Sakna Glæpsins og Söru Lund

APRÍLDAGAR 2010

24. 4. LAUGARDAGUR

Við frostmark í morgun, en um miðjan dag var hitinn kominn í 6°. Talsverður vindur, nánast heiðskýrt, en dálítið öskumistur í lofti.

Nú er heldur betur líflegt orðið á Bakkatjörn, enda vor í lofti þrátt fyrir lætin í náttúrunni. Var aldeilis heppin í morgun þegar ég leit þar við og sá stóra hópa margæsa fljúga yfir. Svo skemmtilega vildi til að Steinunn Harðardóttir var einmitt með þáttinn sinn Út um græna grundu, gestur hennar var Guðmundur A. Guðmundsson fuglafræðingur og mikill sérfræðingur í hátterni margæsa. Þær hafa vetursetu á Írlandi, en hafa viðdvöl á Íslandi í apríl og langt fram eftir maí, en svo fljúga þær til varpstöðva sinna á kanadísku Íshafseyjunum.

Anna Halla og Joe komu til okkar í hádeginu svo og aðrir í fjölskyldunni sem komust frá vinnu. Buðum upp á svokallaðan “bröns” eða “háverð” með ýmsu góðgæti, skyri, brauði, salati, ostum og ávöxtum. Þetta er bara eins og á hóteli, sagði nafna mín Pálmadóttir, við skulum hafa svona oftar, sagði hún. Og hver veit nema svo verði.

Ég er hálfleið yfir pistli Ögmundar vinar míns í Fréttablaðinu í dag, þar sem hann tók til varnar fyrir Ólaf Grímsson. Mér finnst hann túlka umræðuna á undarlegan hátt og gefa til kynna að fólk ætlist til að forsetinn ljúgi til um hugsanlega yfirvofandi Kötlugos. Það er auðvitað fráleitt, þetta snýst einfaldlega um framsetningu og orðaval. Ef til vill hefur Ögmundur ekki hlustað sjálfur á viðtalið í BBC, þar sem Ólafur setti boðskap sinn þannig fram að ókunnugir hlustendur gátu skilið það sem svo að Kötlugosið væri alveg klárt og kvitt á næstu grösum og þá yrðu sko alvöru hamfarir. Þetta kom fáránlega út. Ólafur ætti að láta okkar ágætu eldfjallafræðingum það eftir að gefa upplýsingar um þessi efni.

25.4. SUNNUDAGUR

Þokkalegt veður, rigningaskúrir öðru hverju og vaxandi rigning með kvöldinu. Hitastig mest 6°.

Dagur umhverfisins var í dag og boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Því miður var hún að mestu einskorðuð við Reykjavík, þótt ýmsir utan af landi kæmu þar við sögu. Í Þjóðmenningarhúsinu var merkileg samkoma þar sem Svandís umhverfisráðherra afhenti viðurkenningar fyrir störf á sviði umhverfismála. Prentsmiðjan Oddi fékk Kuðunginn, viðurkenningu fyrir framlag fyrirtækisins til umhverfismála. Og nemendur í 10. bekk Hvolsskóla voru útnefndir varðliðar umhverfisins, sem er verkefnasamkeppni með það að markmiði að hvetja ungt fólk til góðra verka til verndunar umhverfisins. Gott mál.

Þá var í fyrsta sinn afhent náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti, og féll sú merkilega viðurkenning í hlut Sigrúnar Helgadóttur fyrir margvísleg störf hennar í þágu umhverfismála. Við mættum þarna nokkrar kvennalistakonur til að gleðjast með Sigrúnu, enda höfðum við sent ráðuneytinu tillögu um að Sigrún fengi þessa viðurkenningu og skorti sannarlega ekki rökin fyrir því.

Um kvöldið fórum við Jónas í matarboð hjá Hófí, þ.e. Hólmfríði Pálsdóttur, og Markúsi sambýlismanni hennar auk sona hennar, Garðars og Hjartar. Þar voru einnig systir hennar Þóranna og Jónas maður hennar svo og Anna Halla og Jóe. Maturinn var aldeilis ekki af verri endanum og við áttum skemmtilega stund með þessu ágæta fólki.

Ég rétt náði að sjá lokaþátt Glæpsins, sem hefur haldið mér við sjónvarpið síðustu 10 sunnudaga. Sara Lund er aðalhetja þáttanna, leikin af Sofie Gråböl, sem ég las einhvers staðar, að væri ólærð í leiklistinni. Margir góðir koma við sögu í þessari mjög svo flóknu atburðarás. Vinir vorir Danir kunna að gera verulega góða og þrælspennandi sakamálaþætti. Vonandi fáum við meira af þessu tagi úr þeirra smiðju áður en allt of langt um líður.

