Lúmskur öskusalli og Álmur sár

MAÍDAGAR 2010

21.5. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður, hlýtt og rigning öðru hverju.

Fórum á Kaldbak um hádegisbil. Mikil þoka á Hellisheiði og raunar um allt Suðurlandið, a.m.k. sáum við lítið. Á Kaldbak var betra veður og skyggni, 13° hiti og svolítil rigning öðru hverju.

Við litum strax til hestanna, sem kunna vel við sig á túnunum þótt enn sé ekki mikið að hafa, en hlýindin og smávegis regn hjálpar.

Okkur brá í brún þegar við sáum að Álmur var illa meiddur með djúpan skurð á fæti og bullandi gröftur vall úr sárinu. Við hreinsuðum sárið eins vel og við gátum samkvæmt leiðbeiningum Katrínar gegnum símann. Það gekk furðu vel og á morgun kemur hún og meðhöndlar sárið.

22.5. LAUGARDAGUR

Glaðasólskin og gott veður, en ég gleymdi að gá á hitamælinn, enda var nóg að gera allan daginn.

Við Jónas vorum í viðgerðum á girðingu niðri við Litlu-Laxá fyrir hádegi. Kristján, Katrín, Katla og Kári komu svo um miðjan daginn. Katrín hreinsaði og bjó um sár Álms. Hann var síðan settur í braggann og fékk Loga með sér svo að hann yrði ekki of einmana. Þeim þótti reyndar óttaleg meðferð að fá ekki að vera með félögunum niðri á túni.

Kristján kom með 50 trjáplöntur sem við gróðursettum og er nú kominn drjúgur vísir að svolitlum skógarlundum kringum Kaldbak, enda höfum við gróðursett dágóðan slatta á hverju vori.

23.5. HVÍTASUNNUDAGUR

Frábært veður, sól og blíða allan daginn, mestur hiti á mæli rúmlega 19°.

Jónas og Kristján lagfærðu girðingar. Katrín og Kári heimsóttu mömmu Katrínar, sem á sumarbústað ekki langt frá. Katla svaf og veitti ekki af, nýbúin í lokaprófunum í H.Í. og gekk að vanda mjög vel.

Ég tók mig til og spúlaði öskuna af pallinum kringum húsið og reyndist það drýgra en ég átti von á. Öskusallinn er lúmskur og hann hefur talsvert borist inn í húsið. Vökvaði svo trjáplönturnar vel og vandlega.

Jónas fór að sækja hestakerruna svo að við getum flutt Álm á Dýraspítalann á morgun. Við hin, þ.e. ég og KKKK, fórum í reiðtúr í þessu glimrandi veðri. Kristján reið Gauki, Katrín Djarfi, Katla Létti, Kári Stormi og ég Prinsinum. Mjög gaman og gekk vel. Hestunum virtist þykja nóg um hitann og svitnuðu rækilega.

Þær fréttir bárust undir kvöldið að Eyjafjallajökull væri hættur að gjósa. Því fagna flestir, en ekki er hægt að treysta því að hann bæri ekki á sér þegar hann er búinn að hvíla sig. En um að gera að vona hið besta.

24.5. MÁNUDAGUR

Áfram sama góða veðrið, glaðasólskin og hiti.

Nú þurfti mikið að þvo og skúra á Kaldbak. Það síðarnefnda var harla subbulegt, því skúringavatnið varð jafnóðum grásvart. Askan hefur greinilega borist talsvert inn í húsið.

Við leyfðum okkur síðan að njóta góða veðursins í letikasti fram eftir degi. Fluttum síðan Álm í Víðidalinn. Katrín tók á móti honum og mun meðhöndla hann næstu daga. Blessaður kallinn var ekki mjög hrifinn, vildi víst heldur vera með félögunum á túnunum á Kaldbak.

25.5. ÞRIÐJUDAGUR

Hlýtt og gott veður, heiðríkt, sólskin allan daginn, mestur hiti 14°.

