Æ, getur´ann ekki þagað – plís!

APRÍLDAGAR 2010

17.4. LAUGARDAGUR

Fallegt veður, glaðasólskin, góðleg ský, en kalt. Mestur hiti 2°.

Í morgun vorum við loksins allar þrjá í kjaftstoppinu í Neslaug, Tóta, Svana og ég. Þær hafa svo miklar reynslusögur að segja af heilsufari, að ég reyni ekki einu sinni að kvarta yfir eigin smámunum. Svana gat svo lýst öllum atburðum afmælisdags Vigdísar, enda sjálf þátttakandi í þeim flestum. Dagurinn sá reyndist drjúgur til að efla byggingarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, og hefur það vafalaust glatt afmælisbarnið mjög.

Spár um öskufall frá Eyjafjallajökli hefur breyst og samkvæmt því hefur dregið úr líkum á öskufalli í áttina að Kaldbak hvað sem síðar verður. Myndir og frásagnir af gosinu og sér í lagi af öskufallinu eru hrollvekjandi. Ég hugsa stöðugt til fólksins sem býr við þessi skilyrði og ekki síst hvernig gengur að sinna skepnunum. Víða munu hestar vera úti í þessum skelfilegu aðstæðum og einnig sauðfé, jafnvel kindur komnar að burði. Og aumingja farfuglarnir nýkomnir til landsins eiga ekki sjö dagana sæla. Þetta er ömurlegt ástand.

Sjálfstæðisflokkur og Samfylking héldu mikla fundi í dag, hvor í sínu lagi að sjálfsögðu, en um sama efni. Rannsóknarskýrslan hefur aldeilis hreyft við samviskunni á ýmsum bæjum og konur ganga grátandi úr ræðustóli, búnar að játa mistök sín og afglöp. Gott hjá þeim að játa, en sennilega ætlast þær til sakaruppgjafar.

18.4. SUNNUDAGUR

Morguninn byrjaði með hagléli, en um miðjan dag var hitastigið 6°. Sólin gægðist fram öðru hverju og rigningin kom til sögunnar að kvöldi.

Við vorum viðstödd borgaralega fermingu í Háskólabíói öðru sinni á ævinni. Katla reið á vaðið á sínum tíma, en í þetta skipti var Kári fermdur. Borgaraleg ferming verður æ algengari og vinsælli með árunum. Athöfnin í dag var sú 21. í röðinni og þurfti að skipta henni í tvennt vegna fjölmennis. Háskólabíó var sneisafullt og dagskráin býsna skemmtileg. Við kunnum ólíkt betur við borgaralega fermingu á vegum Siðmenntar heldur en kirkjulega athöfn.

Anna Halla og Joe komu til landsins í morgun og komu með okkur í veisluna í tilefni fermingarinnar. Þeim fannst mjög gaman að geta tekið þátt í þessum viðburði og hitta ættingjana, börnin og barnabörnin. Kári bauð gesti velkomna með heiðri og sóma og bað þá gjöra svo vel og þiggja veitingar. Þær voru glæsilegar og góðar, allt heimagert og hefði ekki verið betra né glæsilegra úr höndum fagmanna.

Í dag var mikið unnið að því að koma skepnum í skjól fyrir öskunni úr Eyjafjallajökli og hefði þurft að gera gangskör að því fyrr. Ekki er farið að bera á vanhöldum, en skaðinn getur komið fram síðar.

19.4. MÁNUDAGUR

Allhvass á norðan. Hiti mest 2°. Sólskin með köflum. Úrkomulaust.

Jónas var upptekin, svo að ég fór ein í reiðtúr. Sýslaði lengi í hesthúsinu, enda þurfa hestarnir að fá góðan tíma til útivistar. Svo líður mér svo ljómandi vel innan um þá, finnst notalegt að kemba þá og bursta.

Nokkrar breytingar eru á eldgosinu í Eyjafjallajökli. Nú spýtast stærðar glóandi hraunbombur upp úr goskötlunum. Enn er mikið öskufall, en vonast er til að úr því muni nú draga. Ómar Ragnarsson kom í 10-fréttir og sýndi glænýjar myndir beint ofan í gíginn. Magnaðar myndir.

20.4. ÞRIÐJUDAGUR

Hitamælirinn undir frostmarki í morgun og fór ekki yfir 2° yfir daginn. Örlaði á snjókomu nokkrum sinnum, en undir kvöld var hellirigning.

Anna Halla átti afmæli í gær, 19.4., varð 64 ára. Héldum upp á afmælið með góðum hádegisverði í Fiskifélaginu. Fengum þar m.a. svakalega góða fiskisúpu. Fórum svo í leiðangur um ýmis hverfi borgarinnar, þar sem ótrúlegur fjöldi húsa, nýbyggðra eða í byggingu, standa ónotuð. Afleiðingar hrunsins skera í augun.

Ólafur Grímsson virðist vinsæll hjá ýmsum fréttaveitum erlendis. Manni dettur si sona í hug að ástæðan sé sú að hjá þessum manni megi búast við einhverjum bombum. Hann brást ekki vonum frekar en fyrri daginn í viðtali í BBC og sagði m.a. að gosið í Eyjafjallajökli væri eins og létt æfing fyrir komandi Kötlugos. Hann hvatti evrópskar ríkisstjórnir og flugfélög um heim allan til að búa sig undir alvöru hamfarir. Hér heima var lítil hrifning með slíka yfirlýsingu sem ekki er beinlínis líkleg til að laða hingað ferðamenn og fleira í þeim dúr. Alltaf orðheppinn Mr. Grímsson.

Öllu farsælla var viðtal í Kastljósi kvöldsins við Þorvald Þórðarson eldfjallasérfræðing, sem starfar við Háskólann í Edinborg. Hafi bændur og búalið undir Eyjafjallajökli hlustað á mál hans hefur þeim vonandi liðið betur og séð einhverja glætu í myrkrinu. Hann lagði t.d. áherslu á að gjóskan gefur dýrmætan áburð í íslenska jörð og gerir í rauninni mikið gagn þegar fram í sækir.

21.4. SÍÐASTI VETRARDAGUR

Vetur gamli kveður með glans, sýnir sitt besta með skínandi fallegu veðri, nánast heiðríkju. Hitastig mest um 3°.

Drifum okkur á Kaldbak í góða veðrinu að huga að blessuðum hrossunum. Skyggnið var glimrandi. Sáum gosstrókinn upp úr Eyjafjallajökli mjög vel. Veðrið var heldur kaldara á Kaldbak og snjór lá yfir öllu. Gott að komast að raun um að ekki væsir um hestana. Þeir geta viðrað sig í gerðinu og gengið að heyi og góðu vatni í bragganum. Við fluttum 3 hross í bæinn, Loga og Prins úr okkar hópi og Ljósvíking fyrir Ævar.

22.4. SUMARDAGURINN FYRSTI

Þjóðtrúin segir að gæði sumarsins markist af því hvort vetur og sumar frjósi saman aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Getum við nú tekið gleði okkar, því sannarlega fraus hressilega um nóttina. Veður var sólríkt og fallegt í dag, en hitinn fór ekki yfir 2°.

Í morgunsundinu var ýmislegt rætt og sér í lagi um framgöngu forseta vors. Einn hafði heyrt nýkveðna vísu, en mundi nánast ekki annað en rímorðin og lokasetninguna. Ég mátti til með að nota það sem til var:

Þegar sumar við vetur saman frýs

Þá suma það minnir á paradís

En heyrist þá gjammið í Ólafi grís

Æ getur´ann ekki þagað – plís!

23.4. FÖSTUDAGUR

Aftur frysti í nótt og hitastigið fór upp í 5° að deginum. Ágætis veður og lítið vart við rigninguna sem spáð var. Enn síður var vart öskufalls sem óttast var að gæti orðið á höfuðborgarsvæðinu. Keflavíkurflugvelli var lokað í morgun og verður það eitthvað áfram. Akureyrarflugvöllur er nýttur í staðinn.

Björgunarsveitarmenn gengu vasklega fram í gær við hreinsun öskufalls og afleiðingar þess á þeim bæjum og jörðum undir Eyjafjallajökli sem verst hafa orðið úti. Þeir halda verkinu áfram nú og um helgina og slökkviliðsmenn hafa bæst í hópinn. Verður aldeilis annar svipur á bæjunum að verki loknu. Má nærri geta að heimilisfólki á bæjunum verður mikið létt og treysta sér e.t.v. til áframhaldandi búsetu að afstöðnum þessum ósköpum öllum. En mikið er eftir að hreinsa og lagfæra.

Í dag er haldið upp á 20 ára afmæli Bæjarmálafélagsins hér á Seltjarnarnesi. Tveir lærðir kokkar skipa sæti á listanum okkar og fóru létt með að setja fram gómsætar veitingar. Bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir, landsþekktir snillingar, léku djassaðan kokteil á saxafón og rafmagnsgítar sem unun var að njóta. Vel heppnað afmælisboð. Og nú er að vita hvernig okkur gengur í sjöttu kosningabaráttunni.

Og þá má nefna að það var einmitt 23. apríl árið 1983 sem fyrstu kvennalistakonurnar voru kosnar á Alþingi, þ.e. Sigríður Dúna, Guðrún Agnars og ég. Gaman að hugsa til þess.

Hverju reiddust goðin…

APRÍLDAGAR 2010

9.4. FÖSTUDAGUR

Nú er úti veður vott, en vonandi verður ekki allt að klessu! Hitastigið náði 8° og páskaliljurnar eru sáttar við þetta veður, ein sprungin út og fleiri knúppar á leiðinni.

Sindri Snær er 12 ára í dag. Hann fékk margar kveðjur á Facebook og kunni vel að meta það. Við spjölluðum heillengi á skype. Það var létt yfir litlu fjölskyldunni í Kouter-koti í Gent, ýmislegar áætlanir um búðarráp og uppáhaldsmat á veitingahúsi og svo verður fjörinu haldið áfram á morgun. Dóra leggur mikla áherslu á að gleðja prinsana, sem fá hér heima yfirleitt tvær veislur í tilefni afmælis og svo mun víst vera hjá mörgum krökkum. Öðruvísu mér áður brá.

Við Jónas og Lóa stóðum að skítmokstri í hesthúsinu og sannarlega tími til kominn. Allt stóðið sett út í gerði meðan mokstursvélin ruddi skítnum út. Ég stóð mestallan tímann úti í rigningunni og taldi mig vera að koma í veg fyrir að hrossin slösuðu hvert annað, sum þeirra enn á göddum.

Horfði á Garðbæinga vinna Reykvíkinga í Útsvarinu í kvöld. Þetta var lokakeppnin þetta árið og svei mér ef Reykvíkingarnir áttu ekki skilið að tapa úr því að þeir þekktu ekki þann skemmtilega flotta fugl jaðrakan! Það þótti mér aumt.

10.4. LAUGARDAGUR

Þetta kallar maður nú skítaveður. Hvassviðri og mikil rigning með köflum. Hins vegar er hreint ekki kalt, hitinn náði 10°.

