Biskupslaun, herþotusveit, eldgos

MARSDAGAR 2010

15.3. MÁNUDAGUR

Ágætt veður, skýjað en úrkomulaust, lítill vindur, mestur hiti um 5°.

Vetrargosinn hefur nú opnað blómknappana hér og þar í beðum.

Vorlegur blærinn fyllti okkur bjartsýni og við lengdum reiðtúrinn upp í brekkur og móa. Komumst að raun um að víða er þar mikil bleyta og drulla og varla að búast við þurrum götum fyrr en um miðjan apríl. Sem sagt einum of bráðlát. Góður túr engu að síður.

Smugan er býsna lífleg og venst vel. Hún segir lesendum helstu fréttir og vísar einnig á fréttir á öðrum vefritum auk þess að benda á sitt af hverju í bloggheimum. Gaman að lesa greinar Ásgeirs H. Ingólfssonar um menninguna og Fastir pennar hafa skilað góðum greinum. Steinsmugan og Myndsmugan lífga upp á og mættu birtast oftar.

16.3. ÞRIÐJUDAGUR

Rigning mikinn hluta dagsins. Mestur hiti 7°. Stóðst mátið að fara á bak.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar pistil á Smugunni í dag undir fyrirsögninni Guð og Mammon. Þar segir m.a.:

“Í fundargerð Prestafélags Íslands frá því 18. febrúar segir frá áhyggjum presta af því að laun biskups Íslands séu óeðlilega lág en þau eru um 800 þúsund á mánuði eða álíka og laun ráðherra landsins. Þessi laun telja prestarnir ekki samræmast stöðu biskups meðal embættismanna þjóðarinnar.

Svo virðist sem virðing embættisins sé í húfi og hún sé bundin við þau verðmæti helst sem mölur og ryð fá grandað.

Nú er þess ekki krafist að biskup metti fimmþúsund með tveimur fiskum og fimm brauðum, en er til of mikils mælst að hann láti þessar 800 þúsund duga til að halda andlitinu meðan það er kreppa í landinu.

Ef að almenningur væri beðinn um að meta traust og tiltrú á kirkjunni, ætli laun biskups væru honum þá efst í huga eða boðskapur kirkjunnar og hlutverk í samfélaginu?”

Góð ádrepa.

17.3. MIÐVIKUDAGUR

Veðurspáin gerði ráð fyrir hægu veðri , sólskini a. m. k. til hálfs og 8° hita. Ekki stóðst það nema kannski hitastigið. Nokkur vindur var og rigning með köflum. Svona er lífið, ekki alltaf fyrirsjáanlegt, jafnvel ekki hjá veðurfræðingum.

Fréttablaðið segir í dag frá áformum um staðsetningu einkarekinnar herþotusveitar á Miðnesheiði. Frá því var reyndar sagt á RÚV í október sl. og urðu furðu lítil viðbrögð nema af hálfu Samtaka hernaðarandstæðinga, sem lýstu þeirri afstöðu í formlegri ályktun að starfsemi af þessu tagi ætti ekkert erindi hér á landi. “Málaliðaher eins og hér um ræðir er eitthvert auvirðilegasta fyrirbæri mannlegrar tilveru. Markmið rekstursins er að þjálfa hermenn í að drepa fólk í fjarlægum og fátækum löndum. Er það vilji íslensku þjóðarinnar að hafa slíka iðju að féþúfu?” sagði m.a. í ályktun hernaðarandstæðinga.

Fréttin í október drukknaði fljótt í öllum hrunaumræðum landsmanna og hafa kannski margir afgreitt þetta sem bull og vitleysu. Nú virðist ljóst að áfram hafi verið unnið að þessu verki og a.m.k. Björgvin G. Sigurðsson þingmaður og fleiri úr kjördæmi Suðurlands fylgst með málinu. Hann hefur lýst því yfir fjálglega að verkefnið sé mikið og gott atvinnumál fyrir Suðurnes sem hann segist styðja heilshugar. Sennilega hefur hann fullkomlega gleymt því sem stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að Ísland skuli verða vettvangur friðarumræðu og vinna að afvopnun í heiminum.

Upplagt að skoða www.eca-program.com/ Þetta mál hlýtur að fá ærlega umfjöllun í ríkisstjórn og á Alþingi.

18.3. FIMMTUDAGUR

Oftast er veðrið hvað best á morgnana. Svo var þennan morgun, yndislegt veður, 5° hiti og sólin gyllti skýin. Fljótlega upp úr 9 kom svo rigning. Mestallan daginn var þó ágætis veður og aðeins lítilsháttar skúraleiðingar.

Fórum Rauðhólahringinn. Hestarnir voru svo viljugir og sprettharðir að þeir blésu eins og fýsibelgir þegar heim var komið. Þeir réðu ferðinni og hafa í rauninni gott af því að taka hressilega á.

