Lurkum lamin smalakerling

SEPTEMBERDAGAR 2010

14.9. ÞRIÐJUDAGUR

Langt síðan veðurguðirnir hafa boðið upp á 8° hita á suðvesturhorninu. Hitinn læddist reyndar yfir 10° nær hádeginu, en svo rauk vindurinn upp og blés mikinn.

15.9. MIÐVIKUDAGUR

Fagurt út að líta, en heldur hvasst til að njóta útivistar. Vindurinn þaut, en umhverfið allt baðaði sig í sólskininu. Mestur hiti var eitthvað yfir 10°.

Langar mikið til að grynna ögn á bókaflóðinu víðs vegar um húsið. Geri öðru hverju áhlaup, en enda hvert skipti með því að sökkva mér niður í einhverja bók sem ég er búin að gleyma. Árangur áhlaupsins felst einna helst í rykmokstri.

16.9. FIMMTUDAGUR

Fallegt haustveður. Heiðríkt og stillt.

Nutum fegurðar Þingvalla. Áttum reyndar von á enn meiri litadýrð eins og gerist á haustin, en fallegt er þar samt. Mikið gult, en vantar rauða lyngið. Ókum yfir Lyngdalsheiði og síðan krók til Sólheima. Virkilega gaman að skoða þorpið þar og umhverfið. Komum því miður að lokuðu húsi þar sem við ætluðum að fá okkur kaffi.

Ókum svo sem leið lá upp á Kaldbak. Notalegt og heillandi að liggja í heita pottinum í kvöldhúminu og horfa á stjörnurnar verða æ fleiri og skýrari eftir því sem frekar dimmdi. Og máninn gægðist yfir ásana. Það vantaði bara að huldufólk og dvergar stigu dans á hlaðinu!

17.9. FÖSTUDAGUR

Kalt var í morgunsárið, aðeins 2° hiti, en um hádegið var hitinn kominn í 11°. Prýðilega hlýtt á hestbaki.

18.9. LAUGARDAGUR

Fínt veður. Hægur vindur og hlýtt. Mestur hiti 12°.

Hleyptum hestunum hefðbundna hringi kringum túnin. Gott að geta hreyft þá hressilega svo að þeir standi sig vel í smöluninni á morgun.

Á Flúðum var markaðsdagur. Aðallega verið að kynna grænmeti og fleira matarkyns sem framleitt er á Flúðum og í nágrenninu. Einnig handunnar vörur, prjónaðar, saumaðar og ýmislegt unnið úr tré og leir. Mikill fjöldi fólks var á markaðinum svo að við gáfumst fljótt upp á því að reyna að skoða þetta almennilega.

19.9. SUNNUDAGUR

Allhvasst og kalt fram eftir morgni, en ágætt þegar leið á daginn. Eins gott því að í dag var smalað sauðfé á fjórum svæðum, Hrunakróki, Hrunaheiðum, Kaldbaki og Kluftum. Vorum við Jónas kölluð til verka og þótti ábyrgðin mikil. Bárum okkur mannalega þótt reynslan væri nákvæmlega engin.

Allmargir tóku þátt í leitum og var skipt á milli svæða. Þessi svæði eru erfið yfirferðar, mikið um hóla, hæðir og fjöll, hamra, gil og grjót. Endalaust brölt upp og niður í þessu makalausa landslagi. Hestar okkar eru ekki vanir slíku háttalagi og voru frekar ódælir, aðallega mínir. Lítið hrifnir af eltingaleik við óþekkar kindur fram og til baka. Allt hafðist þetta nú að lokum og litla réttin við rimlahliðið á Kaldbak fylltist gjörsamlega, en þangað var féð flest rekið. Kom nú hver bíllinn af öðrum að sækja féð og flytja til sinna heima.

Nýgræðingarnir í sauðfjársmölun voru fegnir að leggjast í bleyti til að mýkja vöðvana eftir átök dagsins. Lurkum lamin smalakerling var reyndar nokkuð drjúg með dagsverkið þegar hún staulaðist inn í rúm.

Þetta var skemmtileg reynsla, en ekki reikna ég með að við munum sækja það fast að fara í margra daga göngur á næsta ári!

20.9. MÁNUDAGUR

Jónas svaf í 11 klukkustundir eftir fjörið í gær. Algjört met. Mig dreymdi Kluftaland alþakið kindum. Vissi reyndar að nokkrar kindur sluppu úr rekstrinum í gær og um morguninn voru vinkonur okkar mættar á túnin. Við létum vita af þeim. Þurftum sjálf að fara í bæinn.

Tríóið mætt í morgunsundið

SEPTEMBERDAGAR 2010

7.9. ÞRIÐJUDAGUR

Enn eru sömu hlýindin, en lítið gaman að vera utan dyra þennan daginn. Eyjafjallajökull er ekki búinn að segja sitt síðasta. Sendir öskumistur í allar áttir og ber m.a. ábyrgð á því að Herjólfur kemst ekki hvenær sem er inn í Landeyjarhöfn. Mistrið sem jökullinn sendi um suður- og suðvesturlandið faldi fyrir okkur sólina og hélt viðkvæmu fólki innan dyra, enda blönduðu Markarfljótsaurar sér í málið með svifryki sem ekki bætti úr skák. Á Akureyri mældist einnig mikil svifryksmengun sem ætluð er vegna sandfoks á hálendinu

8.9. MIÐVIKUDAGUR

Rigning öðru hverju í dag. Talsverður vindur, en hlýtt. Mestur hiti um 15°.