Víða búið að slá og snyrta garða, m.a. hér á Fornuströnd. Blómin keppast við að opna sig í veðurblíðunni og gleðja augað. Og stóru hunangsflugurnar sveima milli blóma og runna og villast æði oft inn í hús. Það er nóg að gera við að bjarga þeim aftur út.

Eldgosið liggur enn í dvala, en umbrotin skilja ýmislegt eftir. Askan er ekki aldeilis horfin úr náttúrunni og fýkur nú til og frá eftir því hvert vindur blæs. Og það nýjasta er að nú læðast bláleitar gufur út með Fljótshlíðinni og leggur í vesturátt. Þeim fylgir fýla og þær dimmustu valda jafnvel höfuðverk. Gasið er þungt og fer með jörðu eins og bændur í Fljótshlíðinni lýstu.

Enn er talsvert af margæs á Nesinu. Sá stóran hóp af þessum fallegu fuglum við Bakkatjörn í morgun.

26.5. MIÐVIKUDAGUR

Nákvæmlega sama veðurlýsing og í gær: Hlýtt og gott veður, heiðríkt, sólskin allan daginn, mestur hiti 14°. Ekki þarf að kvarta yfir því, en mér verður hugsað til trjáplantnanna sem við gróðursettum á Kaldbak á laugardaginn var. Þeim veitti ekki af vatnssopa. Ekki er búist við regndropum fyrr en hugsanlega um helgina.

Fór í hið ægistóra og villugjarna Ikea í Garðabænum og keypti góða pressukönnu í stað þeirrar sem ég mölvaði í Varmahlíð í fyrra.

Var drjúga stund hjá Álmi, sem sjálfsagt leiðist heil ósköp og skilur ekki hvers vegna hann má ekki vera með hinum hrossunum. Setti hann á beit í grængresið, kembdi hann og snyrti og gaf honum fullt af molum, sem allir hestar eru afar hrifnir af. Katrín lítur vel eftir sjúklingnum og sárið ljóta hefur talsvert skánað.

Sveitarstjórnarkosningar nálgast nú óðfluga og mikilvægar mínútur framundan. Við í Neslistanum vinnum vel saman. Þetta er vel virkur og samheldinn hópur. Mest mæðir á oddvitanum, Árna Einarssyni. Hann er hæverskur og traustvekjandi í fasi og stendur sig mjög vel í viðtölum. Hann hefur líka gott bakland, þar sem öll eru boðin og búin að leggja sitt lið. Við erum ekki í vafa um að Neslistinn er besti flokkurinn!

27.5. FIMMTUDAGUR

Góða veðrið bregst ekki. Glaðasólskin, mestur hiti 15° síðdegis.

Lét þvo og bóna Fordinn minn, og nú er slík þrifalykt í bílnum að mér liggur við svima. En þetta var nauðsynlegt eftir veturinn og allar ferðirnar í hesthúsið.

Bauð Álmi upp á grængresi í Víðidalnum. Hann sækir mjög í fífilinn sem breiðir þar úr sér. Leit varla við fagurgrænu grasinu, en reif í sig fagurgulu fíflana sem stóðu út úr kjaftinum eins og skraut. Vissi ekki einu sinni að hestar væru svona hrifnir af fíflum.

Heimsótti Gunnar Brynjólf bæklunarlækni, sem gerði við hægri mjöðm mína af mikilli list fyrir 6 árum. Nú er sú vinstri farin að angra mig. Gunnar sprautaði sterum í þá vinstri og vonandi hefur það góð áhrif. Eftir að hafa skoðað röntgenmyndir af vinstri mjöðminni þótti honum ástæða til að setja mig á biðlista. Slíkur listi er æði langur og ólíklegt að ég komist að fyrr en eftir ár eða svo.

Nafna mín Pálmadóttir var að keppa í fimleikum í Gróttu. Þar voru 3 hópar að keppa innbyrðis og 3 í hverjum hópi voru dæmdar bestar. Sem betur fer fengu svo allar verðlaunapening og virtust ekki síður ánægðar en þær bestu.