Vandamálabeðið

JÚLÍDAGAR 2010

6. 7. ÞRIÐJUDAGUR

Grasið sprettur rosalega þessa dagana. Pétur hefur ekki undan að slá og hirða. Í morgun hafði hann hirt í 21 poka og raðað þeim upp við gangstíginn svo að varla varð um gengið. Við fluttum þetta allt í Sorpu.

Veðrið var hlýtt og gott, en spáin vond fyrir kvöldið og næsta sólarhring. Ég gekk því berserksgang, reif og tætti arfa og grastoppa og náði að fylla tvo poka af því óþarfa dóti.

7. 7. MIÐVIKUDAGUR

Spáin rættist. Vindurinn blés og stundi svo að bílaumferðin týndist í gnauðinu. Eins gott að geta náð sér í rólegheitum eftir læti gærdagsins.

Lauk lestri þeirrar mögnuðu bókar “Morgnar í Jenín” eftir Susan Abulhawa. Löng og mikil bók, sem fyllir hátt í 400 síður, en ég var ekki í rónni fyrr en ég lauk henni. Stórkostleg bók sem allir ættu að lesa. Hún varpar ljósi á aðstæður Palestínumanna og allar þær hörmungar sem þeir hafa orðið að búa við um áratugi. Susan er sjálf afkomandi palestínskra flóttamanna, en hefur búið í Bandaríkjunum frá unglingsárum.

8.7. FIMMTUDAGUR

Undarlegt er sumarveðrið um þessar mundir. Vaknaði upp seinnipart nætur við gríðarlega rigningu. Hélt það væri haglél, en rigning var það. Ógnandi svört ský æddu um himininn og helltu öðru hverju úr sér. Bjartsýn sólroðin ský sáust inn á milli eins og þau væru að ögra þeim svörtu. Um miðjan dag var búið að reka svörtu skýin í burtu, vindinn lægði smám saman og nú í kvöld er orðið nánast skafheiðríkt. Blómin verða fegin, þau hæstu eru bogin til jarðar eftir glímuna við ofsann í veðrinu.

9.7. FÖSTUDAGUR

Sallafínt veður í dag. Sólskin og hlýtt. Rólyndislegur vindur. Hitinn fór í 20°. Um kvöldið kom hreinsandi rigningardemba.

Gerði stálheiðarlega tilraun til að ljúka frágangi garðsins. Reitti og snyrti og fyllti enn fleiri poka. Réðst að síðustu á vandamálið stóra. Beðið við stóra gluggann í borðstofunni veldur mér ergelsi og heilabrotum. Þar spretta reyndar upp fyrstu vorblómin og gleðja augun. Vetrargosar og páskaliljur og loks undurfalleg hvít blóm sem ég hef bara ekki hugmynd um hvað heita. Hinar og þessar blómjurtir hafa búið sér ból í þessu beði og öðrum, en aðeins í þessu beði virðist einhver óværa hafa sest að og spillir þar um kring. Ég réðst á vandamálið með skóflu og kippti burt öllum sýktu stilkunum. Er hins vegar ekki búin að ákveða framhaldið. Verð líklega að moka upp meiri mold og koma með nýja og útvega einhver blóm í skörðin.

10.7. LAUGARDAGUR

Það rigndi drjúgt í dag. Að öðru leyti ágætis veður, meinlaust og hlýtt.

Nú var kátt í sundlauginni og engin rigning á þeim tíma. Við systur náðum miklum og góðum spjallhrinum með fólki sem við höfum ekki lengi hitt, enda flestir út um hvippinn og hvappinn þessa ljúfu sumardaga. Heilar þrjár klukkustundir nutum við skemmtunar í sundlauginni. Alltaf gaman að hlusta á sögur Jóns sjósundkappa frá Ystafelli, en skemmtilegast var að hitta Tótu frænku, sem kvaðst hafa farið erindisleysu hvern laugardagsmorguninn af öðrum þar sem við vorum fjarri. Allt var það í sama máta og sérlega gaman að sjá að hún virðist vera að ná sér af öllum veikindunum.

11.7. SUNNUDAGUR

Í morgunsundinu fannst mér ég synda undir dúnmjúkri sæng, skýin voru svo fallega hvítbólstruð. Svo ýtti sólin sænginni í burtu og skein glatt það sem eftir var dagsins.

Ég tók á mig rögg og hreinsaði vandamálabeðið eins vel og ég gat. Keypti mér góða Flúðamold og öll skástu útsölublómin í Garðheimum. Er nú kominn gjörólíkur svipur á beðið og spennandi að vita hvort þessar aðgerðir duga.

12.7. MÁNUDAGUR

Hlýtt og gott í dag, mestur hiti 14°.

Frétti af útsölublómum í BYKO á Grandanum og stóðst ekki mátið. Keypti fyrir lítið síðustu brúðaraugun, yndisleg pínulítil fagurblá blóm sem ég bætti inn á milli blómanna sem ég stakk niður í gær. Beðið varð óneitanlega fallegra og nú fær það ekki meira.

Fuglalíf í Kaldbaksmóum

JÚLÍDAGAR 2010

1.-5.7. 2010

Hálflúin var ég daginn eftir aksturinn að norðan og svaf vært og lengi. Ekkert nema letin. Næsta dag tókum við svo strikið upp á Kaldbak og nutum lífsins þar í 4 daga.

Því miður er enn ekki hægt að bregða sér á hestbak og er það harla önugt að geta ekki notið þess að fara á bak um mitt sumar. En við erum hörð á því að gefa hestunum algjört frí meðan enn heyrist hósti í stöku hesti og hortaumar leka úr nösum sumra. Þessi fjárans pest hefur áhrif á flest sem til stóð í sumar. Við höfum sótt flest landsmót hestamanna síðustu árin og farið í hestaferðir á hverju ári síðan 1991. Nú er öldin önnur. Ekkert landsmót og engin hestaferð. Vonandi verður heilsan farin að lagast í ágúst.

Mér til mikillar gremju er kerfillinn farinn að sýna sig í brekkunum nálægt húsinu. Ég reif upp slatta af þessum vágesti, en nú þyrfti í rauninni að smala liði og kippa upp sem mestu áður en hann nær að sá í kringum sig.

Gestagangur var enginn á Kaldbak nema maríuerlurnar, sem kunna svo vel við sig á pallinum við húsið. Gladdi mig sérstaklega því erlur sá ég engar nálægt Varmahlíð þetta sumarið, sem er afar óvenjulegt. Mamman virtist vera með unga sína í þjálfun og var mikið fjör þarna um kring. Mikið er af öðrum fuglum, en þeir eru ekki jafn ófeimnir við mannfólkið. Auk erlanna og fleiri smáfugla sáum við og heyrðum í lóum og spóum, stelkum og hrossagaukum, gæsum og álftum og einmana tjaldi, sem sendi okkur tóninn. Það var sífellt mikið um að vera í fuglahjörðinni og mest gekk á þegar krummi vildi kanna búskapinn í Torfamýri. Það var illa þokkað og krummi var hrakinn á brott með fjaðrafoki og skrækjum.

