Feitir vel úr vetrarhögum

FEBRÚARDAGAR 2010

8.2. MÁNUDAGUR

Frábært veður. Sólin skein og hitastigið hvarflaði á milli 2° og 6°. Klukkan 10 að kvöldi sýndi mælirinn 4°. Tek fram að hann er ekki bilaður!

Óskar járnaði Álm upp á nýtt og úrskurðaði hann á góðum batavegi. Við drifum okkur með hann upp á Kaldbak og sóttum Djarf og Létti í staðinn, svo að nú erum við með 2 hesta hvort. Það er mikið að gera hjá Óskari, en vonandi getur hann járnað hestana okkar sem fyrst.

9.2. ÞRIÐJUDAGUR

Enn minnir veðrið fremur á vor en vetur. Hiti mældist 5° mestallan daginn, en sólin var ekki jafn glaðhlakkaleg og í gær.

Áslaug Pálmadóttir á afmæli í dag. Þessi fjörmikla og skemmtilega stúlka er orðin 4 ára. Ég hringdi í hana í kvöld og þá kom í ljós að hún er lasin með mikinn hita og var bara heima hjá pabba sínum í dag.

Ekki komst ég á bak í dag, hestarnir ennþá ójárnaðir. Komst að raun um að Óskar járningamaður liggur heima í pest, sem sagt fleiri lasnir en ungfrú Áslaug. Ég fékk hins vegar nóg að gera við að greiða úr flækjum í föxum og töglum. Mestur tíminn fer í faxið á Stormi og taglið á Létti. Mér líkar vel að bjástra í hesthúsinu og nostra við hestana, og þeim virðist heldur ekki líka neitt illa við mig.

10.2. MIÐVIKUDAGUR

Góðviðrið samt við sig. Hlýtt, örlítil úrkoma. Laukspírurnar teygja sig æ lengra upp úr moldinni. Hætt við að þeim hefnist fyrir bjartsýnina.

Nú er komið að Sigrúnu að eiga afmæli og er þessi unga kona orðin 42 ára. Hún lætur sér ekki nægja að vinna fulla vinnu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og stundar meðfram nám í hönnum í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Listagengið er ríkt í þeim Torlaciussystrum, og dæturnar hafa augljóslega fengið sinn skerf.

Margar furðulegar fréttir er landsmönnum boðið upp á þessa dagana. Nú er okkur sagt að fundist hafi gloppa í bótakerfinu, sem þurfi að laga. “Öryrki sem hefur verið í starfi en misst vinnuna fær bæði greiðslur frá Tryggingastofnun og atvinnuleysisbætur”, segir í Fréttablaðinu. Fram kemur að þetta eigi við um hátt í 700 manns og mögulegt sé að einstaklingur geti haft ríflega 250 þúsund í grunntekjur á mánuði með þessum hætti. Er nú unnið að athugun og lausn vandamálsins og tekið fram að sú lausn þurfi að vera réttlát og sanngjörn. Þó nú væri! Ætli öryrkjum veiti annars nokkuð af þessu? Væri ekki örugglega brýnna að taka á öðrum en öryrkjum þessa lands?!

11.2. FIMMTUDAGUR

Hlýtt og gott veður. Rigndi svolítið með köflum.

Kættist þegar ég kom í hesthúsið í dag, Óskar var búinn að járna hestana. Brosið fór þó af mér þegar mér tókst ekki með nokkru móti að koma hnakknum á Gaukinn minn góða. Hann er soddan átvagl og ekki í fyrsta skipti sem ég fæ hann alltof feitan úr vetrarhögum. Með dyggri aðstoð Lóu tókst með herkjum að spenna hnakkinn á Storm, og riðum við stöllur saman kátar og hressar niður að brú og síðan hring á vellinum. Þvílíkt gaman!

Mundi loksins að taka nýja diskinn með þingeyska karlakórnum Hreimi með mér út í bíl. Á ekki aðra græju til að hlusta á tónlist. Firnagóður diskur. Mörg laganna fjalla um sól og vor, fugla og blóm. Glöðust var ég að heyra lag Sigurðar Sigurjónssonar við ljóð Halldóru B. Björnsson: Vorið kemur. Held mikið upp á þetta fallega lag sem Guðmundur Jónsson syngur.

12.2. FÖSTUDAGUR

Sama fallega veðrið fram eftir degi. Svo varð himinninn úrillur og skvetti úr sér.

Kunningjakona mín var í áfalli í morgunsundinu, sagðist hafa heyrt í fréttum að Sjálfstæðismenn væru komnir með 35% fylgi. Hún hreinlega skjögraði eftir laugarbakkanum í örvæntingu sinni. Sá þegar heim kom að Frjáls verslun ber ábyrgð á þeirri könnun. Mér hefur alltaf fundist eitthvað undarlegar kannanir á þeim bæ.

Nú kom Jónas með mér í hesthúsið og tókst að spenna gjarðirnar um bumbur hestanna minna. Þeim veitti sko ekki af að púla svolítið á brettunum í World Class! Engin vandræði með hesta Jónasar, enda þeir minni og nettari. Þó eru þeir talsvert feitari en venjulega. Veturinn hefur farið vel með stóðið okkar.

13.2. LAUGARDAGUR

Það rigndi mikið í dag, en var þokkalega hlýtt.

Gat ekki stillt mig um að skreppa á bak þrátt fyrir rigninguna. Nú gekk aðeins betur að girða hnakk á myndarlegu hestana mína, en ég hefði ekki getað það án aðstoðar. Til þess eru náttúrulega almennilegir hestasveinar!

Bókin hans Tapio Koivukari féll mér vel. Skemmtilega skrifuð bók um sérstaka og spennandi viðburði að loknu framhaldsstríði Finnlands og Sovétríkjanna 1941-1944. Það rann upp fyrir mér hversu lítið ég hef lesið af finnskum bókmenntum um ævina. Þyrfti að verða mér úti um fleiri góðar frá Finnlandi.

14.2. SUNNUDAGUR

Fer nú lítið fyrir vori í lofti. Hitamælirinn rétt læddist yfir frostmarkið í morgun, en nú að kvöldi er frostið búið að taka völdin. Um miðjan daginn kom skyndilega hríð, en hvorki stóð hún lengi né tókst að skilja mikið eftir. Það er víst öllu afdrifaríkara víða annars staðar, einkum norðan lands.

