MAÍDAGAR 2010
1.5. LAUGARDAGUR
Gott veður á degi verkalýðsins. Glaðasólskin mestan hluta dagsins og hiti var um 6°.
Jónas fór á Kaldbak að huga að útigangshestunum. Þeir hafa það gott í enn betra veðri þar en hér. Hins vegar sást ekki til eldgossins, Eyjafjallajökull hulinn dimmum skýjum og eitthvað er um öskufall suðaustur af.
Kristján sá um að ég missti ekki af athyglisverðum orðaskiptum á Eyjunni þar sem Sigmundur félagi hans hleypti hita í nokkra skógfræðinga. Þeir voru ekki sáttir við ummæli Sigmundar um hina umdeildu lúpínu. Hann benti á að lúpínuvinir væru komnir með fésbókarhóp til að berjast gegn fyrirætlun stjórnvalda um að hætta dreifingu lúpínu nema á sérstökum svæðum og uppræta hana á hálendinu. Þar segir m.a.: „Við mótmælum þessari fásinnu og hyggjumst bregðast við henni með því að stuðla að uppgangi og útbreiðslu lúpínunnar sem mest við megum.“
Það var og! Þeir fésbókarmenn hafa ekki áhyggjur af líffræðilegri fjölbreytni í gróðurríki Íslands. Og fyrir þessu standa skógfræðingar sem ekki vönduðu Sigmundi kveðjurnar í athugasemdum sínum. Þar er talað um fasísk skilaboð úr fílabeinsturninum á Hlemmi, skoðanakúgun, róg og brigslyrði, svo eitthvað sé nefnt. Þetta minnir á skítinn sem dembt var yfir okkur þegar við vorum að berjast til varnar Eyjabökkum og Kárahnjúkum á sínum tíma. Náttúruverndin á enn langt í land. Sem betur fór tók Guðmundur Páll Ólafsson skógfræðingana í nefið.
http://blog.eyjan.is/sigmundur/2010/04/26/17/
2.5. SUNNUDAGUR
Milt og gott veður, alskýjað, mestur hiti 8°.
Kristján kom með klippurnar góðu, klippti og snyrti runna og tré. Ég hef greinilega nóg að gera næstu daga í kapp við vor og sól.
Ekki gott í efni í hestalandi. A.m.k. 6 hestar orðnir veikir í hesthúsinu okkar. Aðeins okkar stíur hreinar, en það verður varla lengi. Veikin virðist ekki alvarleg, en hún kemur sér afar illa gagnvart tamningum og undirbúningi mótahalds, að ekki sé nú minnst á landsmótið sem hefjast skal í júnílok í Skagafirði.
Enginn endir á uppljóstrunum á hegðun hrokagikkanna í ríki voru. Þeir henda skítnum hver í annan. Nú kjamsa menn á upplýsingum Jóns Ásgeirs þess efnis að Óskar Magnússon núverandi útgefandi Moggans hafi um 5 ára skeið fengið 40 prósent afslátt af matvörum hjá Hagkaupum. Harla góð búbót sem marga féminni hefði munað um. Og fullyrt er að margir aðrir hefðu notið þessarar náðar. Spurningin um Jón og séra Jón kemur í hugann.
3.5. MÁNUDAGUR
Dagurinn byrjaði ljúflega og varð svo sem aldrei neitt vondur. En hann tók reyndar upp á því að hellirigna. Hiti varð mestur 7°.
Nýlega las ég nýjustu spennusöguna Póstkortamorðin eftir Lizu Marklund og James Patterson og svo beint í kjölfarið Frásögn um margboðað morð eftir Gabriel Garcia Marques. Blasir augljóslega við að ég á það til að lesa morðsögur. Þessar tvær voru skemmtilega ólíkar í stíl og innihaldi. Sú fyrrnefnda óneitanlega nútímalegri og meira spennandi, en margt ansi billegt hjá þessu heimsfræga pari. Sú síðarnefnda í rauninni algjört ólíkindatól, ef svo má segja um eina bók. Engri lík og fyndin á köflum.