Fjölskyldan í Kouter-koti birtist á skype, strákarnir himinlifandi með heimsókn sína í tölvuleikjabúð þar sem þeir gátu keypt 6 leiki í umboði afa og ömmu í tilefni afmælis Sindra. Og Breki nýtur þess að sjálfsögðu með honum! Sindri sýndi okkur vasahníf sem pabbi hans gaf honum og peningaveski frá mömmu. Þau skemmta sér vel þessa dagana. Strákarnir hugsa mikið til sumarsins og hafa talsverðar áhyggjur af því að þeir nái ef til vill ekki að njóta lífsins í Varmahlíð. Skólinn þeirra er ekki búinn fyrr en í júnílok. En koma dagar.

11.4. SUNNUDAGUR

Það rignir og rignir og rignir. En ekki skal kvarta því væntanlega er Móðir Jörð fegin að fá alla þessa bleytu. Talsverð gola og sæmilega hlýtt, hitastigið mest 6°.

“Sagan rennur eins og reyfari…Ítarleg og skýr, falleg og frábærlega hugsuð ævi- og hugmyndasaga ofvitans úr Suðursveit”, segir Páll Baldvin Baldvinsson á baksíðu bókar Péturs Gunnarssonar um Þórberg Þórðarson í forheimskunnarlandi. Lauk við bókina í dag og er enn að melta hana. Fyrir margt löngu reyndi ég að lesa einhverjar af bókum Þórbergs, en gafst upp á þeim nema náttúrlega Sálminum um blómið sem er sér á parti. Ég var lengi að finna taktinn í bók Péturs, en sannarlega er hún glimrandi góð og margt spaugilegt þar að finna.

Reyndar hitti ég einu sinni Þórberg árið 1962 ásamt Sigurði Nordal, þar sem þeir voru að kynna Gráskinnu hina meiri á blaðamannafundi. Þeir voru kúnstugir þessir karlar og afskaplega ánægðir með sig. Þeir vildu endilega gefa mér áritaða Gráskinnu og Þórbergur var á undan að skrá nafn sitt. Ég skildi ekkert í vandræðaganginum í Sigurði þegar hann bjóst til að skrifa sitt nafn, en mér var síðar sagt, að honum hefði þótt lítilsvirðandi að hans nafn stæði ekki ofar nafni Þórbergs. Hann leysti svo vandann með því að bæta neðan við nafn Þórbergs ” …gaf Kristínu Halldórsdóttur þessa bók. Samþykkur Sigurður Nordal.”

12.4. MÁNUDAGUR

Ágætt veður, milt og notalegt. Gleymdi að fylgjast með hitastiginu, en snemma í morgun var það altént um 5°.

Alltaf jafn gaman að fara svokallaðan Rauðhólahring á hestbaki, sérstaklega þegar veðrið er eins gott og í dag. Nú eru kanínurnar farnar að gægjast undan trjánum austan við Rauðavatn og æ fleiri fuglar láta í sér heyra. Heyrði loksins í lóunni í dag, mikið var það gaman.

Annars fór megnið af orku dagsins í að horfa og hlusta á umfjöllun um langþráða rannsóknarskýrslu Alþingis, sem hefur verið í vinnslu í ríflega hálft annað ár. Fylgdist með blaðamannafundi fyrir hádegi, ræðuhöldum flokksforingja á Alþingi seinnipartinn og ríflega tveggja tíma umfjöllun í sjónvarpinu í kvöld. Er harla ánægð með skýrsluna sem er vel unnin og betri en ég átti von á. Í rauninni er þetta stórmerkileg skýrsla. Upplýsandi, skilmerkileg og vægðarlaus. Nefndarmenn skýrðu málin vel. Sérstaklega var gott að hlusta á Sigríði Benediktsdóttur, sem opnaði ýmsar gáttir í sínu máli. Sigríður er kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum og kann greinilega listina að segja frá.

Þessi skýrsla mun reynast góður grunnur að úrvinnslu allra þeirra þátta sem þarf að rekja upp. Framkoma svindlaranna og glæpamannanna eru í raun andstyggilegri en maður hefur gert sér grein fyrir. Það er eins og siðgæðið hafi á einhverjum tímapunkti þurrkast út úr þeirra kolli, hafi það þá einhvern tíma átt þar heima.

13.4. ÞRIÐJUDAGUR

Veðrið var nokkuð gott í dag, en öðru hverju rigndi hressilega. Lóan lét rigninguna ekki spilla góða skapinu og söng sitt dirrindí og bí bí. Snjóhvítar rjúpur trítluðu um Víðidalinn og starrahópur buslaði í pollum. Lífið verður æ skemmtilegra með degi hverjum.

Nú er farið að undirbúa 50 ára stúdentsafmæli okkar sem útskrifuðumst frá MA vorið 1960. Við hittumst allmörg í dag og ræddum málin. Dagskráin er óðum að taka á sig ágætan svip og óhætt að fara að hlakka til afmælishátíðar 15. – 17. júní. Það var ótrúlega gaman að hitta skólafélagana.

14.4. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður, hóflegur vindur, mestur hiti 6°. Fengum eina rigningardembu í reiðtúr dagsins.

Rannsóknarskýrslan fræga og nýhafið eldgos í Eyjafjallajökli keppast um athyglina. Skýrslan er rædd á Alþingi alla þessa viku og oddvitar flokkanna ræddu málin í Kastljósi. Almenningur virðist sáttur við skýrsluna, en stórbokkar hrunsins telja sig órétti beitta. Nýja gosið hefur vinninginn í dag. Margir voru hálfpartinn leiðir þegar leit út fyrir að ferðamannagosið á Fimmvörðuhálsi væri búið að vera. Gosið í Eyjafjallajökli sem hófst í nótt er ekki alveg jafn túristavænt né “huggulegt”. Flóð hafa þanið sig um sunnlenskt undirlendi og öskufall ógnar svæðinu austur af jöklinum.

“Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?” sagði Snorri goði Þorgrímsson á Þingvöllum árið 1000. Ekki að undra þótt einhverjum nú á tímum verði nú hugsað til þessarar fornu athugasemdar Snorra goða.

15.4. FIMMTUDAGUR

Veður svipað og í gær nema rigningin var nánast þrotlaus allan daginn.

Lenti í dekkjavandamáli. Varð að dofla hingað mann sem gat náð sprungnu dekki undan Fordinum mínum, sem Pétur stríddi við lengi gærkvöldsins. Lét segja mér að ástand dekkjanna væri slíkt að ég yrði að fjárfesta í 4 dekkjum. Pjúh, ég treysti mér varla til að segja hvað það þýddi fyrir budduna.

Fundur í 20/20, Sóknaráætlun fyrir Ísland. Ég er ekki ánægð með afgreiðslu tillagna um umhverfismál og náttúruvernd, en fékk litlu um þokað í því efni. Eftir viku verður útvíkkaður fundur um málefnin og óneitanlega spennandi að sjá og heyra hvernig leiðtogum hópanna tekst að skila þessu öllu saman svo að það gagnist.

Vigdís Finnbogadóttir varð áttræð í dag, eða 4×20 ára eins og hún segir sjálf. Henni var sýndur sómi á marga lund frá morgni til kvölds og átti það allt saman skilið. Afmælishátíð í Háskólabíói var sýnd í sjónvarpinu og tókst mjög vel. Hún er alveg makalaus kona og mikils metin.

Þórður og Sóla komu til okkar í brids. Loksins gekk mér bara þó nokkuð vel. Ég er óttalega léleg í sögnum, en tel mig sæmilega færa að spila úr niðurstöðunni. Í kvöld gekk það vel. Fékk m.a.s. alslemm! Það var gaman.

16.4. FÖSTUDAGUR

Háværir og atorkusamir hrafnar vöktu mig eldsnemma í morgun og gáfu engan grið. Og fyrr en varði var komin hellirigning. Svo varð ekki meira af því taginu í dag. Ágætt veður, en kaldara en verið hefur. Vaxandi vindur og hitinn kominn niður í frostmark. Má búast við frosti í nótt.

Við fylgjumst grannt með vindáttum sem stjórna því hvert öskufallið frá Eyjafjallajökli beinist. Mjög líklega sækjum við 2 eða 3 hesta austur á Kaldbak, sem við höfum pláss fyrir í Víðidalnum. Verið er að búa svo um í bragganum á Kaldbak að við getum sett þangað inn hestana sem ekki er hægt að flytja í bæinn.

Þetta andstyggilega öskufall er stórhættulegt skepnum og verður að vona að það standi ekki mjög lengi. Þetta berst ótrúlega víða og hefur orðið að loka flugvöllum víða í Evrópu. Ekki laust við að þessum eldsumbrotum sé bölvað í sand og ösku vítt og breitt um heiminn. Sagt er að Bretar standi nú alveg brjálaðir uppi á húsþökum og gargi upp í vindinn: “We said cash, not ash”.

Náttúran er stundum grimm

APRÍLDAGAR 2010

1.4. SKÍRDAGUR

Enginn vorylur í lofti enn og farfuglarnir láta lítið á sér bera. Sólin skín þó hvern dag hér um slóðir og munar miklu. Vindur hvass og napur. Æstist í kvöld og nú sendir sjórinn hvítfyssandi gusur upp á bakkana.

Fékk ónota hnykk á bakið fyrir 3 dögum og treysti mér ekki á bak, en lét slag standa í dag þótt enn væri ástandið aumt. Hvíslaði í eyrað á Gauki að nú yrði hann að vera extra mjúkur og fínn, og það var eins og við manninn mælt, hann var einmitt alveg sérstaklega mjúkur og fínn!

Enn ein bókin frá. Las eina frá 1965 eftir Mai Sjöwall og Per Wahlöö. Morðið á ferjunni nefnist bókin og fær þá umsögn á kilinum að þetta sé “…stórkostleg bók…sígilt verk” og fleira lofsvert. Merkilegust finnst mér einkunnin “Yndislega harðsnúin og skemmtilega nöpur saga” að mati Harper´s Magazine. Að minni hyggju hefði mátt sleppa lýsingarorðunum. Reyndar vel skrifuð bók og spennandi. Aðallöggan Martin Beck minnir á þann landsfræga Erlend Sveinsson hans Arnaldar Indriðasonar.

2.4. FÖSTUDAGURINN LANGI

Svipað veður og verið hefur. Frost þó heldur minna. Lítilsháttar snjókoma með köflum.

Kristján fór mikla reisu um gossvæðið í gær og tók myndir í hundraðatali, margar feikna flottar. Ekki á hverjum degi sem menn komast í slíka dýrð. Reyndar kunna ekki allir að fóta sig á þessum vettvangi og hafa björgunarmenn nóg að gera við að reyna að hafa vit fyrir ferðafólki og aðstoða slasað og örmagna fólk.

Stórfjölskyldan safnaðist saman á Kaldbak og hélt páskaveislu með hangikjöti og ýmsu góðgæti. Endað á páskaeggjum frá Freyju sem þóttu mjög góð. Mikið fjör í börnunum, sem vöktu lengi fram eftir. Við hin eldri spiluðum brids.

Útigangshestarnir hafa það gott á Kaldbakstúnum og taka vel á móti gestum, einkum þeim sem koma með fulla vasa af gómsætum molum.

