MAÍDAGAR 2010
8.5. LAUGARDAGUR
Sól og blíða fram eftir degi, svo dró ský fyrir sólu, en veðrið var áfram gott. Engin úrkoma. Hiti mestur 8°.
Neslaugin var hreinlega þétt setin í góða veðrinu. Við frænkurnar áttum góðar stundir og spjölluðum margt. Svana og Tóta romsa upp úr sér nöfn og ætterni, maka og störf, börn og buru. Sjálf er ég eins og álfur út úr hól í slíkum fræðum og dáist takmarkalaust að þekkingu þeirra.
Það er dauft yfir öllu í Víðidalnum og fáir að hreyfa hesta sína. Kvefpestin er þó ekkert heiftarleg, en hestamenn eru hvattir til að krefja ekki hesta sína og leyfa þeim að hafa það náðugt. Við hlýðum því að sjálfsögðu.
Dóra setti myndband á facebook af The Bresin band, þ.e.a.s. bandið þeirra Sindra og Breka. Þeir sungu í skólanum sínum í Gent frumsamin lög og texta, m.a. um eldgosið í Eyjafjallajökli. Bráðskemmtilegt myndband.
Hlýindin hafa komið sér vel. Dagamunur er á grasinu, sem vex og grænkar. Og fuglarnir syngja með gleðihreim.
9.5. SUNNUDAGUR / MÆÐRADAGUR
Frábært veður í dag. Sól og blíða. Mestur hiti 11°.
Kristján færði mér einkar fallegan blómvönd í tilefni dagsins. Stórfjölskyldan kom saman og fékk “hábít” með ýmsu góðgæti. Margt gott er t.d. hægt að kaupa í Búrinu, skemmtilegri búð við Nóatún. Þar fást m.a. alveg sérstakar flatkökur, einnig mjög góðir ostar og ís af ýmsu tagi. Prófuðum nýlega geitaís! Mjög sérstakur og býsna góður.
Hestarnir fengu góða útivist í þessu frábæra veðri. Hlupu með okkur spottakorn, en við leggjum ekki mikið á þá. Hitti nágranna í þarnæsta hesthúsi. Sonur hans hafði verið á Hólum í Hjaltadal og sagði að þar væri hörmulegt ástand. Flestir hestanna þar eru veikir og dapurlegt andrúmsloft. Ekki er hægt að þjálfa hestana og nemendurnir geta ekki tekið tilskilin próf á venjulegum tíma.
10.5. MÁNUDAGUR
Mjög gott veður, sól og blíða, mestur hiti 12°, engin úrkoma.
Ekki lækkar rostinn í Eyjafjallajökli. Þar gengur á jarðskjálftum í og við jökulinn og öskufallið herjar á íbúana eftir því hvert vindurinn blæs. Hraunbomburnar eru sem stærðar björg sem hendast út úr öskumekkinum. Og ekkert bendir til þess að gosinu sé að ljúka, segja sérfræðingar.
Meðan íbúar í nágrenni við gosið í Eyjafjallajökli berjast við að sinna sauðburði og öllum venjulegum vorverkum, fáum við að njóta vordaganna í sól og blíðu og gleðjast yfir grósku grass og jurta. Gæðunum er misskipt.
11.5. ÞRIÐJUDAGUR
Veðurblíða fram eftir degi, mestur hiti 12°. Síðdegis þykknaði upp.
Það er heldur betur orðið líflegt hér á Nesinu litla og lága, við Bakkatjörn, á Suðurnesinu og alveg að Gróttu. Þar úir og grúir af fuglum, margæsirnar eru hér hópum saman og blessuð krían er komin. Vonandi tekst henni betur en síðustu 2, 3 árin að koma upp ungunum sínum. Líklega eru golfararnir ekki jafn hrifnir af fuglahópunum sem spígspora um flatirnar, en í raun er merkilegt hvað þeim kemur vel saman.
12.5. MIÐVIKUDAGUR
Notalegt veður, fremur stillt, mestur hiti 8°. Sólarglæta öðru hverju, en lítið varð úr regninu sem spáð var.