Skemmtiferðaskip lónaði klukkutímum saman hér beint framundan. Komst ekki inn í höfn vegna vindáttar. Skipið sigldi á brott eftir 3-4 tíma. Varla hefur væst um farþegana í þessu tignarlega skipi, en reykvískir kaupmenn hafa án efa saknað þeirra.

9.9. FIMMTUDAGUR

Merkilegt veðurfar. Yfirleitt talsverður vindur, sólarlítið, en ágætlega hlýtt. Mestur hiti í dag mældist 15°.

Hef verið að tína ýmsar bækur út úr bókahillunum og rifja upp efni þeirra. Sumar eru ekki þess virði og tími til kominn að finna þeim annan samastað, jafnvel láta Sorpu um málið. Aðrar snerta mig jafnvel meira en við fyrsta lestur. Var að enda við að lesa skáldsöguna Anna, Hanna & Jóhanna eftir sænsku skáldkonuna Marianne Fredriksson. Merkileg saga, stórbrotin og feiknamikil örlagasaga. Hún á enn sæti í huga mér. Ég veit af nokkrum góðum sem bíða í hillunum.

10.9. FÖSTUDAGUR

Sama veðurfar og í gær. Reyndar örlítil rigning í morgun.

Brugðum okkur í Grasagarðinn. Þar er gróður enn víðast hvar fallegur og ljúft að reika um og skoða. Hins vegar er því miður búið að loka kaffistofunni þar sem við ætluðum að setja punktinn yfir i-ið.

11.9. LAUGARDAGUR

Breytilegt veðurfar. Rigning í morgun, frekar hógvær. Logn, sólskin og hiti 15 – 16° frá hádegi til kvölds. Þoka og suddi að kvöldi.

Tríóið mætt í morgunsundið, þ.e. Svana, Tóta og ég. Um nóg að spjalla. Mikið að gerast. Svana mætti á splunkunýjum fagurrauðum Suzuki. Glæsileg bifreið og hæfir eigandanum. Færði mér gómsæta bláberjasultu og rifsberjahlaup. Slef.

Uppgötvaði þetta ótrúlega yndislega veður um hádegið og snaraðist í gönguskó. Fór út í Gróttu. Rölti þar um ein og naut friðsældar og fegurðar. Fylgdist lengi með dílaskörfum sem sátu á klettum vestan undir Gróttu og þurrkuðu vængi sína. Mikið fjör í þúfutittlingum og steinklöppum.

12.9. SUNNUDAGUR

Lítið varð úr haustlægðinni sem veðurspámenn höfðu lofað okkur. Svolítil ólund þó í veðrinu fram á miðjan dag. Svo þornaði um og hitinn mældist 12 – 13°.

Skemmtilegur þáttur um Ómar í sjónvarpinu. Hann verður sjötugur á næstunni eins og alþjóð veit, enda búin að gefa honum afmælisgjöfina, þ.e. 12 eða 14 milljónir til að hann geti borgað skuldir sínar. Ómar er náttúrlega ekkert venjulegur. Hann er ekki nokkrum manni líkur og ekkert smáræði sem eftir hann liggur. Á sannarlega skilið að fá nokkrar milljónir til að standa undir öllu því sem hann hefur unnið að og skipta okkur svo miklu.

13.9. MÁNUDAGUR

Öðru hverju opnuðust flóðgáttir himins þennan daginn og léttu á sér snöggt og skarpt. Ágætis veður inn á milli. Mestur hiti 12°.

Minnstu munaði að ég missti algjörlega af fyrsta þætti undir nafninu Fólk og firnindi, sem hófst kl. 16:15 í sjónvarpinu. Þættirnir verða 4 talsins og eru sýndir á fáranlegum tíma sem fæstir muna eftir. Á morgun þarf maður að muna að opna kassann kl. 15:55! Meira ruglið. Sjálfur Ómar Ragnarsson er höfundur þessara þátta frá 1997 – 1998. Fallegir og vel gerðir þættir.

Skoðanir Ómars leyna sér ekki í frásögn þótt hann færi varlega í yfirlýsingum um umhverfismálin á þeim tíma sem hann vann að þessum þáttum. Nú er hann hættur slíku kurteisishjali, þótt hann sé ekki jafn afdráttarlaus og t.d. Andri Snær, sem skrifaði feikigóðan pistil í Fréttablaðið 11. september sl.

Um svipað leyti birtist grein eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing, Komið að skuldadögum í Helguvík. Greinin sú ætti að vera skyldulesning. Sigmundur hefur skrifað margar góðar greinar um virkjanamálin og álfíknina. Ómar, Andri og Sigmundur standa vaktina hvað best um þessar mundir. Að ógleymdum Guðmundi Páli Ólafssyni sem aldrei bregst.

Fjör á Kaldbak

SEPTEMBERDAGAR 2010

1.-6. september

Enn tókum við strikið á Kaldbak og dvöldum þar í 6 daga. Veðrið þessa fyrstu daga í september var mjög fjölbreytt og að mestu leyti gott. Hlýtt og sólríkt með köflum. Hiti var gjarna 15-17°. Vindur var nokkuð hvass og jafnvel bálhvass einn daginn og úrhellis rigning. Lækir og tjarnir eru að þorna upp í því veðurfari sem verið hefur og veitti því ekki af rigningunni. Rokið er ekki jafn gagnlegt.

Ég brá mér í berjamó undir Krosstorfuásnum. Þar er talsvert af berjum, bláberjum og afar góðum krækiberjum, stórum og fullþroskuðum. Ég hámaði í mig krækiberin og bar heim vænan slurk af bláberjum, sem entist okkur vel fram eftir vikunni. Gott að geta týnt í Kaldbaksmóum, en þeir jafnast þó ekki á við berin og aðstæður í Reykjadalnum og t.d. í Fremstafellsskógi.

