Hér eru birtar athugasemdir okkar eigenda Varmahlíðar í Reykjadal, Þingeyjarsveit, við tillögu að breyttu skipulagi í landi Laugaskóla, bæði hinar fyrri og síðari, einnig athugasemdir skólameistara FL og liður úr fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar, sem sveitarstjórn tók upp orðréttan í fundargerð þess fundar þar sem málið var afgreitt.
Í næsta pistli lýsi ég með nokkrum orðum reynslu minni af þessu máli undir fyrirsögninni BITUR REYNSLA Í REYKJADAL.
ATHUGASEMDIR HH, SH OG KH 10.6.2007
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar
Kjarna
650 Laugum
Efni:
Athugasemd við tillögu að breyttu skipulagi í landi Laugaskóla, Reykjadal, Þingeyjarsveit.
Varmahlíð 10.6.2007
Við eigendur Varmahlíðar, Halldór Halldórsson 230734-7399, Svanhildur Halldórsdóttir 010638-4619 og Kristín Halldórsdóttir 201039-4529, andmælum eindregið þeirri breytingu sem felst í framkominni tillögu að breyttu skipulagi í landi Laugaskóla og leggjum til að tillögunni verði hafnað.
Greinargerð:
Í núgildandi deiliskipulagi eru skipulagsmörk dregin við brekkubrún vestan (neðan) við Varmahlíð og gert ráð fyrir skógrækt í brekkunni þar fyrir neðan. Breytingartillagan felur það í sér að skipulagsmörk verði færð alveg upp að lóðarmörkum Varmahlíðar og tvær nýjar lóðir fyrir einbýlishús skipulagðar á viðbótarreitnum. Verði tillagan samþykkt og húsin byggð á þessum reit mun það augljóslega rýra verulega gildi lóðar og húss Varmahlíðar sem hefur staðið þar í rúm 70 ár. Með gildi er ekki aðeins átt við tilfinningalegt gildi, heldur einnig notagildi og verðgildi eignarinnar.
Foreldrar núverandi eigenda Varmahlíðar byggðu húsið og fluttu í það árið 1936. Umhverfi Varmahlíðar hefur vissulega tekið miklum breytingum í áranna rás og byggðin færst sífellt nær. Við því er lítið að segja og gera, en nú þykir okkur nærri okkur höggvið þegar stefnt er að húsbyggingum alveg upp að lóðarmörkum og beint framundan húsi okkar. Færi þá lítið fyrir þeim einkennum og kostum sem alla jafna fylgja dreifbýli umfram þéttbýli.
Það er stór ákvörðun og afdrifarík að setja nýjar byggingar niður á jafn viðkvæmum stað og hér um ræðir og verður því miður ekki séð að nægilega hafi verið hugað að því hve mikil röskunin yrði. Varmahlíð með sínum gróðursæla garði hefur um áraraðir sett sinn svip á byggðina á Laugum. Yrði þrengt að Varmahlíð með húsbyggingum enn frekar en orðið er mundi svipmót byggðarinnar gjörbreytast og raska jafnvægi núverandi umhverfis. Fyrirhugaðar byggingar við túnfót Varmahlíðar, 4,5 m. á hæð samkvæmt skipulagstillögu, mundu gjörbreyta og skerða útsýni frá Varmahlíð og jafnframt gjörbreyta sýn til Varmahlíðar.
Þegar húsin, merkt B5 og B6 á deiliskipulagi, voru byggð var fullyrt að ekki yrði byggt ofar en þau standa. Því veldur þessi breytingartillaga við deiliskipulagið miklum vonbrigðum, enda verður með engu móti séð að nauðir reki til þess að koma upp þéttbýli á þessum litla skika beint framan við Varmahlíð, þar sem í landi Laugaskóla og annars staðar í grenndinni er víða rými fyrir góðar lóðir til húsbygginga án þess að skerða þurfi kosti þeirra sem fyrir eru.
Í ljósi alls þessa yrði það okkur eigendum Varmahlíðar verulegt áfall ef þessar fyrirhuguðu byggingar yrðu að veruleika.
Á heimasíðu Þingeyjarsveitar eru kynnt drög að stefnu sveitarfélagsins með aðalskipulagi svæðisins. Er þar að finna margt gott og athyglisvert sem sýnir ríkan metnað til þess að tryggja lífsgæði íbúanna í anda sjálfbærrar þróunar og má þar m.a. sjá það markmið að byggð falli vel að umhverfi. Ýmislegt sem þarna kemur fram vekur vonir um að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar taki á þessu máli og öðrum með skilningi og virðingu fyrir sjónarmiðum allra aðila.
Við eigendur Varmahlíðar, systkinin Halldór, Svanhildur og Kristín, förum þess eindregið og einlæglega á leit við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að fyrrgreind tillaga að breyttu deiliskipulagi í landi Laugaskóla verði dregin til baka og fundnar aðrar jafn góðar eða betri lóðir handa væntanlegum húsbyggjendum.