Góðir dagar í Varmahlíð

JÚNÍDAGAR 2010

Kom í dag að norðan eftir mánaðardvöl á æskuheimilinu í Varmahlíð í Reykjadal. Átti þar frábæra daga. Bjó þar ein í næstum hálfan mánuð, en síðan streymdi fólkið mitt að og varð þá kátt í koti. Sem betur fer ekki allt í einu, því rýmið er ekki ótakmarkað. Jónas, Sindri, Breki, Kristján, Kári, Auður, Kristín, Katrín, Dóra og George (vinir KKKK), Pálmi, Sigrún og Áslaug. Vantaði bara Pétur og Marcelu,Kötlu, Heru og Dóru í fjölskylduhópinn.

Vorkoman var a.m.k. tveimur vikum á eftir Suðurlandinu, Kinnarfjöllin alhvít í júníbyrjun, birkitrén lauflítil, rifsrunnar og rabbarbari hnípin og ræfilsleg, blómin varla farin að ná sér á strik. Allt var þetta orðið fallegt og gróskufullt í júnílok og fannir Kinnarfjalla á undanhaldi. Þannig upplifði ég vorkomuna tvisvar.

Fuglalífið í Varmahlíð er mikið, enda nóg af trjám, birki, reynivið, lerki, greni og furu. Þar syngja smáfuglarnir dag og nótt á vorin og hrossagaukurinn lætur ekki síst í sér heyra. Einnig lóa, stelkur og spói. Saknaði helst jaðrakana, en fann þá hjá Ökrum. Flottir fuglar. Einnig maríuerlunnar, sem lítið lét á sér bera að þessu sinni. Gaman að auðnutittlingunum, sem voru óvenju margir og fjörugir, hentust um í eltingaleik og sungu heilu konsertana.

Haldið var upp á 50 ára stúdentsafmæli gáfumannaliðsins frá Menntaskólanum á Akureyri 15.-17. júní. Átti skemmtilegt kvöld með félögum mínum í Golfskálanum á Akureyri þann 15. Daginn eftir fórum við svo flest saman í vel heppnaða reisu um Mývatnssveit, auk þess sem mér tókst að halda smátölu um ágæti Reykjadalsins. Þar skildi ég við hópinn sem átti eftir að sitja veislu í Íþróttahúsinu á Akureyri og vera svo viðstödd útskrift nýjustu stúdentanna þann 17. Lét það eiga sig með góðri samvisku.

Veðrið var frábært þennan indæla júnímánuð, ég get ekki einu sinni munað eftir leiðindaveðri allan þennan tíma. Sólin skein flesta daga, vindurinn blés á þægilegum nótum, úrkoma var mjög lítil og helst um nótt. Ég hressti upp á gróðurinn, gaf honum blákorn og reytti burt illgresið, vökvaði heil ósköp og horfði á hann þakka fyrir umönnunina. M.a.s. rabbabarinn var búinn að ná sér allvel síðustu vikuna. Gat því miður ekki gefið mér tíma til að sjóða sultu að hætti mömmu.

Versta verkið er að berjast við kerfilinn, sem riðst um og leggur undir sig heilu túnin sem eru að hverfa úr notkun. Nú sakna margir dýranna sem áður gengu um túnin, kindanna, kúnna og hestanna, sem komu í veg fyrir að slíkur gróður næði sér á strik áður en sláttur hófst. Við reitum og stingum upp slíkar jurtir, ef þær sjást í kringum Varmahlíð og jafnvel utan girðingar. Það gengur vel, en er erfitt.

Krakkarnir una sér vel í Varmahlíð. Stundum er heilt bíó að horfa á þau leika sér. Kvöldin eru oft svo falleg og góð, logn og glaðasólskin. Þá verða þau svo kát og glöð og hlaupa léttklædd um túnið í alls konar leikjum. Skemmtilegast finnst þeim þegar túnið er þakið hávöxnu grasi og þau geta falið sig milli toppanna.

Heldur fannst mér drungalegt að koma á suðvesturhornið eftir allt góðviðrið í norðaustrinu. Veður er þungbúið og leiðindaspá framundan. En mikið er eftir af blessuðu sumrinu og nógur tími til að njóta þess í góðu veðri hér sem annars staðar.

Heim í heiðardalinn

1.6. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður, hlýtt, mestur hiti 13°. Um miðjan dag rigndi mikið og síðan öðru hverju það sem eftir var dagsins. Vætan var vel þegin.

Mér brá í brún þegar ég kom út í morgun og fann bílinn minn útlítandi eins og doppótt hæna. Hann hafði fengið sinn skammt af öskufalli í nótt. Askan hafði líka stráð sér á pall og glugga, tröppur og gerði. Ég spúlaði í miklum móð í góða veðrinu og rigningin sá um það sem á vantaði.

Álmi batnar hægt en örugglega. Jónas nær sér í nýslegið gras svo að blessaður klárinn fái gott og öflugt gras. Vonandi kemst hann til vina sinna á Kaldbak áður en langt um líður.

Hafði nóg að gera allan daginn við undirbúning brottfarar í fyrramálið. Þá munum við Mr. Ford snúa nefi í norðurátt og bruna heim í heiðardalinn. Þar verð ég væntanlega ein í Varmahlíð fram eftir mánuðinum ýmist í önnum eða leti, við tiltekt í garðinum eða í hægu sæti með bók í hönd. Hef með mér mikinn bókakost og reyndar verkefni að auki.

Um miðjan mánuðinn hittumst við skólafélagar sem útskrifuðumst saman úr M.A. fyrir 50 árum. Við borðum saman og skoðum okkur um í Mývatnssveit. Hins vegar nenni ég ekki í aðalveisluna, sem er yfirleitt löng og leiðinleg.

Um svipað leyti fjölgar í Varmahlíð. Þangað koma mörg úr fjölskyldunni og dveljast misjafnlega lengi eftir aðstæðum. Sindri og Breki koma til landsins eftir nokkra daga og hlakka heil ósköp til að koma norður. Einnig hafa Auður og Kristín hug á að koma norður og Kári lætur sig ekki vanta. Þá á ég von á Jónasi, Kristjáni og Katrínu, og vinafólk þeirra, Dóra og George. Það verður fjör.

Svana á afmæli í dag. Hafði hún farið með Þorsteini á Humarhúsið og notið góðs matar í veðurblíðunni. Síðan fóru þau á sýningu Einars Fals og Collingood í Bogasal. Menningarlegt fólk.

2.6. MIÐVIKUDAGUR

Fallega byrjar nú dagurinn með glaðasólskini í heiðríkjunni og 13° hita. Veðurspáin lofar svolitlum regnskúrum síðdegis. Spáin lofar líka góðu á minni leið og áfangastað.

Það var sumarlegt í morgunsundinu og gaman þar að hitta Guðfríði Lilju sem er orðin bústin og hlakkar mikið til að fá barnið sitt í heiminn í september. Við tókum smárispu um pólitíkina í útiklefanum. Hitti einnig Tótu sem er á norðurleið eins og ég. Þau Björn ætla að eiga góða daga í Mývatnssveit.

Fær nú tölvan mín að njóta júnímánaðar þegjandi hér heima. Í Varmahlíð er hvorki unnið á tölvu né horft á sjónvarp og naumast hægt að hlusta á útvarp. Algjör friður.

Ormarnir fá grænsápujukk

MAÍDAGAR 2010

28.5. FÖSTUDAGUR

Sól og blíða fram eftir degi, en þykknaði upp þegar á leið. Mestur hiti 12°.