Kindur hafa ekki sést í Kaldbakslandi í allt sumar, en höfðu nú hreiðrað um sig 12-15 talsins, jafnvel fleiri. Við létum vera að stugga við þeim, enda verður landið smalað fljótlega.

Laugardaginn 4. sept. var fjör á Kaldbak, þá lögðu leitarmenn af stað í göngur. Þeir koma með hesta sína daginn áður og þiggja svo kaffi og með því hjá okkur áður en þeir hleypa úr hlaði.

Ingibjörg og Ævar komu snemma morguns hlaðin vistum og var handagangur í öskjunni að hafa allt tiltækt þegar gangnamenn streymdu að eldhúsborðinu. Það gekk mjög vel, enda erum við orðin þjálfuð í þessu verkefni. Boðið er upp á heil ósköp af smurðu brauði, nýbökuðum vöfflum og kleinum og með því drukkið kakó, kaffi, kók og brennivín. Verður ekki annað séð en að allt renni þetta ljúflega niður og afar kurteislega farið að því síðastnefnda.

Óvenju margt hélt inn á hálendið að þessu sinni, um 20 manns og 45-50 hestar. Sérlega gaman var að sjá þennan stóra hóp ríða úr hlaði. Ingibjörg tók myndir í bak og fyrir sem gaman verður að skoða.

Ekki er kvefpestin með öllu búin að skilja við hestana okkar. Við urðum lítið vör við hósta, en hor í nösum er alltaf öðru hverju að sjá. Komin er haustró yfir hestana og margir eru farnir að safna vetrarhári þrátt fyrir hlýindin. Við þykjumst heppin að hafa getað riðið heilmikið út í sumar og haldið okkar reiðfæru hrossum í ágætri þjálfun.

Snemma um morguninn eftir hvassviðrið mikla sáum við að hestarnir voru allir mættir sjálfviljugir í gerðið við gamla fjósið, rétt eins og þeir vildu spara okkur þau spor að sækja þá niður á tún. Því var að sjálfsögðu fagnað og við fórum okkar hefðbundnu reiðtúra á landareigninni. Daginn eftir opnuðum við inn í besta hagann á Bæjarásnum. Urðu þá margir kátir.

Fátt er orðið fugla í dalnum, helst að krummi stundi flugið og láti í sér heyra. Aðeins ein maríuerla heimsótti okkur á pallinn, hinar eru væntanlega komnar til annarra landa. Heyrði í steinklöppum þegar ég var í berjamónum. Og öðru hverju flugu upp þúfutittlingar þegar við fórum reiðleiðina kringum túnin.

Sindrasnúðar slógu í gegn

ÁGÚSTDAGAR 2010

24.8. ÞRIÐJUDAGUR

Fínt veður, gola, sólskin, hiti 15°. Fullt tungl, kalt um kvöldið.

25.8. MIÐVIKUDAGUR

Algjört rjómaveður. Heiðríkt og logn fram eftir degi. Hvessti dálítið þegar leið á daginn, en enginn bilbugur á sólinni. Mestur hiti um 16°.

Þrumu finnst mjög gaman að fara í göngutúr á Kotagranda og Suðurnesið, margt að skoða og þefa af. Leyfi henni öðru hverju að hlaupa í fjörunni. Þar er nú ekki dónalegt að snuðra í þanginu. Fórum á þær slóðir í morgun og tókum okkur góðan tíma í síðasta göngutúrinn, enda veðrið og umhverfið allt dýrðlegt.

K-in komu frá Bandaríkjunum í morgun og Katrín og Kristján komu að sækja Þrumu um miðjan daginn. Hún var ósköp ánægð að sjá þau, en hér er hennar saknað.

Spjallaði við Svönu, sem hefur ekki fengið nógu gott veður fyrir norðan í ágúst og ekki fengið nægilega útrás við berjatínslu. Hins vegar dauðöfunda ég hana af því að geta farið í Mývatnssveitina í dag. Þar verður rækilega minnst uppreisnar og aðgerða fjölmargra Mývetninga fyrir réttum 40 árum, þegar þeir sprengdu Miðkvíslarstíflu í Laxá. Með þeirri aðgerð var harðlega mótmælt áformum um þrjár virkjanir í Laxá, en deilur um þær fyrirætlanir höfðu staðið lengi. Barátta Þingeyinga gegn þeim áformum var löng og ströng, en þeir höfðu betur að lokum.

26.8. FIMMTUDAGUR

Gott og fallegt veður í dag og alveg einstaklega fallegt kvöld. Kvöldsólin roðar skýin og býður svo tunglinu að taka við.

Hringdi í Svönu og fékk lýsingu á samkomuhaldinu í Mývatnssveit í gær. Fjöldi fólks fylgdist með athöfninni við Miðkvísl þar sem afhjúpaður var minnisvarði um stíflurofið fyrir 40 árum. Viðstaddir fylltu síðan Skjólbrekku og hlýddu þar á ræður og söng. Öfund mín jókst um allan helming! Hefði svo sannarlega viljað vera viðstödd.

27.8. FÖSTUDAGUR

Stillt og notalegt veður. Hiti fór víst ekki mikið yfir 12°.

28.8. LAUGARDAGUR

Gott og fallegt veður. Heiðríkt. Sólríkt. Mestur hiti 13-14°.