26.4. MÁNUDAGUR

Sæmilegt veður, dálítill vindur, rigningaskúrir, mestur hiti um 4°.

Logi og Prins eru komnir á járn og við farin að liðka þá. Logi er alltaf eins og nýkominn úr þjálfun, en það er nú eitthvað annað með Prinsinn. Hann er eins og hinir hestarnir mínir, finnst greinilega vissara að koma sér upp forðabúri sem dugi út árið. Hann er svo feitur núna að ég sit klofvega með lappirnar út í loftið og má þakka fyrir að þeytast ekki af þessu breiða baki (kannski aðeins ýkt). Og þegar Logi tekur sínar frægu hraðarokur bregður Prinsinn fyrir sig undarlegum fótaburði sem ég á bágt með að hemja. Blessaður kallinn, við eigum eftir að ná saman.

27.4. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður í dag. Hitinn fór upp í 8°. Himinninn þungbúinn í suðaustri, en glaðhlakkalegur í norðvestri með þessu líka fína skyggni.

Var orðin heldur aum í skrokknum eftir glímuna við Prinsinn minn þéttvaxna, svo að Jónas tók að sér að liðka hann svolítið. Við Stormur tókum þátt í æfingunum og höfðum gott af. Fórum svo með hina 4 kringum Rauðavatn. Þá var gott að njóta vilja og mýktar Gauksins. Hann er sonur Páfa í Kirkjubæ svo að ég leyfi mér stundum að kalla hann Páfagauk, sómakallinn.

Anna Halla og Joe voru svo heppin að nokkrar flugvélar skelltu sér í loftið eldsnemma í morgun frá Keflavík, m.a. til Orlando og þau með. Nú er hins vegar allt lokað hér vegna öskunnar.

28.4. MIÐVIKUDAGUR

Veður ku hafa verið allgott í dag, hiti mest 9° og svolítið dropakast öðru hverju. Hins vegar naut ég þess arna ekki baun. Vaknaði snemma morguns og vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið því heimurinn veltist til og frá og var mér ónotalegur fram eftir öllum degi. Svaf þar af leiðandi mestallan daginn. Lítið fjör í því.

29.4. FIMMTUDAGUR

Ágætt veður, sólarlaust, hiti mest 6°, svolítil væta öðru hverju.

Hestamenn og dýralæknar hafa áhyggjur af hugsanlegri pest í hrossum. Dýralæknar ráðleggja að huga vel að hestum, hafa þá úti við eins lengi og hægt er. Hestar hósta í næstu húsum við okkar hesthús, en hjá okkur heyrist ekkert slíkt. Okkar hross fengu fjögurra stunda útivist í dag.

30.4. FÖSTUDAGUR

Notalegt veður, stillt og hlýtt, hiti mestur 7°. Lítið sást til sólar.

Það er dapurlegt að fylgjast með öngþveitinu kringum Steinunni Valdísi þessa dagana. Fólk hefur safnast saman við heimili hennar og krafist afsagnar hennar vegna hárra styrkja sem hún þáði í prófkjörum árið 2006. Ég hef samúð með Steinunni sem hefur staðið sig vel í pólitíkinni, en tel þó rétt að hún segi af sér þingmennsku. Hún berst fyrir pólitísku lífi sínu, segist ekki hafa gert neitt rangt, ekki brotið lög né reglur og lagt allt sitt fram opinberlega. Má vera, en dugir ekki til. Fólk horfir á ósköpin, milljóna framlög Landsbanka, Baugs, Fl. Group, Nýsis, Eyktar o.s.frv. og þessar háu tölur frá þessum fyrirtækjum hafa orðið til þess að rýja hana trausti.

Hins vegar hlýtur fólk að spyrja sig og aðra: Hvers vegna er gengið svona hart að Steinunni, en ekki öðrum sem sóttu sér háar upphæðir til sömu eða álíka fyrirtækja. Sumir rökuðu til sín mun meira en Steinunn. Um það er varla rætt. Hvers vegna er ekki krafist afsagnar Guðlaugs Þórs? Hann hafði þó nær 25 milljónum úr að spila, næstum helmingi meira en Steinunn. Helgi Hjörvar var með dágóða styrkjasummu, hann gefur ekki kost á viðtali við fjölmiðla. Hvað með Tryggva Þór, Sigurð Kára og fjölmarga aðra sjálfstæðismenn, m.a. sjálfan æðsta strump? Þessir herrar sitja heimili sín í ró og friði. Hvað kemur til? Hefur það kannski eitthvað með kynferði að gera?