Vinstri græn á flugi

Um þessar mundir er ákaflega gaman að vera vinstri græn og hefur reyndar alltaf verið. Hver skoðanakönnunin af annarri staðfestir vaxandi stuðning við VG og spáir flokknum allt að þreföldu fylgi frá síðustu kosningum. Slíkt veldur bæði gleði og glímuskjálfta og rétt að muna að mey skal að morgni lofa og úrslit kosninga á kosninganóttu.

Menn velta fyrir sér hvað veldur þessu flugi vinstri grænna og vilja ekki allir samþykkja það sem beinast liggur við, þ.e. að þau eru nú að uppskera eins og þau hafa sáð til. Þau hafa áunnið sér þann orðstír að hafa skýra stefnu og standa við hana hvernig sem vindurinn blæs. Stefna VG og framganga í umhverfis- og náttúruvernd ræður sennilega mestu um vaxandi fylgi, en einnig er ljóst að kvenfrelsismálin skipta mjög miklu máli og ekki síst hvað raddir karla hljóma sterkt innan flokksins, það eflir trú kvenna á að flokkurinn sé heill í þeim efnum. Framboðslistarnir bera það líka með sér og styrkja kvenfrelsisstefnuna.

Keppinautum okkar um hylli kjósenda stendur ekki á sama um þessa þróun og kom það glöggt fram í Silfri Egils í dag þar sem Ögmundur mætti fyrir VG. Þar sat húsvískur framsóknarmaður Hafliði að nafni, Illugi sjálfstæðismaður og Árni Páll úr Samfylkingunni. Allir sem einn jusu þeir úr skálum vanstillingar sinnar í garð vinstri grænna og Ögmundar. Húsvíski framsóknarmaðurinn gneistaði af hatri á þessum skelfilega flokki, Illugi hamaðist við að sverja af sér vinsamlegt viðhorf til vinstri grænna og rifjaði upp gömlu klisjuna um vangetu vinstrimanna í efnahagsmálum, og Árni Páll gat engan veginn leynt gremju sinni í garð vinstri grænna, enda horfir ekki vel með árangur hans í 4. sætinu í Suðvestrinu. Framkoma Árna Páls var honum eiginlega til skammar og afar óskynsamleg með hliðsjón af því að VG og Samfylkingin eiga góða möguleika á samstarfi í næstu ríkisstjórn. Ögmundur hélt sinni ró og yfirvegun og hefur þó áreiðanlega blöskrað ýmislegt sem á honum dundi frá hinum þremur.

Þessi viðbrögð annarra flokka vegna velgengni vinstri grænna eru vissulega skiljanleg þótt lítilmótleg séu og sýna fyrst og fremst áhyggjur vegna þeirra eigin gengisfalls. Þeir eiga bágt með að skilja og hvað þá sætta sig við ástæðurnar fyrir þessari þróun. Þeir ættu að svipast um á heimaslóðum og íhuga stöðuna í eigin flokkum.