Í morgun synti svanaparið stolt með 4 unga um Bakkatjörnina. Það var falleg sjón að sjá. Margæsunum hefur fækkað nokkuð, en tvo hópa sá ég þó. Vafalaust eru margar komnar á flug til varpstöðvanna á kanadísku Íshafseyjunum.

Stóð vaktina í rúmlega klukkutíma á Eiðistorgi og spjallaði við fólk sem skundaði út og inn í Hagkaup. Við vorum þar Neslistafólk að minna á okkur og kosningarnar á morgun. Mesta furða hvað það var gaman og okkur vel tekið.

Ekki var jafn gaman að fylgjast með leiðtogaumræðum í Kastljósi um borgarmálin fyrir kosningarnar. Ég var reyndar ánægð með Sóleyju, fannst hún skelegg og koma sínu ágætlega á framfæri. Kjánahrollurinn sótti fyrst og fremst að manni þegar Ólafur F. Magnússon lét til sín taka.

29.5. LAUGARDAGUR

Ljómandi veður, allskýjað á köflum, mestur hiti 11°.

Yngstu börnin í fimleikum hjá Gróttu kvöddu vetrarstarfið í morgun, þar á meðal Áslaug Pálmadóttir. Flest börnin eru um og yfir fjögurra ára. Það er ótrúlega gaman að sjá þessi yngstu sýna listir sínar. Þetta er svo þýðingarmikill viðburður í þeirra lífi og þau eru þvílíkt stolt af frammistöðunni. Áslaug hefur mjög gaman af þessu og stendur sig rosa vel.

Meðan ég beið eftir Álmi sem úðaði í sig fífla og gras, fylgdist ég með æsispennandi baráttu hrafna og spóa. Hrafnarnir hafa sjálfsagt haft áhuga á eggjum spóanna, en þeir eltust við hrafnana með látum. Mætti segja að þarna hafi ég horft á sérstaka útgáfu af loftárásum!

Vökvaði brekkuvíðinn með grænsápujukki. Neita alltaf úðurunum sem ganga hér hús úr húsi og vilja endilega fá að úða eitri yfir hverja hríslu. Ólíkt umhverfisvænna að gefa þeim sápu! Ormarnir eru lítt hrifnir af grænsápunni og verður minna úr laufblaðaátinu af þeim sökum. Beitti sápunni í fyrra og það kom nokkuð vel út.

Sveitarstjórnarkosningar voru í dag og lauk kl. 22. Var með félögum mínum á Neslistanum á Blómastofunni ásamt stuðningsfólki. Vonaðist auðvitað til að við fengjum tvo kjörna og var bara nokkuð bjartsýn. En íhaldið hélt sínum fimm, við fengum einn og Samfylkingin einn. Þegar það var orðið ljóst fór ég heim að sofa.

30.5. SUNNUDAGUR

Enn leikur veðrið við okkur á þessu landshorni. Mestur hiti mun hafa verið um 15°.

Við Jónas og Pétur brunuðum á Kaldbak snemma morguns. Þar voru Ingibjörg og Ævar með börnum og barnabörnum og mikið fjör. Pétur og Jónas strituðu allan daginn með Ævari og tengdasonum í girðingavinnu. Ég var heillengi að vökva plöntur sem ég er sannfærð um að fögnuðu sopanum. Svo skellti ég mér í girðingavinnuna, aðallega tiltekt. Bar og dró ónýta staura langar leiðir, suma hræðilega þunga. Einnig víraflækjur og fleira sem koma þarf í rusl. Vorum öll býsna þreytt eftir átök dagsins.

Kosturinn við að þurfa að einhenda sér í þessa vinnu á Kaldbak var ekki síst að geta kúplað gjörsamlega frá allri pólitík og losna við misjafnlega gáfulegar vangaveltur um orsakir þess hvernig kosningarnar fóru.

31.5. MÁNUDAGUR

Frekar þungbúið veður, enda var öskusalli á sveimi. Mestur hiti 12° . Væta öðru hverju eftir hádegi og nú með kvöldinu er hressileg rigning.

Niðurstöður kosninganna leita á hugann. Finn til sárra vonbrigða og í rauninni hryggðar. Hvað veldur?

“Virkjanasinnar unnu stórsigur” segir í Fréttablaðinu í dag þar sem fjallað er um kosningar í Árnessýslu. Þar hefur um langt skeið verið tekist á um hvort virkja skuli í neðri Þjórsá, einkum í Flóahreppi og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar voru að þessu sinni stofnuð sérstök framboð gegn áformuðum virkjunum og gekk á ýmsu í kosningabaráttunni. Þessi framboð fengu því miður aðeins einn fulltrúa í hvoru sveitarfélagi. Listar hlynntir virkjunum hlutu hins vegar meirihluta á báðum stöðum, og telja nú virkjanasinnar sig geta ráðið lögum og lofum í því efni.

Enn virðist langt í land að skilningur landans nái þeim krafti sem nauðsynlegur er til að sýna náttúru landsins virðingu og tillitssemi. Náttúruperlur eru í stöðugri hættu. Þess vegna er ég vonsvikin og hrygg.

Lúmskur öskusalli og Álmur sár

MAÍDAGAR 2010

21.5. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður, hlýtt og rigning öðru hverju.

Fórum á Kaldbak um hádegisbil. Mikil þoka á Hellisheiði og raunar um allt Suðurlandið, a.m.k. sáum við lítið. Á Kaldbak var betra veður og skyggni, 13° hiti og svolítil rigning öðru hverju.

Við litum strax til hestanna, sem kunna vel við sig á túnunum þótt enn sé ekki mikið að hafa, en hlýindin og smávegis regn hjálpar.

Okkur brá í brún þegar við sáum að Álmur var illa meiddur með djúpan skurð á fæti og bullandi gröftur vall úr sárinu. Við hreinsuðum sárið eins vel og við gátum samkvæmt leiðbeiningum Katrínar gegnum símann. Það gekk furðu vel og á morgun kemur hún og meðhöndlar sárið.

22.5. LAUGARDAGUR

Glaðasólskin og gott veður, en ég gleymdi að gá á hitamælinn, enda var nóg að gera allan daginn.

Við Jónas vorum í viðgerðum á girðingu niðri við Litlu-Laxá fyrir hádegi. Kristján, Katrín, Katla og Kári komu svo um miðjan daginn. Katrín hreinsaði og bjó um sár Álms. Hann var síðan settur í braggann og fékk Loga með sér svo að hann yrði ekki of einmana. Þeim þótti reyndar óttaleg meðferð að fá ekki að vera með félögunum niðri á túni.

Kristján kom með 50 trjáplöntur sem við gróðursettum og er nú kominn drjúgur vísir að svolitlum skógarlundum kringum Kaldbak, enda höfum við gróðursett dágóðan slatta á hverju vori.

23.5. HVÍTASUNNUDAGUR

Frábært veður, sól og blíða allan daginn, mestur hiti á mæli rúmlega 19°.

Jónas og Kristján lagfærðu girðingar. Katrín og Kári heimsóttu mömmu Katrínar, sem á sumarbústað ekki langt frá. Katla svaf og veitti ekki af, nýbúin í lokaprófunum í H.Í. og gekk að vanda mjög vel.

Ég tók mig til og spúlaði öskuna af pallinum kringum húsið og reyndist það drýgra en ég átti von á. Öskusallinn er lúmskur og hann hefur talsvert borist inn í húsið. Vökvaði svo trjáplönturnar vel og vandlega.