3.4. Laugardagur

Fínt veður á Kaldbak, sátum lengi í heitum potti. Einnig ágætt á höfuðborgarsvæðinu, ekki sérlega kalt og hvasst, en él stöku sinnum.

Sýndum gamlar myndir úr okkar fórum á sjónvarpsskjánum. Krakkarnir voru hálf vantrúaðir á að þeir væru í alvöru að horfa á foreldra sína í æskufjöri allt frá tveggja ára til þrítugs! Gaman að rifja upp gömlu góðu dagana.

Við Jónas kvöddum Kaldbak eftir hádegi til að sinna hestunum í Víðidalnum. Öll hin urðu eftir a.m.k. fram á páskadag, enda sérlega notalegt að vera á Kaldbak og krakkarnir kunna vel að meta aðstæður. Áætlaðar voru útrásir hingað og þangað. Skildingar stefndu á Fljótshlíðina þar sem sjá má til eldgossins.

4.4. PÁSKADAGUR

Skínandi fallegt veður, bjart og sólríkt. Kaldbaksfréttir herma að þar sé veður ekki síðra. Bætti í vindinn með kvöldinu og hitinn datt niður fyrir frostmark. Spáð er vondu veðri á Fimmvörðuhálsi.

Eintóm leti þennan fallega Páskadag. Jafnvel hestarnir voru óvenju hæggengir á Rauðhólahringnum.

5.4. MÁNUDAGUR

Aftakaveður hefur verið á Fimmvörðuhálsi í dag og engin umferð um gossvæðin. Hér á suðvesturhorninu var veðrið hins vegar nokkuð hlýtt og gott. Hitinn fór í a.m.k. 6°.

Í kvöld sýndi sjónvarp RÚV myndband frá árinu 2007 af bandarískum hermönnum í þyrlu sveimandi yfir Bagdad. Þeim tókst að myrða a.m.k. 10 óvopnaða almenna borgara og 2 blaðamenn Reuters og hældust um. Særðu auk þess börn sem munu aldrei bíða þess bætur. Þyrlumennirnir voru í stöðugu sambandi við yfirmenn og fengu heimild þeirra til að skjóta fólkið. Töluðu af fullkomnu tillitsleysi um fórnarlömb sín og hæddust að þegar ekið var yfir eitt líkanna.

Kom þetta á óvart? Líklega ekki. Hernaður er andstyggð sem kallar fram hið versta í fari þátttakenda. Ótal dæmi sanna það. Hver atburðurinn rekur annan í Afganistan þar sem almennir borgarar eru miklu fremur drepnir en skæruliðarnir sem erlendir hermenn telja sig eiga að útrýma. Ofbeldi leiðir einfaldlega til meira ofbeldis.

Spurning hvort Davíð og Halldór horfðu á myndbandið í kvöld. Og enn stærri spurning: Hafði það einhver áhrif á þá?

6.4. ÞRIÐJUDAGUR

Bandvitlaust veður eldsnemma í morgun, hvassviðri og snjókoma. Hvasst fram eftir degi og él öðru hverju. Lygndi þegar leið á kvöldið.

Mikil leit hefur staðið yfir frá því í nótt að karlmanni og tveimur konum sem villtust af leið einhvers staðar í grennd við Emstrur. Önnur konan fannst á lífi síðla dags og hafði gengið langan veg. Hin konan fannst látin skömmu síðar. Seint í kvöld fannst svo karlmaðurinn einnig látinn. Náttúran er ekki bara fögur og stórbrotin, hún getur sannarlega líka verið grimm.

7.4. MIÐVIKUDAGUR

Frábært veður í allan dag, hlýtt og vorlegt, sólskin og gola. Ánægjulegur reiðtúr í yndislegu veðri.

Fékk algjört dugnaðarkast í góða veðrinu. Þvoði bílinn sem var orðinn eitt drullustykki. Henti blaðabunkum, fernum og alls konar umbúðum sem safnast höfðu fyrir í þvottahúsinu. Allt vonandi endurnýtt eins og vera ber.

Eftir allan dugnaðinn og súrefnisneysluna gafst ég upp á að sækja býsna spennandi ljóðafund EVG í kvöld, hreint ekki viss um að ég hefði getað haldið mér vakandi.

8.4. FIMMTUDAGUR

Ágætis veður en dálítið óstöðugt. Hitinn fór í allt að 8°. Sólin lét stöku sinnum nægilega á sér bera til að geta aðstoðað rigninguna við að búa til regnboga.

Brugðum okkur austur á Kaldbak og höfðum svona bak við eyrað að renna inn í Fljótshlíðina og kíkja á gosið, en þungbúið loft og lélegt skyggni hamlaði því. Létum nægja að eiga góða stund með hestunum á Kaldbak og dást að álftunum og gæsunum sem þekja túnin á Skeiðum á þessum tíma ársins. Og loksins er tjaldurinn kominn á sinn stað hér á Seltjarnarnesi. Held hann sé kominn með vorið.

Vetrargosar drúpa höfði og eldurinn æsist

MARSDAGAR 2010

28.3. SUNNUDAGUR

Ekki vantaði sólina né fegurð himinsins í dag, en nú blæs Kári mikinn og frostið bítur. Kl. 8 í morgun var frostið -4°. Nú er frostið -6° og máninn fullur.

Heldur dró úr ákafa fólks að þramma Fimmvörðuhálsinn þennan daginn, enda mikil vindkæling til viðbótar við frostkulið. Björgunarsveitarmenn hafa væntanlega verið fegnir minni umferð í dag, því þeir þurftu að aðstoða fólk langt fram eftir síðustu nótt. Fólk var margt alveg að gefast upp af þreytu og kulda, hafði ekki gert sér grein fyrir hversu erfitt er að ganga á fjallið í snjónum og kuldanum.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur var í Vikulokunum í RÚV í gær ásamt Kolbrúnu Halldórs og Jóni Steindóri hjá Samtökum iðnaðarins. Kolbrún var mjög góð, en merkilegast var að hlusta á Harald sem er feikilega fróður og segir frá af eldmóði. Ánægðust var ég að heyra hann taka þjóðina í gegn fyrir það hvernig farið hefur verið með okkar dýrmætu náttúru, sem er okkar mesta og mikilvægasta auðlind. Hér hefur verið allt of langt gengið í eyðileggingu að mati Haraldar. Það á að vernda náttúruna sagði hann og lagði áherslu á rannsóknir og vísindastörf í miklu meiri mæli en verið hefur. Mætti ná eyrum virkjanafíklanna.

29.3. MÁNUDAGUR

Veðrið svipað og í gær, fallegt en hvasst og kalt. Engin úrkoma hefur verið nýlega og jörðin orðin þurr og hörð. Við slíkar aðstæður fara brennuvargar á kreik og kveikja sinuelda. Einmitt það er nú byrjað og þegar búið að skemma stór svæði.

Jóhanna Sigurðardóttir er nú ekki fyndnasta manneskjan á landinu, en ansi var skemmtileg athugasemd hennar á fundi Samfylkingarinnar um helgina. Hún var svolítið mæðuleg yfir Vinstri grænum, sem ekki eru jafn léttir í taumi og hún ætlast til, og upplýsti að þetta væri eins og að smala köttum þegar hún vildi fá samstöðu um einstök málefni! Lá við að eldgosið hyrfi í skuggann af þessu snilldarinnleggi forsætisráðherru í umræður dagsins. Vinstri græn tóku gríninu með bros á vör og Guðfríður Lilja skrifaði gæðapistil á Smuguna undir heitinu Komdu kisa mín.

30.3. ÞRIÐJUDAGUR

Sama veður áfram nema heldur kaldara, -5° í morgun, -6° um miðjan dag og svipað í kvöld. Þó virðist enn kaldara en verið hefur, því nú hefur vindur aukist og er ferlega napur.

Ég var svo heppin að vera á ferðinni í morgun upp úr kl. 9 og heyrði þá kunnuglega rödd í útvarpinu. Náði þar með að hlusta á næstum allt viðtal Steinunnar Harðardóttur við Danfríði Skarphéðinsdóttur í þættinum Okkar á milli. Erindið við sýslumanninn varð að bíða meðan ég hlustaði til enda. Danfríður var á þingi fyrir Kvennalistann 1987 – 91. Hún kenndi þýsku bæði fyrir og eftir þingsetuna, en hefur nú um langt skeið starfað í umhverfisráðuneytinu. Þetta var gott og skemmtilegt viðtal.

Ingileif Thorlacius var jarðsungin í dag, en hún lést 22. mars. Dómkirkjan var þétt setin. Sigríður systir hennar söng ein með sinni fallegu rödd og Hamrahlíðarkórinn söng einnig af sinni alkunnu snilld. Erfidrykkjan var hjá Ásdísi og Kristjáni á Kleifarvegi 8. Systurnar höfðu tekið að sér undirbúninginn af miklum myndarskap. Glæsilega gert.

Í kvöld var framhaldsaðalfundur Bæjarmálafélagsins. Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir voru með okkur í kvöld, en þær sátu í efstu sætum listans síðustu 2 kjörtímabil. Þeim voru afhent blóm og þakkað fyrir vel unnin störf. Neslistinn er nánast fullbúinn og var stjórninni falið að ljúka málinu. Undirrituð fær enn einu sinni þann mikla heiður að verma neðsta sætið.

31.3. MIÐVIKUDAGUR

Enn er sama veðurlagið og aumingja vetrargosarnir drúpa hnípnir höfði.

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi er hreint ekki í rénun. Ný sprunga myndaðist á gosstöðvunum í kvöld skammt frá núverandi sprungu. Jarðfræðingar og fleiri viðstaddir horfðu beinlínis á sprunguna opnast, sem gerðist án minnsta fyrirvara. Hefði getað farið illa þar sem fólk var mjög nálægt. Starfsmenn Almannavarna aðstoðuðu fólk snarlega við að komast burt af svæðinu og fengu margir óvænt far með þyrlum til öruggari svæða.

Kristján er einmitt að fara í leiðangur að gossvæðinu í fyrramálið sem vafalaust verður mikil upplifun.

Þar rauður loginn brann

MARSDAGAR 2010

22.3. MÁNUDAGUR

Ágætis veður, hiti nær 5°, allsterkur vindur, sem æstist þegar leið að kvöldi.

Gosið á Fimmvörðuhálsi er ofarlega í hugum manna sem vonlegt er. Verst að það er slæmt veður á þessum slóðum, talsvert hvasst og snjókoma öðru hverju og því heldur erfitt að fylgjast nógu vel með. Gosið hefur verið frekar pent til þessa, en nú er sagt að virknin sé að aukast hægt og bítandi. Við fylgjumst með veðurspám, því ef áttir breytast gætum við þurft að huga að hestunum á Kaldbak og jafnvel setja þá inn í braggann.

23.3. ÞRIÐJUDAGUR

Í nótt var grenjandi hvassviðri, en stilltist undir morgun. Þá var komið 6° hiti, sólskin og merkilega hlýr vindur sem blés þó fast. Rokið reif þök af húsum undir Eyjafjöllum, en stórir skaðar virðast ekki hafa orðið.

Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu á Fimmvörðuhálsi og enn gerir veðrið vísindamönnum erfitt fyrir að komast í gott færi til athugana. Tókst þó að ná í sýnishorn af ýmsu tagi. Ágætar myndir voru sýndar í sjónvarpinu í kvöld. Veðurstofan er með upplýsingar í sérstöku hólfi þar sem hægt er að fylgjast með þróun gossins og skoða myndir sem teknar voru úr flugvél. Ég lít öðru hverju í hólfið.

Í kvöld var fundur í Bæjarmálafélaginu þar sem ætlunin var að kynna og samþykkja framboðslista félagsins. Í gærkvöldi kom hins vegar babb í bátinn, þar sem framsóknarfólk hélt fund og ákvað að bjóða fram sinn eigin lista. Var svo sem löngu ljóst að framsókn var í almennri fýlu yfir niðurstöðum prófkjörsins 20. febrúar sl. þar sem þeirra kandídatar fengu ekki það brautargengi sem þeir töldu sig eiga skilið. Nokkur úr þeirra röðum mættu á fundinn, lýstu yfir ákvörðun sinni og kvöddu. Þeir báðu ekki afsökunar á þeirri tillitssemi að upplýsa það fyrst núna mánuði eftir prófkjörið að þeir yrðu ekki með á Neslistanum. Enginn bilbugur er á Neslistafólki og verður fullbúinn framboðslisti kynntur innan fárra daga.

24.3. MIÐVIKUDAGUR

Gott veður, hiti mestur 8°. Lítið var um skúrirnar sem Veðurstofan spáði, en einhvers staðar hefur rignt í kapp við sólina því stór og fallegur regnbogi skreytti himininn.

Þetta bjarta og fallega veður var kærkomið þeim sem þráðu að komast nær eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Þangað streymdu vísindamenn og fréttamenn og margir aðrir. Þyrlur og litlar flugvélar hringsóluðu umhverfis svæðið, og nú er víða hægt að njóta mynda og myndskeiða af þessum náttúruhamförum. Magnað að sjá hraunrennslið sem fellur sem foss niður í Hrunagil. Þar rauður loginn brann, eins og segir í kvæðinu góða.

25.3. FIMMTUDAGUR

Bílgluggarnir voru þaktir hrími í morgun, enda logn og hitamælirinn sýndi aðeins 1° kl. 7:30. Veðrið var þó aldeilis prýðilegt í allan dag. Mestur hiti 8°.

Átti langt spjall á skype í morgun við Sindra, Breka og Dóru. Strákarnir hafa verið veikir í heila viku og alls ekki orðnir nógu frískir, enn með hálssærindi og hósta. Sindri fékk um 40° hita einn daginn og Breki fékk líka mikinn hita. Þeir misstu matarlist og sváfu mikið. Hins vegar voru þeir mjög duglegir í gær, þegar mamma þeirra þurfti að fara í vinnuna. Þá sáu þeir bara um sig sjálfir og Sindri bjó til kvöldmat handa þeim. Gaman að spjalla við piltana.

Eftir góðan reiðtúr í dag fórum við með hestana til Katrínar á Dýraspítalanum. Allt var í góðu lagi með þá nema Storm sem ég hafði einmitt áhyggjur af. Hann var farinn að hrasa talsvert og ekki jafn hress og viljugur og áður. Í ljós kom að hann er með bólgu í vinstri afturfæti og svolítið haltur. Fékk sprautu og er nú kominn í 10 daga frí.

Mikill fjöldi fólks streymir austur til að sjá eldgosið, ýmist á bílum eða flugvélum. Margir leggja á sig langa göngu upp á Fimmvörðuhálsinn og margir fara á snjósleðum. Marsela fór með samstarfsfólki sínu í gærkvöldi að sjá eldgosið og var stórhrifin. Birtist svo á sjónvarpsskjánum í fréttunum í kvöld og leyndi ekki hrifningunni.

Lóan er komin! Til hennar sást og heyrðist á Höfn í Hornafirði um hádegisbilið. Nokkrir stelkar sáust þar í gær og æ fleiri farfuglar eru farnir að sýna sig. Því miður er spáð kuldatíð á næstunni, en vonandi láta fuglarnir það ekki á sig fá. Lóan hefur nú einu sinni það hlutverk að kveða burt snjóinn og leiðindin.

26.3. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður. Svolítið hvasst og kaldara en verið hefur. Mest 5°. Úrkomulaust og sólskin með köflum.

Helst að frétta af eldgosinu á Fimmvörðuhálsi að enn rennur hraun niður í Hrunagil, en nú einnig niður í Hvannárgil. Fjöldi fólks hefur notað góða veðrið til að virða fyrir sér eldgosið og mun vafalaust haldið því áfram þótt spáð sé hvassara og kaldara veðri. Ég læt mér nægja að fylgjast með þessu öllu saman í sjónvarpinu og á netinu.

Sex rjúpur trítluðu um grasbalana framan við hesthúsið okkar í Víðidalnum. Sami fjöldi og við sáum oft um þetta leyti í fyrra. Kannski þær viti að þeim sé óhætt á þessum slóðum og líka ýmislegt hægt að tína í goggin í ríki hestanna.

Var að ljúka býsna sérstæðri glæpasögu eftir Michael Connelly með því hugnanlega heiti Blóðskuld. Ekki nokkur leið að geta sér til um glæpamanninn fyrr en í bláendann.

27.3. LAUGARDAGUR

Sólríkur dagur, heiður himinn, sterkur vindur, kalt. Hitinn náði reyndar 2°, en reikna má með frosti í nótt.

Stormur er sáttur við að vera skilinn eftir þegar við förum í reiðtúr dagsins, enda setjum við 2 hesta út í gerðið til hans svo að honum leiðist ekki.

Kristján er 46 ára í dag, fæddist á föstudaginn langa 1964. Við heimsóttum fjölskylduna á Birkigrund eftir reiðtúrinn og fengum dýrindis pönnukökur svo sem hæfir slíkum hátíðisdegi. Ég er alltaf jafn undrandi á því hvað tíminn líður og afkomendurnir eldast á pappírnum, þótt ekki hái þeim ellimörkin. Þau eru annars staðar, en ráðið gegn þeim er að horfa sem sjaldnast í spegil!

Biskupslaun, herþotusveit, eldgos

MARSDAGAR 2010

15.3. MÁNUDAGUR

Ágætt veður, skýjað en úrkomulaust, lítill vindur, mestur hiti um 5°.

Vetrargosinn hefur nú opnað blómknappana hér og þar í beðum.

Vorlegur blærinn fyllti okkur bjartsýni og við lengdum reiðtúrinn upp í brekkur og móa. Komumst að raun um að víða er þar mikil bleyta og drulla og varla að búast við þurrum götum fyrr en um miðjan apríl. Sem sagt einum of bráðlát. Góður túr engu að síður.

Smugan er býsna lífleg og venst vel. Hún segir lesendum helstu fréttir og vísar einnig á fréttir á öðrum vefritum auk þess að benda á sitt af hverju í bloggheimum. Gaman að lesa greinar Ásgeirs H. Ingólfssonar um menninguna og Fastir pennar hafa skilað góðum greinum. Steinsmugan og Myndsmugan lífga upp á og mættu birtast oftar.

16.3. ÞRIÐJUDAGUR

Rigning mikinn hluta dagsins. Mestur hiti 7°. Stóðst mátið að fara á bak.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar pistil á Smugunni í dag undir fyrirsögninni Guð og Mammon. Þar segir m.a.:

“Í fundargerð Prestafélags Íslands frá því 18. febrúar segir frá áhyggjum presta af því að laun biskups Íslands séu óeðlilega lág en þau eru um 800 þúsund á mánuði eða álíka og laun ráðherra landsins. Þessi laun telja prestarnir ekki samræmast stöðu biskups meðal embættismanna þjóðarinnar.

Svo virðist sem virðing embættisins sé í húfi og hún sé bundin við þau verðmæti helst sem mölur og ryð fá grandað.

Nú er þess ekki krafist að biskup metti fimmþúsund með tveimur fiskum og fimm brauðum, en er til of mikils mælst að hann láti þessar 800 þúsund duga til að halda andlitinu meðan það er kreppa í landinu.

Ef að almenningur væri beðinn um að meta traust og tiltrú á kirkjunni, ætli laun biskups væru honum þá efst í huga eða boðskapur kirkjunnar og hlutverk í samfélaginu?”

Góð ádrepa.

17.3. MIÐVIKUDAGUR

Veðurspáin gerði ráð fyrir hægu veðri , sólskini a. m. k. til hálfs og 8° hita. Ekki stóðst það nema kannski hitastigið. Nokkur vindur var og rigning með köflum. Svona er lífið, ekki alltaf fyrirsjáanlegt, jafnvel ekki hjá veðurfræðingum.

Fréttablaðið segir í dag frá áformum um staðsetningu einkarekinnar herþotusveitar á Miðnesheiði. Frá því var reyndar sagt á RÚV í október sl. og urðu furðu lítil viðbrögð nema af hálfu Samtaka hernaðarandstæðinga, sem lýstu þeirri afstöðu í formlegri ályktun að starfsemi af þessu tagi ætti ekkert erindi hér á landi. “Málaliðaher eins og hér um ræðir er eitthvert auvirðilegasta fyrirbæri mannlegrar tilveru. Markmið rekstursins er að þjálfa hermenn í að drepa fólk í fjarlægum og fátækum löndum. Er það vilji íslensku þjóðarinnar að hafa slíka iðju að féþúfu?” sagði m.a. í ályktun hernaðarandstæðinga.

Fréttin í október drukknaði fljótt í öllum hrunaumræðum landsmanna og hafa kannski margir afgreitt þetta sem bull og vitleysu. Nú virðist ljóst að áfram hafi verið unnið að þessu verki og a.m.k. Björgvin G. Sigurðsson þingmaður og fleiri úr kjördæmi Suðurlands fylgst með málinu. Hann hefur lýst því yfir fjálglega að verkefnið sé mikið og gott atvinnumál fyrir Suðurnes sem hann segist styðja heilshugar. Sennilega hefur hann fullkomlega gleymt því sem stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að Ísland skuli verða vettvangur friðarumræðu og vinna að afvopnun í heiminum.

Upplagt að skoða www.eca-program.com/ Þetta mál hlýtur að fá ærlega umfjöllun í ríkisstjórn og á Alþingi.

18.3. FIMMTUDAGUR

Oftast er veðrið hvað best á morgnana. Svo var þennan morgun, yndislegt veður, 5° hiti og sólin gyllti skýin. Fljótlega upp úr 9 kom svo rigning. Mestallan daginn var þó ágætis veður og aðeins lítilsháttar skúraleiðingar.

Fórum Rauðhólahringinn. Hestarnir voru svo viljugir og sprettharðir að þeir blésu eins og fýsibelgir þegar heim var komið. Þeir réðu ferðinni og hafa í rauninni gott af því að taka hressilega á.

Dóra er hin kátasta um þessar mundir, komin með kúnna á Aspria-stöðinni í Belgíu og væntanlega bara á grænni grein. Undirbúningurinn hefur tekið óratíma, en nú er allt að smella saman. Henni finnst mjög gaman að vinna þarna og starfsfólkið hefur tekið henni afar vel. Sindra og Breka finnst þetta líka spennandi, fara stundum með mömmu sinni á vinnustaðinn. Þeim gengur alltaf betur og betur í skólanum í Gent svo að þeir eru ekki síður á grænni grein.

