Halastjarna á Hálsi

MARSDAGAR 2010

1.3. MÁNUDAGUR

Ögn hlýrra veður í dag, en sterkur vindurinn var þó napur. Hitastig ýmist ofan eða neðan við frostmark.

Smugan er aftur komin á kreik og veri hún velkomin. Hún átti svolítið bágt síðustu mánuði, en nú er hún mætt til leiks hress og endurnærð.

Smugan er skilgreind sem umræðu- og fréttavettvangur fyrir vinstrisinnað fólk, umhverfissinna og jafnréttissinna. Þetta vefrit byrjaði feril sinn hressilega seinni hluta ársins 2008 undir stjórn Bjargar Evu Erlendsdóttur, en í fyrrasumar urðu erfiðleikar vegna breyttra aðstæðna sem tók alltof langan tíma að lagfæra. Meðal annars þótti rétt að hressa upp á útlit Smugunnar og er það nú gjörbreytt. Held að það venjist vel.

Nýr ritstjóri Smugunnar er Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, Ásgeir H. Ingólfsson sér um menningarumfjöllun og Ingólfur V. Júlíusson um ljósmyndir. Allt hið besta fólk og óhætt að gera sér vonir um góða framtíð Smugunnar.

2.3. ÞRIÐJUDAGUR

Skikkanlega hlýtt í veðri, lítilsháttar snjókoma, sólskin um miðjan daginn.

Veðurlagið minnti reyndar öðru hverju á hvers það er megnugt og ég reiknaði ekki með útreiðartúr þennan daginn. Stóðst þó ekki mátið þegar ég kom upp í hesthús og fór svokallaða trippahringi með vini mína, Gauk og Storm. Nú hafa þeir nefnilega lagt nægilega af til þess að ég geti spennt á þá hnakk og er því ekki lengur háð kröftum hestasveinsins.

Sund að morgni og útreið um miðjan dag. Er hægt að hafa það öllu betra?

Ný könnun Capacent Gallup upplýsir að Vinstri græn hafi nú meira fylgi en Samfylkingin. VG fær stuðning 25.5% aðspurðra, en Samfylkingin 23%. Verða nú ýmsir fúlir innan Samfó. Framsókn fær ríflega 14% og Sjálfstæðisflokkur er nú sagður njóta 32% fylgis og þar með stærstur flokka.

Við þessu mátti búast. Sérhagsmunafólk hættir ekki svo glatt að trúa á frjálshyggjuna og fjöldinn allur af fólki hefur bitið í sig þá firru að aðeins sjálfstæðismenn hafi vit á efnahagsmálum! Það hljómar vissulega sérkennilega eftir allt sem á undan er gengið, en gullfiskaminnið er ríkt í mörgum. Oft á árum áður var fylgi þessa flokks vel yfir 40%. Við skulum vona að a.m.k. 10–14% kjósenda haldi sönsum næstu árin.

3.3. MIÐVIKUDAGUR

Veður svipað og í gær. Hiti yfir frostmarki mestallan daginn, en um kvöldið snjóaði.

Skemmtilegur fundur í 20/20 hópnum, sem fjallar um hugmyndir og aðgerðir til þess að efla lífsgæði, heilbrigði og jöfnuð á landinu. Þetta ágæta fólk fer á flug á hverjum fundi og yrði margt til bóta hér, ef eitthvað af þeim gullkornum yrði að veruleika. Þorvaldur Þorsteinsson tók góða rispu í dag um stöðu menningar og lista og veitir ekki af.

Við fengum í nesti hátt á annað hundrað tillögur og hugmyndir sem búið er að safna saman frá þessum hópum og mörgum öðrum hér og hvar af landinu. Er okkur nú gert að fara vel yfir þessi verk og meta hvað við teljum brýnast og gagnlegast að setja í forgang. Verður ekki vandalaust að velja 20 tillögur úr þessu mikla safni, eins og fyrir okkur er lagt.

Katla hefur fengið jákvætt svar frá Cornell University. Þá veit maður hvar hana verður að finna næstu 5 eða 6 árin. Hún á eftir að læra mikið og standa sig vel eins og hingað til. Hún er hörkugóð námsmanneskja. Vona bara að hún festi ekki endanlega rætur í Bandaríkjunum.

4.3. FIMMTUDAGUR

Lítið varð úr rigningu og slyddu sem spáð var. Stuttaralegar skúrir, allt meinlaust og ekki reiðtúrum til trafala. Hitinn fór upp í 5°.

Veitingahúsinu Friðriki fimmta hefur verið lokað og þykir ekki gleðiefni. Þetta athyglisverða veitingahús var sett á laggirnar fyrir 9 árum, ef ég man rétt, og sló í gegn sökum frumleika og gæða. Hjónin Friðrik V. Karlsson og Arnrún Magnúsdóttir ráku Friðrik fimmta og buðu þar upp á nýstárlegan mat og notaleg húsakynni. En væntanlega hefur Akureyri ekki verið nægilega stór fyrir þennan stað. Við Jónas borðuðum þar tvisvar þegar við vorum þarna á ferð og líkaði vel.

Hins vegar er ég hrifnari af Halastjörnunni, litlu veitingahúsi í gömlu sveitabýli í Öxnadalnum, Hálsi undir Hraundranga. Þar er ekki um margt að velja, en það gerir minnst til, allt er firna gott sem á boðstólum er hverju sinni. Aðstæður, matseðil, myndir o. fl. má sjá á www.Halastjarna.is

Þegar ég kom á Halastjörnuna í fyrsta skipti tók Rúnar Marvinsson á móti mér og vinkonu minni. Hann sá um matseldina nokkra daga í forföllum aðalkokksins. Og þvílík veisla!

