SEPTEMBERDAGAR 2010
1.-6. september
Enn tókum við strikið á Kaldbak og dvöldum þar í 6 daga. Veðrið þessa fyrstu daga í september var mjög fjölbreytt og að mestu leyti gott. Hlýtt og sólríkt með köflum. Hiti var gjarna 15-17°. Vindur var nokkuð hvass og jafnvel bálhvass einn daginn og úrhellis rigning. Lækir og tjarnir eru að þorna upp í því veðurfari sem verið hefur og veitti því ekki af rigningunni. Rokið er ekki jafn gagnlegt.
Ég brá mér í berjamó undir Krosstorfuásnum. Þar er talsvert af berjum, bláberjum og afar góðum krækiberjum, stórum og fullþroskuðum. Ég hámaði í mig krækiberin og bar heim vænan slurk af bláberjum, sem entist okkur vel fram eftir vikunni. Gott að geta týnt í Kaldbaksmóum, en þeir jafnast þó ekki á við berin og aðstæður í Reykjadalnum og t.d. í Fremstafellsskógi.
Kindur hafa ekki sést í Kaldbakslandi í allt sumar, en höfðu nú hreiðrað um sig 12-15 talsins, jafnvel fleiri. Við létum vera að stugga við þeim, enda verður landið smalað fljótlega.
Laugardaginn 4. sept. var fjör á Kaldbak, þá lögðu leitarmenn af stað í göngur. Þeir koma með hesta sína daginn áður og þiggja svo kaffi og með því hjá okkur áður en þeir hleypa úr hlaði.
Ingibjörg og Ævar komu snemma morguns hlaðin vistum og var handagangur í öskjunni að hafa allt tiltækt þegar gangnamenn streymdu að eldhúsborðinu. Það gekk mjög vel, enda erum við orðin þjálfuð í þessu verkefni. Boðið er upp á heil ósköp af smurðu brauði, nýbökuðum vöfflum og kleinum og með því drukkið kakó, kaffi, kók og brennivín. Verður ekki annað séð en að allt renni þetta ljúflega niður og afar kurteislega farið að því síðastnefnda.
Óvenju margt hélt inn á hálendið að þessu sinni, um 20 manns og 45-50 hestar. Sérlega gaman var að sjá þennan stóra hóp ríða úr hlaði. Ingibjörg tók myndir í bak og fyrir sem gaman verður að skoða.
Ekki er kvefpestin með öllu búin að skilja við hestana okkar. Við urðum lítið vör við hósta, en hor í nösum er alltaf öðru hverju að sjá. Komin er haustró yfir hestana og margir eru farnir að safna vetrarhári þrátt fyrir hlýindin. Við þykjumst heppin að hafa getað riðið heilmikið út í sumar og haldið okkar reiðfæru hrossum í ágætri þjálfun.
Snemma um morguninn eftir hvassviðrið mikla sáum við að hestarnir voru allir mættir sjálfviljugir í gerðið við gamla fjósið, rétt eins og þeir vildu spara okkur þau spor að sækja þá niður á tún. Því var að sjálfsögðu fagnað og við fórum okkar hefðbundnu reiðtúra á landareigninni. Daginn eftir opnuðum við inn í besta hagann á Bæjarásnum. Urðu þá margir kátir.
Fátt er orðið fugla í dalnum, helst að krummi stundi flugið og láti í sér heyra. Aðeins ein maríuerla heimsótti okkur á pallinn, hinar eru væntanlega komnar til annarra landa. Heyrði í steinklöppum þegar ég var í berjamónum. Og öðru hverju flugu upp þúfutittlingar þegar við fórum reiðleiðina kringum túnin.