Sátum veislu í Skildinganesi í tilefni af fyrrnefndum afmælum þeirra Áslaugar og Sigrúnar. Ekki í kot vísað frekar en venjulega. Borð svignaði undan heimabökuðum flatbrauðum, gerbollum og vatnsbollum, og skorti hvorki súkkulaði, sultu né rjóma. Þar með er búið að afgreiða bolludaginn sem verður á morgun. Bollur í bakaríi jafnast engan veginn á við Skildinganesbollurnar.

Met í bláskeljaáti

FEBRÚARDAGAR 2010

1.2. MÁNUDAGUR

Fremur ljúft veður fram eftir degi með 2° hita. Herti vindinn seinnipartinn.

Steingrímur Hermannsson dó í morgun. Hann var merkilegur karl, oft svolítið spaugilegur, einlægur, jafnvel barnalegur á köflum. Ég kynntist honum talsvert á mínu fyrra tímabili á Alþingi og líkaði vel við hann eins og líklega flestum. Hann var aldrei með neinn yfirgang né hroka og leysti ágreining manna á milli í rólegheitum. Ef hann þurfti að taka af skarið strauk hann hendi yfir hár sitt og sagði “Ég verð að segja það”.

Fréttablaðið þykist hafa heyrt að senn verði Páll Magnússon látinn fjúka og í hans stað verði Ögmundur gerður að útvarpsstjóra. Ekki efast ég um að hann yrði góður í því embætti. Reyndar ekki bara góður, heldur frábær. Myndi þó sakna hans mjög af þingi. En líklega er óþarfi að velta þessari hugmynd fyrir sér. Molar dagblaðanna eru ekki ýkja áreiðanlegar heimildir.

2.2. ÞRIÐJUDAGUR

Fallegt gluggaveður í dag. Veðurmælir Íslandsbanka, sem trónir yfir Neslauginni, átti erfitt með að ákveða sig í morgun. Sýndi ýmist -1°, 0°, +1° eða + 2°. Í kvöld er við frostmark og vindurinn ýlfrar. Því miður er máninn í felum.

Lauk lestri bókar Ármanns í gærkvöldi. Varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum. Viðbrigðin voru vissulega mikil eftir allt vopnaskakið í bók Óskars Guðmundssonar um Snorra. Vonarstrætið virtist kannski þess vegna ansi dauflegt. Hafði reyndar mun meiri áhuga á lífshlaupi Theodóru en Skúla og hefði gjarna viljað ýtarlegri umfjöllun um hana og heimilislífið hjá þeim hjónum. En nú hef ég snúið mér að nýrri bók, “Yfir hafið og í steininn” eftir finnska rithöfundinn Tapio Koivukari.

Og nú er Jóhanna forsætisráð lögst í ferðalög og hyggst hitta mann og annan, en um það má ekki tala, því það er leyndarmál sem átti ekki að vitnast. Hvað varð um yfirlýsingarnar um gagnsæið og allt upp á borðið?

3.2. MIÐVIKUDAGUR

Hitastig dagsins fór ekki yfir frostmarkið og þar sem vindur blés af kappi var ansi napurt utan dyra.

Fór á bráðskemmtilegan fund hjá EVG (eldri vinstri grænum) í kvöld. Þar var í tali, tónum og myndum rifjuð upp brot úr lífshlaupi og verkum þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar Árnasonar. Dætur þeirra og aðrir aðstandendur sögðu frá ýmsum minnisstæðum atvikum frá æviskeiði bræðranna, sungu hressilega söngva úr þeirra fórum sem allir tóku undir. Ellen Kristjánsdóttir söng lög Jóns Múla og Edda Þórarinsdóttir söng lög Jónasar með undirleik Eyþórs Gunnarssonar. Fullt hús. Frábær skemmtun.

4.2. FIMMTUDAGUR

Fallegt veður, sólskin, þurrt, svolítill strekkingur, hiti kringum frostmark.

Enn berast fréttir af viðbjóðslegu athæfi manna, sem táldraga ungar stúlkur, jafnvel börn, nauðga þeim og svívirða. Þetta eru andstyggilegustu glæpir sem um getur, glæpir sem eyðileggja líf þeirra sem fyrir þeim verða. Hvað er að þessum mönnum? Og hvað er að réttvísinni?

5.2. FÖSTUDAGUR

Svipað veður og verið hefur undanfarna daga.

Jónas er sjötugur í dag og ég fegin að vera ekki lengur ein á áttræðisaldri í stórfjölskyldunni. Hann er ekki aldeilis að koðna niður karlanginn, tekur heldur betur á í ræktinni 6 morgna vikunnar og sinnir hinum og þessum verkefnum af mikilli elju, enda afkastamaður. Brugðum okkur á Þrjá Frakka í kvöld í fylgd með elstu sonunum og fjölskyldum þeirra og áttum skemmtilega stund með þeim. Úlfar bar okkur fulla diska af bláskeljum og sagði okkur að njóta vel svona rétt á meðan við veldum næsta rétt. Held ég hafi sett met í bláskeljaáti.

Því miður vantaði nokkra í hópinn okkar. Pétur og Marsela hringdu með hamingjuóskir frá Luxemborg. Einnig vantaði Dóru og syni í Belgíu. Þau spjölluðu lengi við Jónas á skype og sungu að sjálfsögðu afmælissönginn af hjartans lyst.

6.2. LAUGARDAGUR

Lítil breyting á veðri. Hitastigið hefur aðeins hækkað, en meiri vindur kælir heldur meira.

Það er ekkert lát á ömurlegum fréttum um svik og siðblindu í samfélaginu. Þetta gráðuga, eigingjarna, tilitslausa fólk, sem hefur rústað orðstír þjóðarinnar, er ekkert skárra en snargeggjaðir víkingarnir á Sturlungaöld. Víkingar nútímans leggja að vísu ekki stund á manndráp, þeir traðka bara á venjulegu fólki, ef þeir þá yfirleitt veita því eftirtekt.

