1.6. ÞRIÐJUDAGUR
Ágætis veður, hlýtt, mestur hiti 13°. Um miðjan dag rigndi mikið og síðan öðru hverju það sem eftir var dagsins. Vætan var vel þegin.
Mér brá í brún þegar ég kom út í morgun og fann bílinn minn útlítandi eins og doppótt hæna. Hann hafði fengið sinn skammt af öskufalli í nótt. Askan hafði líka stráð sér á pall og glugga, tröppur og gerði. Ég spúlaði í miklum móð í góða veðrinu og rigningin sá um það sem á vantaði.
Álmi batnar hægt en örugglega. Jónas nær sér í nýslegið gras svo að blessaður klárinn fái gott og öflugt gras. Vonandi kemst hann til vina sinna á Kaldbak áður en langt um líður.
Hafði nóg að gera allan daginn við undirbúning brottfarar í fyrramálið. Þá munum við Mr. Ford snúa nefi í norðurátt og bruna heim í heiðardalinn. Þar verð ég væntanlega ein í Varmahlíð fram eftir mánuðinum ýmist í önnum eða leti, við tiltekt í garðinum eða í hægu sæti með bók í hönd. Hef með mér mikinn bókakost og reyndar verkefni að auki.
Um miðjan mánuðinn hittumst við skólafélagar sem útskrifuðumst saman úr M.A. fyrir 50 árum. Við borðum saman og skoðum okkur um í Mývatnssveit. Hins vegar nenni ég ekki í aðalveisluna, sem er yfirleitt löng og leiðinleg.
Um svipað leyti fjölgar í Varmahlíð. Þangað koma mörg úr fjölskyldunni og dveljast misjafnlega lengi eftir aðstæðum. Sindri og Breki koma til landsins eftir nokkra daga og hlakka heil ósköp til að koma norður. Einnig hafa Auður og Kristín hug á að koma norður og Kári lætur sig ekki vanta. Þá á ég von á Jónasi, Kristjáni og Katrínu, og vinafólk þeirra, Dóra og George. Það verður fjör.
Svana á afmæli í dag. Hafði hún farið með Þorsteini á Humarhúsið og notið góðs matar í veðurblíðunni. Síðan fóru þau á sýningu Einars Fals og Collingood í Bogasal. Menningarlegt fólk.
2.6. MIÐVIKUDAGUR
Fallega byrjar nú dagurinn með glaðasólskini í heiðríkjunni og 13° hita. Veðurspáin lofar svolitlum regnskúrum síðdegis. Spáin lofar líka góðu á minni leið og áfangastað.
Það var sumarlegt í morgunsundinu og gaman þar að hitta Guðfríði Lilju sem er orðin bústin og hlakkar mikið til að fá barnið sitt í heiminn í september. Við tókum smárispu um pólitíkina í útiklefanum. Hitti einnig Tótu sem er á norðurleið eins og ég. Þau Björn ætla að eiga góða daga í Mývatnssveit.
Fær nú tölvan mín að njóta júnímánaðar þegjandi hér heima. Í Varmahlíð er hvorki unnið á tölvu né horft á sjónvarp og naumast hægt að hlusta á útvarp. Algjör friður.