Hverju reiddust goðin…

APRÍLDAGAR 2010

9.4. FÖSTUDAGUR

Nú er úti veður vott, en vonandi verður ekki allt að klessu! Hitastigið náði 8° og páskaliljurnar eru sáttar við þetta veður, ein sprungin út og fleiri knúppar á leiðinni.

Sindri Snær er 12 ára í dag. Hann fékk margar kveðjur á Facebook og kunni vel að meta það. Við spjölluðum heillengi á skype. Það var létt yfir litlu fjölskyldunni í Kouter-koti í Gent, ýmislegar áætlanir um búðarráp og uppáhaldsmat á veitingahúsi og svo verður fjörinu haldið áfram á morgun. Dóra leggur mikla áherslu á að gleðja prinsana, sem fá hér heima yfirleitt tvær veislur í tilefni afmælis og svo mun víst vera hjá mörgum krökkum. Öðruvísu mér áður brá.

Við Jónas og Lóa stóðum að skítmokstri í hesthúsinu og sannarlega tími til kominn. Allt stóðið sett út í gerði meðan mokstursvélin ruddi skítnum út. Ég stóð mestallan tímann úti í rigningunni og taldi mig vera að koma í veg fyrir að hrossin slösuðu hvert annað, sum þeirra enn á göddum.

Horfði á Garðbæinga vinna Reykvíkinga í Útsvarinu í kvöld. Þetta var lokakeppnin þetta árið og svei mér ef Reykvíkingarnir áttu ekki skilið að tapa úr því að þeir þekktu ekki þann skemmtilega flotta fugl jaðrakan! Það þótti mér aumt.

10.4. LAUGARDAGUR

Þetta kallar maður nú skítaveður. Hvassviðri og mikil rigning með köflum. Hins vegar er hreint ekki kalt, hitinn náði 10°.

Fjölskyldan í Kouter-koti birtist á skype, strákarnir himinlifandi með heimsókn sína í tölvuleikjabúð þar sem þeir gátu keypt 6 leiki í umboði afa og ömmu í tilefni afmælis Sindra. Og Breki nýtur þess að sjálfsögðu með honum! Sindri sýndi okkur vasahníf sem pabbi hans gaf honum og peningaveski frá mömmu. Þau skemmta sér vel þessa dagana. Strákarnir hugsa mikið til sumarsins og hafa talsverðar áhyggjur af því að þeir nái ef til vill ekki að njóta lífsins í Varmahlíð. Skólinn þeirra er ekki búinn fyrr en í júnílok. En koma dagar.

11.4. SUNNUDAGUR

Það rignir og rignir og rignir. En ekki skal kvarta því væntanlega er Móðir Jörð fegin að fá alla þessa bleytu. Talsverð gola og sæmilega hlýtt, hitastigið mest 6°.

“Sagan rennur eins og reyfari…Ítarleg og skýr, falleg og frábærlega hugsuð ævi- og hugmyndasaga ofvitans úr Suðursveit”, segir Páll Baldvin Baldvinsson á baksíðu bókar Péturs Gunnarssonar um Þórberg Þórðarson í forheimskunnarlandi. Lauk við bókina í dag og er enn að melta hana. Fyrir margt löngu reyndi ég að lesa einhverjar af bókum Þórbergs, en gafst upp á þeim nema náttúrlega Sálminum um blómið sem er sér á parti. Ég var lengi að finna taktinn í bók Péturs, en sannarlega er hún glimrandi góð og margt spaugilegt þar að finna.

Reyndar hitti ég einu sinni Þórberg árið 1962 ásamt Sigurði Nordal, þar sem þeir voru að kynna Gráskinnu hina meiri á blaðamannafundi. Þeir voru kúnstugir þessir karlar og afskaplega ánægðir með sig. Þeir vildu endilega gefa mér áritaða Gráskinnu og Þórbergur var á undan að skrá nafn sitt. Ég skildi ekkert í vandræðaganginum í Sigurði þegar hann bjóst til að skrifa sitt nafn, en mér var síðar sagt, að honum hefði þótt lítilsvirðandi að hans nafn stæði ekki ofar nafni Þórbergs. Hann leysti svo vandann með því að bæta neðan við nafn Þórbergs ” …gaf Kristínu Halldórsdóttur þessa bók. Samþykkur Sigurður Nordal.”

12.4. MÁNUDAGUR

Ágætt veður, milt og notalegt. Gleymdi að fylgjast með hitastiginu, en snemma í morgun var það altént um 5°.

Alltaf jafn gaman að fara svokallaðan Rauðhólahring á hestbaki, sérstaklega þegar veðrið er eins gott og í dag. Nú eru kanínurnar farnar að gægjast undan trjánum austan við Rauðavatn og æ fleiri fuglar láta í sér heyra. Heyrði loksins í lóunni í dag, mikið var það gaman.

Annars fór megnið af orku dagsins í að horfa og hlusta á umfjöllun um langþráða rannsóknarskýrslu Alþingis, sem hefur verið í vinnslu í ríflega hálft annað ár. Fylgdist með blaðamannafundi fyrir hádegi, ræðuhöldum flokksforingja á Alþingi seinnipartinn og ríflega tveggja tíma umfjöllun í sjónvarpinu í kvöld. Er harla ánægð með skýrsluna sem er vel unnin og betri en ég átti von á. Í rauninni er þetta stórmerkileg skýrsla. Upplýsandi, skilmerkileg og vægðarlaus. Nefndarmenn skýrðu málin vel. Sérstaklega var gott að hlusta á Sigríði Benediktsdóttur, sem opnaði ýmsar gáttir í sínu máli. Sigríður er kennari við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum og kann greinilega listina að segja frá.