DV hefur staðið sig vel í hlutverki alvöru rannsóknarblaðs allar götur frá hruninu mikla. Blaðamenn rótast eins og naut í flagi af fullkomnu vægðarleysi. Stundum sýpur maður hveljur við lesturinn. Oftast hefur DV reynst hafa á réttu að standa. Því miður er blaðið hins vegar ekki tekið jafn alvarlega og það ætti skilið. Margir afgreiða það sem óvandað æsingablað og blaðamönnum þess ekki treystandi. Karlrembusvipur blaðsins skemmir fyrir því, klámfengnar auglýsingar, niðurlægjandi umfjöllun um konur sem eru að reyna að láta á sér bera og uppskera frægð. DV er ekki eitt um slíkt, en er ófyrirleitnara á þessu sviði en önnur blöð. Það dregur úr trausti lesenda. Skúrkunum hentar að þeirri ímynd sé haldið á lofti.

7.2. SUNNUDAGUR

Hitastigið var frá 4 – 6° í dag. Dálítill vindur, þurrt og bjart.

Fórum upp á Kaldbak í þessu ágæta veðri og glimrandi færi. Sá varla snjó nema á fjallatoppum. Hvergi hálka á vegum. Eins gott þar eð við vorum með hestakerruna eins og fleiri á ferðinni.

Hestarnir hafa átt góða vist hingað til þennan vetur, enda mestan part ágætis veðurlag. Allir í góðum holdum og hvergi hnjóska að finna. Við tókum þrjá með okkur í bæinn, Álm, Gauk og Storm. Álmur er á 23. vetri og er ekki lengur riðið, en fær að njóta góðs atlætis í Kaldbakshögum meðan hann er hraustur. Við tókum hann í bæinn til að láta líta á hóf sem þarf að dytta að. Seinna í vikunni flytjum við hann aftur austur og sækjum þá 2 hesta í staðinn.

Hver drap hvern og hvers vegna?

JANÚARDAGAR 2010

29.1. FÖSTUDAGUR

Tók tímann sinn að skafa hrímið af bílnum í morgun. Fallegt veður, frekar stillt, sólskin, hitastig frá -2° til +2°.

Var að ljúka bókinni miklu um Snorra Sturluson. Liggur við að maður þurfi að lesa hana aftur til að átta sig betur á því hver var hvað, hverjir voru vinir og hvenær þeir urðu óvinir og hver drap hvern og hvers vegna. Svolítið erfitt að skilja allt þetta vesen á körlunum á þessum tíma, sífellt verið að safna liði og efna til vopnaglamurs. Þeir rupluðu og rændu, hröktu minnimáttar af jörðum sínum, sölsuðu undir sig hvað sem þeir komust yfir, stálu og ráku til síns heima heilu hjarðirnar af nautgripum til að fæða vopnabræður, sem þeir höfðu smalað saman sér til aðstoðar. Meiddu, stungu augun úr mönnum, hjuggu af fætur, einn eða tvo, drápu. Siðleysi réði gjörðum manna. Græðgin, frekjan, yfirgangurinn, tillitsleysið.(Minnir á nútímann!!!) Og þegar of langt þótti gengið var hinum seku gert að fara utan og jafnvel suður til Rómar að fá syndakvittun hjá páfa. Athyglisverð bók. Hefði þó viljað fá örlítið meiri umfjöllun um aðra hluti en vopnaskak karlanna.

30.1. LAUGARDAGUR

Einkar fallegt veður í allan dag. Logn, og sólin skein svo lengi sem hún tolldi á himninum. Að kvöldi tók fullur máninn við og kastaði birtu á sjóinn.

Loksins hittumst við systur í morgunsundinu. Svana hefur verið að kljást við alls konar ákomur, sem hafa hindrað hana í sundiðkun. Við tókum góða kjaftatörn að loknum sundspretti.

Mér fannst aldeilis óhugsandi annað en að njóta góða veðursins og fór í langan göngutúr um Suðurnesið. Stansaði hvað eftir annað til að njóta útsýnisins, fylgjast með fuglamergðinni og hlusta á úið í æðarfuglinum við ströndina. Svanirnir og gæsirnar halda sig mest við Bakkatjörnina og þiggja brauð hjá vegfarendum, sem voru hins vegar fáir að þessu sinni. Áreiðanlega flestir að horfa á handboltann.

Leikur Íslendinga og Frakka var ríflega hálfnaður þegar ég kom heim og hafði ég að sjálfsögðu misst af besta kaflanum. Leikurinn endaði með sigri Frakka, sem eru með besta liðið að því mér er sagt.

31.1. SUNNUDAGUR

Aðgerðarlítið veður í dag. Hiti kringum frostmark. Gola, skýjað, engin úrkoma.

Pétur og Marsela flugu til Amsterdam í morgun, tóku þaðan lest til Gent þar sem Dóra og synir biðu spennt. Þau verða þar næstu daga og ferðast svo um nágrannalöndin næstu tvær vikur.

Hafði annað augað á Silfrinu. Fróðlegast fannst mér að hlusta á Þórð Magnússon, sem fór skilmerkilega yfir meint úrræði banka og ríkisstjórnar fyrir fólk sem glímir við skuldir heimilanna. Góð framsetning og athyglisverðar upplýsingar, sem sýna glöggt hvað það er nauðsynlegt að taka almennilega á þessum málum. Úrræðin henta aðeins þeim sem hafa tekið fáránlegustu lánin, þeir fá miklar afskriftir, hinir sitja eftir í súpunni. Meðan ekki tekst að finna réttlátar lausnir á þessu sviði heldur réttmæt reiði fólks áfram að grassera.

Leikur Íslendinga og Pólverja um bronsið var óbærilega spennandi. Einhverjir hljóta að hafa fengið hjartaáfall. Nokkrar myndir munu lifa í minni. Róbert eins og ormur í hringsnúningi á línunni og Alexander í fljúgandi magalendingu að slá boltann úr hendi pólverskrar skyttu eru þær eftirminnilegustu. Það var gaman að sjá okkar menn taka við bronsinu. Þeir voru ólíkt kátari núna en þegar þeir fengu silfrið á Ólympíuleikunum í Peking 2008!

Það gengur hægt að venjast fjarveru Víkings. Enginn kisi í rúminu sem hann hefur oftast bælt um nætur. Enginn kisi segir mjá við mig á morgnana og biður fallega um örlítinn kaffirjóma. Enginn kisi skríður upp í kjöltu mína til að fá svolítið klapp og klór. En hann minnir á sig oft á dag.

