Spurðu ekki hvað aðrir geta gert fyrir þig

FEBRÚARDAGAR 2010

22.2.MÁNUDAGUR

Enn gluggaveður, heiðríkt, nokkuð hvasst, frostið -5° að morgni, úrkomulaust.

Fórum frábæran þeysisprett kringum Rauðavatnið, sem er að sjálfsögðu ísilagt eins og flest vötn um þessar mundir. Rifjast stundum upp fyrir mér þegar við fórum eitt sinn ríðandi yfir vatnið ísilagt. Skyndilega rann Gaukur minn til og datt á hliðina og ég náttúrulega með. Gaukur lá skamma stund sallarólegur, en brölti svo á fætur og þá sá ég hvers kyns var, hann hafði misst skeifu. Og skeifulaus hestur er ekki lipur á ís. Við röltum því saman heim í hús. Hef ekki stundað ístölt síðan.

Mannsi kominn með gangráð. Fékk undanfarið ár öðru hverju köst sem ekki tókst að útskýra þrátt fyrir alls konar rannsóknir. En nú fyrir helgina fékk hann svo enn eitt kastið – þá staddur hér fyrir sunnan – og gekk á ýmsu þangað til sérfræðingar ákváðu loksins að rétt væri að setja í hann gangráð því þetta virtist greinilega tengjast hjartanu. Er hann nú vonandi laus við þessu hvimleiðu köst, enda á leiðinni til Kanarí eftir rúma viku með Siggu og nokkrum kunningjum þeirra. Læknarnir vita af því og eru búnir að samþykkja þá fyrirætlun. Eins gott að gangráðurinn góði vinni sitt verk.

23.2. ÞRIÐJUDAGUR

Veðrið nákvæmlega eins og í gær nema að vindurinn æstist nokkuð þegar leið á kvöldið.

Ég heyri æ fleiri lýsa því yfir að þau séu hætt að lesa og hlusta á fréttir. Staðreyndin er sú að endalausar fréttir af svindli og siðleysi græðgiskarla (og stöku kvenna) eru farnar að valda fólki gríðarlegum ónotum og vanlíðan. Það er ömurleg reynsla að komast að raun um hvílík spilling og siðleysi hefur fengið að búa um sig í landinu okkar í fullkomnu afskiptaleysi þeirra sem áttu að gegna eftirliti.

Mikið vildi ég að unnt væri að safna saman öllum auðjöfraskúrkum þessa lands og komið þeim fyrir þar sem þeir hvorki sæust né heyrðust í nokkur ár, að því tilskildu auðvitað að þeir skiluðu þýfi sínu, hvar sem það er að finna á undanbragðaeyjum og skattaskjólum. Því fé ætti að skipta milli þeirra sem verst eru settir eftir þetta ömurlega “góðæri” sem hér var í boði græðgissjúkra frjálshyggjugaura.

Í staðinn fyrir Guð blessi Ísland ætti svo hver og einn að segja við sjálfan sig á hverjum morgni: Spurðu ekki hvað aðrir geta gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir aðra. Amen!

24.2. MIÐVIKUDAGUR

Dagurinn hófst með kunnuglegu veðurfari, vindur í skikkanlegu hófi, frost -6°, sólarglenna. Síðla dags var orðið lágskýjað mjög og fór að snjóa. Nálægt miðnætti hafði þykkt hvítt teppi lagst yfir allt. Og enn snjóar.

Veðurstofan segir að nokkuð hafi snjóað í Hrunamannahreppi í dag. Því ber að fagna þótt einhverjum kunni að þykja það undarlegt. En staðreyndin er að frostið og þurrkurinn undanfarna daga eru farin að hindra aðgang útigangshrossanna að drykkjarvatni. Ár og lækir ísilögð og ekki einu sinni snjór til að svala þorstanum. Sem betur fer er þetta ekki slæmt núna á Kaldbak.

25.2. FIMMTUDAGUR

Lárétt stórhríð mestallan daginn. Rofaði þó til öðru hverju. Nokkur hreystimenni skokkuðu eftir sjávarbakkanum hér fyrir neðan með hríðina í fangið. Þeim er ekki “flysjað” saman, eins og gull af konu sagði eitt sinn. Frostið mun hafa farið í -8°.