Jónas fór að sækja hestakerruna svo að við getum flutt Álm á Dýraspítalann á morgun. Við hin, þ.e. ég og KKKK, fórum í reiðtúr í þessu glimrandi veðri. Kristján reið Gauki, Katrín Djarfi, Katla Létti, Kári Stormi og ég Prinsinum. Mjög gaman og gekk vel. Hestunum virtist þykja nóg um hitann og svitnuðu rækilega.

Þær fréttir bárust undir kvöldið að Eyjafjallajökull væri hættur að gjósa. Því fagna flestir, en ekki er hægt að treysta því að hann bæri ekki á sér þegar hann er búinn að hvíla sig. En um að gera að vona hið besta.

24.5. MÁNUDAGUR

Áfram sama góða veðrið, glaðasólskin og hiti.

Nú þurfti mikið að þvo og skúra á Kaldbak. Það síðarnefnda var harla subbulegt, því skúringavatnið varð jafnóðum grásvart. Askan hefur greinilega borist talsvert inn í húsið.

Við leyfðum okkur síðan að njóta góða veðursins í letikasti fram eftir degi. Fluttum síðan Álm í Víðidalinn. Katrín tók á móti honum og mun meðhöndla hann næstu daga. Blessaður kallinn var ekki mjög hrifinn, vildi víst heldur vera með félögunum á túnunum á Kaldbak.

25.5. ÞRIÐJUDAGUR

Hlýtt og gott veður, heiðríkt, sólskin allan daginn, mestur hiti 14°.

Víða búið að slá og snyrta garða, m.a. hér á Fornuströnd. Blómin keppast við að opna sig í veðurblíðunni og gleðja augað. Og stóru hunangsflugurnar sveima milli blóma og runna og villast æði oft inn í hús. Það er nóg að gera við að bjarga þeim aftur út.

Eldgosið liggur enn í dvala, en umbrotin skilja ýmislegt eftir. Askan er ekki aldeilis horfin úr náttúrunni og fýkur nú til og frá eftir því hvert vindur blæs. Og það nýjasta er að nú læðast bláleitar gufur út með Fljótshlíðinni og leggur í vesturátt. Þeim fylgir fýla og þær dimmustu valda jafnvel höfuðverk. Gasið er þungt og fer með jörðu eins og bændur í Fljótshlíðinni lýstu.

Enn er talsvert af margæs á Nesinu. Sá stóran hóp af þessum fallegu fuglum við Bakkatjörn í morgun.

26.5. MIÐVIKUDAGUR

Nákvæmlega sama veðurlýsing og í gær: Hlýtt og gott veður, heiðríkt, sólskin allan daginn, mestur hiti 14°. Ekki þarf að kvarta yfir því, en mér verður hugsað til trjáplantnanna sem við gróðursettum á Kaldbak á laugardaginn var. Þeim veitti ekki af vatnssopa. Ekki er búist við regndropum fyrr en hugsanlega um helgina.

Fór í hið ægistóra og villugjarna Ikea í Garðabænum og keypti góða pressukönnu í stað þeirrar sem ég mölvaði í Varmahlíð í fyrra.

Var drjúga stund hjá Álmi, sem sjálfsagt leiðist heil ósköp og skilur ekki hvers vegna hann má ekki vera með hinum hrossunum. Setti hann á beit í grængresið, kembdi hann og snyrti og gaf honum fullt af molum, sem allir hestar eru afar hrifnir af. Katrín lítur vel eftir sjúklingnum og sárið ljóta hefur talsvert skánað.

Sveitarstjórnarkosningar nálgast nú óðfluga og mikilvægar mínútur framundan. Við í Neslistanum vinnum vel saman. Þetta er vel virkur og samheldinn hópur. Mest mæðir á oddvitanum, Árna Einarssyni. Hann er hæverskur og traustvekjandi í fasi og stendur sig mjög vel í viðtölum. Hann hefur líka gott bakland, þar sem öll eru boðin og búin að leggja sitt lið. Við erum ekki í vafa um að Neslistinn er besti flokkurinn!

27.5. FIMMTUDAGUR

Góða veðrið bregst ekki. Glaðasólskin, mestur hiti 15° síðdegis.

Lét þvo og bóna Fordinn minn, og nú er slík þrifalykt í bílnum að mér liggur við svima. En þetta var nauðsynlegt eftir veturinn og allar ferðirnar í hesthúsið.

Bauð Álmi upp á grængresi í Víðidalnum. Hann sækir mjög í fífilinn sem breiðir þar úr sér. Leit varla við fagurgrænu grasinu, en reif í sig fagurgulu fíflana sem stóðu út úr kjaftinum eins og skraut. Vissi ekki einu sinni að hestar væru svona hrifnir af fíflum.

Heimsótti Gunnar Brynjólf bæklunarlækni, sem gerði við hægri mjöðm mína af mikilli list fyrir 6 árum. Nú er sú vinstri farin að angra mig. Gunnar sprautaði sterum í þá vinstri og vonandi hefur það góð áhrif. Eftir að hafa skoðað röntgenmyndir af vinstri mjöðminni þótti honum ástæða til að setja mig á biðlista. Slíkur listi er æði langur og ólíklegt að ég komist að fyrr en eftir ár eða svo.

Nafna mín Pálmadóttir var að keppa í fimleikum í Gróttu. Þar voru 3 hópar að keppa innbyrðis og 3 í hverjum hópi voru dæmdar bestar. Sem betur fer fengu svo allar verðlaunapening og virtust ekki síður ánægðar en þær bestu.

Hestaflutningar og Dillheimsókn

MAÍDAGAR 2010

16.4. SUNNUDAGUR

Ágætt veður, reyndar ansi hvasst á Nesinu, en betra í Víðidalnum. Sólskin og mestur hiti 8°.

Snemma morguns var fallegt út að líta og mjög gott skyggni. Jónas, sem að venju var löngu kominn á ról, benti mér á að nú væri lag að líta á gosmökkinn frá Eyjafjallajökli. Ég hélt að hann væri að gabba mig, en hið rétta kom strax í ljós. Furðuleg reynsla að standa við gluggann sinn á Fornuströnd 2 og horfa á grásvartan mökkinn frá eldgosinu teygja sig upp í loftið milli tveggja kirkna, Hallgrímskirkju og Landakotskirkju. Sjá mátti bólstrana breyta sér utan í mekkinum. Þegar ég kom úr morgunsundinu hafði skyggnið versnað og ekki lengur mökkinn að sjá.

Það er svo margt undarlegt í náttúrunni þessa dagana. Hvít fjöll á Ströndum, sagði á fréttavef RÚV í morgun, og í næstu frétt: Öskufall á Sólheimasandi. Og í kvöld er upplýst að eldgosið í Eyjafjallajökli er orðið stærsta gos hérlendis síðan Kötlugosið 1918. Ekkert bendir til þess að gosið sé í rénun og bændur eru farnir að flytja sauðfé sitt í betri haga.

17.5. MÁNUDAGUR

Ágætis veður, svolítil rigning seinnipartinn og um kvöldið. Mestur hiti 8°.