Þessi skýrsla mun reynast góður grunnur að úrvinnslu allra þeirra þátta sem þarf að rekja upp. Framkoma svindlaranna og glæpamannanna eru í raun andstyggilegri en maður hefur gert sér grein fyrir. Það er eins og siðgæðið hafi á einhverjum tímapunkti þurrkast út úr þeirra kolli, hafi það þá einhvern tíma átt þar heima.

13.4. ÞRIÐJUDAGUR

Veðrið var nokkuð gott í dag, en öðru hverju rigndi hressilega. Lóan lét rigninguna ekki spilla góða skapinu og söng sitt dirrindí og bí bí. Snjóhvítar rjúpur trítluðu um Víðidalinn og starrahópur buslaði í pollum. Lífið verður æ skemmtilegra með degi hverjum.

Nú er farið að undirbúa 50 ára stúdentsafmæli okkar sem útskrifuðumst frá MA vorið 1960. Við hittumst allmörg í dag og ræddum málin. Dagskráin er óðum að taka á sig ágætan svip og óhætt að fara að hlakka til afmælishátíðar 15. – 17. júní. Það var ótrúlega gaman að hitta skólafélagana.

14.4. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður, hóflegur vindur, mestur hiti 6°. Fengum eina rigningardembu í reiðtúr dagsins.

Rannsóknarskýrslan fræga og nýhafið eldgos í Eyjafjallajökli keppast um athyglina. Skýrslan er rædd á Alþingi alla þessa viku og oddvitar flokkanna ræddu málin í Kastljósi. Almenningur virðist sáttur við skýrsluna, en stórbokkar hrunsins telja sig órétti beitta. Nýja gosið hefur vinninginn í dag. Margir voru hálfpartinn leiðir þegar leit út fyrir að ferðamannagosið á Fimmvörðuhálsi væri búið að vera. Gosið í Eyjafjallajökli sem hófst í nótt er ekki alveg jafn túristavænt né “huggulegt”. Flóð hafa þanið sig um sunnlenskt undirlendi og öskufall ógnar svæðinu austur af jöklinum.

“Hverju reiddust goðin, þá er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á?” sagði Snorri goði Þorgrímsson á Þingvöllum árið 1000. Ekki að undra þótt einhverjum nú á tímum verði nú hugsað til þessarar fornu athugasemdar Snorra goða.

15.4. FIMMTUDAGUR

Veður svipað og í gær nema rigningin var nánast þrotlaus allan daginn.

Lenti í dekkjavandamáli. Varð að dofla hingað mann sem gat náð sprungnu dekki undan Fordinum mínum, sem Pétur stríddi við lengi gærkvöldsins. Lét segja mér að ástand dekkjanna væri slíkt að ég yrði að fjárfesta í 4 dekkjum. Pjúh, ég treysti mér varla til að segja hvað það þýddi fyrir budduna.

Fundur í 20/20, Sóknaráætlun fyrir Ísland. Ég er ekki ánægð með afgreiðslu tillagna um umhverfismál og náttúruvernd, en fékk litlu um þokað í því efni. Eftir viku verður útvíkkaður fundur um málefnin og óneitanlega spennandi að sjá og heyra hvernig leiðtogum hópanna tekst að skila þessu öllu saman svo að það gagnist.

Vigdís Finnbogadóttir varð áttræð í dag, eða 4×20 ára eins og hún segir sjálf. Henni var sýndur sómi á marga lund frá morgni til kvölds og átti það allt saman skilið. Afmælishátíð í Háskólabíói var sýnd í sjónvarpinu og tókst mjög vel. Hún er alveg makalaus kona og mikils metin.

Þórður og Sóla komu til okkar í brids. Loksins gekk mér bara þó nokkuð vel. Ég er óttalega léleg í sögnum, en tel mig sæmilega færa að spila úr niðurstöðunni. Í kvöld gekk það vel. Fékk m.a.s. alslemm! Það var gaman.

16.4. FÖSTUDAGUR

Háværir og atorkusamir hrafnar vöktu mig eldsnemma í morgun og gáfu engan grið. Og fyrr en varði var komin hellirigning. Svo varð ekki meira af því taginu í dag. Ágætt veður, en kaldara en verið hefur. Vaxandi vindur og hitinn kominn niður í frostmark. Má búast við frosti í nótt.

Við fylgjumst grannt með vindáttum sem stjórna því hvert öskufallið frá Eyjafjallajökli beinist. Mjög líklega sækjum við 2 eða 3 hesta austur á Kaldbak, sem við höfum pláss fyrir í Víðidalnum. Verið er að búa svo um í bragganum á Kaldbak að við getum sett þangað inn hestana sem ekki er hægt að flytja í bæinn.

Þetta andstyggilega öskufall er stórhættulegt skepnum og verður að vona að það standi ekki mjög lengi. Þetta berst ótrúlega víða og hefur orðið að loka flugvöllum víða í Evrópu. Ekki laust við að þessum eldsumbrotum sé bölvað í sand og ösku vítt og breitt um heiminn. Sagt er að Bretar standi nú alveg brjálaðir uppi á húsþökum og gargi upp í vindinn: “We said cash, not ash”.