Fengum “krakkana” í heimsókn fyrir hádegið og buðum upp á góðmeti af ýmsu tagi. Sindri og Breki buðu upp á óvæntan glaðning, nýbakaða kanelsnúða sem þeir báru á borð með glaðhlakkalegu fasi. Þeir kunna vel að meta heimilisfræðin í skólanum sínum og skemmtilegast að fá að baka. Sindri lærði snúðabakstur í skólanum í gær og sá sér leik á borði að baka fyrir allan hópinn í morgun. Eftir matinn sátum við á pallinum í góða veðrinu og spjölluðum margt.

29.8. SUNNUDAGUR

Hæglætis veður, sólarlaust, örlítil væta, mestur hiti 13°.

Stanslaust fjör hjá Dóru og sonum. Hún tekur strikið til Belgíu á morgun og allt í einu er svo margt ógert. Strákarnir víkja ekki frá mömmu sinni og þau storma saman milli vina og vandamanna. Okkur Jónasi hlotnaðist sá heiður að fara með þeim á Ítalíu til kvöldverðar. Snæddum gott og vel og áttum þar skemmtilega stund.

30.8. MÁNUDAGUR

Sama veður og í gær, nema heldur blautara.

Miklar annir frá því snemma morguns því auðvitað tókst ekki að ljúka öllu sem gera þurfti. En það hafðist og við Jónas og prinsarnir fylgdu Dóru í flughöfnina. Strákarnir voru afar stoltir yfir því að þeir fóru ekki að gráta á kveðjustund. Líklega hefur mestu þar um ráðið, að mamma gaf þeim leiki sem þeir höfðu lengi þráð að eiga. Það var því um nóg að tala á heimleiðinni.

31.8. ÞRIÐJUDAGUR

Hlýtt og stillt veður. Sólarlaust og svolítil væta öðru hverju. Mestur hiti um 15°.

Hesthúsið þrifið í dag. Allir mættu til leiks svo að verkið gekk mjög vel. Gott að vera búin að því.

Þruma hvers manns hugljúfi

ÁGÚSTDAGAR 2010

15.8. SUNNUDAGUR

Alskýjað, talsverður vindur, skúrir, hlýtt. Mestur hiti 16°.

Við hóuðum í börnin okkar og fjölskyldur þeirra í “hábít” kl. 11. Góð mæting, vantaði bara Heru og Marcelu. Mjög gaman að fá hópinn, borða saman og spjalla. Frá mörgu er að segja frá sumrinu. Öll búin að ferðast meira og minna um landið. Sigrún fór t.d. í fjögurra daga göngur í Fjörður og nokkru síðar til Grímseyjar ásamt Pálma og starfsfólki Fjölskyldu- og Húsdýragarðsins. Ekki lítið hrifin. KKK skoðuðu sig um á suðausturhorninu. Fengu að vísu hálfleiðinlegt veður og sneru heim í hávaðaroki, sem setti nokkur hjólhýsi um koll á suðrænum söndum. Katla fór ásamt þremur félögum hringinn í kringum landið á 4 dögum og var mjög ánægð með að hafa skoðað svolítið landið sitt og hafa það í huganum þegar hún fer til Bandaríkjanna.

Aðalmál dagsins var að kveðja Kötlu, sem fer nú til náms í Cornell University í Íþöku í Bandaríkjunum og verður þar væntanlega í heil fimm ár. Mér finnst satt að segja ekki langt síðan ég sá þessa stúlku nýfædda á dönskum spítala. Svona líður tíminn hratt. Kristján, Katrín og Kári fylgja henni vestur og leggja af stað í fyrramálið. Þau fljúga til Boston, taka þar bíl á leigu og reikna með 5-6 klukkustunda ferðalagi til Íþöku. Heim koma k-in þrjú tíu dögum síðar. Meðan þau eru í burtu er Þruma litla í minni umsjá. Gaman að hafa hana. Hún er alveg sérlega góð þrífætt skotta og hvers manns hugljúfi. Jónas hefur ekki einkaleyfi á þeirri einkunn!!

16.8. MÁNUDAGUR

Fjölbreytilegt veður þennan daginn. Hlýr og notalegur vindur, stundum sól, stundum regnskúr.

Sumir fengu svona nærri því hjartaslag um miðja nótt. Húsbóndinn brá sér á snyrtingu eins og gengur og gerist stundum á þeim tíma, en hann var búinn að steingleyma litla gestinum okkar. Þrumu litlu brá þessi líka ósköp þegar úfinn karl átti leið fram hjá og rak upp slík skelfingar vein – þ.e.a.s. Þruma – að við hentumst öll út úr rúmum okkar og æddum á vettvang. Jónas ríghélt sér í handrið og beið þess að hjartsláttinn lægði, en Þruma skalf sem lauf í vindi í örmum Dóru, sem varð fyrst til að bjarga henni og bauð henni síðan að deila með sér herbergi. Það gekk vel.

Þruma var hin brattasta að morgni og við fórum tvisvar í langan göngutúr í góða veðrinu. Virðist hafa gleymt ævintýri næturinnar.

17.8. ÞRIÐJUDAGUR

Öndvegis veður. Heiður himinn, ljúfur vindur, mestur hiti vel yfir 20°.

Við Þruma nutum góða veðursins rækilega. Gengum stóra hringinn á Suðurnesinu. Þar var mikill fjöldi golfara, flestir á virðulegum aldri og fóru settlega um teigana. Fórum annan góðan göngutúr seinna um daginn, og þá var Þrumu eiginlega nóg boðið, hefur líklega þótt óþarflega heitt í pelsinum sínum fína.

18.8. MIÐVIKUDAGUR

Gott veður og hlýtt, mestur hiti 19°. Sólskin mestan hluta dagsins og talsverður vindur. Örlítil rigning um kvöldið.