Kisinn ljúfi sofnaður svefninum langa

JANÚARDAGAR 2010

22.1. FÖSTUDAGUR

Veðrið var mjög skaplegt í morgun og hiti 4°. Það varð síðan harla rysjótt, kólnaði nokkuð, rigndi stundum og snjóaði meira að segja.

Atburðir dagsins voru í takt við veðurlagið. Hér á Fornuströnd hafa verið erfiðir dagar vegna veikinda heimiliskattarins. Undanfarnar vikur hefur Pétur verið óþreytandi að koma meðulum í Víking og hlynna að honum á alla vegu, og ég var iðulega með hann í kjöltunni. Katrín reyndi það sem hægt var til að lækna Víking, en í dag var orðið ljóst að hann yrði að fá hvíldina. Hún kom til okkar í kvöld og svæfði þennan ljúfa og fallega kött. Víkingur fæddist hér niðri í bílskúr og hefur átt hér heimili í 16 ár og 2 mánuðum betur. Við söknum hans mjög, enda sannfærð um að þetta var ljúfasti heimilisköttur sem hægt er að hugsa sér. En svona er lífið.

Pétur skráði í fésbók: “Ég kjökraði eins og smábarn þegar flottasti, klárasti og ljúfasti kisi veraldar sofnaði svefninum langa í gærkvöldi. Hvíl í friði Víkingur”

23.1.LAUGARDAGUR

Vindurinn gnauðaði í allan dag og rigningin dundi. Hitinn fór hins vegar aldrei niður fyrir 7°. Ótrúlegt veðurfar á þessum árstíma. Ýmis jarðargróður veit ekki sitt rjúkandi ráð. Blómlaukar eru farnir að gægjast upp úr moldinni sunnan undir.

Hlustaði á Vikulokin á Rás 1, sem ég nenni sjaldan nú orðið, en gat ekki stillt mig þegar ég heyrði að gestir þáttarins voru þrjár konur, Lilja Mósesdóttir, Steinunn Valdís og Þorgerður Katrín. Lilja hafði ýmislegt fram að færa, var málefnaleg og tók ekki þátt í þrasi og hnútukasti, sem hinar tvær gátu ekki stillt sig um.

Svana plataði mig með sér suður í Hafnafjörð að hlusta á þingeyska karlakórinn Hreim syngja í Víðistaðakirkju. Það reyndist frábær skemmtun, góður söngur, skemmtileg lög og gaman að hitta nokkra gamla kunningja úr sýslunni.

Ætlaði varla að þora að horfa á handboltastrákana tapa fyrir Dönum í kvöld. Gat þó ekki stillt mig um að sitja nálægt sjónvarpinu og ráða sudoku milli þess sem ég gaut augunum á skjáinn. Endaði svo með því að límast við hann og naut þess í botn að sjá okkar menn vinna Danina með 5 marka mun.

24.1. SUNNUDAGUR

Á þriðja degi Þorra er hitinn enn 7–8 stig frá morgni til kvölds og talsverð rigning annað slagið. Ég horfi með vaxandi áhyggjum á laukana í beðinu.

Katrín á afmæli í dag. Við brugðum okkur á Birkigrund í tilefni dagsins og fengum kaffi og þessar líka snilldar vöfflur með sírópi og rjóma. Þruma litla þrífætta fagnaði gestum og þáði með þökkum bæði klapp og klór. Þrír kettir spásseruðu um stofuna, en ekki alveg jafn hrifnir af innrás gesta. Kettir eru þóttafyllri en hundar.

Kláraði “Óljósu mörkin” hans Milan Kundera. Athyglisverð og mjög vel skrifuð bók. Og nú er komin ný bók á náttborðið, “Vonarstræti” eftir Ármann Jakobsson, sem ég hef lengi ætlað að lesa.

25.1. MÁNUDAGUR

Hitamælirinn sýndi 9° í morgun. Minnkaði aðeins þegar á leið.

Það er alltof æsandi að horfa á þessa handboltastráka. Skil vel að svona leikir geti valdið hjartaslagi. Nú áttu Íslendingarnir við Króata, sem hingað til hafa ekki tapað leik. Okkar strákar voru yfir mestallan leikinn, sem endaði svo með jafntefli. Mér fannst leikurinn reyndar ekkert sérlega góður, oft hálfgert hnoð og troðningur, en dýringis augnablik á köflum. Látalæti Króatanna voru frekar þreytandi, þóttust ítrekað hafa meiðst, sem augljóslega var sýndarmennska. Og svo eru það Rússarnir á morgun.

Næstum jafn slæmt fyrir hjartað, þegar tilkynnt var að rannsóknarnefndin um hrunið treysti sér ekki til að klára skýrslu sína á tilsettum tíma, sem skila átti um næstu mánaðamót. Nú logar allt samfélagið af hneykslun og gremju.

26.1. ÞRIÐJUDAGUR

Ljúfur morgun, hiti 4°. Herti vind þegar leið á daginn. Rigndi smávegis.

Rússarnir reyndust ekki erfiðir viðfangs, svolítið hægfara og þunglamalegir. Margir þeirra stórir og þéttvaxnir og ekki fýsilegir að glíma við á línunni. Okkar menn unnu á léttleika og snerpu. Þegar ljóst var orðið með úrslitin fengu nýliðarnir tækifæri og var gaman að sjá þá spreyta sig.

Kastljósið bauð upp á merkilegt viðtal Helga Seljan við Ásbjörn Óttarsson sjálfstæðismann. Sá hafði skammtað sjálfum sér og eiginkonunni 20 milljóna arð úr eigin fyrirtæki, Nesver, sem þó var með neikvætt eigið fé. Ásbjörn var furðu drjúgur með sig, sagðist bara ekki hafa vitað að þetta væri lögbrot, en nú væri hann búinn að endurgreiða arðinn góða. Vantaði bara að hann segði “nú var ég aldeilis góður strákur!”

27.1.MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður, gola, sólskin, lengst af um 5° hiti.

Það kom heldur betur á húsfreyjuna á Sævarlandi í Þistilfirði þegar hún kom auga á hvítabjörn um miðjan dag ekki fjarri bænum. Hún kallaði eftir aðstoð, sem fljótt barst og leið ekki á löngu áður en dýrið var fellt. Þetta reyndist vera fremur lítil birna, en sjálfsagt hefði ekki verið ráðlegt að bjóða hana velkomna.Hún var skotin til bana nálægt bænum Óslandi.

