fyrir ofbeldi og það var ekki góð tilfinning.

Sótt að Varmahlíð

Hér eru birtar athugasemdir okkar eigenda Varmahlíðar í Reykjadal, Þingeyjarsveit, við tillögu að breyttu skipulagi í landi Laugaskóla, bæði hinar fyrri og síðari, einnig athugasemdir skólameistara FL og liður úr fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar, sem sveitarstjórn tók upp orðréttan í fundargerð þess fundar þar sem málið var afgreitt.

Í næsta pistli lýsi ég með nokkrum orðum reynslu minni af þessu máli undir fyrirsögninni BITUR REYNSLA Í REYKJADAL.

ATHUGASEMDIR HH, SH OG KH 10.6.2007

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar

Kjarna

650 Laugum

Efni:

Athugasemd við tillögu að breyttu skipulagi í landi Laugaskóla, Reykjadal, Þingeyjarsveit.

Varmahlíð 10.6.2007

Við eigendur Varmahlíðar, Halldór Halldórsson 230734-7399, Svanhildur Halldórsdóttir 010638-4619 og Kristín Halldórsdóttir 201039-4529, andmælum eindregið þeirri breytingu sem felst í framkominni tillögu að breyttu skipulagi í landi Laugaskóla og leggjum til að tillögunni verði hafnað.

Greinargerð:

Í núgildandi deiliskipulagi eru skipulagsmörk dregin við brekkubrún vestan (neðan) við Varmahlíð og gert ráð fyrir skógrækt í brekkunni þar fyrir neðan. Breytingartillagan felur það í sér að skipulagsmörk verði færð alveg upp að lóðarmörkum Varmahlíðar og tvær nýjar lóðir fyrir einbýlishús skipulagðar á viðbótarreitnum. Verði tillagan samþykkt og húsin byggð á þessum reit mun það augljóslega rýra verulega gildi lóðar og húss Varmahlíðar sem hefur staðið þar í rúm 70 ár. Með gildi er ekki aðeins átt við tilfinningalegt gildi, heldur einnig notagildi og verðgildi eignarinnar.

Foreldrar núverandi eigenda Varmahlíðar byggðu húsið og fluttu í það árið 1936. Umhverfi Varmahlíðar hefur vissulega tekið miklum breytingum í áranna rás og byggðin færst sífellt nær. Við því er lítið að segja og gera, en nú þykir okkur nærri okkur höggvið þegar stefnt er að húsbyggingum alveg upp að lóðarmörkum og beint framundan húsi okkar. Færi þá lítið fyrir þeim einkennum og kostum sem alla jafna fylgja dreifbýli umfram þéttbýli.

Það er stór ákvörðun og afdrifarík að setja nýjar byggingar niður á jafn viðkvæmum stað og hér um ræðir og verður því miður ekki séð að nægilega hafi verið hugað að því hve mikil röskunin yrði. Varmahlíð með sínum gróðursæla garði hefur um áraraðir sett sinn svip á byggðina á Laugum. Yrði þrengt að Varmahlíð með húsbyggingum enn frekar en orðið er mundi svipmót byggðarinnar gjörbreytast og raska jafnvægi núverandi umhverfis. Fyrirhugaðar byggingar við túnfót Varmahlíðar, 4,5 m. á hæð samkvæmt skipulagstillögu, mundu gjörbreyta og skerða útsýni frá Varmahlíð og jafnframt gjörbreyta sýn til Varmahlíðar.

Þegar húsin, merkt B5 og B6 á deiliskipulagi, voru byggð var fullyrt að ekki yrði byggt ofar en þau standa. Því veldur þessi breytingartillaga við deiliskipulagið miklum vonbrigðum, enda verður með engu móti séð að nauðir reki til þess að koma upp þéttbýli á þessum litla skika beint framan við Varmahlíð, þar sem í landi Laugaskóla og annars staðar í grenndinni er víða rými fyrir góðar lóðir til húsbygginga án þess að skerða þurfi kosti þeirra sem fyrir eru.

Í ljósi alls þessa yrði það okkur eigendum Varmahlíðar verulegt áfall ef þessar fyrirhuguðu byggingar yrðu að veruleika.

Á heimasíðu Þingeyjarsveitar eru kynnt drög að stefnu sveitarfélagsins með aðalskipulagi svæðisins. Er þar að finna margt gott og athyglisvert sem sýnir ríkan metnað til þess að tryggja lífsgæði íbúanna í anda sjálfbærrar þróunar og má þar m.a. sjá það markmið að byggð falli vel að umhverfi. Ýmislegt sem þarna kemur fram vekur vonir um að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar taki á þessu máli og öðrum með skilningi og virðingu fyrir sjónarmiðum allra aðila.

Við eigendur Varmahlíðar, systkinin Halldór, Svanhildur og Kristín, förum þess eindregið og einlæglega á leit við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að fyrrgreind tillaga að breyttu deiliskipulagi í landi Laugaskóla verði dregin til baka og fundnar aðrar jafn góðar eða betri lóðir handa væntanlegum húsbyggjendum.