5.3. FÖSTUDAGUR

Dumbungsveður fram eftir degi, stöku sinnum lítil rigning. Hitastig um 6°. Síðla dags herti vind og undir kvöld fór að rigna mikið.

Mikil taugaveiklun og ergelsi er í gangi vegna atkvæðagreiðslunnar um Icesave á morgun. Málið snýst um lög nr. 1/2010, sem samþykkt voru á Alþingi um áramótin, en forsetinn neitaði að staðfesta með undirskrift sinni, enda höfðu 50 – 60 þúsund manns skorað á hann að gera svo. Það kallaði vitaskuld á allsherjar atkvæðagreiðslu mörgum til ama, en einnig þóttust ýmsir geta hrósað happi. Vafalaust hafna flestir lögunum, en óljóst er hvað þá tekur við.

Eini jákvæði punkturinn við þetta inngrip forsetans er sá, að nú verður ekki hjá því komist að taka á óljósu ákvæði stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvernig á að fara með hugsanlega neitun forseta gagnvart lögum Alþingis? Hvernig leyfist forseta í raun að fara með slíka heimild? Á heimildin að gilda gagnvart öllum málum eða ber að hafa undanþágur? Hvernig á að undirbúa og framkvæma þjóðaratkvæði? Allt þetta þarf að gaumgæfa vel og vandlega og raunar nauðsynlegt að endurskoða ekki aðeins þetta ákvæði í stjórnarskránni, heldur öll ákvæði hennar. Fyrr en síðar.

6.3. LAUGARDAGUR

Hitastig 2 – 3°, rigning öðru hverju og talsverður vindur. Mikið hefur greinlega rignt í nótt því allur snjór og ís voru horfnir. Um kvöldið fór svo aftur að snjóa.

Svartþröstur heimsótti okkur ofurlitla stund, flottur karlfugl með sterkgula gogginn sinn. Gaman að sjá svartþröst sem er farinn að venja komur sínar til landsins

Verðlaun Blaðamannafélags Íslands voru afhent í dag. Fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2009, fyrir bestu umfjöllun ársins 2009 og blaðamannaverðlaun ársins 2009. Síðastnefndu verðlaunin fékk Jóhann Hauksson, blaðamaður á DV fyrir umfjöllun um fall ríkisstjórnarinnar (þ.e. Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar) og þýðingarmiklar fréttaskýringar um mikilvæg þjóðfélagsmál, eins og það var orðað.

Jóhann er ötull blaðamaður og vafalaust vel að verðlaunum kominn. Hins vegar dregur það úr trúverðugleika hans sem blaðamanns hvernig hann óskapast í bloggskrifum og greinaskrifum í DV, þar sem hlutleysi fær engan aðgang. Þar er áberandi reiði, heift og hneykslun. Hann er Samfylkingarmaður og hefur tæpast stjórn á sér gagnvart Vinstri grænum, sem hann kennir um allt sem miður fer að hans dómi. Hann túlkar einlæga framgöngu fólks sem sviksamlega þjónkun við stjórnarandstöðu. Að hans dómi á fólk innan sama þingflokks að þegja og hlýða því sem æðsti stjórnandi ákveður.

7.3. SUNNUDAGUR

Hitastig frá 2 – 4°. Dálítill vindur, stundum rigning, stundum hríð.

Afmælisveisla í Skildinganesi. Kristín 8 ára í dag. Hún var ósköp sæl með úrið sem við gáfum henni, langaði einmitt í úr til að læra betur á klukku.

Þjóðaratkvæðagreiðslan fór sem við var að búast. Í Silfri Egils í dag rifust formenn flokkanna eins og kjánar. Framganga þeirra gefur ekki bjartar vonir um samvinnu og lausn mála. Ríkisstjórnin er svolítið beygluð eftir atkvæðagreiðsluna og getur sjálfri sér um kennt. Það blasti auðvitað við að gleðipinnarnir í stjórnarandstöðunni myndu hælast um og túlka niðurstöður allar sér í hag. Held þó að ríkisstjórnin lifi enn um sinn.

Tvennt þyrfti hún að gera sér til upplyftingar: Í fyrsta lagi þarf hún að stokka upp í ríkisstjórninni, það er nánast lífsnauðsynlegt. Í öðru lagi, sem er reyndar enn brýnna, verður hún að skikka bankana til að nota peningana sem fylla allar skúffur og skápa til að leysa fólk úr skuldafjötrum. Það hreinlega verður að færa skuldir heimilanna niður. Félagsmálaráðherra hefur miklar áhyggjur af því að þá fái einhverjir aðstoð sem ekki þurfa á henni að halda. Ég hef engar áhyggjur af því fólki. Ég hef áhyggjur af þeim sem eru að missa allt sitt og gefast upp. Þeim verður að hjálpa.

Sjónvarpið sýndi Draumalandið í kvöld. Sá það á sínum tíma með kökk í hálsi og ekki var hann minni núna. Þeim sem ábyrgð bera á illri meðferð dýrmætrar náttúru verður ekki fyrirgefið á þeirri forsendu að þau hafi ekki vitað hvað þau voru að gera. Þau vissu það upp á hár og gáfu skít í náttúruna. Þeim verður aldrei fyrirgefið.