28.1.FIMMTUDAGUR

Aðeins hefur kólnað. Hiti um 3° og frekar stillt veður.

Íslenska liðið vann það norska 35 – 34 og er því komið í undanúrslit. Liðið hefur ekki enn tapað leik og verður spennandi að sjá hvernig gengur þegar það mætir Frökkum á laugardaginn kemur.

Í dag bárust þær fréttir að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefði staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar um að ekki þurfi að meta sameiginlega umhverfisáhrif Suðvesturlína og virkjana sem eiga að tryggja orku til álbræðslu í Helguvík á Suðurnesjum. Það eru mikil vonbrigði. Svandís ber því við að gildandi lög geri henni ókleyft að breyta þessu áliti Skipulagsstofnunar.

Nýlega birtist grein Sigmundar Einarssonar jarðfræðings á Smugunni, sem fjallaði ýtarlega um þessi mál og þá sérstaklega um þá hættu sem stafar af fyrirhuguðum framkvæmdum, sem byggja á afar veikum forsendum. Alvarlegast er að Suðvesturlínur munu liggja að hluta yfir viðkvæmustu hluta vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins. Ég batt vonir við að greinargóð umfjöllun Sigmundar hefði áhrif á niðurstöðu málsins, en sú von brást því miður.

Fúsi kokkur bregst ekki

JANÚARDAGAR 2010

15.1. FÖSTUDAGUR

Íslandsbankamælirinn í sundlauginni staðfesti 3° hita, sem var kominn í 6° um hádegið.

Átti að sækja fund í 20/20 nefndinni í dag, en honum var því miður frestað. Ég var búin að ákveða að vegna þessa nefndarfundar kæmist ég ekki á flokksráðsfund VG, sem haldinn er á Akureyri í dag og á morgun. Sit uppi með það.

Pétur fór með Víking sinn á Dýraspítalann í morgun og kom hróðugur með hann síðdegis. Aumingja kisi reyndist vera með brisbólgu og er nú kominn á meðalakúr. Hann er svolítið farinn að borða og veitir ekki af, var orðinn skelfilega horaður.

16.1. LAUGARDAGUR

Hitinn 4° að morgni. Fremur milt veður, en hellirigning fram yfir hádegi. Stytti upp eftir hádegi og hélst þokkalega þurrt eftir það.

Fréttir af fundi VG á Akureyri bera með sér að mikil skoðanaskipti fari þar fram. Alltaf fjör á flokksráðsfundi og æ meiri atgangur eftir því sem fjölgar í flokknum. Situr enn í mörgum að samþykkt hafi verið að hefja viðræður um þátttöku í ESB, og er nú komin fram tillaga um að draga þá samþykkt til baka. Hátt í 50 tillögur komu fram á fundinum, þær voru ræddar og tillögunefndir unnu þær eins og venjan er, sumum tillögum steypt saman, sumum vísað til stjórnar eða þingflokks, en flestar eru samþykktar. Tillagan um ESB-málið hefur greinilega fengið hægt andlát, enda óskynsamleg. Hins vegar sjálfsagt að hvetja bæði þingflokk og grasrót til að vinna gegn ESB-þátttöku.

Um kvöldið kom hestamannagengi síðustu ára saman hjá Fanneyju og Finni. Við höfum farið víða saman og m.a. þeyst um bæði Norður- og Suður-Þingeyjarsýslur sem tókust alveg frábærlega. Síðasta sumar fórum við svo skemmtilegan hring í kringum Heklu. Vel var mætt í teitið, vantaði aðeins Jónas R. og Guðrúnu. Fúsi eðalkokkur stjórnaði í eldhúsinu og brást ekki fremur en endranær. Hann fékk góða aðstoð Einars og Guðjóns, og Þóra lagði til gómsætan eftirrétt. Gaman var að sjá allar myndirnar sem teknar voru í sumarferðinni. Þar mátti sjá mörg andlit kámug vegna moldroks sem oft þyrlaðist yfir okkur.

17.1. SUNNUDAGUR

Fallegt veður í allan dag, en ekki beinlínis notalegt. Hitinn lúskraðist varla upp fyrir 2°.

Ég tók mér algjört frí frá öllum ofurleiðindum í fjölmiðlum um helgina. Með ofurleiðindum á ég að sjálfsögðu fyrst og fremst við fyrirbærið Icesave, sem er farið að valda mér taugatitringi. Þetta árans fyrirbæri er orðið eins og sívaxandi kolkrabbi sem skríður um allt okkar samfélag og harðneitar að vera til friðs. Ég er orðin hundleið á endalausri umræðu um þetta skrímsli. Hlustaði hvorki á Vikulokin á laugardag né Silfur Egils í dag. Það hafði mjög góð áhrif á sálartetrið.

18.1. MÁNUDAGUR

Hrímuð veröld í morgunsárið, 2° hiti og komst aldrei yfir 3°. Glerhált á götum. Fréttir herma að fjöldi fólks hafi misst fótanna á hálum gangstéttum og brotið ýmsa líkamsparta.

Aumingja “leiðtogarnir” settust á fund í kvöld og telja sumir mögulegt að ná einhverju samkomulagi. Að minni hyggju er þetta fyrst og fremst tímasóun. Þingmenn unnu sleitulaust að því að ná sæmilegri sátt um málið sl. sumar og héldu að það hefði tekist. Svo vildi minnihlutinn ekki standa við það, þegar kom að atkvæðagreiðslu. En líklega finnst formönnum flokkanna þeir þurfa að sýna lit og láta sem þeir séu að reyna.

19.1.ÞRIÐJUDAGUR

Íslenskt veðurfar kemur manni sífellt á óvart. Hlýr vindur mætti mér við útidyrnar í morgun og hitastigið fór ekki niður fyrir 7° í allan dag. Þó rigndi og blés mikinn mestallan daginn.

Sat lengi dags með Snorra í fanginu. Þetta er mikil bók sem maður les ekki í einum grænum og fer illa í rúmi. Og af því að mér finnst algjörlega ómögulegt annað en að lesa áður en ég sofna, þá hef ég aðra nettari á náttborðinu. Sú heitir “Óljós mörk” eftir Milan Kundera. Verð að viðurkenna að ég hef ekki áður lesið neitt eftir þetta merka skáld. Það jaðrar náttúrlega við menningarlega lágkúru.