Við erum farin að beita hestunum á grængresið í 10 mínútur á dag til að búa þá undir útiganginn. Vonumst til að geta farið með þá austur á Kaldbak fljótlega eftir næstu helgi. Gaman að sjá þá grípa niður þótt lítið sé að hafa enn sem komið er.
13.5. UPPSTIGNINGARDAGUR
Ágætis veður, hálfskýjað, dálítill vindur, mestur hiti 7°.
Þegar ég fór upp í Víðidal í morgun til að setja hestana út í gerði hlustaði ég á vænan slurk af þætti Rásar 1 um Vilhjálm frá Skálholti. Hann orti mörg góð ljóð sem voru lesin upp í þættinum og sum þeirra sungin. Í tilefni dagsins set ég hér niðurlag eins þeirra sem heitir “Jesús Kristur og ég”
Og um þau mál við aldrei megum kvarta
því uppi á himnum slíkt er kallað suð.
En ósköp skrýtið er að eiga hjarta
sem ekki fær að tala við sinn guð.
Hver síðastur þú sagðir yrði fyrstur,
en svona varð nú endirinn með þig.
Og úr því að þeir krossfestu þig, Kristur,
hvað gera þeir við ræfil eins og mig?
Nú síðustu ár hafa verið að spretta upp hinar og þessar skemmtilegar matvörubúðir með ýmsar nýstárlegar vörur. Sú nýjasta heitir Frú Lauga eða jafnvel Bændamarkaður Frú Laugu. Við litum þar við í fyrsta skipti í dag. Minnir svolítið á aðra skemmtilega búð sem kallast Búrið. Þarna var ýmislegt á boðstólum frá hinum og þessum bóndabæjum. Mjög sérstakt. Fýflasýróp, broddmjólk, sólþurkaður þorskur, kúfskel, bláskel, korngrís, reyktar andabringur, svo eitthvað sé nefnt. Því miður voru öll eggin uppseld, en við höfðum ætlað að kaupa egg frá landnámshænum. Gaman að þessu.
14.5. FÖSTUDAGUR
Þægilegt veður, dálítil gola, sást lítt til sólar, mestur hiti 11°.
Eldgosið í Eyjafjallajökli lætur ekki deigan síga og sendir öskuna frá sér á degi hverjum hingað og þangað af fullkomnu miskunnarleysi. Í dag náði lítils háttar öskufall alla leið á höfuðborgarsvæðið, en það hefur ekki gerst fyrr. Ekkert þó í líkindum við ósköpin næst jöklinum.
Og þess á milli dynja á okkur fréttirnar af hrunaliðinu. Ég ætla ekki að reyna að lýsa þeim ósköpum, en æ fleiri þurfa að játa syndir sínar fyrir saksóknara. Ekki þó allir jafn fúsir. Einn situr úti í London útblásin af þrjósku og almenningur tautar með sér: Siggi var úti með millur í vösum…en aumingja Siggi hann þorir ekki heim!
15.4. LAUGARDAGUR
Veður gott. Dálítil gola, sólskin mestallan daginn, mestur hiti 11°.
Mikill sumarbragur á lífinu. Fjöldi seglbáta sigldi þöndum seglum hér framundan Fornuströndinni. Og skömmu fyrir hádegi hófst Neshlaupið sem Trimmklúbbur Seltjarnarness stendur fyrir. Mikil þátttaka fólks á öllum aldri.
Pálmi er 42 ára í dag. Ótrúlegt nokk. Alltaf sami æðibunugangurinn í þessu lífi. Hann sló ekki slöku við á afmælisdaginn, stóð vaktina frá morgni til kvölds á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Kíktum á strákinn þegar hann kom heim af vaktinni. Sigrún stóð í eldhúsinu og útbjó gómsæti fyrir afmælisbarnið. Dæturnar höfðu skreytt í stofunni og teiknað hvert listaverkið af öðru handa pabba sínum. Reyndar vantaði Auði sem er í fimleikakeppni í Vestmannaeyjum. Svolítið óheppin blessunin því þar var mikið öskufall í dag.