19.3. FÖSTUDAGUR

Hrím á rúðum bílsins í morgun. Fallegt veður, logn og sólskin, 2° hiti og allt að 4° þegar leið á daginn og tók þá vindur að blása. Gott veður þó allt til kvölds, en þá kom hellirigningin sem Veðurstofan spáði.

Fréttablaðið segir í dag frá nýrri skoðanakönnun um fylgi flokkanna. Kemur þar í ljós hið alræmda gullfiskaminni kjósenda, því hrunflokkurinn sjálfur fær 40,3% þeirra sem afstöðu taka í könnuninni. Samkvæmt henni tapa Vinstri græn 1 þingmanni og Framsókn sömuleiðis, en Samfylkingin 5 þingmönnum. 40 % aðspurðra vilja hins vegar engu svara um sína afstöðu.

Rakst á skemmtilega vísu hjá Gísla Ásgeirssyni á Málbeininu, svohljóðandi:

40 % flokkurinn

sem fábjánar landsins velja

þannig er ljóst í þetta sinn

að Þráinn kann ekki að telja.

Þráinn Bertelsson er einn Smugupenna. Í dag fjallar hann um “Hernaðarfyrirtækið E.C.A. sem geggjuðustu kjördæmapotarar og frjálshyggjufífl landsins vilja setja niður á Keflavíkurflugvelli”. Þráinn dregur forsvarsmenn þessa undarlega hernaðarfyrirtækis sundur og saman í háði og gefur til kynna að kannski sé þetta eftir allt saman óbein friðarstofnun! Þráinn orðheppinn að vanda.

20.3. LAUGARDAGUR

Komið vorjafndægur. Sólin skein fyrri hluta dagsins, hitinn náði 7°. Seinnipartinn þykknaði upp og rigndi svolítið. Það merkilega er að yfirleitt rignir ekki fyrr en við höfum lokið reiðtúrum dagsins. Þannig var einnig að þessu sinni.

Heyrði dásamlega sögu í kjaftstoppinu í dag. Rétt að skýra það aðeins með kjaftstoppið. Við Svana hittumst yfirleitt í sundi á laugardagsmorgnum og spjöllum saman að sundi loknu. Það kallar Svana kjaftstopp. Hún ætti að benda séra Pétri á þetta nýyrði, eða öllu heldur gamalyrði í nýrri meiningu.

Kunningi okkar, Jón Sigurðsson frá Ystafelli, segir okkur gjarna eitthvað skemmtilegt við þessi tækifæri og í þetta sinn barst talið að foreldrum hans. Móðir hans er hress eldri kona, einkar jákvæð og þakklát fyrir allt hið góða í lífinu. Eftir hrunið kom í ljós að hún hafði illu heilli farið að ráðum stúlku, svokölluðum ráðgjafa í bankanum hennar. Hún fékk hana sem sagt til að ávaxta sparifé sitt í dágóðri summu hlutabréfa. Svo kom fjárans hrunið og þar með fauk það sem átti að tryggja gömlu konunni áhyggjulausar ævistundir. Jón var ekki par hrifinn af útreið móður sinnar, en sú gamla sagði: “Ég ætla að kaupa blómvönd og færa henni Guðrúnu (held ég muni nafnið rétt), því ég er viss um að hún er mjög leið yfir þessu”. Móðir Jóns er eina manneskjan sem ég veit til að hafi vorkennt ráðgjafa sínum meira en sjálfri sér.

21.3. SUNNUDAGUR

Bálhvasst, en þokkalega hlýtt. Mestur hiti 6°. Alskýjað og talsverð rigning með kvöldinu.

Eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi um miðnætti og hefur átt athyglina í allan dag. Flottar myndir náðust af gosinu úr flugvélum sem sveimuðu nálægt gosinu þrátt fyrir slæmt veður. Þótti heppni að eldurinn braust út mitt á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls og orsakaði þar með ekkert flóð. Hins vegar er ekki útilokað að jörðin rifni frekar og nái undir jökul. Þá erum við minnt á að hvert sinn sem eldgos hefur orðið í Eyjafjallajökli hefur Katla ekki getað setið á sér og sú eldstöð er öllu hættulegri. Engu er þó hægt að spá um framhald umbrota.

Spaugstofan hefur blómstrað í hruninu mikla og skýtur eiturörvum allt um kring. Í gærkvöldi sló hún sjálfa sig út með meinfyndnu leikverki í Chaplinstíl. Svo góðu að ég sá ástæðu til að horfa á það aftur í kvöld.

Tek hestana fram yfir málþing

MARSDAGAR 2010

8.3. MÁNUDAGUR

Vorblær í lofti, hiti allt að 8° í dag. Fuglar sungu og litlar flugur fjögruðu yfir mér í sundinu. Gaman að finna hvernig allt er að lifna við í blíðunni sem nú ríkir.

Stakk niður túlípanalaukum sem Pétur og Marsela komu með frá Hollandi. Gaman að vita hvernig þeir dafna hér sunnan undir.

Ýmislegt var gert í tilefni af baráttudegi kvenna 8. mars. Það óvæntasta og vafalaust af tilviljun var þegar fimm karlmenn frá Litháen voru dæmdir til fimm ára fangelsisvistar fyrir mansal og ofbeldi. Það verður að teljast til stórtíðinda að tekið er loks á slíkum glæpum hér á landi. Enda var verjandinn gáttaður og gaf í skyn að Hæstiréttur myndi sýkna þessa þokkapilta eða að minnsta kosti stytta verulega fangelsisvist þeirra. Því miður yrði margur hreint ekki hissa á því. Dómarar í þeim merka rétti hafa ærið oft sýnt furðu mikla meðaumkun með glæpamönnum af þessu tagi.

Rosa fjör í hestunum. Þurfti að hafa mig alla við að missa þá ekki á stökk. Er annars mjög ánægð með mína. Gaukur alltaf jafn mjúkur og hörku viljugur, sérlega góður ferðahestur. Stormur hefur til þessa oft verið nokkuð lengi að mýkjast, nú er hann allt í einu miklu viljugri, mýkri og öruggari. Það er svo gaman að upplifa framfarir og árangur hestanna. Áhugi og þrautseigja er galdurinn.

Gauti og Júlía giftu sig í gær og létu skíra tvíburana. Þau heita Svanhildur Hafdís og Arnaldur Svanur. Ömmurnar héldu þeim undir skírn. Mikil hamingja í fjölskyldunni.

9.3. ÞRIÐJUDAGUR

Svipað veður, sami hiti, ögn meiri rigning.

Við fengum okkur hádegismat á nýjum veitingastað, sem heitir Gló. Er ekki alveg búin að átta mig á nafninu, en þetta er mikið heilsufæðihús, enda “Solla græna komin á Gló”, eins og sagt er á síðunni www.glo.is Athyglisverður staður sem býður upp á hráfæðirétti, alls konar grænmeti, kryddjurtasósur og villtar frumskógarhnetur svo að eitthvað sé nefnt. Mér fannst ég svaka hress og heilsusamleg að lokinni máltíð.

Stígamót heldur upp á 20 ára afmæli sitt. Stóð m.a. að ráðstefnu um rannsóknir kynferðisbrota, þar sem fjöldi fólks lagði orð í belg. Mínar kæru baráttusystur, Guðrún Jónsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir höfðu mikilvægu hlutverki að gegna á ráðstefnunni, enda hafa þær unnið stórvirki í þessum málaflokki. Játa að ég skammast mín svolítið fyrir að mæta ekki. Er orðin fundafælin á síðustu árum. Tek hestana fram yfir fundi og málþing. En ég er rosalega montin af Guðrúnunum og reyndar mörgum öðrum úr hópnum okkar, sem enn eru að vinna að hugsjónum okkar um betri heim, vinna gegn ranglæti og ofbeldi, gegn launamisrétti og öðru kynjamisrétti. Baráttunni verður seint lokið, þótt Kvennalistinn hafi unnið þrekvirki.

Sat yfir 20/20 hugmyndunum sem kostaði bæði heilabrot og höfuðverk. Ekki vandi að mæla með mínum eigin tillögum, sem flestar varðar náttúruvernd og umhverfismál. En það er meira en að segja það að velja 20 hugmyndir af hátt í 200. Það hafðist þó að lokum og verður spennandi að sjá niðurstöður á næstunni.

10.3. MIÐVIKUDAGUR

Nú hljóp aldeilis fjör í veðurguðina. Hiti kringum 6°. Milt og gott, en hellirigning öðru hverju. Hvert skipti sem ég sagði við sjálfa mig að þetta væri nú ekki svo slæmt og alveg hægt að fara á bak, þá trylltist regnstjórnandinn og sendi þétta dembu yfir okkur. Ojæja, las heilt blað meðan hestarnir fengu sér sturtubað í gerðinu. Síðla dags stytti upp.

Fór með Kristínu í fimleika, henni fer sífellt fram. Gaman að horfa á krakkana sem hlaupa og stökkva, teygja sig á alla enda og kanta og sveifla sér á ránum. Minnir á gömlu dagana í leikfimi hjá Óskari á Laugum.

Og svo fullyrða fjölmiðlar að Ögmundur verði aftur ráðherra. Vonandi gengur það eftir. Ögmundur með alla sína reynslu og færni á auðvitað að vera ráðherra. Það mun styrkja ríkisstjórnina og samstarf VG og Samfylkingunnar. Og þá ættu þessir flokkar að hafa aukinn kraft til að vinna að öllum þeim málum sem ekki hefur tekist að sinna vegna sundurþykkju og kjaftæðis á Alþingi.

11.3. FIMMTUDAGUR

Sérstakt veður í dag. Þokan var þétt í morgun og fram að hádegi, logn og sæmilega hlýtt, hiti 2-3° fyrri hluta dagsins. Sólin braut sér öðru hverju leið gegnum þokuna og þó ekki alveg. Umhverfið var sveipað dulúð. Um hádegið rofaði til og hitinn fór upp í 6°, en síðla dags þéttist þokan aftur.

Veðrið var fínt í Víðidalnum. Við skelltum okkur Rauðhólahring á hestunum, sem tóku heldur betur sprettinn. Allt var eitthvað svo vorlegt og skemmtilegt, vantaði bara fuglasönginn. Hrafnarnir eru á vaktinni og greinilega ekki í útrýmingarhættu. En það er stutt í farfuglana. Yrði ekki hissa þó tjaldurinn léti brátt í sér heyra.

Hagyrðingar hlutu að grípa tækifærið við atkvæðagreiðsluna á laugardaginn var, en lítið hefur verið frá því sagt. Rakst þó á eina stöku á baksíðu DV, nokkuð góða. Sú var skráð á atkvæðaseðil sem þar með varð ógildur. Stakan er svohljóðandi:

“Hvað hefur fólkið á kjörstað að gera?

Kjósa um eitthvað sem ekki er til?

Jú, Bjarna og Sigmund úr snöru að skera,

skarfa sem ég hvorki vil eða skil.”