Að lokum skal tekið fram að við áskiljum okkur allan rétt til að fylgja málinu frekar eftir ef á þarf að halda.

Fyrir hönd eigenda Varmahlíðar

Kristín Halldórsdóttir

Til upplýsingar:

Undirrituð dvelst í Varmahlíð til júníloka og er með síma 892-7657. Heimasími Halldórs er 462-3720 og gsm 898-3720. Heimasími Svanhildar er 553-7941 og gsm 845-3141.

Sveitarstjórnarmenn eru velkomnir í Varmahlíð til að kynna sér málið frá þeim sjónarhóli.

Með kveðju,

Kristín Halldórsdóttir.

ATHUGASEMDIR SKÓLAMEISTARA FL 12. júní 2007:

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar

Kjarna

650 Laugum

Laugum 12. júní 2007

Vegna athugasemda sem fram hafa komið við tillögu að breyttu deiliskipulagi í landi Framhaldsskólans á Laugum vil ég taka fram eftirfarandi

1. Eignadeild menntamálaráðuneytis hefur samþykkt fyrirhugaða breytingu,sbr. meðfylgjandi bréf dags. 17. apríl 2007.

2. Framhaldsskólinn á Laugum er mikilvæg stofnun, hvort sem er á héraðs- eða landsvísu. Það er henni nauðsynlegt að hafa öfluga og örugga starfsmenn við skólann. Á sama hátt er nauðsynlegt að þeir starfsmenn hafi öruggt húsnæði fyrir sig og sitt fólk. Skólinn fagnar því mjög, að umræddir starfsmenn vilji taka þá afgerandi ákvörðun að byggja eigið húsnæði og setja sig hér niður til framtíðar, þrátt fyrir mikinn kostnað og fyrirhöfn við húsbyggingu.

3. Allt er breytingum háð. Hið sama gildir um það umhverfi sem maðurinn hefur sett sig niður í. Það var svo þegar Varmahlíð var sett inn í land Laugaskóla, sem umkringir þann blett sem Varmahlíð stendur á. Það breytti ásýnd staðarins á þeim tíma.

4. Fyrirhuguð breyting á deiliskipulagi raskar tilfinningum eigenda Varmahlíðar, þar sem þau tala um verulegt áfall, mikil vonbrigði, verðgildi eignarinnar rýrni, o.sv.frv. Það er skiljanlegt, en hagsmunir Framhaldsskólans á Laugum eru ríkari.

5. Hagsmunir Framhaldsskólans á Laugum eru að hann geti nýtt það eignarland sitt sem hentugt er, til frekari framþróunar og eflingar á starfsemi hans. Það verða að teljast ríkari hagsmunir, að starfsmenn skólans geti búið á svæðinu allt árið um kring, miðað dvöl í sumarbústað sem er takmörkuð við stuttan tíma úr árinu.

Að framansögðu legg ég ríka áherslu á að breyting á deiluskipulagi í landi Framhaldsskólans á Laugum verði samþykkt, svo vöxtur og viðgangur skólans verði ekki ekki heftur.

Virðingarfyllst,

Valgerður Gunnarsdóttir

skólameistari FL

VIÐBRÖGÐ KH VIÐ ATHUGASEMDUM SKÓLAMEISTARA FL 19. júní 2007:

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar

Kjarna

650 Laugum

Varmahlíð 19. júní 2007

Skólameistari FL hefur brugðist við athugasemdum okkar eigenda Varmahlíðar við tillögu að breyttu deiliskipulagi í landi Laugaskóla. Vegna þess sem fram kemur í texta skólameistara hlýt ég að taka fram eftirfarandi:

1.

Það er ekki á valdsviði eignadeildar menntamálaráðuneytisins að samþykkja eða staðfesta umrætt deiliskipulag. Það vald er í höndum sveitarstjórnar eins og kunnugt er. Hins vegar vaknar af þessu tilefni sú spurning hvort bygging og núverandi nýting einbýlishúsanna neðan Varmahlíðar (merkt B5 og B6 á deiliskipulaginu) hafi verið með samþykki eignadeildar ráðuneytisins, en hvorugt þeirra húsa nýtist starfsliði Laugaskóla.

2.

Mikilvægi Framhaldsskólans á Laugum hefur ekki verið dregið í efa af okkar hálfu né heldur nauðsyn þess að búa vel að starfsfólki. Við leggjumst ekki gegn húsbyggingum starfsmanna FL, heldur þeirri staðsetningu sem felst í breytingartillögunni við deiliskipulagið og skerðir hagsmuni okkar í Varmahlíð verulega. Þótt það sé ekki hlutverk okkar að finna þeim byggingum annan stað má e.t.v. í fullri vinsemd velta fyrir sér hvernig ætlunin er að nýta stórt og gott byggingarland fyrir ofan Húsmæðraskólann, túnið neðan við grunnskólann eða þær lóðir sem þegar hafa verið skipulagðar fyrir norðan og ofan Fjall.

3.