20.1. MIÐVIKUDAGUR

Milt veður í morgunsárið, rigning og 3° hiti. Vindurinn æstist þegar leið á daginn og mikil rigning með köflum. Hitinn hélst við 3°.

Pældi heilmikið í icesave, las greinar og hlustaði á þætti á netinu. Rakst t.d. á greinina “Hin raunverulega ógn” eftir Vilhjálm Þorsteinsson. Finnst Vilhjálmur yfirleitt málefnalegur og skýr í framsetningu. Hlustaði einnig á skemmtilegt og upplýsandi viðtal á Rás 2 við Guðmund Ólafsson, sem stundum er kallaður Lobbi! Hann fór vel yfir þetta icesavemál á mannamáli.

21.1. FIMMTUDAGUR

Bærilega hófst dagurinn með 7° hita og hlýjum vindi, en reyndar ansi hvössum. Hvessti æ meir þegar leið á daginn. Foráttuhvasst víða sunnanlands. Fréttir af 53 m/s í vindhviðum undir Eyjafjöllum. Mikil rigning öðru hverju.

Við létum ekki veðrið hindra briddsinn þótt spilafélagarnir þyrftu að berjast nánast lárétt gegn rokinu upp að húsi. Við höfum um margra ára skeið hitt Þórð Harðarson lækni og Sólrúnu Jensdóttur verkefnastjóra í Menntamálaráðuneytinu og spilað við þau bridds á vetrarkvöldum. Markmiðið er reyndar fyrst og fremst að hittast og viðhalda góðu sambandi frá fornu fari.Við spilum 1 – 2 klukkutíma og borðum síðan og spjöllum saman. Þórð og Sólrúnu er alltaf gaman að hitta.

Hangikjöt og laufabrauð til Belgíu

JANÚARDAGAR 2010

8.1. FÖSTUDAGUR

Frostið virðist vera að láta undan, hiti ca. 2° í dag. Ekki kom hvassviðrið sem spáð var. Öðru hverju svolítil rigning, götur sums staðar mjög hálar. Fegin að við drifum okkur upp á Kaldbak í gær.

Allt jólaskraut er nú komið ofan í kassa og jólatréð niðurbútað til eldiviðar. Aldrei beinlínis skemmtilegt verk. Við látum alltaf jólatréð standa áfram uppi þann 7. af því að þá er afmæli Dóru.

Heimsóttum feðgana á Lundi. Þar var þá svolítill hópur úr bekknum hans Breka í Snælandsskóla í boði þeirra feðga og Ómar var að undirbúa pítsuveislu. Sindri og Breki fljúga til Belgíu í fyrramálið og halda jól með mömmu sinni. Við sendum með þeim hangikjöt og laufabrauð.

9.1. LAUGARDAGUR

Þokkalegt veður, 2-4° hiti, vindur og talsverð rigning öðru hverju. Ferðalag dóttursonanna gekk vel þrátt fyrir svolitla seinkun í flugi og síðan tafir í lestasamgöngum. Veturinn er öllu grimdarlegri á meginlandinu en hér um slóðir. M.a. miklar viðvaranir í Þýskalandi, fólk hvatt til að tryggja sér matvörur til a.m.k. fjögurra daga.

10.1. SUNNUDAGUR

Hiti 5°. Hálkan alveg horfin. Hægur vindur. Furðu fátt í morgunsundinu, sem viðstöddum þótti reyndar ekki verra. Nóg pláss á brautunum, lítt trufluð hvíld eftir sundtökin, þægilegt spjall í lokin.

Sunnudagsmatur. Öll mætt nema “Belgíufólk”. Skipst á upplýsingum um viðbrögð vegna aðgerða forsetans í Icesave-málinu. Þau eru með ýmsum hætti, og nú virðast margir í stjórnarandstöðunni hafa snúið við blaði. Óttast e.t.v. að þurfa að taka við stjórnartaumunum, ef samningurinn verður felldur.

11.1. MÁNUDAGUR

3° hiti í morgunsundi, nánast logn.

Notaði daginn til að semja tillögur fyrir 20/20 hópinn, fyrst og fremst tillögu um umhverfismál, sem ég tel skipta mestu máli til framtíðar. Í víðáttu, fegurð og sérkennum náttúru lands okkar felast ótrúlega mikil tækifæri sem flest önnur lönd og ríki hafa þegar glatað.

12.1. ÞRIÐJUDAGUR

4° hiti í morgunsundinu. Glaðasólskin og veður afar fallegt. Ekki þó verulega notalegt úti, enda talsverð gola.

Kláraði tillögugerðina og horfði svo vel og lengi á diskana með þáttum Attenborough´s sem Jónas gaf mér í jólagjöf. Ótrúlega vel gerðir og skemmtilegir þættir.

13.1. MIÐVIKUDAGUR

Hitinn fór yfir 6° í dag. Vindur ágerðist þegar líða tók á daginn.

Fór með nöfnu minni í fimleikatíma, foreldrarnir önnum kafnir í vinnu og skóla. Kristín vill gjarna að ég horfi á hana allan tímann og ekki sé ég eftir mér til þess, en leyfi mér þó að ráða sudoku inn á milli.

Hef miklar áhyggjur af heimiliskettinum, Víkingi hans Péturs. Hann hefur líklega sett eitthvað andstyggilegt oní sig á sunnudaginn var, átti erfitt með að losa sig við það og hefur varla nokkuð étið síðan. Katrín kom á sunnudaginn og ráðlagði olíu, sem hún var með í pússi sínu. Aumingja kötturinn er horaður og ræfilslegur, kúrir mestallan daginn, ýmist í rúminu mínu eða rúmi Sindra og Breka.

14.1. FIMMTUDAGUR

Hitinn var nær 6° í morgunsundinu, sem var reyndar nær hádeginu að þessu sinni. Hópar af skörfum flugu yfir sundlaugina og sólin gyllti skýin. Maður eiginlega skammast sín fyrir að njóta lífsins hér á Fróni þegar hugsað er til fórnarlamba jarðskjálftanna hræðilegu á Haiti í fyrradag.