Við Þruma gengum fram og aftur um Kotagranda í morgun. Margir kusu að gera hið sama, hlaupagarpar, hjólreiðafólk, göngufólk, konur með barnavagna. Mér þótti skemmtilegast að hitta fyrir nokkra steindepla, eða steinklöppur eins og þessir skemmtilegu fuglar voru kallaðir fyrir norðan í minni æsku og eru sjálfsagt ennþá. Steinklappan gefur frá sér klapphljóð sem auðvelt er að þekkja. Þruma truflaði ekki fuglana, en snuðraði eins og þrautreyndur njósnari af hverju strái.

19.8. FIMMTUDAGUR

Ekki skorti sólskinið og hlýjuna á suðvesturhorninu frekar en fyrri daginn. Hvort hitamælingar staðfestu a.m.k. 20° veit ég ekki, en eitthvað minna mundi hljóma sem ósannindi í mín eyru.

Ég gat ekki stillt mig um að fara í berjaleit. Tók stefnuna á Brynjudal, hafði fréttir af gnægð bláberja þar. Kannski hefur svo verið, en ekki fundum við Þruma mikið í landi skógræktarinnar. Hitti þar fólk, sem taldi að íbúar höfuðborgarinnar væru þegar búnir að sulta berin sem einu sinni voru þar. Þruma var alveg að drepast úr hita í pelsinum sínum og við stöldruðum ekki lengi við. Þegar komið var á bílastæðið stóð þar heldur vansæll karlmaður og kallaði öðru hverju á Gunnu, sem engu svaraði. Hefur kannski ráfað sífellt lengra í leit að berjum. Vona að hún hafi ekki látið þennan vansæla karl bíða alltof lengi.

20.8. FÖSTUDAGUR

Ekki er veðrið nú jafn notalegt og verið hefur. Sólin er ekki eins örlát, hitastigið heldur lægra og sterkur vindur. Dóra og synir urðu vonsvikin, höfðu ætlað sér að eyða deginum í sólinni og heita pottinum eins og í gær.

21.8. LAUGARDAGUR

Sólin skein glaðlega í dag, en vindurinn blés enn meira en í gær. Hefur talsvert kólnað með kvöldinu, og m.a.s. gera veðurfregnir ráð fyrir slyddu til fjalla fyrir norðan. Vonandi rætist sú spá ekki.

Í dag er mikil hátíð í Reykjavík, sem af einhverjum ástæðum kallast Menningarnótt. Líklega var upphaflega ætlunin að hafa þessa skemmtun fyrst og fremst að nóttu til, en nú til dags er þessari hátíð lokið með veglegri flugeldasýningu kl. 11 að kvöldi. Það kemur þó varla í veg fyrir að þeir hressustu haldi sína prívat “menningarnótt” að hinni lokinni.

Í morgun tóku hlaupagarpar snemma til fótanna, hátt á annað þúsund. Leið þeirra lá m.a. eftir Norðurströndinni og var gaman að fylgjast með mannhafinu út um gluggann hér. Sumir virtust reyndar hafa reist sér hurðarás um öxl, en engar fréttir hafa borist af örmagna fólki.

22.8. SUNNUDAGUR

Óttalegur belgingur í þessu veðri og m.a.s. ansi kalt. Mætti alveg skána.

Við Þruma erum orðnar býsna vel að okkur í því hvað er að gerast hér í kringum okkur. Hér og hvar er verið að gera við og endurbæta hús, m.a. 4 hús í götunni okkar. Þetta vel stæða fólk hér á Seltjarnarnesi notfærir sér rækilega að nú fæst virðisaukaskattur af vinnu við viðgerðir á húsum endurgreiddur 100%. Gott mál. Því miður hafa ekki allir sem þyrftu fyrir öllu hinu sem til þarf.

23. MÁNUDAGUR

Örlítil rigning í morgunsárið. Upp úr hádeginu hresstust veðurguðir, himinninn hreinsaðist og sólin brosti. Vindur er ennþá hvass, en hefur hlýnað. Mestur hiti 13°.

Laumufarþegi á Kaldbakstúni

ÁGÚSTDAGAR 2010

1. – 14. ágúst

Þá er nú ágústmánuður hálfnaður. Fjölbreyttur og skemmtilegur. Vorum á Kaldbak mestallan þennan tíma og nutum þess alveg í botn. Allra mest að geta farið í reiðtúra næstum daglega. Yndislegt!

Dóra, Sindri og Breki voru með okkur í fjóra daga og fengu frábært veður. Dóra naut sólarinnar út í ystu æsar og fagnaði hverri freknu. Strákarnir léku listir sínar á trampólíninu, slógu upp tjaldi, sulluðu í heita pottinum (þó ekki jafn mikið og ég, sem fer a.m.k. tvisvar á dag í pottinn), fengu listitúr á fjórhjóli, eða kannski var það sexhjól. Svo bjuggu þeir til matinn með mömmu sinni einn daginn, lambalæri, sveppasósu og bakaðar kartöflur. Þá vildi svo vel til að Ævar, Edda og Jón Þór komu að sækja traktor og aðstoðuðu okkur við að innbyrða þennan dýrindis mat.

Svo fórum við öll saman á hestbak. Dóra reið Létti og hafði greinilega engu gleymt. Jónas sat Djarf og teymdi Gauk, sem Sindri reið. Það gekk ágætlega, nema Djarfur var óþarflega æstur og þótti Sindra það heldur óþægilegt, enda þótt Gaukur væri hinn besti. Við Prinsinn teymdum Storminn með Breka á baki. Stormur er bæði þægur og þægilegur og hentugastur af þessum hestum okkar fyrir krakkana. Breki fékk að stjórna Stormi einn og sjálfur á rananum, þ.e. túni við hlið hestagerðisins. Hann stóð sig vel, lét hestinn tölta, hlaupa og stökkva og þótti mjög gaman, var hvergi hræddur.

