Norðurljós í afmælisgjöf

FEBRÚARDAGAR 2010

15.2. MÁNUDAGUR

Rumskaði nú Þorri gamli og blæs hvössum vindi um land allt. Frost er reyndar ekki mikið og sums staðar fer hitastigið jafnvel upp fyrir frostmark.

Katla fékk enn einu sinni samfallið lunga. Var lögð inn á sjúkrahús um helgina og gerð aðgerð á henni í dag. Allt gekk vel og er nú bara vonandi að ekki verði fleiri slíkar uppákomur. Þetta kvað iðulega henda háar og grannar persónur og var hún ekki ein um angur af þessu tagi þegar hún mætti á Bráðamóttökunni. Þar var einnig mættur hár og grannur íþróttamaður með samfallið lunga.

Hörmulegt lestarslys varð skammt frá Brussel í morgun, allmargir látnir og enn fleiri slasaðir. Fegin að Dóra hringdi til að láta vita af sér. Manni hættir til að ímynda sér hið versta.

Og nú er enn ein nefndin farin á vit Hollendinga og Breta að reyna að semja um Icesave. Steingrímur leyfði sér að segja fréttamanni RÚV að hann væri hóflega bjartsýnn á árangur. Það gaf Sigmundi Davíð ástæðu til að furða sig á því að Steingrímur væri að tjá sig um þetta mál meðan það væri í gangi. Steingrími láðist greinilega að biðja Sigmund leyfis!

16.2. ÞRIÐJUDAGUR

Ljómandi veður þennan daginn, hiti mest um 3°, heiðríkt, sólríkt, saklaus vindur. Og nú fengu hestarnir að spretta úr spori í góða veðrinu.

Heimsótti Kötlu á spítalann. Hún lá með óþægilegar slöngur í kroppnum, umkringd bókum og blöðum og var að horfa á Sherlock Holmes í tölvunni. Vonast til að batna svo á morgun að hún geti farið að ljúka verkefni í lífefnafræðinni. Hefur væntanlega gott af því að neyðast til að hvílast svolítið. Hún er lítið fyrir droll hún Katla mín og hættir til að ganga svolítið fram af sér í dugnaðinum.

Pétur og Marsela komu heim úr tveggja vikna reisu í kvöld. Höfðu staldrað við hjá Dóru og strákunum í Gent, dvöldust nokkra daga í Luxemborg, nokkra í Trier og enduðu í Amsterdam. Hrifust af öllum þessum stöðum, en þótti reyndar býsna kalt í Evrópu. Veðurfar hefur verið óvenjulegt á þeim slóðum þennan veturinn.

17.2. MIÐVIKUDAGUR

Nú er frost á Fróni og má búast við framhaldi þess næstu daga. Sólin skein glatt í allan dag og tryggði heimsins fegurð út um glugga. Frostið og vindurinn hjálpuðust að við kælinguna og virtust ætla að hirða af okkur puttana í reiðtúrnum kringum Rauðavatnið.

Marsela er 28 ára í dag. Þau Pétur keyptu extra gott í matinn, en þá fór Gaggenau í fýlu og vildi ekki leggja sitt af mörkum til hátíðamatarins. Nú þarf að hafa upp á rafvirkja á morgun. Veðurguðirnir sendu Marselu einhver stórfenglegustu norðurljós sem hún hefur nokkurn tíma séð á allri sinni 28 ára ævi. Þetta er afmælisgjöf til mín, sagði hún og sat í heita pottinum lengi kvölds heilluð af dýrð himinsins, sem hún fékk í afmælisgjöf.

18.2.FIMMTUDAGUR

Enn herðir frostið, var -9° í morgunsundinu. Orðið bjart kl. 9 í morgun, skýin roða slegin. Og ekki versnaði veðrið í dag, en mikið fjári var kalt.

Katla er komin heim af spítalanum og líður sæmilega og a.m.k. fegin að vera laus við slöngur og dren. Hún fer svo í eftirlit eftir helgi.

Frést hefur af sigurgöngu Andra Snæs með Draumalandið vítt og breitt um heiminn. Draumalandið hefur víða fengið mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda. Í umfjöllun Variety segir skv. Fréttablaðinu að í Draumalandinu komi fram “tilfinningaþrungin, sjónræn og mælskuleg rök sem setji umhverfis- og efnahagsleg vandamál Íslands í sögulegt sanmhengi, sérstaklega eftir að bankahrunið varð 2008.” Gagnrýnandi Art Threat í Kanada segir Draumalandið eina bestu umhverfismynd allra tíma og er það ekki slæm umsögn.

Andri Snær hefur unnið stórkostlegt þrekvirki við gerð Draumalandsins í samstarfi við Þorfinn Guðnason. Alltof fáir hérlendis kunna að meta það sem þessir snillingar

hafa gert. Þeir eru vitaskuld ekki þeir einu sem hafa staðið vörð um náttúru landsins á umliðnum árum, en þeirra framlag er afar mikilvægt. Vonandi kemur að því að nógu margir skilji og skynji þá einstöku og ómetanlegu náttúru sem land okkar geymir og okkur hefur verið falin til varðveislu.