Fluttum þrjá hesta austur á Kaldbak, þá Létti, Djarf og Gauk. Það er alltaf jafn gaman að fara með hesta í sumarhagana, þeir stökkva um túnin og skvetta upp rassinn eins og kýrnar í gamla daga. Íbúar á Flúðum tilkynntu í morgun að sést hefði aska á bílum. Við veltum fyrir okkur að bíða með að fara austur með hesta, en ráðgjafar töldu það alveg óhætt. Sáum hvergi nein ummerki á leiðinni né uppfrá og fundum ekki eitt einasta öskukorn í kringum húsið austur frá. Setti disk á pallinn við húsið og fergði með góðum steini. Förum með seinni hestana þrjá á morgun og sjáum þá hvort askan lætur sjá sig.

18.5. ÞRIÐJUDAGUR

Eyjafjallajökull er farinn að senda gosmökkinn í allar áttir. Öskufalls var vart vítt og breytt um landið og m.a. var frá því sagt að þess hefði gætt á Laugum! Mikið öskufjúk var á Suðurlandi og síðdegis dimmdi yfir höfuðborginni, ekki beint vegna öskufalls, heldur var um að ræða öskumistur. Þegar leið á daginn rigndi talsvert og var henni fagnað. Hitinn í dag var mestur um 10°.

Fluttum Loga, Prins og Storm austur á Kaldbak og voru þeir augljóslega fegnir að hitta félaga sína. Ekkert öskufall eða fjúk hefur enn borist á þessar slóðir og vonandi verður sem minnst um slíkar sendingar.

Og nú seint um kvöld er rökkvað eins og að hausti.

19.5. MIÐVIKUDAGUR

Svolítið blautt veður í dag, en hlýtt og kjurt, mestur hiti 10°.

Fyrsti fundur stjórnar Þjóðhátíðarsjóðs, sem ég var kjörin til fyrir nokkru. Komst reyndar fljótt að því að þessi merkilegi sjóður lýkur hlutverki sínu í lok þessa árs eða snemma á því næsta. Þjóðhátíðarsjóður var stofnaður í tilefni af 1100 ára búsetu á Íslandi árið 1974. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til stofnana og einstaklinga, sem vinna að varðveislu og vernd þeirra verðmæta lands og menningar, sem núverandi kynslóð hefur tekið í arf. Við það er miðað að styrkir úr sjóðnum verði viðbótarframlög til þeirra verkefna, sem styrkt eru, en verði ekki til þess að lækka önnur opinber framlög til þeirra eða draga úr stuðningi annarra við þau. Í júní verður auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum og síðan aftur í ágúst. Í haust fáum við síðan nóg að gera við að fara yfir umsóknirnar og komast að niðurstöðu um veitingu styrkjanna. Úthlutun fer síðan fram 1. desember á þessu ári.

Fyrir hreina og klára tilviljun stökk ég inn í búðina hennar Hrafnhildar og kolféll þar fyrir bráðskemmtilegu pilsi, sem var blessunarlega á ögn niðursettu verði. Skammast mín ekki svo mjög fyrir slíka eyðslusemi, sem ég hef ekki leyft mér a.m.k. síðan frá hruni!

20.5. FIMMTUDAGUR

Ansi blautt í dag, en milt veður og þægilegt. Mestur hiti 11°.

Snæddum á veitingahúsinu Dill í Norræna húsinu í kvöld ásamt spilafélögum okkar, Sólrúnu og Þórði. Við ljúkum gjarna spilamennsku vetrarins með átveislu á góðum stað. Dill er mjög sérstakur veitingastaður og engum öðrum líkur. Hann er sagður “hugarfóstur þeirra Gunnars Karls Gíslasonar og Ólafs Arnar Ólafssonar sem hafa verið í fararbroddi þegar kemur að nýnorrænu eldhúsi á Íslandi”, eins og segir í kynningu staðarins. Útsýnið þar er líka mjög sérstakt og gaman að fylgjast með fuglalífinu í mýrinni.

Aumingja Siggi hann þorir ekki heim

MAÍDAGAR 2010

8.5. LAUGARDAGUR

Sól og blíða fram eftir degi, svo dró ský fyrir sólu, en veðrið var áfram gott. Engin úrkoma. Hiti mestur 8°.

Neslaugin var hreinlega þétt setin í góða veðrinu. Við frænkurnar áttum góðar stundir og spjölluðum margt. Svana og Tóta romsa upp úr sér nöfn og ætterni, maka og störf, börn og buru. Sjálf er ég eins og álfur út úr hól í slíkum fræðum og dáist takmarkalaust að þekkingu þeirra.

Það er dauft yfir öllu í Víðidalnum og fáir að hreyfa hesta sína. Kvefpestin er þó ekkert heiftarleg, en hestamenn eru hvattir til að krefja ekki hesta sína og leyfa þeim að hafa það náðugt. Við hlýðum því að sjálfsögðu.

Dóra setti myndband á facebook af The Bresin band, þ.e.a.s. bandið þeirra Sindra og Breka. Þeir sungu í skólanum sínum í Gent frumsamin lög og texta, m.a. um eldgosið í Eyjafjallajökli. Bráðskemmtilegt myndband.

Hlýindin hafa komið sér vel. Dagamunur er á grasinu, sem vex og grænkar. Og fuglarnir syngja með gleðihreim.

9.5. SUNNUDAGUR / MÆÐRADAGUR

Frábært veður í dag. Sól og blíða. Mestur hiti 11°.

Kristján færði mér einkar fallegan blómvönd í tilefni dagsins. Stórfjölskyldan kom saman og fékk “hábít” með ýmsu góðgæti. Margt gott er t.d. hægt að kaupa í Búrinu, skemmtilegri búð við Nóatún. Þar fást m.a. alveg sérstakar flatkökur, einnig mjög góðir ostar og ís af ýmsu tagi. Prófuðum nýlega geitaís! Mjög sérstakur og býsna góður.

Hestarnir fengu góða útivist í þessu frábæra veðri. Hlupu með okkur spottakorn, en við leggjum ekki mikið á þá. Hitti nágranna í þarnæsta hesthúsi. Sonur hans hafði verið á Hólum í Hjaltadal og sagði að þar væri hörmulegt ástand. Flestir hestanna þar eru veikir og dapurlegt andrúmsloft. Ekki er hægt að þjálfa hestana og nemendurnir geta ekki tekið tilskilin próf á venjulegum tíma.

10.5. MÁNUDAGUR

Mjög gott veður, sól og blíða, mestur hiti 12°, engin úrkoma.

Ekki lækkar rostinn í Eyjafjallajökli. Þar gengur á jarðskjálftum í og við jökulinn og öskufallið herjar á íbúana eftir því hvert vindurinn blæs. Hraunbomburnar eru sem stærðar björg sem hendast út úr öskumekkinum. Og ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka, segja sérfræðingar.

Meðan íbúar í nágrenni við gosið í Eyjafjallajökli berjast við að sinna sauðburði og öllum venjulegum vorverkum, fáum við að njóta vordaganna í sól og blíðu og gleðjast yfir grósku grass og jurta. Gæðunum er misskipt.

11.5. ÞRIÐJUDAGUR

Veðurblíða fram eftir degi, mestur hiti 12°. Síðdegis þykknaði upp.

Það er heldur betur orðið líflegt hér á Nesinu litla og lága, við Bakkatjörn, á Suðurnesinu og alveg að Gróttu. Þar úir og grúir af fuglum, margæsirnar eru hér hópum saman og blessuð krían er komin. Vonandi tekst henni betur en síðustu 2, 3 árin að koma upp ungunum sínum. Líklega eru golfararnir ekki jafn hrifnir af fuglahópunum sem spígspora um flatirnar, en í raun er merkilegt hvað þeim kemur vel saman.

