APRÍLDAGAR 2010
17.4. LAUGARDAGUR
Fallegt veður, glaðasólskin, góðleg ský, en kalt. Mestur hiti 2°.
Í morgun vorum við loksins allar þrjá í kjaftstoppinu í Neslaug, Tóta, Svana og ég. Þær hafa svo miklar reynslusögur að segja af heilsufari, að ég reyni ekki einu sinni að kvarta yfir eigin smámunum. Svana gat svo lýst öllum atburðum afmælisdags Vigdísar, enda sjálf þátttakandi í þeim flestum. Dagurinn sá reyndist drjúgur til að efla byggingarsjóð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, og hefur það vafalaust glatt afmælisbarnið mjög.
Spár um öskufall frá Eyjafjallajökli hefur breyst og samkvæmt því hefur dregið úr líkum á öskufalli í áttina að Kaldbak hvað sem síðar verður. Myndir og frásagnir af gosinu og sér í lagi af öskufallinu eru hrollvekjandi. Ég hugsa stöðugt til fólksins sem býr við þessi skilyrði og ekki síst hvernig gengur að sinna skepnunum. Víða munu hestar vera úti í þessum skelfilegu aðstæðum og einnig sauðfé, jafnvel kindur komnar að burði. Og aumingja farfuglarnir nýkomnir til landsins eiga ekki sjö dagana sæla. Þetta er ömurlegt ástand.
Sjálfstæðisflokkur og Samfylking héldu mikla fundi í dag, hvor í sínu lagi að sjálfsögðu, en um sama efni. Rannsóknarskýrslan hefur aldeilis hreyft við samviskunni á ýmsum bæjum og konur ganga grátandi úr ræðustóli, búnar að játa mistök sín og afglöp. Gott hjá þeim að játa, en sennilega ætlast þær til sakaruppgjafar.
18.4. SUNNUDAGUR
Morguninn byrjaði með hagléli, en um miðjan dag var hitastigið 6°. Sólin gægðist fram öðru hverju og rigningin kom til sögunnar að kvöldi.
Við vorum viðstödd borgaralega fermingu í Háskólabíói öðru sinni á ævinni. Katla reið á vaðið á sínum tíma, en í þetta skipti var Kári fermdur. Borgaraleg ferming verður æ algengari og vinsælli með árunum. Athöfnin í dag var sú 21. í röðinni og þurfti að skipta henni í tvennt vegna fjölmennis. Háskólabíó var sneisafullt og dagskráin býsna skemmtileg. Við kunnum ólíkt betur við borgaralega fermingu á vegum Siðmenntar heldur en kirkjulega athöfn.
Anna Halla og Joe komu til landsins í morgun og komu með okkur í veisluna í tilefni fermingarinnar. Þeim fannst mjög gaman að geta tekið þátt í þessum viðburði og hitta ættingjana, börnin og barnabörnin. Kári bauð gesti velkomna með heiðri og sóma og bað þá gjöra svo vel og þiggja veitingar. Þær voru glæsilegar og góðar, allt heimagert og hefði ekki verið betra né glæsilegra úr höndum fagmanna.
Í dag var mikið unnið að því að koma skepnum í skjól fyrir öskunni úr Eyjafjallajökli og hefði þurft að gera gangskör að því fyrr. Ekki er farið að bera á vanhöldum, en skaðinn getur komið fram síðar.
19.4. MÁNUDAGUR
Allhvass á norðan. Hiti mest 2°. Sólskin með köflum. Úrkomulaust.
Jónas var upptekin, svo að ég fór ein í reiðtúr. Sýslaði lengi í hesthúsinu, enda þurfa hestarnir að fá góðan tíma til útivistar. Svo líður mér svo ljómandi vel innan um þá, finnst notalegt að kemba þá og bursta.
Nokkrar breytingar eru á eldgosinu í Eyjafjallajökli. Nú spýtast stærðar glóandi hraunbombur upp úr goskötlunum. Enn er mikið öskufall, en vonast er til að úr því muni nú draga. Ómar Ragnarsson kom í 10-fréttir og sýndi glænýjar myndir beint ofan í gíginn. Magnaðar myndir.
20.4. ÞRIÐJUDAGUR
Hitamælirinn undir frostmarki í morgun og fór ekki yfir 2° yfir daginn. Örlaði á snjókomu nokkrum sinnum, en undir kvöld var hellirigning.
Anna Halla átti afmæli í gær, 19.4., varð 64 ára. Héldum upp á afmælið með góðum hádegisverði í Fiskifélaginu. Fengum þar m.a. svakalega góða fiskisúpu. Fórum svo í leiðangur um ýmis hverfi borgarinnar, þar sem ótrúlegur fjöldi húsa, nýbyggðra eða í byggingu, standa ónotuð. Afleiðingar hrunsins skera í augun.