19.2. FÖSTUDAGUR

Hávaðarok, sjórinn hvítfyssandi og jós upp á sjávarbakkana. Sólin skein fram að hádegi og skýin í hörku stuði! Frost -3°. Um miðjan dag var snjókoma og skafrenningur, sem stóð reyndar stutt. Ekki varð af útreiðartúrum.

Rafvirkinn kom og gerði við mr. Gaggenau. Var heilsu hans ákaft fagnað. Þvílíkt hvað maður er bjargarlaus þegar rafmagnstæki bila.

Horfði á síðasta þátt Attenborough um fugla “The Live of Birds”, sem ég fékk í jólagjöf. Þessir þættir eru náttúrulega hrein snilld og óskaplega skemmtilegir á að horfa. Ég læt þætti Attenborough´s ekki fram hjá mér fara og man ekki til þess að þessir um fuglana hafi verið sýndir í sjónvarpinu. Þeim mun skemmtilegra að sjá þá núna.

20.2. LAUGARDAGUR

Fremur stillt veður, sólarlaust og -2° frost.

Við systur hittumst oftast í sundlauginni á laugardögum og ræðum landsins gagn og nauðsynjar. Nú er Svana hins vegar að gæta Mímis Fróða Óttarssonar, sem er á öðru ári. Í staðinn fékk ég vænan skammt af ævisögu Lúðvíks. Hann er orðinn 96 ára og gerir helmingi yngri körlum skömm til. Syndir á hverjum morgni, stundar gufu og heita potta. Gengur rösklega, beinn í baki og stígur ekki feilspor. Er fílhraustur, en orðinn sjóndapur og heyrnarsljór. Missti móður sína fjögurra ára. Fór að heiman til Reykjavíkur og sá um sig sjálfur frá fermingaraldri. Stýrði hesti og kerru með mjólkurbrúsa til verslana og í hús á degi hverjum. Lærði síðar til smíða og segist aldrei hafa keypt neitt nema eiga fyrir því. Hefur lítið álit á skynsemd nútíma kynslóða.

Í dag fór fram prófkjör Bæjarmálafélags Seltjarnarness vegna vals frambjóðenda á Neslistann í sveitarstjórnarkosningunum að vori. Prófkjörið var opið öllum Nesbúum sem hafa öðlast kosningarétt 29. maí nk. Þátttakan var góð.

Bæjarmálafélag Seltjarnarness var stofnað 23. apríl 1990 og hefur starfað óslitið síðan þá. Tveir listar hafa verið í boði á Nesinu allt frá stofnun Bæjarfélagsins, þ.e. Neslistinn og listi Sjálfstæðisflokksins, sem hefur frá upphafi haft meirihluta í sveitarstjórn Seltjarnarness. Í þetta sinn verða framboðslistarnir hins vegar þrír, þar eð Samfylkingin ákvað að bjóða fram sér og hefur þegar haldið sitt prófkjör.

Við vorum 7 við talninguna, sem gekk mjög vel og var bæði skemmtileg og spennandi. Niðurstaðan var bindandi fyrir 1. og 2. sæti. Þrír kepptu um 1. sætið, sem Árni Einarsson hreppti. Annað sætið hlaut Brynjúlfur Halldórsson, sem er einn okkar ágætu félaga í VG. Það má því nærri geta að ég var harla ánægð með niðurstöðuna.

21.2. SUNNUDAGUR

Skafheiðríkt í morgunsárið, hvasst og kalt. Frost -2°.

Í dag er konudagur, einn af þeim dögum sem tryllir kaupahéðna. Auglýsingar hafa dunið á landsmönnum alla liðna viku þar sem reynt er að hvetja karlmenn til að gefa konum eitthvað fallegt á konudaginn, skartgripi eða eitthvað annað nógu dýrt. Sjálfsagt hafa ýmsir efni á því, en þeir eru líka margir sem berjast í bökkum – eða bönkum – og hafa engin fjandans ráð á að kaupa skartgripi dýrum dómum í tilefni dagsins.

Þetta auglýsingafargan í tilefni einhverra daga færist sífellt í aukana, og dugir nú ekki lengur bóndadagur og konudagur. Ekki er langt síðan farið var að pota amerísku hrekkjavökunni, Halloween, inn í íslenska menningu með tilheyrandi kröfum, og Valentínusardeginum verður varla undan vikist eftir skipulagða markaðssetningu í kringum þann dag. Ég gef lítið fyrir þessa nýju daga. Í þeirra stað hefði alveg mátt viðhalda yngissveinadeginum og yngismeyjadeginum sem nú eru flestum gleymdir. En það er ágætt að viðhalda þeim gömlu, bóndadegi og konudegi, þeir varða veginn til vorsins.