Dóra er hin kátasta um þessar mundir, komin með kúnna á Aspria-stöðinni í Belgíu og væntanlega bara á grænni grein. Undirbúningurinn hefur tekið óratíma, en nú er allt að smella saman. Henni finnst mjög gaman að vinna þarna og starfsfólkið hefur tekið henni afar vel. Sindra og Breka finnst þetta líka spennandi, fara stundum með mömmu sinni á vinnustaðinn. Þeim gengur alltaf betur og betur í skólanum í Gent svo að þeir eru ekki síður á grænni grein.

19.3. FÖSTUDAGUR

Hrím á rúðum bílsins í morgun. Fallegt veður, logn og sólskin, 2° hiti og allt að 4° þegar leið á daginn og tók þá vindur að blása. Gott veður þó allt til kvölds, en þá kom hellirigningin sem Veðurstofan spáði.

Fréttablaðið segir í dag frá nýrri skoðanakönnun um fylgi flokkanna. Kemur þar í ljós hið alræmda gullfiskaminni kjósenda, því hrunflokkurinn sjálfur fær 40,3% þeirra sem afstöðu taka í könnuninni. Samkvæmt henni tapa Vinstri græn 1 þingmanni og Framsókn sömuleiðis, en Samfylkingin 5 þingmönnum. 40 % aðspurðra vilja hins vegar engu svara um sína afstöðu.

Rakst á skemmtilega vísu hjá Gísla Ásgeirssyni á Málbeininu, svohljóðandi:

40 % flokkurinn

sem fábjánar landsins velja

þannig er ljóst í þetta sinn

að Þráinn kann ekki að telja.

Þráinn Bertelsson er einn Smugupenna. Í dag fjallar hann um “Hernaðarfyrirtækið E.C.A. sem geggjuðustu kjördæmapotarar og frjálshyggjufífl landsins vilja setja niður á Keflavíkurflugvelli”. Þráinn dregur forsvarsmenn þessa undarlega hernaðarfyrirtækis sundur og saman í háði og gefur til kynna að kannski sé þetta eftir allt saman óbein friðarstofnun! Þráinn orðheppinn að vanda.

20.3. LAUGARDAGUR

Komið vorjafndægur. Sólin skein fyrri hluta dagsins, hitinn náði 7°. Seinnipartinn þykknaði upp og rigndi svolítið. Það merkilega er að yfirleitt rignir ekki fyrr en við höfum lokið reiðtúrum dagsins. Þannig var einnig að þessu sinni.

Heyrði dásamlega sögu í kjaftstoppinu í dag. Rétt að skýra það aðeins með kjaftstoppið. Við Svana hittumst yfirleitt í sundi á laugardagsmorgnum og spjöllum saman að sundi loknu. Það kallar Svana kjaftstopp. Hún ætti að benda séra Pétri á þetta nýyrði, eða öllu heldur gamalyrði í nýrri meiningu.

Kunningi okkar, Jón Sigurðsson frá Ystafelli, segir okkur gjarna eitthvað skemmtilegt við þessi tækifæri og í þetta sinn barst talið að foreldrum hans. Móðir hans er hress eldri kona, einkar jákvæð og þakklát fyrir allt hið góða í lífinu. Eftir hrunið kom í ljós að hún hafði illu heilli farið að ráðum stúlku, svokölluðum ráðgjafa í bankanum hennar. Hún fékk hana sem sagt til að ávaxta sparifé sitt í dágóðri summu hlutabréfa. Svo kom fjárans hrunið og þar með fauk það sem átti að tryggja gömlu konunni áhyggjulausar ævistundir. Jón var ekki par hrifinn af útreið móður sinnar, en sú gamla sagði: “Ég ætla að kaupa blómvönd og færa henni Guðrúnu (held ég muni nafnið rétt), því ég er viss um að hún er mjög leið yfir þessu”. Móðir Jóns er eina manneskjan sem ég veit til að hafi vorkennt ráðgjafa sínum meira en sjálfri sér.

21.3. SUNNUDAGUR

Bálhvasst, en þokkalega hlýtt. Mestur hiti 6°. Alskýjað og talsverð rigning með kvöldinu.

Eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi um miðnætti og hefur átt athyglina í allan dag. Flottar myndir náðust af gosinu úr flugvélum sem sveimuðu nálægt gosinu þrátt fyrir slæmt veður. Þótti heppni að eldurinn braust út mitt á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls og orsakaði þar með ekkert flóð. Hins vegar er ekki útilokað að jörðin rifni frekar og nái undir jökul. Þá erum við minnt á að hvert sinn sem eldgos hefur orðið í Eyjafjallajökli hefur Katla ekki getað setið á sér og sú eldstöð er öllu hættulegri. Engu er þó hægt að spá um framhald umbrota.

Spaugstofan hefur blómstrað í hruninu mikla og skýtur eiturörvum allt um kring. Í gærkvöldi sló hún sjálfa sig út með meinfyndnu leikverki í Chaplinstíl. Svo góðu að ég sá ástæðu til að horfa á það aftur í kvöld.