Ólafur Grímsson virðist vinsæll hjá ýmsum fréttaveitum erlendis. Manni dettur si sona í hug að ástæðan sé sú að hjá þessum manni megi búast við einhverjum bombum. Hann brást ekki vonum frekar en fyrri daginn í viðtali í BBC og sagði m.a. að gosið í Eyjafjallajökli væri eins og létt æfing fyrir komandi Kötlugos. Hann hvatti evrópskar ríkisstjórnir og flugfélög um heim allan til að búa sig undir alvöru hamfarir. Hér heima var lítil hrifning með slíka yfirlýsingu sem ekki er beinlínis líkleg til að laða hingað ferðamenn og fleira í þeim dúr. Alltaf orðheppinn Mr. Grímsson.
Öllu farsælla var viðtal í Kastljósi kvöldsins við Þorvald Þórðarson eldfjallasérfræðing, sem starfar við Háskólann í Edinborg. Hafi bændur og búalið undir Eyjafjallajökli hlustað á mál hans hefur þeim vonandi liðið betur og séð einhverja glætu í myrkrinu. Hann lagði t.d. áherslu á að gjóskan gefur dýrmætan áburð í íslenska jörð og gerir í rauninni mikið gagn þegar fram í sækir.
21.4. SÍÐASTI VETRARDAGUR
Vetur gamli kveður með glans, sýnir sitt besta með skínandi fallegu veðri, nánast heiðríkju. Hitastig mest um 3°.
Drifum okkur á Kaldbak í góða veðrinu að huga að blessuðum hrossunum. Skyggnið var glimrandi. Sáum gosstrókinn upp úr Eyjafjallajökli mjög vel. Veðrið var heldur kaldara á Kaldbak og snjór lá yfir öllu. Gott að komast að raun um að ekki væsir um hestana. Þeir geta viðrað sig í gerðinu og gengið að heyi og góðu vatni í bragganum. Við fluttum 3 hross í bæinn, Loga og Prins úr okkar hópi og Ljósvíking fyrir Ævar.
22.4. SUMARDAGURINN FYRSTI
Þjóðtrúin segir að gæði sumarsins markist af því hvort vetur og sumar frjósi saman aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Getum við nú tekið gleði okkar, því sannarlega fraus hressilega um nóttina. Veður var sólríkt og fallegt í dag, en hitinn fór ekki yfir 2°.
Í morgunsundinu var ýmislegt rætt og sér í lagi um framgöngu forseta vors. Einn hafði heyrt nýkveðna vísu, en mundi nánast ekki annað en rímorðin og lokasetninguna. Ég mátti til með að nota það sem til var:
Þegar sumar við vetur saman frýs
Þá suma það minnir á paradís
En heyrist þá gjammið í Ólafi grís
Æ getur´ann ekki þagað – plís!
23.4. FÖSTUDAGUR
Aftur frysti í nótt og hitastigið fór upp í 5° að deginum. Ágætis veður og lítið vart við rigninguna sem spáð var. Enn síður var vart öskufalls sem óttast var að gæti orðið á höfuðborgarsvæðinu. Keflavíkurflugvelli var lokað í morgun og verður það eitthvað áfram. Akureyrarflugvöllur er nýttur í staðinn.
Björgunarsveitarmenn gengu vasklega fram í gær við hreinsun öskufalls og afleiðingar þess á þeim bæjum og jörðum undir Eyjafjallajökli sem verst hafa orðið úti. Þeir halda verkinu áfram nú og um helgina og slökkviliðsmenn hafa bæst í hópinn. Verður aldeilis annar svipur á bæjunum að verki loknu. Má nærri geta að heimilisfólki á bæjunum verður mikið létt og treysta sér e.t.v. til áframhaldandi búsetu að afstöðnum þessum ósköpum öllum. En mikið er eftir að hreinsa og lagfæra.
Í dag er haldið upp á 20 ára afmæli Bæjarmálafélagsins hér á Seltjarnarnesi. Tveir lærðir kokkar skipa sæti á listanum okkar og fóru létt með að setja fram gómsætar veitingar. Bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir, landsþekktir snillingar, léku djassaðan kokteil á saxafón og rafmagnsgítar sem unun var að njóta. Vel heppnað afmælisboð. Og nú er að vita hvernig okkur gengur í sjöttu kosningabaráttunni.
Og þá má nefna að það var einmitt 23. apríl árið 1983 sem fyrstu kvennalistakonurnar voru kosnar á Alþingi, þ.e. Sigríður Dúna, Guðrún Agnars og ég. Gaman að hugsa til þess.