FEBRÚARDAGAR 2010
8.2. MÁNUDAGUR
Frábært veður. Sólin skein og hitastigið hvarflaði á milli 2° og 6°. Klukkan 10 að kvöldi sýndi mælirinn 4°. Tek fram að hann er ekki bilaður!
Óskar járnaði Álm upp á nýtt og úrskurðaði hann á góðum batavegi. Við drifum okkur með hann upp á Kaldbak og sóttum Djarf og Létti í staðinn, svo að nú erum við með 2 hesta hvort. Það er mikið að gera hjá Óskari, en vonandi getur hann járnað hestana okkar sem fyrst.
9.2. ÞRIÐJUDAGUR
Enn minnir veðrið fremur á vor en vetur. Hiti mældist 5° mestallan daginn, en sólin var ekki jafn glaðhlakkaleg og í gær.
Áslaug Pálmadóttir á afmæli í dag. Þessi fjörmikla og skemmtilega stúlka er orðin 4 ára. Ég hringdi í hana í kvöld og þá kom í ljós að hún er lasin með mikinn hita og var bara heima hjá pabba sínum í dag.
Ekki komst ég á bak í dag, hestarnir ennþá ójárnaðir. Komst að raun um að Óskar járningamaður liggur heima í pest, sem sagt fleiri lasnir en ungfrú Áslaug. Ég fékk hins vegar nóg að gera við að greiða úr flækjum í föxum og töglum. Mestur tíminn fer í faxið á Stormi og taglið á Létti. Mér líkar vel að bjástra í hesthúsinu og nostra við hestana, og þeim virðist heldur ekki líka neitt illa við mig.
10.2. MIÐVIKUDAGUR
Góðviðrið samt við sig. Hlýtt, örlítil úrkoma. Laukspírurnar teygja sig æ lengra upp úr moldinni. Hætt við að þeim hefnist fyrir bjartsýnina.
Nú er komið að Sigrúnu að eiga afmæli og er þessi unga kona orðin 42 ára. Hún lætur sér ekki nægja að vinna fulla vinnu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og stundar meðfram nám í hönnum í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Listagengið er ríkt í þeim Torlaciussystrum, og dæturnar hafa augljóslega fengið sinn skerf.
Margar furðulegar fréttir er landsmönnum boðið upp á þessa dagana. Nú er okkur sagt að fundist hafi gloppa í bótakerfinu, sem þurfi að laga. “Öryrki sem hefur verið í starfi en misst vinnuna fær bæði greiðslur frá Tryggingastofnun og atvinnuleysisbætur”, segir í Fréttablaðinu. Fram kemur að þetta eigi við um hátt í 700 manns og mögulegt sé að einstaklingur geti haft ríflega 250 þúsund í grunntekjur á mánuði með þessum hætti. Er nú unnið að athugun og lausn vandamálsins og tekið fram að sú lausn þurfi að vera réttlát og sanngjörn. Þó nú væri! Ætli öryrkjum veiti annars nokkuð af þessu? Væri ekki örugglega brýnna að taka á öðrum en öryrkjum þessa lands?!
11.2. FIMMTUDAGUR
Hlýtt og gott veður. Rigndi svolítið með köflum.
Kættist þegar ég kom í hesthúsið í dag, Óskar var búinn að járna hestana. Brosið fór þó af mér þegar mér tókst ekki með nokkru móti að koma hnakknum á Gaukinn minn góða. Hann er soddan átvagl og ekki í fyrsta skipti sem ég fæ hann alltof feitan úr vetrarhögum. Með dyggri aðstoð Lóu tókst með herkjum að spenna hnakkinn á Storm, og riðum við stöllur saman kátar og hressar niður að brú og síðan hring á vellinum. Þvílíkt gaman!
Mundi loksins að taka nýja diskinn með þingeyska karlakórnum Hreimi með mér út í bíl. Á ekki aðra græju til að hlusta á tónlist. Firnagóður diskur. Mörg laganna fjalla um sól og vor, fugla og blóm. Glöðust var ég að heyra lag Sigurðar Sigurjónssonar við ljóð Halldóru B. Björnsson: Vorið kemur. Held mikið upp á þetta fallega lag sem Guðmundur Jónsson syngur.
12.2. FÖSTUDAGUR
Sama fallega veðrið fram eftir degi. Svo varð himinninn úrillur og skvetti úr sér.
Kunningjakona mín var í áfalli í morgunsundinu, sagðist hafa heyrt í fréttum að Sjálfstæðismenn væru komnir með 35% fylgi. Hún hreinlega skjögraði eftir laugarbakkanum í örvæntingu sinni. Sá þegar heim kom að Frjáls verslun ber ábyrgð á þeirri könnun. Mér hefur alltaf fundist eitthvað undarlegar kannanir á þeim bæ.
Nú kom Jónas með mér í hesthúsið og tókst að spenna gjarðirnar um bumbur hestanna minna. Þeim veitti sko ekki af að púla svolítið á brettunum í World Class! Engin vandræði með hesta Jónasar, enda þeir minni og nettari. Þó eru þeir talsvert feitari en venjulega. Veturinn hefur farið vel með stóðið okkar.
13.2. LAUGARDAGUR
Það rigndi mikið í dag, en var þokkalega hlýtt.
Gat ekki stillt mig um að skreppa á bak þrátt fyrir rigninguna. Nú gekk aðeins betur að girða hnakk á myndarlegu hestana mína, en ég hefði ekki getað það án aðstoðar. Til þess eru náttúrulega almennilegir hestasveinar!
Bókin hans Tapio Koivukari féll mér vel. Skemmtilega skrifuð bók um sérstaka og spennandi viðburði að loknu framhaldsstríði Finnlands og Sovétríkjanna 1941-1944. Það rann upp fyrir mér hversu lítið ég hef lesið af finnskum bókmenntum um ævina. Þyrfti að verða mér úti um fleiri góðar frá Finnlandi.
14.2. SUNNUDAGUR
Fer nú lítið fyrir vori í lofti. Hitamælirinn rétt læddist yfir frostmarkið í morgun, en nú að kvöldi er frostið búið að taka völdin. Um miðjan daginn kom skyndilega hríð, en hvorki stóð hún lengi né tókst að skilja mikið eftir. Það er víst öllu afdrifaríkara víða annars staðar, einkum norðan lands.
Sátum veislu í Skildinganesi í tilefni af fyrrnefndum afmælum þeirra Áslaugar og Sigrúnar. Ekki í kot vísað frekar en venjulega. Borð svignaði undan heimabökuðum flatbrauðum, gerbollum og vatnsbollum, og skorti hvorki súkkulaði, sultu né rjóma. Þar með er búið að afgreiða bolludaginn sem verður á morgun. Bollur í bakaríi jafnast engan veginn á við Skildinganesbollurnar.