MAÍDAGAR 2010
28.5. FÖSTUDAGUR
Sól og blíða fram eftir degi, en þykknaði upp þegar á leið. Mestur hiti 12°.
Í morgun synti svanaparið stolt með 4 unga um Bakkatjörnina. Það var falleg sjón að sjá. Margæsunum hefur fækkað nokkuð, en tvo hópa sá ég þó. Vafalaust eru margar komnar á flug til varpstöðvanna á kanadísku Íshafseyjunum.
Stóð vaktina í rúmlega klukkutíma á Eiðistorgi og spjallaði við fólk sem skundaði út og inn í Hagkaup. Við vorum þar Neslistafólk að minna á okkur og kosningarnar á morgun. Mesta furða hvað það var gaman og okkur vel tekið.
Ekki var jafn gaman að fylgjast með leiðtogaumræðum í Kastljósi um borgarmálin fyrir kosningarnar. Ég var reyndar ánægð með Sóleyju, fannst hún skelegg og koma sínu ágætlega á framfæri. Kjánahrollurinn sótti fyrst og fremst að manni þegar Ólafur F. Magnússon lét til sín taka.
29.5. LAUGARDAGUR
Ljómandi veður, allskýjað á köflum, mestur hiti 11°.
Yngstu börnin í fimleikum hjá Gróttu kvöddu vetrarstarfið í morgun, þar á meðal Áslaug Pálmadóttir. Flest börnin eru um og yfir fjögurra ára. Það er ótrúlega gaman að sjá þessi yngstu sýna listir sínar. Þetta er svo þýðingarmikill viðburður í þeirra lífi og þau eru þvílíkt stolt af frammistöðunni. Áslaug hefur mjög gaman af þessu og stendur sig rosa vel.
Meðan ég beið eftir Álmi sem úðaði í sig fífla og gras, fylgdist ég með æsispennandi baráttu hrafna og spóa. Hrafnarnir hafa sjálfsagt haft áhuga á eggjum spóanna, en þeir eltust við hrafnana með látum. Mætti segja að þarna hafi ég horft á sérstaka útgáfu af loftárásum!
Vökvaði brekkuvíðinn með grænsápujukki. Neita alltaf úðurunum sem ganga hér hús úr húsi og vilja endilega fá að úða eitri yfir hverja hríslu. Ólíkt umhverfisvænna að gefa þeim sápu! Ormarnir eru lítt hrifnir af grænsápunni og verður minna úr laufblaðaátinu af þeim sökum. Beitti sápunni í fyrra og það kom nokkuð vel út.
Sveitarstjórnarkosningar voru í dag og lauk kl. 22. Var með félögum mínum á Neslistanum á Blómastofunni ásamt stuðningsfólki. Vonaðist auðvitað til að við fengjum tvo kjörna og var bara nokkuð bjartsýn. En íhaldið hélt sínum fimm, við fengum einn og Samfylkingin einn. Þegar það var orðið ljóst fór ég heim að sofa.
30.5. SUNNUDAGUR
Enn leikur veðrið við okkur á þessu landshorni. Mestur hiti mun hafa verið um 15°.
Við Jónas og Pétur brunuðum á Kaldbak snemma morguns. Þar voru Ingibjörg og Ævar með börnum og barnabörnum og mikið fjör. Pétur og Jónas strituðu allan daginn með Ævari og tengdasonum í girðingavinnu. Ég var heillengi að vökva plöntur sem ég er sannfærð um að fögnuðu sopanum. Svo skellti ég mér í girðingavinnuna, aðallega tiltekt. Bar og dró ónýta staura langar leiðir, suma hræðilega þunga. Einnig víraflækjur og fleira sem koma þarf í rusl. Vorum öll býsna þreytt eftir átök dagsins.
Kosturinn við að þurfa að einhenda sér í þessa vinnu á Kaldbak var ekki síst að geta kúplað gjörsamlega frá allri pólitík og losna við misjafnlega gáfulegar vangaveltur um orsakir þess hvernig kosningarnar fóru.
31.5. MÁNUDAGUR
Frekar þungbúið veður, enda var öskusalli á sveimi. Mestur hiti 12° . Væta öðru hverju eftir hádegi og nú með kvöldinu er hressileg rigning.
Niðurstöður kosninganna leita á hugann. Finn til sárra vonbrigða og í rauninni hryggðar. Hvað veldur?
“Virkjanasinnar unnu stórsigur” segir í Fréttablaðinu í dag þar sem fjallað er um kosningar í Árnessýslu. Þar hefur um langt skeið verið tekist á um hvort virkja skuli í neðri Þjórsá, einkum í Flóahreppi og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar voru að þessu sinni stofnuð sérstök framboð gegn áformuðum virkjunum og gekk á ýmsu í kosningabaráttunni. Þessi framboð fengu því miður aðeins einn fulltrúa í hvoru sveitarfélagi. Listar hlynntir virkjunum hlutu hins vegar meirihluta á báðum stöðum, og telja nú virkjanasinnar sig geta ráðið lögum og lofum í því efni.
Enn virðist langt í land að skilningur landans nái þeim krafti sem nauðsynlegur er til að sýna náttúru landsins virðingu og tillitssemi. Náttúruperlur eru í stöðugri hættu. Þess vegna er ég vonsvikin og hrygg.