12.5. MIÐVIKUDAGUR

Notalegt veður, fremur stillt, mestur hiti 8°. Sólarglæta öðru hverju, en lítið varð úr regninu sem spáð var.

Við erum farin að beita hestunum á grængresið í 10 mínútur á dag til að búa þá undir útiganginn. Vonumst til að geta farið með þá austur á Kaldbak fljótlega eftir næstu helgi. Gaman að sjá þá grípa niður þótt lítið sé að hafa enn sem komið er.

13.5. UPPSTIGNINGARDAGUR

Ágætis veður, hálfskýjað, dálítill vindur, mestur hiti 7°.

Þegar ég fór upp í Víðidal í morgun til að setja hestana út í gerði hlustaði ég á vænan slurk af þætti Rásar 1 um Vilhjálm frá Skálholti. Hann orti mörg góð ljóð sem voru lesin upp í þættinum og sum þeirra sungin. Í tilefni dagsins set ég hér niðurlag eins þeirra sem heitir “Jesús Kristur og ég”

Og um þau mál við aldrei megum kvarta

því uppi á himnum slíkt er kallað suð.

En ósköp skrýtið er að eiga hjarta

sem ekki fær að tala við sinn guð.

Hver síðastur þú sagðir yrði fyrstur,

en svona varð nú endirinn með þig.

Og úr því að þeir krossfestu þig, Kristur,

hvað gera þeir við ræfil eins og mig?

Nú síðustu ár hafa verið að spretta upp hinar og þessar skemmtilegar matvörubúðir með ýmsar nýstárlegar vörur. Sú nýjasta heitir Frú Lauga eða jafnvel Bændamarkaður Frú Laugu. Við litum þar við í fyrsta skipti í dag. Minnir svolítið á aðra skemmtilega búð sem kallast Búrið. Þarna var ýmislegt á boðstólum frá hinum og þessum bóndabæjum. Mjög sérstakt. Fýflasýróp, broddmjólk, sólþurkaður þorskur, kúfskel, bláskel, korngrís, reyktar andabringur, svo eitthvað sé nefnt. Því miður voru öll eggin uppseld, en við höfðum ætlað að kaupa egg frá landnámshænum. Gaman að þessu.

14.5. FÖSTUDAGUR

Þægilegt veður, dálítil gola, sást lítt til sólar, mestur hiti 11°.

Eldgosið í Eyjafjallajökli lætur ekki deigan síga og sendir öskuna frá sér á degi hverjum hingað og þangað af fullkomnu miskunnarleysi. Í dag náði lítils háttar öskufall alla leið á höfuðborgarsvæðið, en það hefur ekki gerst fyrr. Ekkert þó í líkindum við ósköpin næst jöklinum.

Og þess á milli dynja á okkur fréttirnar af hrunaliðinu. Ég ætla ekki að reyna að lýsa þeim ósköpum, en æ fleiri þurfa að játa syndir sínar fyrir saksóknara. Ekki þó allir jafn fúsir. Einn situr úti í London útblásin af þrjósku og almenningur tautar með sér: Siggi var úti með millur í vösum…en aumingja Siggi hann þorir ekki heim!

15.4. LAUGARDAGUR

Veður gott. Dálítil gola, sólskin mestallan daginn, mestur hiti 11°.

Mikill sumarbragur á lífinu. Fjöldi seglbáta sigldi þöndum seglum hér framundan Fornuströndinni. Og skömmu fyrir hádegi hófst Neshlaupið sem Trimmklúbbur Seltjarnarness stendur fyrir. Mikil þátttaka fólks á öllum aldri.

Pálmi er 42 ára í dag. Ótrúlegt nokk. Alltaf sami æðibunugangurinn í þessu lífi. Hann sló ekki slöku við á afmælisdaginn, stóð vaktina frá morgni til kvölds á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Kíktum á strákinn þegar hann kom heim af vaktinni. Sigrún stóð í eldhúsinu og útbjó gómsæti fyrir afmælisbarnið. Dæturnar höfðu skreytt í stofunni og teiknað hvert listaverkið af öðru handa pabba sínum. Reyndar vantaði Auði sem er í fimleikakeppni í Vestmannaeyjum. Svolítið óheppin blessunin því þar var mikið öskufall í dag.

Laufskálafuglinn sló allt út

MAÍDAGAR 2010

1.5. LAUGARDAGUR

Gott veður á degi verkalýðsins. Glaðasólskin mestan hluta dagsins og hiti var um 6°.

Jónas fór á Kaldbak að huga að útigangshestunum. Þeir hafa það gott í enn betra veðri þar en hér. Hins vegar sást ekki til eldgossins, Eyjafjallajökull hulinn dimmum skýjum og eitthvað er um öskufall suðaustur af.

Kristján sá um að ég missti ekki af athyglisverðum orðaskiptum á Eyjunni þar sem Sigmundur félagi hans hleypti hita í nokkra skógfræðinga. Þeir voru ekki sáttir við ummæli Sigmundar um hina umdeildu lúpínu. Hann benti á að lúpínuvinir væru komnir með fésbókarhóp til að berjast gegn fyrirætlun stjórnvalda um að hætta dreifingu lúpínu nema á sérstökum svæðum og uppræta hana á hálendinu. Þar segir m.a.: „Við mótmælum þessari fásinnu og hyggjumst bregðast við henni með því að stuðla að uppgangi og útbreiðslu lúpínunnar sem mest við megum.“

Það var og! Þeir fésbókarmenn hafa ekki áhyggjur af líffræðilegri fjölbreytni í gróðurríki Íslands. Og fyrir þessu standa skógfræðingar sem ekki vönduðu Sigmundi kveðjurnar í athugasemdum sínum. Þar er talað um fasísk skilaboð úr fílabeinsturninum á Hlemmi, skoðanakúgun, róg og brigslyrði, svo eitthvað sé nefnt. Þetta minnir á skítinn sem dembt var yfir okkur þegar við vorum að berjast til varnar Eyjabökkum og Kárahnjúkum á sínum tíma. Náttúruverndin á enn langt í land. Sem betur fór tók Guðmundur Páll Ólafsson skógfræðingana í nefið.

http://blog.eyjan.is/sigmundur/2010/04/26/17/

2.5. SUNNUDAGUR

Milt og gott veður, alskýjað, mestur hiti 8°.

Kristján kom með klippurnar góðu, klippti og snyrti runna og tré. Ég hef greinilega nóg að gera næstu daga í kapp við vor og sól.

Ekki gott í efni í hestalandi. A.m.k. 6 hestar orðnir veikir í hesthúsinu okkar. Aðeins okkar stíur hreinar, en það verður varla lengi. Veikin virðist ekki alvarleg, en hún kemur sér afar illa gagnvart tamningum og undirbúningi mótahalds, að ekki sé nú minnst á landsmótið sem hefjast skal í júnílok í Skagafirði.

Enginn endir á uppljóstrunum á hegðun hrokagikkanna í ríki voru. Þeir henda skítnum hver í annan. Nú kjamsa menn á upplýsingum Jóns Ásgeirs þess efnis að Óskar Magnússon núverandi útgefandi Moggans hafi um 5 ára skeið fengið 40 prósent afslátt af matvörum hjá Hagkaupum. Harla góð búbót sem marga féminni hefði munað um. Og fullyrt er að margir aðrir hefðu notið þessarar náðar. Spurningin um Jón og séra Jón kemur í hugann.