Í lið 3 kemur fram sá misskilningur eða ókunnugleiki að Varmahlíð hafi verið “…sett inn í land Laugaskóla”, eins og það er orðað og skráð með feitu letri. Laugaskóli átti aldrei þetta land. Foreldrar okkar keyptu það af Sigurjóni Friðjónssyni á Litlu-Laugum.

4.

Fullyrt er að hagsmunir Framhaldsskólans á Laugum séu ríkari en eigenda Varmahlíðar og má færa rök fyrir því. Það réttlætir þó ekki yfirgang og óbilgirni í annarra garð.

5.

Gert er lítið úr hagsmunum eigenda Varmahlíðar m.a. vegna þess að húsið er um þessar mundir nýtt til sumardvalar. Það gerir okkur þó ekki réttlaus. Bent skal á að Varmahlíð er heils árs hús og einungis framtíðin leiðir í ljós hver nýting þess verður á komandi árum.

Að lokum lýsi ég undrun yfir niðurlagsorðum skólameistara þar sem gefið er í skyn að viðhorf okkar eigenda Varmahlíðar séu fram sett eða til þess fallin að hefta vöxt og viðgang Framhaldsskólans á Laugum. Slík aðdróttun er ómakleg með öllu. Við erum fædd og upp alin hér í Reykjadal og höfum alla tíð sýnt heimaslóðum okkar ræktarsemi og tryggð. Við tengjumst skólasetrinu á Laugum á margvíslegan hátt og stunduðum öll nám í Laugaskóla. Við höfum hvert um sig reynt að vinna skólanum og samfélaginu hér vel, undirrituð m.a. þau 8 ár sem ég gegndi störfum í fjárlaganefnd Alþingis.

Varla sakar að minna á starf móður okkar, Halldóru Sigurjónsdóttur, í Húsmæðraskóla Þingeyinga á Laugum um 36 ára skeið. Og þá er ekki úr vegi að minna á höfðinglegt framlag afa okkar, Sigurjóns Friðjónssonar, til stofnunar og vaxtar Laugaskóla á sínum tíma, eins og lesa má um í Sögu Laugaskóla 1925 – 1988.

En þótt á þetta sé minnt er fullljóst að þær staðreyndir geta ekki ráðið afstöðu sveitarstjórnarmanna í því máli sem hér um ræðir. Sú afstaða hlýtur fyrst og fremst að ráðast af tilliti til hagsmuna allra aðila, sanngirni og vilja til að leita lausnar sem leiði til farsællar niðurstöðu.

Með kveðjum og góðum óskum,

Kristín Halldórsdóttir

LIÐUR 2 Í FUNDARGERÐ SKIPULAGS- OG BYGGINGANEFNDAR 18. júní 2007:

Breyting á deiliskipulagi við Framhaldsskólann á Laugum.

Breytingartillagan var send til birtingar í Lögbirtingarblaðinu 25. apríl (útgáfud. 30. apríl) Auglýsingin birtist í Morgunblaðinu 29. apríl og í Hlaupastelpunni 2. maí. Frestur til að- gera athugasemdir rann út 12. júní og barst ein athugasemd frá eignedum Varmahlíðar, Halldóri Halldórssyni 230734-7399, Svanhildi Halldórsdóttur 010638-7399 og Kristínu Halldórsdóttur 201039-4529. Athugasemdin var undirrituð af Kristínu f.h. eigendanna.

Athugasemdin gengur út á að verði tvær nýjar lóðir skipulagðar á því svæði sem um ræðir muni það rýra verulega gildi lóðar og húss Varmahlíðar sem hefur staðið í rúm 70 ár. Þá er rætt um að svipmót byggðarinnar muni gjörbreytast með húsbyggingum á umræddu svæði og útsýni frá Varmahlíð muni skerðast. Þá nefna eigendurnir að fullyrt hafi verið þegar húsin merkt B5 og B6 voru byggð að ekki yrði byggt ofar í landi Laugaskóla.

Vandséð er að gildi lóðar og húss Varmahlíðar rýrni við það að skipulagðar verði tvær nýjar lóðir og byggð á þeim einlyft hús, þar sem gólfkóti verður um 8 m. lægri en í Varmahlíð.

Þá er byggingareitur a.m.k. 8 m. frá lóðarmörkum.

Ekki verður hjá því komist að bygging tveggja einbýlishúsa breyti ásýnd og umhverfi.

Ugglaust mun útsýni skerðast eitthvað frá því sem nú er úr Varmahlíð, en slíkt hefur gerst á umliðnum árum m.a. með skógrækt.

Umhverfis- og skipulagsnefnd er ókunnugt um þær fullyrðingar að ekki yrði byggt ofar í landi Laugaskóla en húsin sem merkt eru B5 og B6.

Við meðferð málsins hafa borist bréf frá Framhaldsskólanum á Laugum dags. 12. júní 2007 sem og afrit af bréfi Menntamálaráðuneytisins til Framhaldsskólans á Laugum dags. 17. apríl 2007.

Nefndin mælist til að sveitarstjórn staðfesti deiliskipulagsbreytinguna óbreytta og auglýsi hana í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni athugun Skipulagsstofnunar.