Verð að viðurkenna að ég var svolítið treg að koma mér í morgunsundið. En að sjálfsögðu var það jafn gott og hressandi og alla aðra morgna, þótt skaflar væru í útiklefanum, önnur sturtan frosin og skítkalt að labba berfætt í snjónum eftir laugarbakkanum. Morgunsundið er ALLTAF ómissandi. Og hana nú!

Snjóskaflar í Víðidalnum. Óðum upp í klof til að komast um svæðið og hleypa hestunum út. Þeir undu sér bærilega í snjónum, en um reiðtúra var ekki að ræða.

Matvælastofnun minnir hestamenn á skyldur sínar til að fylgjast vel með hrossum á útigangi og tryggja að þau hafi aðgang að vatni. Gott hjá þeirri stofnun að bera umhyggju fyrir dýrum rétt eins og mönnum.

26.2. FÖSTUDAGUR

Veður hægara í dag, minni vindur, minni snjókoma, minna frost.

Brugðum okkur í reiðtúr. Hestarnir létu eins og þeir hefðu ekki fengið að spretta úr spori síðan í janúar, höfðu þó aðeins fengið frí frá okkur einn dag. Þetta eru hressir fákar. Páll Steingrímsson, sá stórmerki kvikmyndagerðarmaður, átti leið hjá og tók myndir af okkur í flugstartinu. Hvort þær verða notaðar í næstu kvikmynd á hans vegum spurði ég ekki!

Lauk við Minnisbók Sigurðar Pálssonar í gær. Bókin fjallar um veru og nám Sigurðar í París á þann hátt að maður nýtur þess alls með honum. Hún er stórskemmtileg, einkar vel skrifuð og oft svo fyndin að ég skellti upp úr. Stundum fyndin, hugljúf og dapurleg í senn, eins og frásögnin af Gertrud, fallegri og stórgáfaðri kisu sem tók sér bólfestu í leiguíbúð hans í París. Mæli með þessari bók.

27.2. LAUGARDAGUR

Ágætt veður að morgni, en rauk svo upp nær hádeginu. Mikill hvellur öðru hverju allan daginn, hvasst og stórkarlaleg hríð. Snjó hefur kyngt niður.

Fákur var búinn að auglýsa ísmót á Rauðavatni í dag og átti að verðlauna sigurvegara í ýmsum flokkum með peningum, og fleira var í boði. Greinilega hafði orðið að aflýsa þeim áformum, en í þess stað fór fram einhvers konar keppni á Brekkuvellinum að viðstöddum fjölda bíla, sem væntanlega hafa verið setnir áhorfendum. Hefur varla verið mjög skemmtilegt né notalegt. Sá varla í kappana á vellinum þegar við ókum framhjá.

Ég fylgdist með Edduhátíðinni á Stöð2 í kvöld. Þekkti reyndar ekki margt af því sem virðist njóta mikillar hylli um þessar mundir, svo sem Fangavakt og Bjarnfreðarson. Hins vegar gladdi mig að Draumalandið var valið heimildarmynd ársins, en í þeim hópi voru margar góðar myndir. Athyglisvert hversu margir viðstaddir jórtruðu tyggjó af miklum móð, örkuðu jafnvel tyggjandi upp á sviðið og héldu því áfram meðan þeir þökkuðu fyrir sig. Ferlega hallærislegt. Er þetta fólk að reyna að dylja áfengisþef eða hvað?

28.2. SUNNUDAGUR

Hvasst og kalt, úrkomulaust, hitastig sveiflaðist kringum frostmarkið.

Stórfjölskyldan borðaði saman sunnudagsmatinn og spjallaði margt. Alltaf jafn gaman að hitta þetta góða fólk okkar. Vantaði bara belgíska hópinn.

Horfði á skemmtilega heimildarmynd Dúa J. Landmark í sjónvarpinu. “Úti í mýri” nefnist myndin sem tekin er í Friðlandinu í Flóa, en um það má einnig fræðast á www.fuglavernd.is Þetta var skemmtileg mynd, sem kveikti löngun hjá mér að skoða Friðlandið. Kannski kemst það í verk að vori.