JÚNÍDAGAR 2010
Kom í dag að norðan eftir mánaðardvöl á æskuheimilinu í Varmahlíð í Reykjadal. Átti þar frábæra daga. Bjó þar ein í næstum hálfan mánuð, en síðan streymdi fólkið mitt að og varð þá kátt í koti. Sem betur fer ekki allt í einu, því rýmið er ekki ótakmarkað. Jónas, Sindri, Breki, Kristján, Kári, Auður, Kristín, Katrín, Dóra og George (vinir KKKK), Pálmi, Sigrún og Áslaug. Vantaði bara Pétur og Marcelu,Kötlu, Heru og Dóru í fjölskylduhópinn.
Vorkoman var a.m.k. tveimur vikum á eftir Suðurlandinu, Kinnarfjöllin alhvít í júníbyrjun, birkitrén lauflítil, rifsrunnar og rabbarbari hnípin og ræfilsleg, blómin varla farin að ná sér á strik. Allt var þetta orðið fallegt og gróskufullt í júnílok og fannir Kinnarfjalla á undanhaldi. Þannig upplifði ég vorkomuna tvisvar.
Fuglalífið í Varmahlíð er mikið, enda nóg af trjám, birki, reynivið, lerki, greni og furu. Þar syngja smáfuglarnir dag og nótt á vorin og hrossagaukurinn lætur ekki síst í sér heyra. Einnig lóa, stelkur og spói. Saknaði helst jaðrakana, en fann þá hjá Ökrum. Flottir fuglar. Einnig maríuerlunnar, sem lítið lét á sér bera að þessu sinni. Gaman að auðnutittlingunum, sem voru óvenju margir og fjörugir, hentust um í eltingaleik og sungu heilu konsertana.
Haldið var upp á 50 ára stúdentsafmæli gáfumannaliðsins frá Menntaskólanum á Akureyri 15.-17. júní. Átti skemmtilegt kvöld með félögum mínum í Golfskálanum á Akureyri þann 15. Daginn eftir fórum við svo flest saman í vel heppnaða reisu um Mývatnssveit, auk þess sem mér tókst að halda smátölu um ágæti Reykjadalsins. Þar skildi ég við hópinn sem átti eftir að sitja veislu í Íþróttahúsinu á Akureyri og vera svo viðstödd útskrift nýjustu stúdentanna þann 17. Lét það eiga sig með góðri samvisku.
Veðrið var frábært þennan indæla júnímánuð, ég get ekki einu sinni munað eftir leiðindaveðri allan þennan tíma. Sólin skein flesta daga, vindurinn blés á þægilegum nótum, úrkoma var mjög lítil og helst um nótt. Ég hressti upp á gróðurinn, gaf honum blákorn og reytti burt illgresið, vökvaði heil ósköp og horfði á hann þakka fyrir umönnunina. M.a.s. rabbabarinn var búinn að ná sér allvel síðustu vikuna. Gat því miður ekki gefið mér tíma til að sjóða sultu að hætti mömmu.
Versta verkið er að berjast við kerfilinn, sem riðst um og leggur undir sig heilu túnin sem eru að hverfa úr notkun. Nú sakna margir dýranna sem áður gengu um túnin, kindanna, kúnna og hestanna, sem komu í veg fyrir að slíkur gróður næði sér á strik áður en sláttur hófst. Við reitum og stingum upp slíkar jurtir, ef þær sjást í kringum Varmahlíð og jafnvel utan girðingar. Það gengur vel, en er erfitt.
Krakkarnir una sér vel í Varmahlíð. Stundum er heilt bíó að horfa á þau leika sér. Kvöldin eru oft svo falleg og góð, logn og glaðasólskin. Þá verða þau svo kát og glöð og hlaupa léttklædd um túnið í alls konar leikjum. Skemmtilegast finnst þeim þegar túnið er þakið hávöxnu grasi og þau geta falið sig milli toppanna.
Heldur fannst mér drungalegt að koma á suðvesturhornið eftir allt góðviðrið í norðaustrinu. Veður er þungbúið og leiðindaspá framundan. En mikið er eftir af blessuðu sumrinu og nógur tími til að njóta þess í góðu veðri hér sem annars staðar.