Helgina 6.–8. var mikil umferð hestamanna og sitthvað að gerast. Merkilegast var þegar svolítill laumufarþegi kom í heiminn í túninu á Kaldbak, þar sem hópur Íshesta gisti aðfararnótt föstudagsins. Við sáum þetta litla folald þegar við riðum framhjá um morguninn og undruðumst hvað svona lítil vera væri að ferðast um heiminn. En það kom sem sagt í ljós, að eigandi hryssunnar hafði ekki vitað af þessu lífi, þegar hann lánaði hryssuna í ferðalag. Kallað var eftir bíl og hestakerru að sækja mæðginin. Gaman var að hjápa til við að ná í þau lengst niður á tún og gekk það allt vel.

Veður var gott flesta daga, hitinn fór suma daga vel yfir 20°. Ég brá mér tvisvar í berjamó og tíndi nokkra lítra af vel þroskuðum berjum.

Gleðilátum linnir ekki

JÚLÍDAGAR 2010

27. 7. ÞRIÐJUDAGUR

Gott veður. Fremur aðgerðarlítið. Sást lítið til sólar. Mestur hiti 15°.

Herti mig upp í allsherjar þrif á heimilinu og veitti ekki af. Gengur ekki að þrífa alltaf í Varmahlíð og Kaldbak eins og jólin séu á næsta leiti, en horfa svo framhjá rykinu og skítablettunum heima hjá sér. Komst yfir helminginn. Framhald á morgun.

28.7. MIÐVIKUDAGUR

Hlýtt og notalegt veður. Sólskin drjúgan hluta dagsins. Mestur hiti 17°. Veðurkortið fullyrti hins vegar að hitinn hefði verið 23° um miðjan daginn á Kaldbak! Eins gott að sleppa hestunum við reiðtúr í slíkri hitasvækju.

Kláraði hreingerningaræðið í blíðviðrinu. Er hin ánægðasta með eigin dugnað. En að sjálfsögðu hefur enginn annar tekið eftir rykinu og skítablettunum sem voru, og enn síður tekur nokkur sála eftir því hvað húsið er orðið tandurhreint og andrúmsloftið heilsusamlegt. Örlög húsmóðurinnar! Allt í sóma og nú get ég slakað vel og vandlega.

29.7. FIMMTUDAGUR

Ágætt veður, skýjað, mestur hiti 15°, lítil úrkoma.

Sjónvarp allra landsmanna hefur lítið höfðað til mín síðustu mánuði og hefur sú staðreynd ekki valdið mér áhyggjum. Hins vegar var ég að uppgötva að farið er að bjóða upp á hitt og þetta gæðaefni á undarlegum tíma, einmitt þegar manni dettur ekki í hug að opna kassann. Þessa dagana er til dæmis sýnd þáttaröð um eyjar við Ísland og í kjölfarið þættir um friðlýst svæði og náttúruminjar á Íslandi. Gott mál. En hvers vegna er verið að sýna þessa þætti kl. 16:40 og 17:05? Fáránlegur tími.

30.7. FÖSTUDAGUR

Gott veður, sólskin með köflum, mestur hiti 15°.

Veðurfar sumarsins hefur orðið til þess að allur gróður er meiri að vöxtum en venjulega. Tré og runnar hafa vaxið meira en nokkru sinni og brekkuvíðirinn aldrei ræktarlegri, þökk sé grænsápunni. Hávaxin blóm eru hærri og stærri en áður og eru hreinlega farin að troða rósarunnunum um tær! Ég sé mig tilneydda til að grisja eitthvað öll þessi ósköp. Hóf verkið í dag. Var ekki lengi að fylla fyrsta pokann.

31.7. LAUGARDAGUR

Morguninn heilsaði með logni og þéttri þoku. Mikil rólegheit í morgunsundinu. Virðist svo sem stærstur hluti íbúanna sé á faraldsfæti utanbæjar. Kannski biðu hinir eftir að létta færi til svo að þeir gætu sólað sig á bakkanum. Sólin mætti reyndar seinni hluta dagsins og hitinn fór upp í 17°.

Dóra er komin í heimsókn frá Belgíu. Synirnir fóru í gærkvöldi með Pétri og Marcelu að taka á móti mömmu sinni, sem lenti um miðnættið. Dóra býr hjá okkur og prinsarnir verða væntanlega mestan part hér líka meðan mamma er á landinu. Gleðilátum linnir ekki!

Loks á fáki fráum

JÚLÍDAGAR 2010

20. – 26.7. 2010

Vorum heila viku á Kaldbak. Fórum upp eftir á þriðjudegi og biðum ekki boðanna. Sóttum hestahópinn niður á tún og könnuðum liðið. Nokkrir hestanna eru enn að stríða við þessa leiðinda kvefpest sem hefur spillt öllum fyrirætlunum um hestaferðir sumarsins. Reiðhestarnir okkar eru hins vegar í ágætu formi núna.

Öll hrossin eru vel í holdum, sum alltof feit, einkanlega stóru hestarnir mínir sem alltaf éta yfir sig. Prinsinn hafði tapað einni skeifu, en við fengum fljótlega járningamann, Birki á Hæl, og þá höfðum við hvort um sig 3 hesta til reiðar. Fórum þrjá góða reiðtúra á hverjum degi. Jafnaðist nærri því á við vikulanga hestaferð um firnindin. Mikil ánægja.

