MARSDAGAR 2010
8.3. MÁNUDAGUR
Vorblær í lofti, hiti allt að 8° í dag. Fuglar sungu og litlar flugur fjögruðu yfir mér í sundinu. Gaman að finna hvernig allt er að lifna við í blíðunni sem nú ríkir.
Stakk niður túlípanalaukum sem Pétur og Marsela komu með frá Hollandi. Gaman að vita hvernig þeir dafna hér sunnan undir.
Ýmislegt var gert í tilefni af baráttudegi kvenna 8. mars. Það óvæntasta og vafalaust af tilviljun var þegar fimm karlmenn frá Litháen voru dæmdir til fimm ára fangelsisvistar fyrir mansal og ofbeldi. Það verður að teljast til stórtíðinda að tekið er loks á slíkum glæpum hér á landi. Enda var verjandinn gáttaður og gaf í skyn að Hæstiréttur myndi sýkna þessa þokkapilta eða að minnsta kosti stytta verulega fangelsisvist þeirra. Því miður yrði margur hreint ekki hissa á því. Dómarar í þeim merka rétti hafa ærið oft sýnt furðu mikla meðaumkun með glæpamönnum af þessu tagi.
Rosa fjör í hestunum. Þurfti að hafa mig alla við að missa þá ekki á stökk. Er annars mjög ánægð með mína. Gaukur alltaf jafn mjúkur og hörku viljugur, sérlega góður ferðahestur. Stormur hefur til þessa oft verið nokkuð lengi að mýkjast, nú er hann allt í einu miklu viljugri, mýkri og öruggari. Það er svo gaman að upplifa framfarir og árangur hestanna. Áhugi og þrautseigja er galdurinn.
Gauti og Júlía giftu sig í gær og létu skíra tvíburana. Þau heita Svanhildur Hafdís og Arnaldur Svanur. Ömmurnar héldu þeim undir skírn. Mikil hamingja í fjölskyldunni.
9.3. ÞRIÐJUDAGUR
Svipað veður, sami hiti, ögn meiri rigning.
Við fengum okkur hádegismat á nýjum veitingastað, sem heitir Gló. Er ekki alveg búin að átta mig á nafninu, en þetta er mikið heilsufæðihús, enda “Solla græna komin á Gló”, eins og sagt er á síðunni www.glo.is Athyglisverður staður sem býður upp á hráfæðirétti, alls konar grænmeti, kryddjurtasósur og villtar frumskógarhnetur svo að eitthvað sé nefnt. Mér fannst ég svaka hress og heilsusamleg að lokinni máltíð.
Stígamót heldur upp á 20 ára afmæli sitt. Stóð m.a. að ráðstefnu um rannsóknir kynferðisbrota, þar sem fjöldi fólks lagði orð í belg. Mínar kæru baráttusystur, Guðrún Jónsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir höfðu mikilvægu hlutverki að gegna á ráðstefnunni, enda hafa þær unnið stórvirki í þessum málaflokki. Játa að ég skammast mín svolítið fyrir að mæta ekki. Er orðin fundafælin á síðustu árum. Tek hestana fram yfir fundi og málþing. En ég er rosalega montin af Guðrúnunum og reyndar mörgum öðrum úr hópnum okkar, sem enn eru að vinna að hugsjónum okkar um betri heim, vinna gegn ranglæti og ofbeldi, gegn launamisrétti og öðru kynjamisrétti. Baráttunni verður seint lokið, þótt Kvennalistinn hafi unnið þrekvirki.
Sat yfir 20/20 hugmyndunum sem kostaði bæði heilabrot og höfuðverk. Ekki vandi að mæla með mínum eigin tillögum, sem flestar varðar náttúruvernd og umhverfismál. En það er meira en að segja það að velja 20 hugmyndir af hátt í 200. Það hafðist þó að lokum og verður spennandi að sjá niðurstöður á næstunni.
10.3. MIÐVIKUDAGUR
Nú hljóp aldeilis fjör í veðurguðina. Hiti kringum 6°. Milt og gott, en hellirigning öðru hverju. Hvert skipti sem ég sagði við sjálfa mig að þetta væri nú ekki svo slæmt og alveg hægt að fara á bak, þá trylltist regnstjórnandinn og sendi þétta dembu yfir okkur. Ojæja, las heilt blað meðan hestarnir fengu sér sturtubað í gerðinu. Síðla dags stytti upp.
Fór með Kristínu í fimleika, henni fer sífellt fram. Gaman að horfa á krakkana sem hlaupa og stökkva, teygja sig á alla enda og kanta og sveifla sér á ránum. Minnir á gömlu dagana í leikfimi hjá Óskari á Laugum.
Og svo fullyrða fjölmiðlar að Ögmundur verði aftur ráðherra. Vonandi gengur það eftir. Ögmundur með alla sína reynslu og færni á auðvitað að vera ráðherra. Það mun styrkja ríkisstjórnina og samstarf VG og Samfylkingunnar. Og þá ættu þessir flokkar að hafa aukinn kraft til að vinna að öllum þeim málum sem ekki hefur tekist að sinna vegna sundurþykkju og kjaftæðis á Alþingi.
11.3. FIMMTUDAGUR
Sérstakt veður í dag. Þokan var þétt í morgun og fram að hádegi, logn og sæmilega hlýtt, hiti 2-3° fyrri hluta dagsins. Sólin braut sér öðru hverju leið gegnum þokuna og þó ekki alveg. Umhverfið var sveipað dulúð. Um hádegið rofaði til og hitinn fór upp í 6°, en síðla dags þéttist þokan aftur.
