Þar rauður loginn brann

MARSDAGAR 2010

22.3. MÁNUDAGUR

Ágætis veður, hiti nær 5°, allsterkur vindur, sem æstist þegar leið að kvöldi.

Gosið á Fimmvörðuhálsi er ofarlega í hugum manna sem vonlegt er. Verst að það er slæmt veður á þessum slóðum, talsvert hvasst og snjókoma öðru hverju og því heldur erfitt að fylgjast nógu vel með. Gosið hefur verið frekar pent til þessa, en nú er sagt að virknin sé að aukast hægt og bítandi. Við fylgjumst með veðurspám, því ef áttir breytast gætum við þurft að huga að hestunum á Kaldbak og jafnvel setja þá inn í braggann.

23.3. ÞRIÐJUDAGUR

Í nótt var grenjandi hvassviðri, en stilltist undir morgun. Þá var komið 6° hiti, sólskin og merkilega hlýr vindur sem blés þó fast. Rokið reif þök af húsum undir Eyjafjöllum, en stórir skaðar virðast ekki hafa orðið.

Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu á Fimmvörðuhálsi og enn gerir veðrið vísindamönnum erfitt fyrir að komast í gott færi til athugana. Tókst þó að ná í sýnishorn af ýmsu tagi. Ágætar myndir voru sýndar í sjónvarpinu í kvöld. Veðurstofan er með upplýsingar í sérstöku hólfi þar sem hægt er að fylgjast með þróun gossins og skoða myndir sem teknar voru úr flugvél. Ég lít öðru hverju í hólfið.

Í kvöld var fundur í Bæjarmálafélaginu þar sem ætlunin var að kynna og samþykkja framboðslista félagsins. Í gærkvöldi kom hins vegar babb í bátinn, þar sem framsóknarfólk hélt fund og ákvað að bjóða fram sinn eigin lista. Var svo sem löngu ljóst að framsókn var í almennri fýlu yfir niðurstöðum prófkjörsins 20. febrúar sl. þar sem þeirra kandídatar fengu ekki það brautargengi sem þeir töldu sig eiga skilið. Nokkur úr þeirra röðum mættu á fundinn, lýstu yfir ákvörðun sinni og kvöddu. Þeir báðu ekki afsökunar á þeirri tillitssemi að upplýsa það fyrst núna mánuði eftir prófkjörið að þeir yrðu ekki með á Neslistanum. Enginn bilbugur er á Neslistafólki og verður fullbúinn framboðslisti kynntur innan fárra daga.

24.3. MIÐVIKUDAGUR

Gott veður, hiti mestur 8°. Lítið var um skúrirnar sem Veðurstofan spáði, en einhvers staðar hefur rignt í kapp við sólina því stór og fallegur regnbogi skreytti himininn.

Þetta bjarta og fallega veður var kærkomið þeim sem þráðu að komast nær eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Þangað streymdu vísindamenn og fréttamenn og margir aðrir. Þyrlur og litlar flugvélar hringsóluðu umhverfis svæðið, og nú er víða hægt að njóta mynda og myndskeiða af þessum náttúruhamförum. Magnað að sjá hraunrennslið sem fellur sem foss niður í Hrunagil. Þar rauður loginn brann, eins og segir í kvæðinu góða.

25.3. FIMMTUDAGUR

Bílgluggarnir voru þaktir hrími í morgun, enda logn og hitamælirinn sýndi aðeins 1° kl. 7:30. Veðrið var þó aldeilis prýðilegt í allan dag. Mestur hiti 8°.

Átti langt spjall á skype í morgun við Sindra, Breka og Dóru. Strákarnir hafa verið veikir í heila viku og alls ekki orðnir nógu frískir, enn með hálssærindi og hósta. Sindri fékk um 40° hita einn daginn og Breki fékk líka mikinn hita. Þeir misstu matarlist og sváfu mikið. Hins vegar voru þeir mjög duglegir í gær, þegar mamma þeirra þurfti að fara í vinnuna. Þá sáu þeir bara um sig sjálfir og Sindri bjó til kvöldmat handa þeim. Gaman að spjalla við piltana.

Eftir góðan reiðtúr í dag fórum við með hestana til Katrínar á Dýraspítalanum. Allt var í góðu lagi með þá nema Storm sem ég hafði einmitt áhyggjur af. Hann var farinn að hrasa talsvert og ekki jafn hress og viljugur og áður. Í ljós kom að hann er með bólgu í vinstri afturfæti og svolítið haltur. Fékk sprautu og er nú kominn í 10 daga frí.

Mikill fjöldi fólks streymir austur til að sjá eldgosið, ýmist á bílum eða flugvélum. Margir leggja á sig langa göngu upp á Fimmvörðuhálsinn og margir fara á snjósleðum. Marsela fór með samstarfsfólki sínu í gærkvöldi að sjá eldgosið og var stórhrifin. Birtist svo á sjónvarpsskjánum í fréttunum í kvöld og leyndi ekki hrifningunni.

Lóan er komin! Til hennar sást og heyrðist á Höfn í Hornafirði um hádegisbilið. Nokkrir stelkar sáust þar í gær og æ fleiri farfuglar eru farnir að sýna sig. Því miður er spáð kuldatíð á næstunni, en vonandi láta fuglarnir það ekki á sig fá. Lóan hefur nú einu sinni það hlutverk að kveða burt snjóinn og leiðindin.

26.3. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður. Svolítið hvasst og kaldara en verið hefur. Mest 5°. Úrkomulaust og sólskin með köflum.

Helst að frétta af eldgosinu á Fimmvörðuhálsi að enn rennur hraun niður í Hrunagil, en nú einnig niður í Hvannárgil. Fjöldi fólks hefur notað góða veðrið til að virða fyrir sér eldgosið og mun vafalaust haldið því áfram þótt spáð sé hvassara og kaldara veðri. Ég læt mér nægja að fylgjast með þessu öllu saman í sjónvarpinu og á netinu.

Sex rjúpur trítluðu um grasbalana framan við hesthúsið okkar í Víðidalnum. Sami fjöldi og við sáum oft um þetta leyti í fyrra. Kannski þær viti að þeim sé óhætt á þessum slóðum og líka ýmislegt hægt að tína í goggin í ríki hestanna.

Var að ljúka býsna sérstæðri glæpasögu eftir Michael Connelly með því hugnanlega heiti Blóðskuld. Ekki nokkur leið að geta sér til um glæpamanninn fyrr en í bláendann.

27.3. LAUGARDAGUR

Sólríkur dagur, heiður himinn, sterkur vindur, kalt. Hitinn náði reyndar 2°, en reikna má með frosti í nótt.

Stormur er sáttur við að vera skilinn eftir þegar við förum í reiðtúr dagsins, enda setjum við 2 hesta út í gerðið til hans svo að honum leiðist ekki.

Kristján er 46 ára í dag, fæddist á föstudaginn langa 1964. Við heimsóttum fjölskylduna á Birkigrund eftir reiðtúrinn og fengum dýrindis pönnukökur svo sem hæfir slíkum hátíðisdegi. Ég er alltaf jafn undrandi á því hvað tíminn líður og afkomendurnir eldast á pappírnum, þótt ekki hái þeim ellimörkin. Þau eru annars staðar, en ráðið gegn þeim er að horfa sem sjaldnast í spegil!