Til stóð að fara í þriggja daga hestaferð með Andreas Bergmann, miklum hestamanni sem er með athvarf á Hamarsheiði hinum megin Stóru-Laxár. Nú lítur ekki út fyrir að af því verði. Fjárans pestin helltist yfir hestahópinn hans um daginn, og býst hann ekki við að geta notað sína hesta næstu vikur.

Við förum aftur á Kaldbak áður en langt um líður og sprettum úr spori. Það verða okkar hestaferðir þetta sumarið.

Veðrið lék við okkur. Lítið varð vart rigningarinnar sem veðurstofan spáði, og hitinn fór þrisvar sinnum yfir 20°. Búið er að slá og hirða túnin og allt í miklum blóma.

Maríuerlurnar héldu uppi fjörinu á pallinum við húsið. Virðast ekki mjög hræddar við mannskepnuna. Þær eru sérlega skemmtilegir gestir, eða kannski réttara sagt nágrannar, því þær búa í grenndinni og fjölga sínum. Stelkurinn er enn eitthvað að stússa með unga, hefur miklar áhyggjur af mannaferðum og varar við með hvellum hljóðum. Hrossagaukurinn er hins vegar við sama heygarðshornið, felur sig í grasinu og flýgur ekki upp fyrir en á síðasta augnabliki. Hestunum verður stundum hverft við, en ekki hefur enn orðið óhapp af því.

Snerum á leið til höfuðborgarinnar um miðjan mánudag. Þá var komin hellirigning.

20° hiti dögum saman

JÚLÍDAGAR 2010

17.7. LAUGARDAGUR

Góðviðri í allan dag. Örtröð í sundinu þegar leið að hádegi. Þurftum að fara krókaleiðir milli fólksins til að komast upp úr. Hitastigið fór yfir 20°. Er verið að slá Norðaustrið út?

Gullið tækifæri til að mata brekkuvíðinn aftur á grænsápunni, rigningin ætlar að doka við a.m.k. fram á þriðjudag. Grænsápan góða gerir sitt gagn. Það leynir sér ekki. Grænsápan og góðviðrið eiga vel saman, en ormarnir fussa við.

18.7. SUNNUDAGUR

Glæsilegt veður. Hitastigið yfir 20°.

Fór í góðan göngutúr á Kotagrandann og Suðurnesið. Bakkatjörnin er orðin mjög grunn á pörtum, hitinn hefur sín áhrif. Kríurnar eru ekki jafn fjörugar og verið hafa, hætt við að ungarnir þeirra fái ekki nóg að éta. Sandsílin hafa ekki náð sér á strik, og kemur það illa niður á bæði kríunni og lundanum, sem reyndar sést ekki hér um slóðir. Endur synda stoltar með ungahópana sína um Bakkatjörn, sennilega hópur nr. 2 hjá þeim. Og álftarungarnir geta tæpast talist ungar lengur, orðnir nærri jafnstórir og foreldrarnir. Gott líf á Bakkatjörninni.

19.7. MÁNUDAGUR

Sama blíðan. Mestur hiti 20°. Sat hálfan daginn í blíðunni og lauk við Leynda kvöldmáltíð!

Þegar ég fór síðast í bókaleit í Hallarmúlanum sá ég að þar er farið að bjóða upp á notaðar kiljur á 400 kr. Þar var reyndar ekki um auðugan garð að gresja, en ég greip með mér eina, sem á bókarkili var sögð metsölubók um allan heim, margbrotin, eftirminnileg, heillandi saga og mjög vel skrifuð spennusaga. Það vantar sannarlega ekki skjallið. Leynda kvöldmáltíðin er nafn bókarinnar, sem gerist að mestu árið 1497. Tókst að ljúka henni í dag. Verð að játa að ég var ansi lengi að ná áttum og verða nógu forvitin um framvindu mála. Ein aðalpersónan er sjálfur Leonardo da Vinci og iðulega vísað til listaverka hans og starfa og þekktra viðburða af ýmsu tagi á þessu tímabili. Og ekki vantar togstreytuna um trúmálin, sem valda tortryggni og svikum, illindum og morðum. Var ólíkt sneggri að innbyrða seinni helming bókarinnar þegar fjör færðist í leikinn. Ekki sérlega fallegt allt hjá heittrúarhöfðingjunum

Hápunktur í Guðrúnarlaug

JÚLÍDAGAR 1010

13.7. ÞRIÐJUDAGUR – GÖMLU HÚSIN Í STYKKISHÓLMI

Veðurspáin bauð upp á allt hið besta og við stukkum af stað í ferðalag. Tókum stefnuna á Vesturlandið og Breiðafjörðinn. Okkur til undrunar þyrluðust skyndilega dökk og illúðleg ský um himininn og eltu okkur með hellirigningu alla leið að Vegamótum á Snæfellsnesi. Fórum vatnaleiðina svokölluðu norður yfir og þar þurfti ekki að kvarta yfir veðrinu. Skemmtileg leið, stór og falleg vötn umkringd fjöllum, hrauni og óspilltum gróðri.

Það er gaman að ganga um Stykkishólm sem er afar sérstakur bær, fallegur og snyrtilegur. Þar er mikið af gömlum húsum, sem setja sérstakan svip á bæinn, enda hafa þau verið gerð upp af mikilli vandvirkni. Margt fleira vekur athygli. Það nýjasta er Eldfjallasafnið, sem Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur komið á laggirnar. Myndir, steinar og fleira má þar sjá og horfa á heimildarmyndir af gosinu í Eyjafjallajökli og eldgosum víða annars staðar í heiminum. Hefði mátt dvelja þarna lengi.