Veðrið var fínt í Víðidalnum. Við skelltum okkur Rauðhólahring á hestunum, sem tóku heldur betur sprettinn. Allt var eitthvað svo vorlegt og skemmtilegt, vantaði bara fuglasönginn. Hrafnarnir eru á vaktinni og greinilega ekki í útrýmingarhættu. En það er stutt í farfuglana. Yrði ekki hissa þó tjaldurinn léti brátt í sér heyra.
Hagyrðingar hlutu að grípa tækifærið við atkvæðagreiðsluna á laugardaginn var, en lítið hefur verið frá því sagt. Rakst þó á eina stöku á baksíðu DV, nokkuð góða. Sú var skráð á atkvæðaseðil sem þar með varð ógildur. Stakan er svohljóðandi:
“Hvað hefur fólkið á kjörstað að gera?
Kjósa um eitthvað sem ekki er til?
Jú, Bjarna og Sigmund úr snöru að skera,
skarfa sem ég hvorki vil eða skil.”
12.3. FÖSTUDAGUR
Veður svipað og í gær nema þokan mun minni.
Café Loki nefnist lítið veitingahús á Lokastíg 28 í Reykjavík. Matstofan er á annarri hæð með glæsilegt útsýni á Hallgrímskirkju og umhverfi. Fengum hádegisverð þar í dag, góðan, ódýran og léttan í maga. Punkturinn yfir i-ið var rúgbrauðsís. Hefði ekki getað ímyndað mér að hann væri svona góður. Gaman að hitta þarna konuna sem ræður ríkjum á þessum skemmtilega stað. Hún heitir Hrönn Vilhelmsdóttir og starfaði með Kvennalistanum í gamla daga, sem er náttúrlega mikill kostur! Og eiginmaðurinn bakar bæði flatbrauð og rúgbrauð fyrir gesti og gangandi.
Frétti að hjónin á Birkigrund hefðu haldið uppi fjölmiðlum landsins í gær og fyrradag, svo að ég leitaði á Netinu og fann þau. Katrín tók á móti fuglafræðingum með örn í miklum umbúðum. Þetta er reyndar assa, sem hefur verið í fóstri í Húsdýragarðinum um skeið og þurfti á læknishjálp að halda. Katrín deyfði sjúklinginn og skar á eymslin sem höfðu að geyma mikinn gröft. Þetta birtist sem sagt í fréttum Stöðvar 2 og verður nú að vona að össu batni og geti farið að huga að fjölgun stofnins.
Þá mætti Kristján í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Þeir Kristján og Sigmundur Einarsson skiluðu af sér miklu verki í nóvember sl. um mat á háhitasvæðum með tilliti til verndargildis. Að þeirra mati eru 9 svæði mjög sérstök og mikilvæg, ekki aðeins hér á landi heldur á heimsmælikvarða. Starf þeirra lagði grunninn að niðurstöðum skýrslu Rammaáætlunar 2, sem var nýlega birt. Það vakti mörgum furðu að faghópur Rammaáætlunar 2 komst að talsverðu leyti að annarri niðurstöðu um verndargildi svæða en jarðfræðingarnir og má þar nefna Gjástykki, Reykjanes, Grændal og Brennisteinsfjöll. Kristján fór yfir og skýrði aðferðafræðina við mat þeirra Sigmundar, og mátti vel greina að ekki var hann sáttur við meðhöndlun faghópsins svokallaða. Var þó bæði hógvær og kurteis eins og hann á kyn til!
13.3. LAUGARDAGUR
Yndislegur vordagur um miðjan mars! Logn og blíða. Mestur hiti 8°. Sólskin með köflum.
Mikil umferð í Víðidalnum, allir að njóta góða veðursins. Eins gott því nú er búist við rigningu á morgun.
Nýlega birtist frétt á Mbl.is með yfirskriftinni “Friðlýsing Gjástykkis vopn gegn álveri?”. Fréttin segir frá tillögu umhverfisráðherra um friðlýsingu Gjástykkis og viðbrögðum nokkurra heimamanna. Yfirskriftin er að sjálfsögðu gildishlaðin og hefði allt eins verið hægt að spyrja: “Álver á Bakka vopn gegn friðlýsingu Gjástykkis?”.
Ómar Ragnarsson er óþreytandi í baráttunni fyrir verndun náttúruverðmæta landsins. Hann brást við þessari frétt og sagði m.a. eftirfarandi: “Hin raunverulega ástæða þess að leggja verður öll náttúruundur undir er sú fráleita stefna að leita að svo risastórum og fáránlega orkufrekum kaupanda að náttúruverðmæti heilu landshlutanna séu undirlögð”. Og: “Ef um væri að ræða fleiri og skaplegri kaupendur, sem henta einmitt vel varðandi jarðvarmavirkjanir, væri staðan ekki sú sem hún er.”
14.3. SUNNUDAGUR
Rigning, ýmist úði eða mikil rigning. Lítill vindur, hiti 5-6°. Svipað veður á Kaldbak. Gái alltaf að því hvernig veðrið er á hestunum okkar þar upp frá.
Fór í stutta reiðtúra þrátt fyrir rigninguna og varð reyndar rennandi blaut. Stormur var lítið hrifinn og vatt upp á sig við hvert tækifæri, hefur líklega ætlast til frídags. Gaukur brá hins vegar ekki út af venjunni og tölti mjúkt og rösklega í rigningunni.
Var að ljúka lestri bókar Böðvars Guðmundssonar: “Enn er morgunn”. Mikið drama og vel skrifað eins og búast mátti við. Saga Böðvars er sögð byggja á sönnum viðburðum. Því miður þekki ég ekki þá viðburði né það fólk sem þar hefur komið við sögu. Auðvitað er stór hluti sögunnar tilbúningur, en við útkomu bókarinnar varð einhver hvellur meðal þeirra sem til þekkja. Þeim þótti höggvið að sér. En hvað um það, mér líkaði bókin vel.