Fjárhagsmálin tóku tímann í dag. Aldrei skemmtileg iðja, enda hættir mér til að taka allt slíkt óþarflega nærri mér. Þá er nú ánægjulegra að horfa á snilldartaktana hans Attenborough´s. Horfði á sérlega skemmtilegan þátt í dag um lífið í trjánum.

Inn á milli les ég bókina miklu um Snorra Sturluson. Hún gerir mig stundum syfjaða.

Í hrímkaldri himnafegurð

JANÚARDAGAR 2010

1.1.2010, FÖSTUDAGUR

Fallegt veður. Heiðskírt. Svolítil gola. -5°.

Hefðbundin veisla í tilefni nýársins á Fornuströnd, 16 mætt, vantaði bara Dóru. Öll viðstödd kát og hress.

2.1. LAUGARDAGUR

Sama dýrð og svipað frost.

Tíndi saman rusl af okkar völdum eftir áramótaskotelda. Stór terta sprengd, einnig sitt af hverju tagi úr svokölluðum fjölskyldupakka, allt til að gleðja dóttursynina sem voru hjá okkur um áramótin. Pétur stjórnaði skoteldafjörinu. Áramótaskotin urðu fljótt að þéttri mengun sem byrgði sýn á allt utan nokkurra metra radíus.

Eftir hreinsun fór ég í göngutúr út í Gróttu í góða veðrinu.

3.1. SUNNUDAGUR

Veður allt hið sama, reyndar logn, sólskin, frost 6°.

Gekk góðan hring um Suðurnesið í hrímkaldri himnafegurð dagsins. Ótrúlega fallegt veður og margt fólk að njóta þess. Merkilegast fannst mér að sjá mann í golfi á snæviþöktum vellinum! Gaman að sjá eitt stykki mann svo heltekinn golfástríðu.

4.1. MÁNUDAGUR

Ágætis veður, dálítil gola, -2 til 3°. Drjúg leti eftir allt annríkið.

5.1. ÞRIÐJUDAGUR

Fallegt veður, sól og meinlaus gola. -8° (jafnvel meira) fram eftir degi.

Breki og Sindri voru hjá okkur, lokadagurinn hjá okkur áður en þeir fara til Belgíu 9. jan. Þeir fengu langþráðan draum sinn uppfylltan í dag. Dúðaðir í allra handa spjarir af ömmu sinni örkuðu þeir með sleða í Plútóbrekku og renndu sér þar í loftköstum lengi dags. Þar er færi gott þótt snjórinn sé lítill.

Forseti lands vors gerði þjóðinni heyrum kunnugt að hann myndi ekki skrifa undir nýsett lög Alþingis um samninga við Breta og Hollendinga um Icesave.

6.1. MIÐVIKUDAGUR

Svolítil snjókoma að morgni, svolítil slydda um miðjan dag. 1-2° frost.

Tveggja tíma fundur í 20/20 hópnum, sem ásamt fleiri hópum hefur það hlutverk að koma með hugmyndir og aðgerðir til þess að auka samkeppnishæfni Íslands á sviði lífsgæða, heilbrigðis og jöfnuðar, bæta framleiðslugetu Íslands og/eða fjalla um sérstöðu landsins; kosti og galla.

Í okkar hópi er sem sagt áherslan á lífsgæði, heilbrigði og jöfnuð. Í þeim málefnahópi eru eftirtalin: Bernharður Guðmundsson,Vigdís Finnbogadóttir, Sigrún Júlíusdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Gunnar Hersveinn og ég.

Þrettándinn kvaddur á hefðbundinn hátt með brennum og flugeldum, sem sást nú öllu betur en í menguninni á gamlárskvöld.

7.1. FIMMTUDAGUR

Mun hlýrra veður en verið hefur, hitinn um frostmark og jafnvel nokkru hlýrra þegar leið á daginn.

Við brugðum okkar upp á Kaldbak að kanna aðbúnað og ástand hestanna. Mun kaldara var austan fjalls. Logn var á Kaldbak og ágætis veður. Þar er allt gaddfreðið, en hefur nánast ekkert snjóað. Höfðum áhyggjur af að hrossin næðu ekki í vatn, en Ævar var búinn að berja eitthvað á frosnum skurðum í Torfumýri. Svolítið hefur snjóað og virðist ætla að halda því eitthvað áfram og ættu þá hestar að geta svalað þorsta í snjófölinu. Þeir eru með hey að éta og líta mjög vel út, engir hnjóskar og enginn æsingur að snapa mola sem ég var með í vösum.

Dóra á afmæli í dag, orðin 36 ára. Ennþá ein úti í Gent, hefur haft nóg að gera að taka á móti hamingjuóskum á fésbók. Er annars í óða önn að búa sig undir starf sem hún fær á líkamsræktarstofu í Brussel.

Veisla í Skerjafirðinum

Það er ekki ónýtt að eiga fullt af snillingum í afkomendahópnum. Þar snarar fólk upp veisluborði eins og ekkert sé. Ekki hafa börnin fengið þessa snilld frá mér sem hef alla tíð verið meira fyrir að njóta matar en að rembast við að búa hann til.

Blessuð börnin mín, sem eru náttúrulega ekki lengur nein börn, tóku ekki annað í mál en að halda veislu til heiðurs aldursforseta stórfjölskyldunnar. Flensan tafði reyndar svolítið fyrir okkur, en manneskja sem náð hefur sjötugsaldri hefur léttilega biðlund í örfáa daga. Sunnudaginn 25. október var svo blásið til samanburðarveislu í Skerjafirðinum.

Þetta var frábær veisla eins og vænta mátti, þegar þrjár fjölskyldur leggja saman. Þar var boðið upp á fjölda rétta, dýrindis súpu, perúska smárétti, pastarétt, grafna smálúðu, fasana, lauksultu, kjúklingabita, sítrónutertu og jarðarber í súkkulaðifondu. Glæsilegt og gott. Ég er svona rétt að jafna mig eftir dýrðlegheitin.

Þetta var notaleg stund með þessu góða fólki mínu. Öll mætt hvert með sinn hóp nema Dóra og strákarnir hennar, sem um þessar mundir eru búsett í Gent í Belgíu.