Að lokum skal tekið fram að við áskiljum okkur allan rétt til að fylgja málinu frekar eftir ef á þarf að halda.
Fyrir hönd eigenda Varmahlíðar
Kristín Halldórsdóttir
Til upplýsingar:
Undirrituð dvelst í Varmahlíð til júníloka og er með síma 892-7657. Heimasími Halldórs er 462-3720 og gsm 898-3720. Heimasími Svanhildar er 553-7941 og gsm 845-3141.
Sveitarstjórnarmenn eru velkomnir í Varmahlíð til að kynna sér málið frá þeim sjónarhóli.
Með kveðju,
Kristín Halldórsdóttir.
ATHUGASEMDIR SKÓLAMEISTARA FL 12. júní 2007:
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar
Kjarna
650 Laugum
Laugum 12. júní 2007
Vegna athugasemda sem fram hafa komið við tillögu að breyttu deiliskipulagi í landi Framhaldsskólans á Laugum vil ég taka fram eftirfarandi
1. Eignadeild menntamálaráðuneytis hefur samþykkt fyrirhugaða breytingu,sbr. meðfylgjandi bréf dags. 17. apríl 2007.
2. Framhaldsskólinn á Laugum er mikilvæg stofnun, hvort sem er á héraðs- eða landsvísu. Það er henni nauðsynlegt að hafa öfluga og örugga starfsmenn við skólann. Á sama hátt er nauðsynlegt að þeir starfsmenn hafi öruggt húsnæði fyrir sig og sitt fólk. Skólinn fagnar því mjög, að umræddir starfsmenn vilji taka þá afgerandi ákvörðun að byggja eigið húsnæði og setja sig hér niður til framtíðar, þrátt fyrir mikinn kostnað og fyrirhöfn við húsbyggingu.
3. Allt er breytingum háð. Hið sama gildir um það umhverfi sem maðurinn hefur sett sig niður í. Það var svo þegar Varmahlíð var sett inn í land Laugaskóla, sem umkringir þann blett sem Varmahlíð stendur á. Það breytti ásýnd staðarins á þeim tíma.
4. Fyrirhuguð breyting á deiliskipulagi raskar tilfinningum eigenda Varmahlíðar, þar sem þau tala um verulegt áfall, mikil vonbrigði, verðgildi eignarinnar rýrni, o.sv.frv. Það er skiljanlegt, en hagsmunir Framhaldsskólans á Laugum eru ríkari.
5. Hagsmunir Framhaldsskólans á Laugum eru að hann geti nýtt það eignarland sitt sem hentugt er, til frekari framþróunar og eflingar á starfsemi hans. Það verða að teljast ríkari hagsmunir, að starfsmenn skólans geti búið á svæðinu allt árið um kring, miðað dvöl í sumarbústað sem er takmörkuð við stuttan tíma úr árinu.
Að framansögðu legg ég ríka áherslu á að breyting á deiluskipulagi í landi Framhaldsskólans á Laugum verði samþykkt, svo vöxtur og viðgangur skólans verði ekki ekki heftur.
Virðingarfyllst,
Valgerður Gunnarsdóttir
skólameistari FL
VIÐBRÖGÐ KH VIÐ ATHUGASEMDUM SKÓLAMEISTARA FL 19. júní 2007:
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar
Kjarna
650 Laugum
Varmahlíð 19. júní 2007
Skólameistari FL hefur brugðist við athugasemdum okkar eigenda Varmahlíðar við tillögu að breyttu deiliskipulagi í landi Laugaskóla. Vegna þess sem fram kemur í texta skólameistara hlýt ég að taka fram eftirfarandi:
1.
Það er ekki á valdsviði eignadeildar menntamálaráðuneytisins að samþykkja eða staðfesta umrætt deiliskipulag. Það vald er í höndum sveitarstjórnar eins og kunnugt er. Hins vegar vaknar af þessu tilefni sú spurning hvort bygging og núverandi nýting einbýlishúsanna neðan Varmahlíðar (merkt B5 og B6 á deiliskipulaginu) hafi verið með samþykki eignadeildar ráðuneytisins, en hvorugt þeirra húsa nýtist starfsliði Laugaskóla.
2.
Mikilvægi Framhaldsskólans á Laugum hefur ekki verið dregið í efa af okkar hálfu né heldur nauðsyn þess að búa vel að starfsfólki. Við leggjumst ekki gegn húsbyggingum starfsmanna FL, heldur þeirri staðsetningu sem felst í breytingartillögunni við deiliskipulagið og skerðir hagsmuni okkar í Varmahlíð verulega. Þótt það sé ekki hlutverk okkar að finna þeim byggingum annan stað má e.t.v. í fullri vinsemd velta fyrir sér hvernig ætlunin er að nýta stórt og gott byggingarland fyrir ofan Húsmæðraskólann, túnið neðan við grunnskólann eða þær lóðir sem þegar hafa verið skipulagðar fyrir norðan og ofan Fjall.
3.