3.5. MÁNUDAGUR

Dagurinn byrjaði ljúflega og varð svo sem aldrei neitt vondur. En hann tók reyndar upp á því að hellirigna. Hiti varð mestur 7°.

Nýlega las ég nýjustu spennusöguna Póstkortamorðin eftir Lizu Marklund og James Patterson og svo beint í kjölfarið Frásögn um margboðað morð eftir Gabriel Garcia Marques. Blasir augljóslega við að ég á það til að lesa morðsögur. Þessar tvær voru skemmtilega ólíkar í stíl og innihaldi. Sú fyrrnefnda óneitanlega nútímalegri og meira spennandi, en margt ansi billegt hjá þessu heimsfræga pari. Sú síðarnefnda í rauninni algjört ólíkindatól, ef svo má segja um eina bók. Engri lík og fyndin á köflum.

En Lífið hans David Attenborough á hug minn allan á mánudagskvöldum, þegar það einstaka gæðaefni kemst að fyrir endalausum hand-, körfu- eða fótboltaþáttum sem troðið er inn í áður boðaða dagskrá. Lífið slær jafnvel út fyrri þætti Attenborough. Allt snýst um lífsbaráttu dýranna og ekki síst umhyggju þeirra fyrir afkvæmum sínum. Í kvöld voru fuglar í aðalhlutverkum, þar sem eitt parið sýndi ótrúlega fallegan dans, aðrir sýndu þrotlausa vinnu við að sækja björg í bú og ýmsir sýndu þar snilldarbrögð.

Atriðið með laufskálafuglinum sló þó allt út. Karlfuglinn vinnur eins og hálærður hönnuður við að koma upp fagurskreyttu húsnæði sem náð geti athygli aðlaðandi kvenfugls. Og laufskálafuglinn snjalli hrósaði happi. Stórkostlegt!

4.5. ÞRIÐJUDAGUR

Veður gott, hlýtt og frekar stillt. Mestur hiti 10°. Þokuloft og örlítil úrkoma að kvöldi.

Okkar hestar hafa enn ekki veikst, en ólíklegt að þeir sleppi algjörlega, enda nokkrir hestar í öðrum stíum komnir með pestina. Við förum vel með þessa dýrgripi okkar, hreyfum þá mun minna en venjulega til að þreyta þá ekki og tryggjum þeim hreint loft eftir föngum.

Fyrir 4 dögum var ég að ergja mig yfir því hversu hart væri gengið að Steinunni Valdísi fyrir styrkjamokstur, en Guðlaugur Þór og fullt af öðrum körlum væru látnir í friði. Nú er Guðlaugur kominn í gapastokkinn og fleiri fá sjálfsagt að finna til tevatnsins.

5.5. MIÐVIKUDAGUR

Þokuloft í mestallan dag. Þokkalegt veður engu að síður. Stillt og hiti mest um 9°.

Sótti ráðstefnu í Þjóðminjasafninu á vegum 20/20 Sóknaráætlun, sem allmargt fólk hefur unnið að alveg síðan um áramót. Yfirskrift ráðstefnunnar var Ný sýn á samkeppnishæfni. Þar kynntu margir góðir fyrirlesarar niðurstöður ráðgjafahópa um samkeppnishæfni, sem er rauður þráður í áætluninni. Ef þessari vinnu verður haldið áfram af krafti má alveg vonast til að það komi að góðu gagni við endurreisnina miklu.

Kastljós kvöldsins flokkast undir meginviðburði hér á landi. Þar voru þrjú aðalefni og ekkert þeirra varðaði hrunið!!!

6.5. FIMMTUDAGUR

Ágætis veður þrátt fyrir þoku mestallan daginn og þéttan regnúða með köflum. Stillt veður og mestur hiti um 11°.

Hestarnir enn frískir. Hreyfðum þá alla í dag og fórum að lokum með Loga og Prins til Katrínar sem raspaði tennurnar, sprautaði í þá ormalyf og hreinsaði skaufana. Gott að fá það frá, því þeir eru lítið hrifnir af þessu stússi.

Fangelsun Hreiðars Más Sigurðssonar talsvert rædd í bloggheimum. Sumir lýsa fögnuði og finnst loksins komin hreyfing á saksóknarann góða. Aðrir lýsa fyrirlitningu í garð þeirra sem fagna, spyrja hneykslaðir hvort þetta fólk átti sig ekki á því að Hreiðar eigi fjölskyldu. Það er nú það. Skyldi Hreiðar aldrei hafa hugsað til fjölskyldu sinnar þegar hann var sjálfur á kafi í spillingunni?

Fór sem oftar á fund í Neslistanum. Við erum að ganga frá málefnavinnu. Samstarfið gengur afar vel, góð samstaða og ekkert vesen.

7.5. FÖSTUDAGUR

Enn grúfir þokan yfir okkur. Milt veður, öðru hverju regnúði. Mestur hiti 8°.

Það væri vanþakklæti að kvarta yfir þessari meinleysislegu þoku, meðan fjöldi fólks má þola öskufall og gosdrunur. Megi því nú fara að linna.

Tók skorpu í garðinum eftir hesthúsavinnu og er loks búin að ná saman mesta ruslinu. Standa nú nokkrir myndarlegir pokar fullir af samtíningnum og bíða ferðar í Sorpu.

Sakna Glæpsins og Söru Lund

APRÍLDAGAR 2010

24. 4. LAUGARDAGUR

Við frostmark í morgun, en um miðjan dag var hitinn kominn í 6°. Talsverður vindur, nánast heiðskýrt, en dálítið öskumistur í lofti.

Nú er heldur betur líflegt orðið á Bakkatjörn, enda vor í lofti þrátt fyrir lætin í náttúrunni. Var aldeilis heppin í morgun þegar ég leit þar við og sá stóra hópa margæsa fljúga yfir. Svo skemmtilega vildi til að Steinunn Harðardóttir var einmitt með þáttinn sinn Út um græna grundu, gestur hennar var Guðmundur A. Guðmundsson fuglafræðingur og mikill sérfræðingur í hátterni margæsa. Þær hafa vetursetu á Írlandi, en hafa viðdvöl á Íslandi í apríl og langt fram eftir maí, en svo fljúga þær til varpstöðva sinna á kanadísku Íshafseyjunum.

Anna Halla og Joe komu til okkar í hádeginu svo og aðrir í fjölskyldunni sem komust frá vinnu. Buðum upp á svokallaðan “bröns” eða “háverð” með ýmsu góðgæti, skyri, brauði, salati, ostum og ávöxtum. Þetta er bara eins og á hóteli, sagði nafna mín Pálmadóttir, við skulum hafa svona oftar, sagði hún. Og hver veit nema svo verði.