Þegar horft er til baka, eins og eðlilegt er á slíkum tímamótum, þá finn ég til þakklætis og er stolt af ýmsu. Í rauninni væri gaman að taka saman það sem situr helst í huganum þegar upp er rifjað, en meinið er að ég er svo fjári löt, að lífshlaupið verður örugglega aldrei skipulega skráð. Hins vegar þarf engan doðrant til að upplýsa, að ekki er ég stoltari af neinu öðru en þessum ágætu fjölskyldum, börnunum mínum og þeirra fólki. Á toppnum sitja barnabörnin sem er svo ótrúlega gaman að fylgjast með, sjá vaxa upp og verða stór. Þetta er fólkið sem vekur mér stolt og gleði og skiptir mig mestu.

Elfur tímans áfram rennur

Elfur tímans áfram rennur, segir Jón frá Ljárskógum í kvæði sínu um vornóttina. Svona hugsaði ég angurvær þegar sjötugsaldurinn nálgaðist án þess að ég fengi rönd við reist. Ég kveið hálfpartinn fyrir því að þurfa að viðurkenna þennan háa aldur. En viti menn, svo er þetta bara ekkert mál og ég finn engan mun!

Í mínum uppvexti var lítið gert með afmæli. Ég man ekki einu sinni til þess að slegið hafi verið upp veislu fyrr en í mesta lagi þegar einhver átti fimmtugsafmæli eða þaðan af meira. Barnaafmæli tíðkuðust ekki svo að ég muni. Einhverju var gaukað að manni, bókarkorni eða flík sem bráðvantaði. Nú er öldin önnur, efnt til fjöldasamkomu í tilefni barnaafmælis, og gjafirnar flæða um húsið.

Ég fann fyrir miklum þrýstingi þegar sextugsafmælið mitt nálgaðist á sínum tíma, og eftir mikil heilabrot efndi ég til hóflegrar veislu í veitingahúsinu Við tjörnina og bauð nánustu ættingjum og vinum. Það þótti mér nett og skemmtileg veisla og mátulega stórbrotin. Sjötugsafmæli fannst mér ekki jafn spennandi kostur og ákvað að gera sem minnst úr því. Hef líklega innst inni vonast til þess að engum dytti í hug að ég væri orðin svona rígfullorðin.

Börnunum mínum fannst þetta þunnur þrettándi og ákváðu að koma saman og gera mér glaðan dag að kvöldi afmælisins. Það fannst mér að sjálfsögðu hið besta mál og hlakkaði mikið til. En það er með flensuna eins og tímann, við hana verður ekki ráðið. Kristín, Auður, Pálmi og Kristján urðu að játa sig sigruð af þeim vágesti þótt ekki sé vitað hvort þar er um að ræða títtnefnda svínaflensu eða bara árvissa tiltölulega saklausa inflúensu. Er þess vegna veisluhöldum frestað til betri tíma.

Afmælið varð því hálfgert símaafmæli, þar sem barnabörnin sungu mér afmælissönginn í síma af hjartans list milli hóstahviðanna, ýmist frá Belgíu eða Skerjafirðinum. Eini gesturinn sem bankaði upp á hér heima var systir mín góð, sem mætti með dýrindis konfektkassa og fangið fullt af rauðbleikum rósum.

Bóndi minn bauð mér í hádegisverð í Fiskmarkaðinum, þar sem er gott að borða og gaman að vera. Svo brugðum við okkur upp á Kaldbak og heimsóttum hestana okkar. Gaman var að sjá hvað þeir eru sællegir og fínir þrátt fyrir rysjótt veðurfar undanfarnar vikur.

Veðrið hefur verið yndislegt þennan merka dag í lífi mínu, bjart og fallegt. Á túnunum ofan við Brautarholt á Skeiðum var ótrúleg fuglamergð, mestmegnis álftir og blesgæs. Á heimleið yfir Hellisheiði ókum við mót rauðlogandi himni. Ég tók það sem sýningu mér til heiðurs. Þetta var ágætis afmæli.

Kraftur ber nafn með rentu

Í gær fór ég í bíó. Algjör viðburður því ég fer nánast aldrei í bíó. Síðast sá ég Draumalandið, myndina hans Andra Snæs og Þorfinns Guðnasonar einhvern tíma fyrr á þessu ári. Í gær sá ég hins vegar myndina um Kraft frá Bringu, skemmtilega, fallega og hjartnæma mynd, sem kallaði fram tár.

Hestar eru stórkostlegar skepnur. Ég nýt þess að horfa á hesta, sjá þá hreyfa sig, feta, hlaupa, brokka, tölta, skeiða, stökkva. Góður knapi á fallegum gæðingi er algjört listaverk. Þannig voru Þórarinn Eymundsson og Kraftur frá Bringu.

Myndin sýnir Þórarinn þjálfa Kraft, byggja upp þol hans og færni. Margar skemmtilegar svipmyndir sýna hvernig Þórarinn byggði upp traust þessa kraftmikla gæðings og hvernig þeir umgengust hvor annan. Þeir riðu saman í flæðarmálinu í vornóttinni þar sem sólin við sjóndeildarhringinn roðaði himininn. Það var fögur mynd. Þeir félagarnir voru eins og hluti af gullfallegri náttúrunni.

Svona hest vildu menn sýna á heimsmeistaramótinu í Hollandi árið 2007. Hest sem ber nafn með rentu. Kraftur var settur í búr og fluttur flugleiðis á mótssvæðið. Og auðvitað báru menn þá von í brjósti að þessi frábæri hestur mundi sýna allt sitt besta og ná góðum árangri. Sem hann og sannarlega gerði. Varð sigurvegari mótsins.

Heimsmeistaramótið 2007 færði Þórarni og Krafti bæði gleði og sorg. Íslenskur hestur fluttur af landi brott fær aldrei að koma aftur heim. Það var átakanlegt að sjá þá félagana kveðjast. Tárin hrundu.

Í lok myndarinnar spurði Þórarinn sig: “Var það þess virði?”.

Það er huggun að vita að Þórarinn og Kraftur hittust aftur og kepptu saman á heimsmeistaramótinu í ár, sem haldið var í Sviss. Þeir fengu hins vegar ekki nógan tíma til undirbúnings og brást bogalistin í fimmgangi. Í töltinu voru þeir þó búnir að ná saman og náðu 2. sæti með glæsibrag.