Vandamálabeðið

JÚLÍDAGAR 2010

6. 7. ÞRIÐJUDAGUR

Grasið sprettur rosalega þessa dagana. Pétur hefur ekki undan að slá og hirða. Í morgun hafði hann hirt í 21 poka og raðað þeim upp við gangstíginn svo að varla varð um gengið. Við fluttum þetta allt í Sorpu.

Veðrið var hlýtt og gott, en spáin vond fyrir kvöldið og næsta sólarhring. Ég gekk því berserksgang, reif og tætti arfa og grastoppa og náði að fylla tvo poka af því óþarfa dóti.

7. 7. MIÐVIKUDAGUR

Spáin rættist. Vindurinn blés og stundi svo að bílaumferðin týndist í gnauðinu. Eins gott að geta náð sér í rólegheitum eftir læti gærdagsins.

Lauk lestri þeirrar mögnuðu bókar “Morgnar í Jenín” eftir Susan Abulhawa. Löng og mikil bók, sem fyllir hátt í 400 síður, en ég var ekki í rónni fyrr en ég lauk henni. Stórkostleg bók sem allir ættu að lesa. Hún varpar ljósi á aðstæður Palestínumanna og allar þær hörmungar sem þeir hafa orðið að búa við um áratugi. Susan er sjálf afkomandi palestínskra flóttamanna, en hefur búið í Bandaríkjunum frá unglingsárum.

8.7. FIMMTUDAGUR

Undarlegt er sumarveðrið um þessar mundir. Vaknaði upp seinnipart nætur við gríðarlega rigningu. Hélt það væri haglél, en rigning var það. Ógnandi svört ský æddu um himininn og helltu öðru hverju úr sér. Bjartsýn sólroðin ský sáust inn á milli eins og þau væru að ögra þeim svörtu. Um miðjan dag var búið að reka svörtu skýin í burtu, vindinn lægði smám saman og nú í kvöld er orðið nánast skafheiðríkt. Blómin verða fegin, þau hæstu eru bogin til jarðar eftir glímuna við ofsann í veðrinu.

9.7. FÖSTUDAGUR

Sallafínt veður í dag. Sólskin og hlýtt. Rólyndislegur vindur. Hitinn fór í 20°. Um kvöldið kom hreinsandi rigningardemba.

Gerði stálheiðarlega tilraun til að ljúka frágangi garðsins. Reitti og snyrti og fyllti enn fleiri poka. Réðst að síðustu á vandamálið stóra. Beðið við stóra gluggann í borðstofunni veldur mér ergelsi og heilabrotum. Þar spretta reyndar upp fyrstu vorblómin og gleðja augun. Vetrargosar og páskaliljur og loks undurfalleg hvít blóm sem ég hef bara ekki hugmynd um hvað heita. Hinar og þessar blómjurtir hafa búið sér ból í þessu beði og öðrum, en aðeins í þessu beði virðist einhver óværa hafa sest að og spillir þar um kring. Ég réðst á vandamálið með skóflu og kippti burt öllum sýktu stilkunum. Er hins vegar ekki búin að ákveða framhaldið. Verð líklega að moka upp meiri mold og koma með nýja og útvega einhver blóm í skörðin.

10.7. LAUGARDAGUR

Það rigndi drjúgt í dag. Að öðru leyti ágætis veður, meinlaust og hlýtt.

Nú var kátt í sundlauginni og engin rigning á þeim tíma. Við systur náðum miklum og góðum spjallhrinum með fólki sem við höfum ekki lengi hitt, enda flestir út um hvippinn og hvappinn þessa ljúfu sumardaga. Heilar þrjár klukkustundir nutum við skemmtunar í sundlauginni. Alltaf gaman að hlusta á sögur Jóns sjósundkappa frá Ystafelli, en skemmtilegast var að hitta Tótu frænku, sem kvaðst hafa farið erindisleysu hvern laugardagsmorguninn af öðrum þar sem við vorum fjarri. Allt var það í sama máta og sérlega gaman að sjá að hún virðist vera að ná sér af öllum veikindunum.

11.7. SUNNUDAGUR

Í morgunsundinu fannst mér ég synda undir dúnmjúkri sæng, skýin voru svo fallega hvítbólstruð. Svo ýtti sólin sænginni í burtu og skein glatt það sem eftir var dagsins.

Ég tók á mig rögg og hreinsaði vandamálabeðið eins vel og ég gat. Keypti mér góða Flúðamold og öll skástu útsölublómin í Garðheimum. Er nú kominn gjörólíkur svipur á beðið og spennandi að vita hvort þessar aðgerðir duga.

12.7. MÁNUDAGUR

Hlýtt og gott í dag, mestur hiti 14°.

Frétti af útsölublómum í BYKO á Grandanum og stóðst ekki mátið. Keypti fyrir lítið síðustu brúðaraugun, yndisleg pínulítil fagurblá blóm sem ég bætti inn á milli blómanna sem ég stakk niður í gær. Beðið varð óneitanlega fallegra og nú fær það ekki meira.