En Lífið hans David Attenborough á hug minn allan á mánudagskvöldum, þegar það einstaka gæðaefni kemst að fyrir endalausum hand-, körfu- eða fótboltaþáttum sem troðið er inn í áður boðaða dagskrá. Lífið slær jafnvel út fyrri þætti Attenborough. Allt snýst um lífsbaráttu dýranna og ekki síst umhyggju þeirra fyrir afkvæmum sínum. Í kvöld voru fuglar í aðalhlutverkum, þar sem eitt parið sýndi ótrúlega fallegan dans, aðrir sýndu þrotlausa vinnu við að sækja björg í bú og ýmsir sýndu þar snilldarbrögð.
Atriðið með laufskálafuglinum sló þó allt út. Karlfuglinn vinnur eins og hálærður hönnuður við að koma upp fagurskreyttu húsnæði sem náð geti athygli aðlaðandi kvenfugls. Og laufskálafuglinn snjalli hrósaði happi. Stórkostlegt!
4.5. ÞRIÐJUDAGUR
Veður gott, hlýtt og frekar stillt. Mestur hiti 10°. Þokuloft og örlítil úrkoma að kvöldi.
Okkar hestar hafa enn ekki veikst, en ólíklegt að þeir sleppi algjörlega, enda nokkrir hestar í öðrum stíum komnir með pestina. Við förum vel með þessa dýrgripi okkar, hreyfum þá mun minna en venjulega til að þreyta þá ekki og tryggjum þeim hreint loft eftir föngum.
Fyrir 4 dögum var ég að ergja mig yfir því hversu hart væri gengið að Steinunni Valdísi fyrir styrkjamokstur, en Guðlaugur Þór og fullt af öðrum körlum væru látnir í friði. Nú er Guðlaugur kominn í gapastokkinn og fleiri fá sjálfsagt að finna til tevatnsins.
5.5. MIÐVIKUDAGUR
Þokuloft í mestallan dag. Þokkalegt veður engu að síður. Stillt og hiti mest um 9°.
Sótti ráðstefnu í Þjóðminjasafninu á vegum 20/20 Sóknaráætlun, sem allmargt fólk hefur unnið að alveg síðan um áramót. Yfirskrift ráðstefnunnar var Ný sýn á samkeppnishæfni. Þar kynntu margir góðir fyrirlesarar niðurstöður ráðgjafahópa um samkeppnishæfni, sem er rauður þráður í áætluninni. Ef þessari vinnu verður haldið áfram af krafti má alveg vonast til að það komi að góðu gagni við endurreisnina miklu.
Kastljós kvöldsins flokkast undir meginviðburði hér á landi. Þar voru þrjú aðalefni og ekkert þeirra varðaði hrunið!!!
6.5. FIMMTUDAGUR
Ágætis veður þrátt fyrir þoku mestallan daginn og þéttan regnúða með köflum. Stillt veður og mestur hiti um 11°.
Hestarnir enn frískir. Hreyfðum þá alla í dag og fórum að lokum með Loga og Prins til Katrínar sem raspaði tennurnar, sprautaði í þá ormalyf og hreinsaði skaufana. Gott að fá það frá, því þeir eru lítið hrifnir af þessu stússi.
Fangelsun Hreiðars Más Sigurðssonar talsvert rædd í bloggheimum. Sumir lýsa fögnuði og finnst loksins komin hreyfing á saksóknarann góða. Aðrir lýsa fyrirlitningu í garð þeirra sem fagna, spyrja hneykslaðir hvort þetta fólk átti sig ekki á því að Hreiðar eigi fjölskyldu. Það er nú það. Skyldi Hreiðar aldrei hafa hugsað til fjölskyldu sinnar þegar hann var sjálfur á kafi í spillingunni?
Fór sem oftar á fund í Neslistanum. Við erum að ganga frá málefnavinnu. Samstarfið gengur afar vel, góð samstaða og ekkert vesen.
7.5. FÖSTUDAGUR
Enn grúfir þokan yfir okkur. Milt veður, öðru hverju regnúði. Mestur hiti 8°.
Það væri vanþakklæti að kvarta yfir þessari meinleysislegu þoku, meðan fjöldi fólks má þola öskufall og gosdrunur. Megi því nú fara að linna.
Tók skorpu í garðinum eftir hesthúsavinnu og er loks búin að ná saman mesta ruslinu. Standa nú nokkrir myndarlegir pokar fullir af samtíningnum og bíða ferðar í Sorpu.