ÁGÚSTDAGAR 2010
15.8. SUNNUDAGUR
Alskýjað, talsverður vindur, skúrir, hlýtt. Mestur hiti 16°.
Við hóuðum í börnin okkar og fjölskyldur þeirra í “hábít” kl. 11. Góð mæting, vantaði bara Heru og Marcelu. Mjög gaman að fá hópinn, borða saman og spjalla. Frá mörgu er að segja frá sumrinu. Öll búin að ferðast meira og minna um landið. Sigrún fór t.d. í fjögurra daga göngur í Fjörður og nokkru síðar til Grímseyjar ásamt Pálma og starfsfólki Fjölskyldu- og Húsdýragarðsins. Ekki lítið hrifin. KKK skoðuðu sig um á suðausturhorninu. Fengu að vísu hálfleiðinlegt veður og sneru heim í hávaðaroki, sem setti nokkur hjólhýsi um koll á suðrænum söndum. Katla fór ásamt þremur félögum hringinn í kringum landið á 4 dögum og var mjög ánægð með að hafa skoðað svolítið landið sitt og hafa það í huganum þegar hún fer til Bandaríkjanna.
Aðalmál dagsins var að kveðja Kötlu, sem fer nú til náms í Cornell University í Íþöku í Bandaríkjunum og verður þar væntanlega í heil fimm ár. Mér finnst satt að segja ekki langt síðan ég sá þessa stúlku nýfædda á dönskum spítala. Svona líður tíminn hratt. Kristján, Katrín og Kári fylgja henni vestur og leggja af stað í fyrramálið. Þau fljúga til Boston, taka þar bíl á leigu og reikna með 5-6 klukkustunda ferðalagi til Íþöku. Heim koma k-in þrjú tíu dögum síðar. Meðan þau eru í burtu er Þruma litla í minni umsjá. Gaman að hafa hana. Hún er alveg sérlega góð þrífætt skotta og hvers manns hugljúfi. Jónas hefur ekki einkaleyfi á þeirri einkunn!!
16.8. MÁNUDAGUR
Fjölbreytilegt veður þennan daginn. Hlýr og notalegur vindur, stundum sól, stundum regnskúr.
Sumir fengu svona nærri því hjartaslag um miðja nótt. Húsbóndinn brá sér á snyrtingu eins og gengur og gerist stundum á þeim tíma, en hann var búinn að steingleyma litla gestinum okkar. Þrumu litlu brá þessi líka ósköp þegar úfinn karl átti leið fram hjá og rak upp slík skelfingar vein – þ.e.a.s. Þruma – að við hentumst öll út úr rúmum okkar og æddum á vettvang. Jónas ríghélt sér í handrið og beið þess að hjartsláttinn lægði, en Þruma skalf sem lauf í vindi í örmum Dóru, sem varð fyrst til að bjarga henni og bauð henni síðan að deila með sér herbergi. Það gekk vel.
Þruma var hin brattasta að morgni og við fórum tvisvar í langan göngutúr í góða veðrinu. Virðist hafa gleymt ævintýri næturinnar.
17.8. ÞRIÐJUDAGUR
Öndvegis veður. Heiður himinn, ljúfur vindur, mestur hiti vel yfir 20°.
Við Þruma nutum góða veðursins rækilega. Gengum stóra hringinn á Suðurnesinu. Þar var mikill fjöldi golfara, flestir á virðulegum aldri og fóru settlega um teigana. Fórum annan góðan göngutúr seinna um daginn, og þá var Þrumu eiginlega nóg boðið, hefur líklega þótt óþarflega heitt í pelsinum sínum fína.
18.8. MIÐVIKUDAGUR
Gott veður og hlýtt, mestur hiti 19°. Sólskin mestan hluta dagsins og talsverður vindur. Örlítil rigning um kvöldið.
