MARSDAGAR 2010
28.3. SUNNUDAGUR
Ekki vantaði sólina né fegurð himinsins í dag, en nú blæs Kári mikinn og frostið bítur. Kl. 8 í morgun var frostið -4°. Nú er frostið -6° og máninn fullur.
Heldur dró úr ákafa fólks að þramma Fimmvörðuhálsinn þennan daginn, enda mikil vindkæling til viðbótar við frostkulið. Björgunarsveitarmenn hafa væntanlega verið fegnir minni umferð í dag, því þeir þurftu að aðstoða fólk langt fram eftir síðustu nótt. Fólk var margt alveg að gefast upp af þreytu og kulda, hafði ekki gert sér grein fyrir hversu erfitt er að ganga á fjallið í snjónum og kuldanum.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur var í Vikulokunum í RÚV í gær ásamt Kolbrúnu Halldórs og Jóni Steindóri hjá Samtökum iðnaðarins. Kolbrún var mjög góð, en merkilegast var að hlusta á Harald sem er feikilega fróður og segir frá af eldmóði. Ánægðust var ég að heyra hann taka þjóðina í gegn fyrir það hvernig farið hefur verið með okkar dýrmætu náttúru, sem er okkar mesta og mikilvægasta auðlind. Hér hefur verið allt of langt gengið í eyðileggingu að mati Haraldar. Það á að vernda náttúruna sagði hann og lagði áherslu á rannsóknir og vísindastörf í miklu meiri mæli en verið hefur. Mætti ná eyrum virkjanafíklanna.
29.3. MÁNUDAGUR
Veðrið svipað og í gær, fallegt en hvasst og kalt. Engin úrkoma hefur verið nýlega og jörðin orðin þurr og hörð. Við slíkar aðstæður fara brennuvargar á kreik og kveikja sinuelda. Einmitt það er nú byrjað og þegar búið að skemma stór svæði.
Jóhanna Sigurðardóttir er nú ekki fyndnasta manneskjan á landinu, en ansi var skemmtileg athugasemd hennar á fundi Samfylkingarinnar um helgina. Hún var svolítið mæðuleg yfir Vinstri grænum, sem ekki eru jafn léttir í taumi og hún ætlast til, og upplýsti að þetta væri eins og að smala köttum þegar hún vildi fá samstöðu um einstök málefni! Lá við að eldgosið hyrfi í skuggann af þessu snilldarinnleggi forsætisráðherru í umræður dagsins. Vinstri græn tóku gríninu með bros á vör og Guðfríður Lilja skrifaði gæðapistil á Smuguna undir heitinu Komdu kisa mín.
30.3. ÞRIÐJUDAGUR
Sama veður áfram nema heldur kaldara, -5° í morgun, -6° um miðjan dag og svipað í kvöld. Þó virðist enn kaldara en verið hefur, því nú hefur vindur aukist og er ferlega napur.
Ég var svo heppin að vera á ferðinni í morgun upp úr kl. 9 og heyrði þá kunnuglega rödd í útvarpinu. Náði þar með að hlusta á næstum allt viðtal Steinunnar Harðardóttur við Danfríði Skarphéðinsdóttur í þættinum Okkar á milli. Erindið við sýslumanninn varð að bíða meðan ég hlustaði til enda. Danfríður var á þingi fyrir Kvennalistann 1987 – 91. Hún kenndi þýsku bæði fyrir og eftir þingsetuna, en hefur nú um langt skeið starfað í umhverfisráðuneytinu. Þetta var gott og skemmtilegt viðtal.
Ingileif Thorlacius var jarðsungin í dag, en hún lést 22. mars. Dómkirkjan var þétt setin. Sigríður systir hennar söng ein með sinni fallegu rödd og Hamrahlíðarkórinn söng einnig af sinni alkunnu snilld. Erfidrykkjan var hjá Ásdísi og Kristjáni á Kleifarvegi 8. Systurnar höfðu tekið að sér undirbúninginn af miklum myndarskap. Glæsilega gert.
Í kvöld var framhaldsaðalfundur Bæjarmálafélagsins. Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir voru með okkur í kvöld, en þær sátu í efstu sætum listans síðustu 2 kjörtímabil. Þeim voru afhent blóm og þakkað fyrir vel unnin störf. Neslistinn er nánast fullbúinn og var stjórninni falið að ljúka málinu. Undirrituð fær enn einu sinni þann mikla heiður að verma neðsta sætið.
31.3. MIÐVIKUDAGUR
Enn er sama veðurlagið og aumingja vetrargosarnir drúpa hnípnir höfði.
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi er hreint ekki í rénun. Ný sprunga myndaðist á gosstöðvunum í kvöld skammt frá núverandi sprungu. Jarðfræðingar og fleiri viðstaddir horfðu beinlínis á sprunguna opnast, sem gerðist án minnsta fyrirvara. Hefði getað farið illa þar sem fólk var mjög nálægt. Starfsmenn Almannavarna aðstoðuðu fólk snarlega við að komast burt af svæðinu og fengu margir óvænt far með þyrlum til öruggari svæða.
Kristján er einmitt að fara í leiðangur að gossvæðinu í fyrramálið sem vafalaust verður mikil upplifun.