Ég er hálfleið yfir pistli Ögmundar vinar míns í Fréttablaðinu í dag, þar sem hann tók til varnar fyrir Ólaf Grímsson. Mér finnst hann túlka umræðuna á undarlegan hátt og gefa til kynna að fólk ætlist til að forsetinn ljúgi til um hugsanlega yfirvofandi Kötlugos. Það er auðvitað fráleitt, þetta snýst einfaldlega um framsetningu og orðaval. Ef til vill hefur Ögmundur ekki hlustað sjálfur á viðtalið í BBC, þar sem Ólafur setti boðskap sinn þannig fram að ókunnugir hlustendur gátu skilið það sem svo að Kötlugosið væri alveg klárt og kvitt á næstu grösum og þá yrðu sko alvöru hamfarir. Þetta kom fáránlega út. Ólafur ætti að láta okkar ágætu eldfjallafræðingum það eftir að gefa upplýsingar um þessi efni.

25.4. SUNNUDAGUR

Þokkalegt veður, rigningaskúrir öðru hverju og vaxandi rigning með kvöldinu. Hitastig mest 6°.

Dagur umhverfisins var í dag og boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Því miður var hún að mestu einskorðuð við Reykjavík, þótt ýmsir utan af landi kæmu þar við sögu. Í Þjóðmenningarhúsinu var merkileg samkoma þar sem Svandís umhverfisráðherra afhenti viðurkenningar fyrir störf á sviði umhverfismála. Prentsmiðjan Oddi fékk Kuðunginn, viðurkenningu fyrir framlag fyrirtækisins til umhverfismála. Og nemendur í 10. bekk Hvolsskóla voru útnefndir varðliðar umhverfisins, sem er verkefnasamkeppni með það að markmiði að hvetja ungt fólk til góðra verka til verndunar umhverfisins. Gott mál.

Þá var í fyrsta sinn afhent náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti, og féll sú merkilega viðurkenning í hlut Sigrúnar Helgadóttur fyrir margvísleg störf hennar í þágu umhverfismála. Við mættum þarna nokkrar kvennalistakonur til að gleðjast með Sigrúnu, enda höfðum við sent ráðuneytinu tillögu um að Sigrún fengi þessa viðurkenningu og skorti sannarlega ekki rökin fyrir því.

Um kvöldið fórum við Jónas í matarboð hjá Hófí, þ.e. Hólmfríði Pálsdóttur, og Markúsi sambýlismanni hennar auk sona hennar, Garðars og Hjartar. Þar voru einnig systir hennar Þóranna og Jónas maður hennar svo og Anna Halla og Jóe. Maturinn var aldeilis ekki af verri endanum og við áttum skemmtilega stund með þessu ágæta fólki.

Ég rétt náði að sjá lokaþátt Glæpsins, sem hefur haldið mér við sjónvarpið síðustu 10 sunnudaga. Sara Lund er aðalhetja þáttanna, leikin af Sofie Gråböl, sem ég las einhvers staðar, að væri ólærð í leiklistinni. Margir góðir koma við sögu í þessari mjög svo flóknu atburðarás. Vinir vorir Danir kunna að gera verulega góða og þrælspennandi sakamálaþætti. Vonandi fáum við meira af þessu tagi úr þeirra smiðju áður en allt of langt um líður.

26.4. MÁNUDAGUR

Sæmilegt veður, dálítill vindur, rigningaskúrir, mestur hiti um 4°.

Logi og Prins eru komnir á járn og við farin að liðka þá. Logi er alltaf eins og nýkominn úr þjálfun, en það er nú eitthvað annað með Prinsinn. Hann er eins og hinir hestarnir mínir, finnst greinilega vissara að koma sér upp forðabúri sem dugi út árið. Hann er svo feitur núna að ég sit klofvega með lappirnar út í loftið og má þakka fyrir að þeytast ekki af þessu breiða baki (kannski aðeins ýkt). Og þegar Logi tekur sínar frægu hraðarokur bregður Prinsinn fyrir sig undarlegum fótaburði sem ég á bágt með að hemja. Blessaður kallinn, við eigum eftir að ná saman.

27.4. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður í dag. Hitinn fór upp í 8°. Himinninn þungbúinn í suðaustri, en glaðhlakkalegur í norðvestri með þessu líka fína skyggni.

Var orðin heldur aum í skrokknum eftir glímuna við Prinsinn minn þéttvaxna, svo að Jónas tók að sér að liðka hann svolítið. Við Stormur tókum þátt í æfingunum og höfðum gott af. Fórum svo með hina 4 kringum Rauðavatn. Þá var gott að njóta vilja og mýktar Gauksins. Hann er sonur Páfa í Kirkjubæ svo að ég leyfi mér stundum að kalla hann Páfagauk, sómakallinn.

Anna Halla og Joe voru svo heppin að nokkrar flugvélar skelltu sér í loftið eldsnemma í morgun frá Keflavík, m.a. til Orlando og þau með. Nú er hins vegar allt lokað hér vegna öskunnar.

28.4. MIÐVIKUDAGUR

Veður ku hafa verið allgott í dag, hiti mest 9° og svolítið dropakast öðru hverju. Hins vegar naut ég þess arna ekki baun. Vaknaði snemma morguns og vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið því heimurinn veltist til og frá og var mér ónotalegur fram eftir öllum degi. Svaf þar af leiðandi mestallan daginn. Lítið fjör í því.

29.4. FIMMTUDAGUR

Ágætt veður, sólarlaust, hiti mest 6°, svolítil væta öðru hverju.

Hestamenn og dýralæknar hafa áhyggjur af hugsanlegri pest í hrossum. Dýralæknar ráðleggja að huga vel að hestum, hafa þá úti við eins lengi og hægt er. Hestar hósta í næstu húsum við okkar hesthús, en hjá okkur heyrist ekkert slíkt. Okkar hross fengu fjögurra stunda útivist í dag.

30.4. FÖSTUDAGUR

Notalegt veður, stillt og hlýtt, hiti mestur 7°. Lítið sást til sólar.

Það er dapurlegt að fylgjast með öngþveitinu kringum Steinunni Valdísi þessa dagana. Fólk hefur safnast saman við heimili hennar og krafist afsagnar hennar vegna hárra styrkja sem hún þáði í prófkjörum árið 2006. Ég hef samúð með Steinunni sem hefur staðið sig vel í pólitíkinni, en tel þó rétt að hún segi af sér þingmennsku. Hún berst fyrir pólitísku lífi sínu, segist ekki hafa gert neitt rangt, ekki brotið lög né reglur og lagt allt sitt fram opinberlega. Má vera, en dugir ekki til. Fólk horfir á ósköpin, milljóna framlög Landsbanka, Baugs, Fl. Group, Nýsis, Eyktar o.s.frv. og þessar háu tölur frá þessum fyrirtækjum hafa orðið til þess að rýja hana trausti.

Hins vegar hlýtur fólk að spyrja sig og aðra: Hvers vegna er gengið svona hart að Steinunni, en ekki öðrum sem sóttu sér háar upphæðir til sömu eða álíka fyrirtækja. Sumir rökuðu til sín mun meira en Steinunn. Um það er varla rætt. Hvers vegna er ekki krafist afsagnar Guðlaugs Þórs? Hann hafði þó nær 25 milljónum úr að spila, næstum helmingi meira en Steinunn. Helgi Hjörvar var með dágóða styrkjasummu, hann gefur ekki kost á viðtali við fjölmiðla. Hvað með Tryggva Þór, Sigurð Kára og fjölmarga aðra sjálfstæðismenn, m.a. sjálfan æðsta strump? Þessir herrar sitja heimili sín í ró og friði. Hvað kemur til? Hefur það kannski eitthvað með kynferði að gera?