Í lið 3 kemur fram sá misskilningur eða ókunnugleiki að Varmahlíð hafi verið “…sett inn í land Laugaskóla”, eins og það er orðað og skráð með feitu letri. Laugaskóli átti aldrei þetta land. Foreldrar okkar keyptu það af Sigurjóni Friðjónssyni á Litlu-Laugum.
4.
Fullyrt er að hagsmunir Framhaldsskólans á Laugum séu ríkari en eigenda Varmahlíðar og má færa rök fyrir því. Það réttlætir þó ekki yfirgang og óbilgirni í annarra garð.
5.
Gert er lítið úr hagsmunum eigenda Varmahlíðar m.a. vegna þess að húsið er um þessar mundir nýtt til sumardvalar. Það gerir okkur þó ekki réttlaus. Bent skal á að Varmahlíð er heils árs hús og einungis framtíðin leiðir í ljós hver nýting þess verður á komandi árum.
Að lokum lýsi ég undrun yfir niðurlagsorðum skólameistara þar sem gefið er í skyn að viðhorf okkar eigenda Varmahlíðar séu fram sett eða til þess fallin að hefta vöxt og viðgang Framhaldsskólans á Laugum. Slík aðdróttun er ómakleg með öllu. Við erum fædd og upp alin hér í Reykjadal og höfum alla tíð sýnt heimaslóðum okkar ræktarsemi og tryggð. Við tengjumst skólasetrinu á Laugum á margvíslegan hátt og stunduðum öll nám í Laugaskóla. Við höfum hvert um sig reynt að vinna skólanum og samfélaginu hér vel, undirrituð m.a. þau 8 ár sem ég gegndi störfum í fjárlaganefnd Alþingis.
Varla sakar að minna á starf móður okkar, Halldóru Sigurjónsdóttur, í Húsmæðraskóla Þingeyinga á Laugum um 36 ára skeið. Og þá er ekki úr vegi að minna á höfðinglegt framlag afa okkar, Sigurjóns Friðjónssonar, til stofnunar og vaxtar Laugaskóla á sínum tíma, eins og lesa má um í Sögu Laugaskóla 1925 – 1988.
En þótt á þetta sé minnt er fullljóst að þær staðreyndir geta ekki ráðið afstöðu sveitarstjórnarmanna í því máli sem hér um ræðir. Sú afstaða hlýtur fyrst og fremst að ráðast af tilliti til hagsmuna allra aðila, sanngirni og vilja til að leita lausnar sem leiði til farsællar niðurstöðu.
Með kveðjum og góðum óskum,
Kristín Halldórsdóttir
LIÐUR 2 Í FUNDARGERÐ SKIPULAGS- OG BYGGINGANEFNDAR 18. júní 2007:
Breyting á deiliskipulagi við Framhaldsskólann á Laugum.
Breytingartillagan var send til birtingar í Lögbirtingarblaðinu 25. apríl (útgáfud. 30. apríl) Auglýsingin birtist í Morgunblaðinu 29. apríl og í Hlaupastelpunni 2. maí. Frestur til að- gera athugasemdir rann út 12. júní og barst ein athugasemd frá eignedum Varmahlíðar, Halldóri Halldórssyni 230734-7399, Svanhildi Halldórsdóttur 010638-7399 og Kristínu Halldórsdóttur 201039-4529. Athugasemdin var undirrituð af Kristínu f.h. eigendanna.
Athugasemdin gengur út á að verði tvær nýjar lóðir skipulagðar á því svæði sem um ræðir muni það rýra verulega gildi lóðar og húss Varmahlíðar sem hefur staðið í rúm 70 ár. Þá er rætt um að svipmót byggðarinnar muni gjörbreytast með húsbyggingum á umræddu svæði og útsýni frá Varmahlíð muni skerðast. Þá nefna eigendurnir að fullyrt hafi verið þegar húsin merkt B5 og B6 voru byggð að ekki yrði byggt ofar í landi Laugaskóla.
Vandséð er að gildi lóðar og húss Varmahlíðar rýrni við það að skipulagðar verði tvær nýjar lóðir og byggð á þeim einlyft hús, þar sem gólfkóti verður um 8 m. lægri en í Varmahlíð.
Þá er byggingareitur a.m.k. 8 m. frá lóðarmörkum.
Ekki verður hjá því komist að bygging tveggja einbýlishúsa breyti ásýnd og umhverfi.
Ugglaust mun útsýni skerðast eitthvað frá því sem nú er úr Varmahlíð, en slíkt hefur gerst á umliðnum árum m.a. með skógrækt.
Umhverfis- og skipulagsnefnd er ókunnugt um þær fullyrðingar að ekki yrði byggt ofar í landi Laugaskóla en húsin sem merkt eru B5 og B6.
Við meðferð málsins hafa borist bréf frá Framhaldsskólanum á Laugum dags. 12. júní 2007 sem og afrit af bréfi Menntamálaráðuneytisins til Framhaldsskólans á Laugum dags. 17. apríl 2007.
Nefndin mælist til að sveitarstjórn staðfesti deiliskipulagsbreytinguna óbreytta og auglýsi hana í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni athugun Skipulagsstofnunar.