Við Þruma gengum fram og aftur um Kotagranda í morgun. Margir kusu að gera hið sama, hlaupagarpar, hjólreiðafólk, göngufólk, konur með barnavagna. Mér þótti skemmtilegast að hitta fyrir nokkra steindepla, eða steinklöppur eins og þessir skemmtilegu fuglar voru kallaðir fyrir norðan í minni æsku og eru sjálfsagt ennþá. Steinklappan gefur frá sér klapphljóð sem auðvelt er að þekkja. Þruma truflaði ekki fuglana, en snuðraði eins og þrautreyndur njósnari af hverju strái.
19.8. FIMMTUDAGUR
Ekki skorti sólskinið og hlýjuna á suðvesturhorninu frekar en fyrri daginn. Hvort hitamælingar staðfestu a.m.k. 20° veit ég ekki, en eitthvað minna mundi hljóma sem ósannindi í mín eyru.
Ég gat ekki stillt mig um að fara í berjaleit. Tók stefnuna á Brynjudal, hafði fréttir af gnægð bláberja þar. Kannski hefur svo verið, en ekki fundum við Þruma mikið í landi skógræktarinnar. Hitti þar fólk, sem taldi að íbúar höfuðborgarinnar væru þegar búnir að sulta berin sem einu sinni voru þar. Þruma var alveg að drepast úr hita í pelsinum sínum og við stöldruðum ekki lengi við. Þegar komið var á bílastæðið stóð þar heldur vansæll karlmaður og kallaði öðru hverju á Gunnu, sem engu svaraði. Hefur kannski ráfað sífellt lengra í leit að berjum. Vona að hún hafi ekki látið þennan vansæla karl bíða alltof lengi.
20.8. FÖSTUDAGUR
Ekki er veðrið nú jafn notalegt og verið hefur. Sólin er ekki eins örlát, hitastigið heldur lægra og sterkur vindur. Dóra og synir urðu vonsvikin, höfðu ætlað sér að eyða deginum í sólinni og heita pottinum eins og í gær.
21.8. LAUGARDAGUR
Sólin skein glaðlega í dag, en vindurinn blés enn meira en í gær. Hefur talsvert kólnað með kvöldinu, og m.a.s. gera veðurfregnir ráð fyrir slyddu til fjalla fyrir norðan. Vonandi rætist sú spá ekki.
Í dag er mikil hátíð í Reykjavík, sem af einhverjum ástæðum kallast Menningarnótt. Líklega var upphaflega ætlunin að hafa þessa skemmtun fyrst og fremst að nóttu til, en nú til dags er þessari hátíð lokið með veglegri flugeldasýningu kl. 11 að kvöldi. Það kemur þó varla í veg fyrir að þeir hressustu haldi sína prívat “menningarnótt” að hinni lokinni.
Í morgun tóku hlaupagarpar snemma til fótanna, hátt á annað þúsund. Leið þeirra lá m.a. eftir Norðurströndinni og var gaman að fylgjast með mannhafinu út um gluggann hér. Sumir virtust reyndar hafa reist sér hurðarás um öxl, en engar fréttir hafa borist af örmagna fólki.
22.8. SUNNUDAGUR
Óttalegur belgingur í þessu veðri og m.a.s. ansi kalt. Mætti alveg skána.
Við Þruma erum orðnar býsna vel að okkur í því hvað er að gerast hér í kringum okkur. Hér og hvar er verið að gera við og endurbæta hús, m.a. 4 hús í götunni okkar. Þetta vel stæða fólk hér á Seltjarnarnesi notfærir sér rækilega að nú fæst virðisaukaskattur af vinnu við viðgerðir á húsum endurgreiddur 100%. Gott mál. Því miður hafa ekki allir sem þyrftu fyrir öllu hinu sem til þarf.
23. MÁNUDAGUR
Örlítil rigning í morgunsárið. Upp úr hádeginu hresstust veðurguðir, himinninn hreinsaðist og sólin brosti. Vindur er ennþá hvass, en hefur hlýnað. Mestur hiti 13°.