Borðuðum á Narfeyrarstofu í einu af þessum gömlu húsum. Fengum þar m.a. fiskisúpu, rituegg, harðfisk og bláskel. Bragðaðist einkar vel. Sváfum á gistiheimili sem heitir því volduga nafni Hótel Breiðafjörður. Enginn var þar íburður né óþarfa rými, enda eitt af þessum gömlu húsum. Þar var gott að vera

14. 7. MIÐVIKUDAGUR – SLAPP VIÐ GOGG Í HAUS

Fórum með ferjunni Baldri snemma morguns til Flateyjar og áttum þar góðan sólarhring. Gengum vítt og breitt um eyjuna. Skoðuðum m.a. kirkjuna og Bókhlöðuna, eins og það er kallað þetta pínulitla hús með örfáum gömlum bókum. Þetta litla hús er merkilegt sem elsta bókhlaða landsins, byggð 1864. Mörg húsin í Flatey eru mjög gömul og flestum vel við haldið.

Skemmtilegast er þó að fylgjast með fuglalífinu í eynni. Lundaberg heitir hæsti punktur á eynni, 16 metra yfir sjávarmáli. Þar er gaman að sitja á þúfu, njóta útsýnis og flugfiminni allt um kring. Kríurnar eru margar og háværar og býsna ógnandi. Þær taka lögregluhlutverkið alvarlega og steypa sér gargandi yfir óboðna kerlingu. Slapp þó við gogg í haus.

Herbergið okkar í Hótel Flatey var merkt lóunni og út um guggann horfðum við á höfnina sem er eins og skeifa í laginu. Björgin eru þakin driti, fuglamergðin mikil og samræður háværar. Ritan virðist þar ráða ríkjum. Þar er ekki hljóðlátt eitt andartak og öðru hverju slær í brýnu með óskapa hávaða.

Skemmtilegast fannst mér að kynnast teistunni, sem Guðmundur Páll lýsir m.a. svo í bókinni sinni: “Teistan er gæfur fugl og einstaklega fríður og heillandi svartfugl, ekki síst þegar hún situr í löngum röðum og blístrar blíðlega”. Þær sátu tvær á stórum steini snemma morguns fram undan herberginu okkar, blístruðu að vísu ekki fyrir mig, en þær neru öðru hverju saman goggum og voru svo fallegar að ég gat ekki haft augun af þeim.

15.7. FIMMTUDAGUR – Í KAFFI HJÁ KJARTANI

Sól, blíða, logn. Kvöddum Flatey og fórum með Baldri til Brjánslækjar. Ókum þaðan um Tröllaháls og niður á Bíldudal, síðan Tálknafjörð og Patreksfjörð.

Aðalmálið var þó að fara niður á Rauðasand. Þangað fórum við fyrir 44 árum, en frá þeirri reisu man ég lítið annað en aksturinn niður fjallið, sem af einhverri ástæðu kom í minn hlut. Vegurinn skelfilegur, mjór og grýttur í ótal bugðum og sums staðar þverhnípt niður við vegarbrún. Hugsaði stöðugt hvað í ósköpunum yrði um okkur ef ég mætti bíl, sem virtist hreinlega ógerlegt. Jónas bjargaði okkur til baka og bjóst ég ekki við því að kanna þessa stigu aftur.

Hafði þó grun um að samgöngur hefðu batnað á síðustu áratugum og lagði til að við heimsæktum þessa merkilegu sveit. Nýr vegur í boði, hóflega grýttur og mun breiðari en forðum, jafnvel hægt að mætast þar. Og það var gaman að koma á Rauðasand. Við ókum um sveitina fram og til baka og fengum okkur kaffi á þeirri merku kaffistofu, sem Kjartan Gunnarsson á heiðurinn af og sennilega einnig af ýmsum umbótum þar um kring, m.a. á Saurbæjarkirkju og fleiru.

Ókum síðan í Rauðsdal þar sem er bændagisting. Sat þar lengi úti á palli í blíðunni, hlustaði á brimið við ströndina og horfði á Snæfellsjökul fyrir handan.

16.7. FÖSTUDAGUR – HÁPUNKTUR Í GUÐRÚNARLAUG

Enn skein sólin glatt og veröldin sýndi sitt besta. Við kvöddum Rauðsdalinn snemma og héldum austur með Barðaströndinni. Ákaflega falleg leið, en afar misjöfn undir hjólin. Sums staðar var umfangsmikil vegavinna í gangi, skyndilega tók við malbikaður stubbur, en fyrr en varði datt maður inn í fortíðina lagða þvottabrettum, grjóti og blindhæðum. Engu að síður er skemmtilegt að þræða firðina og víða mjög fallegt.

Hápunktur dagsins var að baða sig í Guðrúnarlaug. Sú var byggð upp og tekin í notkun um veturnætur í fyrrahaust. Er hún opin allt árið og frítt í hana. Laugin er í brekku ofan við hótelið á Laugum í Sælingsdal. Þar er hægt að hafa fataskipti í svonefndu blygðunarhúsi, litlu snotru húsi rétt ofan við laugina.

Í Laxdælu er greint frá því að Guðrún Ósvífursdóttir hafi löngum dvalið við laug á Laugum í Sælingsdal. Þar átti hún meðal annars samræður við Gest frænda sinn um draumfarir sínar og er sagt frá því og fleiru á upplýsingaspjaldi.

Á 19. öld rann skriða yfir laugina sem færði hana í kaf. Ekki var reynt að grafa þá laug upp heldur var búin til ný laug. Sú er heit og notaleg og vandalaust að ímynda sér að þar með sé fetað í fótspor Guðrúnar Ósvífursdóttur. Skemmtileg upplifun.