12.3. FÖSTUDAGUR

Veður svipað og í gær nema þokan mun minni.

Café Loki nefnist lítið veitingahús á Lokastíg 28 í Reykjavík. Matstofan er á annarri hæð með glæsilegt útsýni á Hallgrímskirkju og umhverfi. Fengum hádegisverð þar í dag, góðan, ódýran og léttan í maga. Punkturinn yfir i-ið var rúgbrauðsís. Hefði ekki getað ímyndað mér að hann væri svona góður. Gaman að hitta þarna konuna sem ræður ríkjum á þessum skemmtilega stað. Hún heitir Hrönn Vilhelmsdóttir og starfaði með Kvennalistanum í gamla daga, sem er náttúrlega mikill kostur! Og eiginmaðurinn bakar bæði flatbrauð og rúgbrauð fyrir gesti og gangandi.

Frétti að hjónin á Birkigrund hefðu haldið uppi fjölmiðlum landsins í gær og fyrradag, svo að ég leitaði á Netinu og fann þau. Katrín tók á móti fuglafræðingum með örn í miklum umbúðum. Þetta er reyndar assa, sem hefur verið í fóstri í Húsdýragarðinum um skeið og þurfti á læknishjálp að halda. Katrín deyfði sjúklinginn og skar á eymslin sem höfðu að geyma mikinn gröft. Þetta birtist sem sagt í fréttum Stöðvar 2 og verður nú að vona að össu batni og geti farið að huga að fjölgun stofnins.

Þá mætti Kristján í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Þeir Kristján og Sigmundur Einarsson skiluðu af sér miklu verki í nóvember sl. um mat á háhitasvæðum með tilliti til verndargildis. Að þeirra mati eru 9 svæði mjög sérstök og mikilvæg, ekki aðeins hér á landi heldur á heimsmælikvarða. Starf þeirra lagði grunninn að niðurstöðum skýrslu Rammaáætlunar 2, sem var nýlega birt. Það vakti mörgum furðu að faghópur Rammaáætlunar 2 komst að talsverðu leyti að annarri niðurstöðu um verndargildi svæða en jarðfræðingarnir og má þar nefna Gjástykki, Reykjanes, Grændal og Brennisteinsfjöll. Kristján fór yfir og skýrði aðferðafræðina við mat þeirra Sigmundar, og mátti vel greina að ekki var hann sáttur við meðhöndlun faghópsins svokallaða. Var þó bæði hógvær og kurteis eins og hann á kyn til!

13.3. LAUGARDAGUR

Yndislegur vordagur um miðjan mars! Logn og blíða. Mestur hiti 8°. Sólskin með köflum.

Mikil umferð í Víðidalnum, allir að njóta góða veðursins. Eins gott því nú er búist við rigningu á morgun.

Nýlega birtist frétt á Mbl.is með yfirskriftinni “Friðlýsing Gjástykkis vopn gegn álveri?”. Fréttin segir frá tillögu umhverfisráðherra um friðlýsingu Gjástykkis og viðbrögðum nokkurra heimamanna. Yfirskriftin er að sjálfsögðu gildishlaðin og hefði allt eins verið hægt að spyrja: “Álver á Bakka vopn gegn friðlýsingu Gjástykkis?”.

Ómar Ragnarsson er óþreytandi í baráttunni fyrir verndun náttúruverðmæta landsins. Hann brást við þessari frétt og sagði m.a. eftirfarandi: “Hin raunverulega ástæða þess að leggja verður öll náttúruundur undir er sú fráleita stefna að leita að svo risastórum og fáránlega orkufrekum kaupanda að náttúruverðmæti heilu landshlutanna séu undirlögð”. Og: “Ef um væri að ræða fleiri og skaplegri kaupendur, sem henta einmitt vel varðandi jarðvarmavirkjanir, væri staðan ekki sú sem hún er.”

14.3. SUNNUDAGUR

Rigning, ýmist úði eða mikil rigning. Lítill vindur, hiti 5-6°. Svipað veður á Kaldbak. Gái alltaf að því hvernig veðrið er á hestunum okkar þar upp frá.

Fór í stutta reiðtúra þrátt fyrir rigninguna og varð reyndar rennandi blaut. Stormur var lítið hrifinn og vatt upp á sig við hvert tækifæri, hefur líklega ætlast til frídags. Gaukur brá hins vegar ekki út af venjunni og tölti mjúkt og rösklega í rigningunni.

Var að ljúka lestri bókar Böðvars Guðmundssonar: “Enn er morgunn”. Mikið drama og vel skrifað eins og búast mátti við. Saga Böðvars er sögð byggja á sönnum viðburðum. Því miður þekki ég ekki þá viðburði né það fólk sem þar hefur komið við sögu. Auðvitað er stór hluti sögunnar tilbúningur, en við útkomu bókarinnar varð einhver hvellur meðal þeirra sem til þekkja. Þeim þótti höggvið að sér. En hvað um það, mér líkaði bókin vel.

Halastjarna á Hálsi

MARSDAGAR 2010

1.3. MÁNUDAGUR

Ögn hlýrra veður í dag, en sterkur vindurinn var þó napur. Hitastig ýmist ofan eða neðan við frostmark.

Smugan er aftur komin á kreik og veri hún velkomin. Hún átti svolítið bágt síðustu mánuði, en nú er hún mætt til leiks hress og endurnærð.

Smugan er skilgreind sem umræðu- og fréttavettvangur fyrir vinstrisinnað fólk, umhverfissinna og jafnréttissinna. Þetta vefrit byrjaði feril sinn hressilega seinni hluta ársins 2008 undir stjórn Bjargar Evu Erlendsdóttur, en í fyrrasumar urðu erfiðleikar vegna breyttra aðstæðna sem tók alltof langan tíma að lagfæra. Meðal annars þótti rétt að hressa upp á útlit Smugunnar og er það nú gjörbreytt. Held að það venjist vel.

Nýr ritstjóri Smugunnar er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, Ásgeir H. Ingólfsson sér um menningarumfjöllun og Ingólfur V. Júlíusson um ljósmyndir. Allt hið besta fólk og óhætt að gera sér vonir um góða framtíð Smugunnar.

2.3. ÞRIÐJUDAGUR

Skikkanlega hlýtt í veðri, lítilsháttar snjókoma, sólskin um miðjan daginn.

Veðurlagið minnti reyndar öðru hverju á hvers það er megnugt og ég reiknaði ekki með útreiðartúr þennan daginn. Stóðst þó ekki mátið þegar ég kom upp í hesthús og fór svokallaða trippahringi með vini mína, Gauk og Storm. Nú hafa þeir nefnilega lagt nægilega af til þess að ég geti spennt á þá hnakk og er því ekki lengur háð kröftum hestasveinsins.

Sund að morgni og útreið um miðjan dag. Er hægt að hafa það öllu betra?

Ný könnun Capacent Gallup upplýsir að Vinstri græn hafi nú meira fylgi en Samfylkingin. VG fær stuðning 25.5% aðspurðra, en Samfylkingin 23%. Verða nú ýmsir fúlir innan Samfó. Framsókn fær ríflega 14% og Sjálfstæðisflokkur er nú sagður njóta 32% fylgis og þar með stærstur flokka.

Við þessu mátti búast. Sérhagsmunafólk hættir ekki svo glatt að trúa á frjálshyggjuna og fjöldinn allur af fólki hefur bitið í sig þá firru að aðeins sjálfstæðismenn hafi vit á efnahagsmálum! Það hljómar vissulega sérkennilega eftir allt sem á undan er gengið, en gullfiskaminnið er ríkt í mörgum. Oft á árum áður var fylgi þessa flokks vel yfir 40%. Við skulum vona að a.m.k. 10–14% kjósenda haldi sönsum næstu árin.

3.3. MIÐVIKUDAGUR

Veður svipað og í gær. Hiti yfir frostmarki mestallan daginn, en um kvöldið snjóaði.

Skemmtilegur fundur í 20/20 hópnum, sem fjallar um hugmyndir og aðgerðir til þess að efla lífsgæði, heilbrigði og jöfnuð á landinu. Þetta ágæta fólk fer á flug á hverjum fundi og yrði margt til bóta hér, ef eitthvað af þeim gullkornum yrði að veruleika. Þorvaldur Þorsteinsson tók góða rispu í dag um stöðu menningar og lista og veitir ekki af.

Við fengum í nesti hátt á annað hundrað tillögur og hugmyndir sem búið er að safna saman frá þessum hópum og mörgum öðrum hér og hvar af landinu. Er okkur nú gert að fara vel yfir þessi verk og meta hvað við teljum brýnast og gagnlegast að setja í forgang. Verður ekki vandalaust að velja 20 tillögur úr þessu mikla safni, eins og fyrir okkur er lagt.

Katla hefur fengið jákvætt svar frá Cornell University. Þá veit maður hvar hana verður að finna næstu 5 eða 6 árin. Hún á eftir að læra mikið og standa sig vel eins og hingað til. Hún er hörkugóð námsmanneskja. Vona bara að hún festi ekki endanlega rætur í Bandaríkjunum.

4.3. FIMMTUDAGUR

Lítið varð úr rigningu og slyddu sem spáð var. Stuttaralegar skúrir, allt meinlaust og ekki reiðtúrum til trafala. Hitinn fór upp í 5°.

Veitingahúsinu Friðriki fimmta hefur verið lokað og þykir ekki gleðiefni. Þetta athyglisverða veitingahús var sett á laggirnar fyrir 9 árum, ef ég man rétt, og sló í gegn sökum frumleika og gæða. Hjónin Friðrik V. Karlsson og Arnrún Magnúsdóttir ráku Friðrik fimmta og buðu þar upp á nýstárlegan mat og notaleg húsakynni. En væntanlega hefur Akureyri ekki verið nægilega stór fyrir þennan stað. Við Jónas borðuðum þar tvisvar þegar við vorum þarna á ferð og líkaði vel.

Hins vegar er ég hrifnari af Halastjörnunni, litlu veitingahúsi í gömlu sveitabýli í Öxnadalnum, Hálsi undir Hraundranga. Þar er ekki um margt að velja, en það gerir minnst til, allt er firna gott sem á boðstólum er hverju sinni. Aðstæður, matseðil, myndir o. fl. má sjá á www.Halastjarna.is

Þegar ég kom á Halastjörnuna í fyrsta skipti tók Rúnar Marvinsson á móti mér og vinkonu minni. Hann sá um matseldina nokkra daga í forföllum aðalkokksins. Og þvílík veisla!

5.3. FÖSTUDAGUR

Dumbungsveður fram eftir degi, stöku sinnum lítil rigning. Hitastig um 6°. Síðla dags herti vind og undir kvöld fór að rigna mikið.

Mikil taugaveiklun og ergelsi er í gangi vegna atkvæðagreiðslunnar um Icesave á morgun. Málið snýst um lög nr. 1/2010, sem samþykkt voru á Alþingi um áramótin, en forsetinn neitaði að staðfesta með undirskrift sinni, enda höfðu 50 – 60 þúsund manns skorað á hann að gera svo. Það kallaði vitaskuld á allsherjar atkvæðagreiðslu mörgum til ama, en einnig þóttust ýmsir geta hrósað happi. Vafalaust hafna flestir lögunum, en óljóst er hvað þá tekur við.

