Náttúran er stundum grimm

APRÍLDAGAR 2010

1.4. SKÍRDAGUR

Enginn vorylur í lofti enn og farfuglarnir láta lítið á sér bera. Sólin skín þó hvern dag hér um slóðir og munar miklu. Vindur hvass og napur. Æstist í kvöld og nú sendir sjórinn hvítfyssandi gusur upp á bakkana.

Fékk ónota hnykk á bakið fyrir 3 dögum og treysti mér ekki á bak, en lét slag standa í dag þótt enn væri ástandið aumt. Hvíslaði í eyrað á Gauki að nú yrði hann að vera extra mjúkur og fínn, og það var eins og við manninn mælt, hann var einmitt alveg sérstaklega mjúkur og fínn!

Enn ein bókin frá. Las eina frá 1965 eftir Mai Sjöwall og Per Wahlöö. Morðið á ferjunni nefnist bókin og fær þá umsögn á kilinum að þetta sé “…stórkostleg bók…sígilt verk” og fleira lofsvert. Merkilegust finnst mér einkunnin “Yndislega harðsnúin og skemmtilega nöpur saga” að mati Harper´s Magazine. Að minni hyggju hefði mátt sleppa lýsingarorðunum. Reyndar vel skrifuð bók og spennandi. Aðallöggan Martin Beck minnir á þann landsfræga Erlend Sveinsson hans Arnaldar Indriðasonar.

2.4. FÖSTUDAGURINN LANGI

Svipað veður og verið hefur. Frost þó heldur minna. Lítilsháttar snjókoma með köflum.

Kristján fór mikla reisu um gossvæðið í gær og tók myndir í hundraðatali, margar feikna flottar. Ekki á hverjum degi sem menn komast í slíka dýrð. Reyndar kunna ekki allir að fóta sig á þessum vettvangi og hafa björgunarmenn nóg að gera við að reyna að hafa vit fyrir ferðafólki og aðstoða slasað og örmagna fólk.

Stórfjölskyldan safnaðist saman á Kaldbak og hélt páskaveislu með hangikjöti og ýmsu góðgæti. Endað á páskaeggjum frá Freyju sem þóttu mjög góð. Mikið fjör í börnunum, sem vöktu lengi fram eftir. Við hin eldri spiluðum brids.

Útigangshestarnir hafa það gott á Kaldbakstúnum og taka vel á móti gestum, einkum þeim sem koma með fulla vasa af gómsætum molum.

3.4. Laugardagur

Fínt veður á Kaldbak, sátum lengi í heitum potti. Einnig ágætt á höfuðborgarsvæðinu, ekki sérlega kalt og hvasst, en él stöku sinnum.

Sýndum gamlar myndir úr okkar fórum á sjónvarpsskjánum. Krakkarnir voru hálf vantrúaðir á að þeir væru í alvöru að horfa á foreldra sína í æskufjöri allt frá tveggja ára til þrítugs! Gaman að rifja upp gömlu góðu dagana.

Við Jónas kvöddum Kaldbak eftir hádegi til að sinna hestunum í Víðidalnum. Öll hin urðu eftir a.m.k. fram á páskadag, enda sérlega notalegt að vera á Kaldbak og krakkarnir kunna vel að meta aðstæður. Áætlaðar voru útrásir hingað og þangað. Skildingar stefndu á Fljótshlíðina þar sem sjá má til eldgossins.

4.4. PÁSKADAGUR

Skínandi fallegt veður, bjart og sólríkt. Kaldbaksfréttir herma að þar sé veður ekki síðra. Bætti í vindinn með kvöldinu og hitinn datt niður fyrir frostmark. Spáð er vondu veðri á Fimmvörðuhálsi.

Eintóm leti þennan fallega Páskadag. Jafnvel hestarnir voru óvenju hæggengir á Rauðhólahringnum.

5.4. MÁNUDAGUR

Aftakaveður hefur verið á Fimmvörðuhálsi í dag og engin umferð um gossvæðin. Hér á suðvesturhorninu var veðrið hins vegar nokkuð hlýtt og gott. Hitinn fór í a.m.k. 6°.

Í kvöld sýndi sjónvarp RÚV myndband frá árinu 2007 af bandarískum hermönnum í þyrlu sveimandi yfir Bagdad. Þeim tókst að myrða a.m.k. 10 óvopnaða almenna borgara og 2 blaðamenn Reuters og hældust um. Særðu auk þess börn sem munu aldrei bíða þess bætur. Þyrlumennirnir voru í stöðugu sambandi við yfirmenn og fengu heimild þeirra til að skjóta fólkið. Töluðu af fullkomnu tillitsleysi um fórnarlömb sín og hæddust að þegar ekið var yfir eitt líkanna.

Kom þetta á óvart? Líklega ekki. Hernaður er andstyggð sem kallar fram hið versta í fari þátttakenda. Ótal dæmi sanna það. Hver atburðurinn rekur annan í Afganistan þar sem almennir borgarar eru miklu fremur drepnir en skæruliðarnir sem erlendir hermenn telja sig eiga að útrýma. Ofbeldi leiðir einfaldlega til meira ofbeldis.

Spurning hvort Davíð og Halldór horfðu á myndbandið í kvöld. Og enn stærri spurning: Hafði það einhver áhrif á þá?

6.4. ÞRIÐJUDAGUR

Bandvitlaust veður eldsnemma í morgun, hvassviðri og snjókoma. Hvasst fram eftir degi og él öðru hverju. Lygndi þegar leið á kvöldið.

Mikil leit hefur staðið yfir frá því í nótt að karlmanni og tveimur konum sem villtust af leið einhvers staðar í grennd við Emstrur. Önnur konan fannst á lífi síðla dags og hafði gengið langan veg. Hin konan fannst látin skömmu síðar. Seint í kvöld fannst svo karlmaðurinn einnig látinn. Náttúran er ekki bara fögur og stórbrotin, hún getur sannarlega líka verið grimm.

7.4. MIÐVIKUDAGUR

Frábært veður í allan dag, hlýtt og vorlegt, sólskin og gola. Ánægjulegur reiðtúr í yndislegu veðri.

Fékk algjört dugnaðarkast í góða veðrinu. Þvoði bílinn sem var orðinn eitt drullustykki. Henti blaðabunkum, fernum og alls konar umbúðum sem safnast höfðu fyrir í þvottahúsinu. Allt vonandi endurnýtt eins og vera ber.

Eftir allan dugnaðinn og súrefnisneysluna gafst ég upp á að sækja býsna spennandi ljóðafund EVG í kvöld, hreint ekki viss um að ég hefði getað haldið mér vakandi.

8.4. FIMMTUDAGUR

Ágætis veður en dálítið óstöðugt. Hitinn fór í allt að 8°. Sólin lét stöku sinnum nægilega á sér bera til að geta aðstoðað rigninguna við að búa til regnboga.

Brugðum okkur austur á Kaldbak og höfðum svona bak við eyrað að renna inn í Fljótshlíðina og kíkja á gosið, en þungbúið loft og lélegt skyggni hamlaði því. Létum nægja að eiga góða stund með hestunum á Kaldbak og dást að álftunum og gæsunum sem þekja túnin á Skeiðum á þessum tíma ársins. Og loksins er tjaldurinn kominn á sinn stað hér á Seltjarnarnesi. Held hann sé kominn með vorið.