MAÍDAGAR 2010
16.4. SUNNUDAGUR
Ágætt veður, reyndar ansi hvasst á Nesinu, en betra í Víðidalnum. Sólskin og mestur hiti 8°.
Snemma morguns var fallegt út að líta og mjög gott skyggni. Jónas, sem að venju var löngu kominn á ról, benti mér á að nú væri lag að líta á gosmökkinn frá Eyjafjallajökli. Ég hélt að hann væri að gabba mig, en hið rétta kom strax í ljós. Furðuleg reynsla að standa við gluggann sinn á Fornuströnd 2 og horfa á grásvartan mökkinn frá eldgosinu teygja sig upp í loftið milli tveggja kirkna, Hallgrímskirkju og Landakotskirkju. Sjá mátti bólstrana breyta sér utan í mekkinum. Þegar ég kom úr morgunsundinu hafði skyggnið versnað og ekki lengur mökkinn að sjá.
Það er svo margt undarlegt í náttúrunni þessa dagana. Hvít fjöll á Ströndum, sagði á fréttavef RÚV í morgun, og í næstu frétt: Öskufall á Sólheimasandi. Og í kvöld er upplýst að eldgosið í Eyjafjallajökli er orðið stærsta gos hérlendis síðan Kötlugosið 1918. Ekkert bendir til þess að gosið sé í rénun og bændur eru farnir að flytja sauðfé sitt í betri haga.
17.5. MÁNUDAGUR
Ágætis veður, svolítil rigning seinnipartinn og um kvöldið. Mestur hiti 8°.
Fluttum þrjá hesta austur á Kaldbak, þá Létti, Djarf og Gauk. Það er alltaf jafn gaman að fara með hesta í sumarhagana, þeir stökkva um túnin og skvetta upp rassinn eins og kýrnar í gamla daga. Íbúar á Flúðum tilkynntu í morgun að sést hefði aska á bílum. Við veltum fyrir okkur að bíða með að fara austur með hesta, en ráðgjafar töldu það alveg óhætt. Sáum hvergi nein ummerki á leiðinni né uppfrá og fundum ekki eitt einasta öskukorn í kringum húsið austur frá. Setti disk á pallinn við húsið og fergði með góðum steini. Förum með seinni hestana þrjá á morgun og sjáum þá hvort askan lætur sjá sig.
18.5. ÞRIÐJUDAGUR
Eyjafjallajökull er farinn að senda gosmökkinn í allar áttir. Öskufalls var vart vítt og breytt um landið og m.a. var frá því sagt að þess hefði gætt á Laugum! Mikið öskufjúk var á Suðurlandi og síðdegis dimmdi yfir höfuðborginni, ekki beint vegna öskufalls, heldur var um að ræða öskumistur. Þegar leið á daginn rigndi talsvert og var henni fagnað. Hitinn í dag var mestur um 10°.
Fluttum Loga, Prins og Storm austur á Kaldbak og voru þeir augljóslega fegnir að hitta félaga sína. Ekkert öskufall eða fjúk hefur enn borist á þessar slóðir og vonandi verður sem minnst um slíkar sendingar.
Og nú seint um kvöld er rökkvað eins og að hausti.
19.5. MIÐVIKUDAGUR
Svolítið blautt veður í dag, en hlýtt og kjurt, mestur hiti 10°.
Fyrsti fundur stjórnar Þjóðhátíðarsjóðs, sem ég var kjörin til fyrir nokkru. Komst reyndar fljótt að því að þessi merkilegi sjóður lýkur hlutverki sínu í lok þessa árs eða snemma á því næsta. Þjóðhátíðarsjóður var stofnaður í tilefni af 1100 ára búsetu á Íslandi árið 1974. Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til stofnana og einstaklinga, sem vinna að varðveislu og vernd þeirra verðmæta lands og menningar, sem núverandi kynslóð hefur tekið í arf. Við það er miðað að styrkir úr sjóðnum verði viðbótarframlög til þeirra verkefna, sem styrkt eru, en verði ekki til þess að lækka önnur opinber framlög til þeirra eða draga úr stuðningi annarra við þau. Í júní verður auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum og síðan aftur í ágúst. Í haust fáum við síðan nóg að gera við að fara yfir umsóknirnar og komast að niðurstöðu um veitingu styrkjanna. Úthlutun fer síðan fram 1. desember á þessu ári.
Fyrir hreina og klára tilviljun stökk ég inn í búðina hennar Hrafnhildar og kolféll þar fyrir bráðskemmtilegu pilsi, sem var blessunarlega á ögn niðursettu verði. Skammast mín ekki svo mjög fyrir slíka eyðslusemi, sem ég hef ekki leyft mér a.m.k. síðan frá hruni!
20.5. FIMMTUDAGUR
Ansi blautt í dag, en milt veður og þægilegt. Mestur hiti 11°.
Snæddum á veitingahúsinu Dill í Norræna húsinu í kvöld ásamt spilafélögum okkar, Sólrúnu og Þórði. Við ljúkum gjarna spilamennsku vetrarins með átveislu á góðum stað. Dill er mjög sérstakur veitingastaður og engum öðrum líkur. Hann er sagður “hugarfóstur þeirra Gunnars Karls Gíslasonar og Ólafs Arnar Ólafssonar sem hafa verið í fararbroddi þegar kemur að nýnorrænu eldhúsi á Íslandi”, eins og segir í kynningu staðarins. Útsýnið þar er líka mjög sérstakt og gaman að fylgjast með fuglalífinu í mýrinni.