Eini jákvæði punkturinn við þetta inngrip forsetans er sá, að nú verður ekki hjá því komist að taka á óljósu ákvæði stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvernig á að fara með hugsanlega neitun forseta gagnvart lögum Alþingis? Hvernig leyfist forseta í raun að fara með slíka heimild? Á heimildin að gilda gagnvart öllum málum eða ber að hafa undanþágur? Hvernig á að undirbúa og framkvæma þjóðaratkvæði? Allt þetta þarf að gaumgæfa vel og vandlega og raunar nauðsynlegt að endurskoða ekki aðeins þetta ákvæði í stjórnarskránni, heldur öll ákvæði hennar. Fyrr en síðar.

6.3. LAUGARDAGUR

Hitastig 2 – 3°, rigning öðru hverju og talsverður vindur. Mikið hefur greinlega rignt í nótt því allur snjór og ís voru horfnir. Um kvöldið fór svo aftur að snjóa.

Svartþröstur heimsótti okkur ofurlitla stund, flottur karlfugl með sterkgula gogginn sinn. Gaman að sjá svartþröst sem er farinn að venja komur sínar til landsins

Verðlaun Blaðamannafélags Íslands voru afhent í dag. Fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2009, fyrir bestu umfjöllun ársins 2009 og blaðamannaverðlaun ársins 2009. Síðastnefndu verðlaunin fékk Jóhann Hauksson, blaðamaður á DV fyrir umfjöllun um fall ríkisstjórnarinnar (þ.e. Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar) og þýðingarmiklar fréttaskýringar um mikilvæg þjóðfélagsmál, eins og það var orðað.

Jóhann er ötull blaðamaður og vafalaust vel að verðlaunum kominn. Hins vegar dregur það úr trúverðugleika hans sem blaðamanns hvernig hann óskapast í bloggskrifum og greinaskrifum í DV, þar sem hlutleysi fær engan aðgang. Þar er áberandi reiði, heift og hneykslun. Hann er Samfylkingarmaður og hefur tæpast stjórn á sér gagnvart Vinstri grænum, sem hann kennir um allt sem miður fer að hans dómi. Hann túlkar einlæga framgöngu fólks sem sviksamlega þjónkun við stjórnarandstöðu. Að hans dómi á fólk innan sama þingflokks að þegja og hlýða því sem æðsti stjórnandi ákveður.

7.3. SUNNUDAGUR

Hitastig frá 2 – 4°. Dálítill vindur, stundum rigning, stundum hríð.

Afmælisveisla í Skildinganesi. Kristín 8 ára í dag. Hún var ósköp sæl með úrið sem við gáfum henni, langaði einmitt í úr til að læra betur á klukku.

Þjóðaratkvæðagreiðslan fór sem við var að búast. Í Silfri Egils í dag rifust formenn flokkanna eins og kjánar. Framganga þeirra gefur ekki bjartar vonir um samvinnu og lausn mála. Ríkisstjórnin er svolítið beygluð eftir atkvæðagreiðsluna og getur sjálfri sér um kennt. Það blasti auðvitað við að gleðipinnarnir í stjórnarandstöðunni myndu hælast um og túlka niðurstöður allar sér í hag. Held þó að ríkisstjórnin lifi enn um sinn.

Tvennt þyrfti hún að gera sér til upplyftingar: Í fyrsta lagi þarf hún að stokka upp í ríkisstjórninni, það er nánast lífsnauðsynlegt. Í öðru lagi, sem er reyndar enn brýnna, verður hún að skikka bankana til að nota peningana sem fylla allar skúffur og skápa til að leysa fólk úr skuldafjötrum. Það hreinlega verður að færa skuldir heimilanna niður. Félagsmálaráðherra hefur miklar áhyggjur af því að þá fái einhverjir aðstoð sem ekki þurfa á henni að halda. Ég hef engar áhyggjur af því fólki. Ég hef áhyggjur af þeim sem eru að missa allt sitt og gefast upp. Þeim verður að hjálpa.

Sjónvarpið sýndi Draumalandið í kvöld. Sá það á sínum tíma með kökk í hálsi og ekki var hann minni núna. Þeim sem ábyrgð bera á illri meðferð dýrmætrar náttúru verður ekki fyrirgefið á þeirri forsendu að þau hafi ekki vitað hvað þau voru að gera. Þau vissu það upp á hár og gáfu skít í náttúruna. Þeim verður aldrei fyrirgefið.

Spurðu ekki hvað aðrir geta gert fyrir þig

FEBRÚARDAGAR 2010

22.2.MÁNUDAGUR

Enn gluggaveður, heiðríkt, nokkuð hvasst, frostið -5° að morgni, úrkomulaust.

Fórum frábæran þeysisprett kringum Rauðavatnið, sem er að sjálfsögðu ísilagt eins og flest vötn um þessar mundir. Rifjast stundum upp fyrir mér þegar við fórum eitt sinn ríðandi yfir vatnið ísilagt. Skyndilega rann Gaukur minn til og datt á hliðina og ég náttúrulega með. Gaukur lá skamma stund sallarólegur, en brölti svo á fætur og þá sá ég hvers kyns var, hann hafði misst skeifu. Og skeifulaus hestur er ekki lipur á ís. Við röltum því saman heim í hús. Hef ekki stundað ístölt síðan.

Mannsi kominn með gangráð. Fékk undanfarið ár öðru hverju köst sem ekki tókst að útskýra þrátt fyrir alls konar rannsóknir. En nú fyrir helgina fékk hann svo enn eitt kastið – þá staddur hér fyrir sunnan – og gekk á ýmsu þangað til sérfræðingar ákváðu loksins að rétt væri að setja í hann gangráð því þetta virtist greinilega tengjast hjartanu. Er hann nú vonandi laus við þessu hvimleiðu köst, enda á leiðinni til Kanarí eftir rúma viku með Siggu og nokkrum kunningjum þeirra. Læknarnir vita af því og eru búnir að samþykkja þá fyrirætlun. Eins gott að gangráðurinn góði vinni sitt verk.

23.2. ÞRIÐJUDAGUR

Veðrið nákvæmlega eins og í gær nema að vindurinn æstist nokkuð þegar leið á kvöldið.

Ég heyri æ fleiri lýsa því yfir að þau séu hætt að lesa og hlusta á fréttir. Staðreyndin er sú að endalausar fréttir af svindli og siðleysi græðgiskarla (og stöku kvenna) eru farnar að valda fólki gríðarlegum ónotum og vanlíðan. Það er ömurleg reynsla að komast að raun um hvílík spilling og siðleysi hefur fengið að búa um sig í landinu okkar í fullkomnu afskiptaleysi þeirra sem áttu að gegna eftirliti.

Mikið vildi ég að unnt væri að safna saman öllum auðjöfraskúrkum þessa lands og komið þeim fyrir þar sem þeir hvorki sæust né heyrðust í nokkur ár, að því tilskildu auðvitað að þeir skiluðu þýfi sínu, hvar sem það er að finna á undanbragðaeyjum og skattaskjólum. Því fé ætti að skipta milli þeirra sem verst eru settir eftir þetta ömurlega “góðæri” sem hér var í boði græðgissjúkra frjálshyggjugaura.

Í staðinn fyrir Guð blessi Ísland ætti svo hver og einn að segja við sjálfan sig á hverjum morgni: Spurðu ekki hvað aðrir geta gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir aðra. Amen!

24.2. MIÐVIKUDAGUR

Dagurinn hófst með kunnuglegu veðurfari, vindur í skikkanlegu hófi, frost -6°, sólarglenna. Síðla dags var orðið lágskýjað mjög og fór að snjóa. Nálægt miðnætti hafði þykkt hvítt teppi lagst yfir allt. Og enn snjóar.

Veðurstofan segir að nokkuð hafi snjóað í Hrunamannahreppi í dag. Því ber að fagna þótt einhverjum kunni að þykja það undarlegt. En staðreyndin er að frostið og þurrkurinn undanfarna daga eru farin að hindra aðgang útigangshrossanna að drykkjarvatni. Ár og lækir ísilögð og ekki einu sinni snjór til að svala þorstanum. Sem betur fer er þetta ekki slæmt núna á Kaldbak.

25.2. FIMMTUDAGUR

Lárétt stórhríð mestallan daginn. Rofaði þó til öðru hverju. Nokkur hreystimenni skokkuðu eftir sjávarbakkanum hér fyrir neðan með hríðina í fangið. Þeim er ekki “flysjað” saman, eins og gull af konu sagði eitt sinn. Frostið mun hafa farið í -8°.

Verð að viðurkenna að ég var svolítið treg að koma mér í morgunsundið. En að sjálfsögðu var það jafn gott og hressandi og alla aðra morgna, þótt skaflar væru í útiklefanum, önnur sturtan frosin og skítkalt að labba berfætt í snjónum eftir laugarbakkanum. Morgunsundið er ALLTAF ómissandi. Og hana nú!

Snjóskaflar í Víðidalnum. Óðum upp í klof til að komast um svæðið og hleypa hestunum út. Þeir undu sér bærilega í snjónum, en um reiðtúra var ekki að ræða.

Matvælastofnun minnir hestamenn á skyldur sínar til að fylgjast vel með hrossum á útigangi og tryggja að þau hafi aðgang að vatni. Gott hjá þeirri stofnun að bera umhyggju fyrir dýrum rétt eins og mönnum.

26.2. FÖSTUDAGUR

Veður hægara í dag, minni vindur, minni snjókoma, minna frost.

Brugðum okkur í reiðtúr. Hestarnir létu eins og þeir hefðu ekki fengið að spretta úr spori síðan í janúar, höfðu þó aðeins fengið frí frá okkur einn dag. Þetta eru hressir fákar. Páll Steingrímsson, sá stórmerki kvikmyndagerðarmaður, átti leið hjá og tók myndir af okkur í flugstartinu. Hvort þær verða notaðar í næstu kvikmynd á hans vegum spurði ég ekki!

Lauk við Minnisbók Sigurðar Pálssonar í gær. Bókin fjallar um veru og nám Sigurðar í París á þann hátt að maður nýtur þess alls með honum. Hún er stórskemmtileg, einkar vel skrifuð og oft svo fyndin að ég skellti upp úr. Stundum fyndin, hugljúf og dapurleg í senn, eins og frásögnin af Gertrud, fallegri og stórgáfaðri kisu sem tók sér bólfestu í leiguíbúð hans í París. Mæli með þessari bók.

27.2. LAUGARDAGUR

Ágætt veður að morgni, en rauk svo upp nær hádeginu. Mikill hvellur öðru hverju allan daginn, hvasst og stórkarlaleg hríð. Snjó hefur kyngt niður.

Fákur var búinn að auglýsa ísmót á Rauðavatni í dag og átti að verðlauna sigurvegara í ýmsum flokkum með peningum, og fleira var í boði. Greinilega hafði orðið að aflýsa þeim áformum, en í þess stað fór fram einhvers konar keppni á Brekkuvellinum að viðstöddum fjölda bíla, sem væntanlega hafa verið setnir áhorfendum. Hefur varla verið mjög skemmtilegt né notalegt. Sá varla í kappana á vellinum þegar við ókum framhjá.

