JÚLÍDAGAR 2010
1.-5.7. 2010
Hálflúin var ég daginn eftir aksturinn að norðan og svaf vært og lengi. Ekkert nema letin. Næsta dag tókum við svo strikið upp á Kaldbak og nutum lífsins þar í 4 daga.
Því miður er enn ekki hægt að bregða sér á hestbak og er það harla önugt að geta ekki notið þess að fara á bak um mitt sumar. En við erum hörð á því að gefa hestunum algjört frí meðan enn heyrist hósti í stöku hesti og hortaumar leka úr nösum sumra. Þessi fjárans pest hefur áhrif á flest sem til stóð í sumar. Við höfum sótt flest landsmót hestamanna síðustu árin og farið í hestaferðir á hverju ári síðan 1991. Nú er öldin önnur. Ekkert landsmót og engin hestaferð. Vonandi verður heilsan farin að lagast í ágúst.
Mér til mikillar gremju er kerfillinn farinn að sýna sig í brekkunum nálægt húsinu. Ég reif upp slatta af þessum vágesti, en nú þyrfti í rauninni að smala liði og kippa upp sem mestu áður en hann nær að sá í kringum sig.
Gestagangur var enginn á Kaldbak nema maríuerlurnar, sem kunna svo vel við sig á pallinum við húsið. Gladdi mig sérstaklega því erlur sá ég engar nálægt Varmahlíð þetta sumarið, sem er afar óvenjulegt. Mamman virtist vera með unga sína í þjálfun og var mikið fjör þarna um kring. Mikið er af öðrum fuglum, en þeir eru ekki jafn ófeimnir við mannfólkið. Auk erlanna og fleiri smáfugla sáum við og heyrðum í lóum og spóum, stelkum og hrossagaukum, gæsum og álftum og einmana tjaldi, sem sendi okkur tóninn. Það var sífellt mikið um að vera í fuglahjörðinni og mest gekk á þegar krummi vildi kanna búskapinn í Torfamýri. Það var illa þokkað og krummi var hrakinn á brott með fjaðrafoki og skrækjum.