Ég fylgdist með Edduhátíðinni á Stöð2 í kvöld. Þekkti reyndar ekki margt af því sem virðist njóta mikillar hylli um þessar mundir, svo sem Fangavakt og Bjarnfreðarson. Hins vegar gladdi mig að Draumalandið var valið heimildarmynd ársins, en í þeim hópi voru margar góðar myndir. Athyglisvert hversu margir viðstaddir jórtruðu tyggjó af miklum móð, örkuðu jafnvel tyggjandi upp á sviðið og héldu því áfram meðan þeir þökkuðu fyrir sig. Ferlega hallærislegt. Er þetta fólk að reyna að dylja áfengisþef eða hvað?

28.2. SUNNUDAGUR

Hvasst og kalt, úrkomulaust, hitastig sveiflaðist kringum frostmarkið.

Stórfjölskyldan borðaði saman sunnudagsmatinn og spjallaði margt. Alltaf jafn gaman að hitta þetta góða fólk okkar. Vantaði bara belgíska hópinn.

Horfði á skemmtilega heimildarmynd Dúa J. Landmark í sjónvarpinu. “Úti í mýri” nefnist myndin sem tekin er í Friðlandinu í Flóa, en um það má einnig fræðast á www.fuglavernd.is Þetta var skemmtileg mynd, sem kveikti löngun hjá mér að skoða Friðlandið. Kannski kemst það í verk að vori.

Norðurljós í afmælisgjöf

FEBRÚARDAGAR 2010

15.2. MÁNUDAGUR

Rumskaði nú Þorri gamli og blæs hvössum vindi um land allt. Frost er reyndar ekki mikið og sums staðar fer hitastigið jafnvel upp fyrir frostmark.

Katla fékk enn einu sinni samfallið lunga. Var lögð inn á sjúkrahús um helgina og gerð aðgerð á henni í dag. Allt gekk vel og er nú bara vonandi að ekki verði fleiri slíkar uppákomur. Þetta kvað iðulega henda háar og grannar persónur og var hún ekki ein um angur af þessu tagi þegar hún mætti á Bráðamóttökunni. Þar var einnig mættur hár og grannur íþróttamaður með samfallið lunga.

Hörmulegt lestarslys varð skammt frá Brussel í morgun, allmargir látnir og enn fleiri slasaðir. Fegin að Dóra hringdi til að láta vita af sér. Manni hættir til að ímynda sér hið versta.

Og nú er enn ein nefndin farin á vit Hollendinga og Breta að reyna að semja um Icesave. Steingrímur leyfði sér að segja fréttamanni RÚV að hann væri hóflega bjartsýnn á árangur. Það gaf Sigmundi Davíð ástæðu til að furða sig á því að Steingrímur væri að tjá sig um þetta mál meðan það væri í gangi. Steingrími láðist greinilega að biðja Sigmund leyfis!

16.2. ÞRIÐJUDAGUR

Ljómandi veður þennan daginn, hiti mest um 3°, heiðríkt, sólríkt, saklaus vindur. Og nú fengu hestarnir að spretta úr spori í góða veðrinu.

Heimsótti Kötlu á spítalann. Hún lá með óþægilegar slöngur í kroppnum, umkringd bókum og blöðum og var að horfa á Sherlock Holmes í tölvunni. Vonast til að batna svo á morgun að hún geti farið að ljúka verkefni í lífefnafræðinni. Hefur væntanlega gott af því að neyðast til að hvílast svolítið. Hún er lítið fyrir droll hún Katla mín og hættir til að ganga svolítið fram af sér í dugnaðinum.

Pétur og Marsela komu heim úr tveggja vikna reisu í kvöld. Höfðu staldrað við hjá Dóru og strákunum í Gent, dvöldust nokkra daga í Luxemborg, nokkra í Trier og enduðu í Amsterdam. Hrifust af öllum þessum stöðum, en þótti reyndar býsna kalt í Evrópu. Veðurfar hefur verið óvenjulegt á þeim slóðum þennan veturinn.

17.2. MIÐVIKUDAGUR

Nú er frost á Fróni og má búast við framhaldi þess næstu daga. Sólin skein glatt í allan dag og tryggði heimsins fegurð út um glugga. Frostið og vindurinn hjálpuðust að við kælinguna og virtust ætla að hirða af okkur puttana í reiðtúrnum kringum Rauðavatnið.

Marsela er 28 ára í dag. Þau Pétur keyptu extra gott í matinn, en þá fór Gaggenau í fýlu og vildi ekki leggja sitt af mörkum til hátíðamatarins. Nú þarf að hafa upp á rafvirkja á morgun. Veðurguðirnir sendu Marselu einhver stórfenglegustu norðurljós sem hún hefur nokkurn tíma séð á allri sinni 28 ára ævi. Þetta er afmælisgjöf til mín, sagði hún og sat í heita pottinum lengi kvölds heilluð af dýrð himinsins, sem hún fékk í afmælisgjöf.

18.2.FIMMTUDAGUR

Enn herðir frostið, var -9° í morgunsundinu. Orðið bjart kl. 9 í morgun, skýin roða slegin. Og ekki versnaði veðrið í dag, en mikið fjári var kalt.

Katla er komin heim af spítalanum og líður sæmilega og a.m.k. fegin að vera laus við slöngur og dren. Hún fer svo í eftirlit eftir helgi.

Frést hefur af sigurgöngu Andra Snæs með Draumalandið vítt og breitt um heiminn. Draumalandið hefur víða fengið mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda. Í umfjöllun Variety segir skv. Fréttablaðinu að í Draumalandinu komi fram “tilfinningaþrungin, sjónræn og mælskuleg rök sem setji umhverfis- og efnahagsleg vandamál Íslands í sögulegt sanmhengi, sérstaklega eftir að bankahrunið varð 2008.” Gagnrýnandi Art Threat í Kanada segir Draumalandið eina bestu umhverfismynd allra tíma og er það ekki slæm umsögn.

Andri Snær hefur unnið stórkostlegt þrekvirki við gerð Draumalandsins í samstarfi við Þorfinn Guðnason. Alltof fáir hérlendis kunna að meta það sem þessir snillingar

hafa gert. Þeir eru vitaskuld ekki þeir einu sem hafa staðið vörð um náttúru landsins á umliðnum árum, en þeirra framlag er afar mikilvægt. Vonandi kemur að því að nógu margir skilji og skynji þá einstöku og ómetanlegu náttúru sem land okkar geymir og okkur hefur verið falin til varðveislu.

19.2. FÖSTUDAGUR

Hávaðarok, sjórinn hvítfyssandi og jós upp á sjávarbakkana. Sólin skein fram að hádegi og skýin í hörku stuði! Frost -3°. Um miðjan dag var snjókoma og skafrenningur, sem stóð reyndar stutt. Ekki varð af útreiðartúrum.

Rafvirkinn kom og gerði við mr. Gaggenau. Var heilsu hans ákaft fagnað. Þvílíkt hvað maður er bjargarlaus þegar rafmagnstæki bila.

Horfði á síðasta þátt Attenborough um fugla “The Live of Birds”, sem ég fékk í jólagjöf. Þessir þættir eru náttúrulega hrein snilld og óskaplega skemmtilegir á að horfa. Ég læt þætti Attenborough´s ekki fram hjá mér fara og man ekki til þess að þessir um fuglana hafi verið sýndir í sjónvarpinu. Þeim mun skemmtilegra að sjá þá núna.

20.2. LAUGARDAGUR

Fremur stillt veður, sólarlaust og -2° frost.

Við systur hittumst oftast í sundlauginni á laugardögum og ræðum landsins gagn og nauðsynjar. Nú er Svana hins vegar að gæta Mímis Fróða Óttarssonar, sem er á öðru ári. Í staðinn fékk ég vænan skammt af ævisögu Lúðvíks. Hann er orðinn 96 ára og gerir helmingi yngri körlum skömm til. Syndir á hverjum morgni, stundar gufu og heita potta. Gengur rösklega, beinn í baki og stígur ekki feilspor. Er fílhraustur, en orðinn sjóndapur og heyrnarsljór. Missti móður sína fjögurra ára. Fór að heiman til Reykjavíkur og sá um sig sjálfur frá fermingaraldri. Stýrði hesti og kerru með mjólkurbrúsa til verslana og í hús á degi hverjum. Lærði síðar til smíða og segist aldrei hafa keypt neitt nema eiga fyrir því. Hefur lítið álit á skynsemd nútíma kynslóða.

Í dag fór fram prófkjör Bæjarmálafélags Seltjarnarness vegna vals frambjóðenda á Neslistann í sveitarstjórnarkosningunum að vori. Prófkjörið var opið öllum Nesbúum sem hafa öðlast kosningarétt 29. maí nk. Þátttakan var góð.

Bæjarmálafélag Seltjarnarness var stofnað 23. apríl 1990 og hefur starfað óslitið síðan þá. Tveir listar hafa verið í boði á Nesinu allt frá stofnun Bæjarfélagsins, þ.e. Neslistinn og listi Sjálfstæðisflokksins, sem hefur frá upphafi haft meirihluta í sveitarstjórn Seltjarnarness. Í þetta sinn verða framboðslistarnir hins vegar þrír, þar eð Samfylkingin ákvað að bjóða fram sér og hefur þegar haldið sitt prófkjör.

Við vorum 7 við talninguna, sem gekk mjög vel og var bæði skemmtileg og spennandi. Niðurstaðan var bindandi fyrir 1. og 2. sæti. Þrír kepptu um 1. sætið, sem Árni Einarsson hreppti. Annað sætið hlaut Brynjúlfur Halldórsson, sem er einn okkar ágætu félaga í VG. Það má því nærri geta að ég var harla ánægð með niðurstöðuna.

21.2. SUNNUDAGUR

Skafheiðríkt í morgunsárið, hvasst og kalt. Frost -2°.

Í dag er konudagur, einn af þeim dögum sem tryllir kaupahéðna. Auglýsingar hafa dunið á landsmönnum alla liðna viku þar sem reynt er að hvetja karlmenn til að gefa konum eitthvað fallegt á konudaginn, skartgripi eða eitthvað annað nógu dýrt. Sjálfsagt hafa ýmsir efni á því, en þeir eru líka margir sem berjast í bökkum – eða bönkum – og hafa engin fjandans ráð á að kaupa skartgripi dýrum dómum í tilefni dagsins.

Þetta auglýsingafargan í tilefni einhverra daga færist sífellt í aukana, og dugir nú ekki lengur bóndadagur og konudagur. Ekki er langt síðan farið var að pota amerísku hrekkjavökunni, Halloween, inn í íslenska menningu með tilheyrandi kröfum, og Valentínusardeginum verður varla undan vikist eftir skipulagða markaðssetningu í kringum þann dag. Ég gef lítið fyrir þessa nýju daga. Í þeirra stað hefði alveg mátt viðhalda yngissveinadeginum og yngismeyjadeginum sem nú eru flestum gleymdir. En það er ágætt að viðhalda þeim gömlu, bóndadegi og konudegi, þeir varða veginn til vorsins.