Hápunktur í Guðrúnarlaug

JÚLÍDAGAR 1010

13.7. ÞRIÐJUDAGUR – GÖMLU HÚSIN Í STYKKISHÓLMI

Veðurspáin bauð upp á allt hið besta og við stukkum af stað í ferðalag. Tókum stefnuna á Vesturlandið og Breiðafjörðinn. Okkur til undrunar þyrluðust skyndilega dökk og illúðleg ský um himininn og eltu okkur með hellirigningu alla leið að Vegamótum á Snæfellsnesi. Fórum vatnaleiðina svokölluðu norður yfir og þar þurfti ekki að kvarta yfir veðrinu. Skemmtileg leið, stór og falleg vötn umkringd fjöllum, hrauni og óspilltum gróðri.

Það er gaman að ganga um Stykkishólm sem er afar sérstakur bær, fallegur og snyrtilegur. Þar er mikið af gömlum húsum, sem setja sérstakan svip á bæinn, enda hafa þau verið gerð upp af mikilli vandvirkni. Margt fleira vekur athygli. Það nýjasta er Eldfjallasafnið, sem Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur komið á laggirnar. Myndir, steinar og fleira má þar sjá og horfa á heimildarmyndir af gosinu í Eyjafjallajökli og eldgosum víða annars staðar í heiminum. Hefði mátt dvelja þarna lengi.

Borðuðum á Narfeyrarstofu í einu af þessum gömlu húsum. Fengum þar m.a. fiskisúpu, rituegg, harðfisk og bláskel. Bragðaðist einkar vel. Sváfum á gistiheimili sem heitir því volduga nafni Hótel Breiðafjörður. Enginn var þar íburður né óþarfa rými, enda eitt af þessum gömlu húsum. Þar var gott að vera

14. 7. MIÐVIKUDAGUR – SLAPP VIÐ GOGG Í HAUS

Fórum með ferjunni Baldri snemma morguns til Flateyjar og áttum þar góðan sólarhring. Gengum vítt og breitt um eyjuna. Skoðuðum m.a. kirkjuna og Bókhlöðuna, eins og það er kallað þetta pínulitla hús með örfáum gömlum bókum. Þetta litla hús er merkilegt sem elsta bókhlaða landsins, byggð 1864. Mörg húsin í Flatey eru mjög gömul og flestum vel við haldið.

Skemmtilegast er þó að fylgjast með fuglalífinu í eynni. Lundaberg heitir hæsti punktur á eynni, 16 metra yfir sjávarmáli. Þar er gaman að sitja á þúfu, njóta útsýnis og flugfiminni allt um kring. Kríurnar eru margar og háværar og býsna ógnandi. Þær taka lögregluhlutverkið alvarlega og steypa sér gargandi yfir óboðna kerlingu. Slapp þó við gogg í haus.

Herbergið okkar í Hótel Flatey var merkt lóunni og út um guggann horfðum við á höfnina sem er eins og skeifa í laginu. Björgin eru þakin driti, fuglamergðin mikil og samræður háværar. Ritan virðist þar ráða ríkjum. Þar er ekki hljóðlátt eitt andartak og öðru hverju slær í brýnu með óskapa hávaða.

Skemmtilegast fannst mér að kynnast teistunni, sem Guðmundur Páll lýsir m.a. svo í bókinni sinni: “Teistan er gæfur fugl og einstaklega fríður og heillandi svartfugl, ekki síst þegar hún situr í löngum röðum og blístrar blíðlega”. Þær sátu tvær á stórum steini snemma morguns fram undan herberginu okkar, blístruðu að vísu ekki fyrir mig, en þær neru öðru hverju saman goggum og voru svo fallegar að ég gat ekki haft augun af þeim.

15.7. FIMMTUDAGUR – Í KAFFI HJÁ KJARTANI

Sól, blíða, logn. Kvöddum Flatey og fórum með Baldri til Brjánslækjar. Ókum þaðan um Tröllaháls og niður á Bíldudal, síðan Tálknafjörð og Patreksfjörð.

Aðalmálið var þó að fara niður á Rauðasand. Þangað fórum við fyrir 44 árum, en frá þeirri reisu man ég lítið annað en aksturinn niður fjallið, sem af einhverri ástæðu kom í minn hlut. Vegurinn skelfilegur, mjór og grýttur í ótal bugðum og sums staðar þverhnípt niður við vegarbrún. Hugsaði stöðugt hvað í ósköpunum yrði um okkur ef ég mætti bíl, sem virtist hreinlega ógerlegt. Jónas bjargaði okkur til baka og bjóst ég ekki við því að kanna þessa stigu aftur.

Hafði þó grun um að samgöngur hefðu batnað á síðustu áratugum og lagði til að við heimsæktum þessa merkilegu sveit. Nýr vegur í boði, hóflega grýttur og mun breiðari en forðum, jafnvel hægt að mætast þar. Og það var gaman að koma á Rauðasand. Við ókum um sveitina fram og til baka og fengum okkur kaffi á þeirri merku kaffistofu, sem Kjartan Gunnarsson á heiðurinn af og sennilega einnig af ýmsum umbótum þar um kring, m.a. á Saurbæjarkirkju og fleiru.

Ókum síðan í Rauðsdal þar sem er bændagisting. Sat þar lengi úti á palli í blíðunni, hlustaði á brimið við ströndina og horfði á Snæfellsjökul fyrir handan.

16.7. FÖSTUDAGUR – HÁPUNKTUR Í GUÐRÚNARLAUG

Enn skein sólin glatt og veröldin sýndi sitt besta. Við kvöddum Rauðsdalinn snemma og héldum austur með Barðaströndinni. Ákaflega falleg leið, en afar misjöfn undir hjólin. Sums staðar var umfangsmikil vegavinna í gangi, skyndilega tók við malbikaður stubbur, en fyrr en varði datt maður inn í fortíðina lagða þvottabrettum, grjóti og blindhæðum. Engu að síður er skemmtilegt að þræða firðina og víða mjög fallegt.

Hápunktur dagsins var að baða sig í Guðrúnarlaug. Sú var byggð upp og tekin í notkun um veturnætur í fyrrahaust. Er hún opin allt árið og frítt í hana. Laugin er í brekku ofan við hótelið á Laugum í Sælingsdal. Þar er hægt að hafa fataskipti í svonefndu blygðunarhúsi, litlu snotru húsi rétt ofan við laugina.

Í Laxdælu er greint frá því að Guðrún Ósvífursdóttir hafi löngum dvalið við laug á Laugum í Sælingsdal. Þar átti hún meðal annars samræður við Gest frænda sinn um draumfarir sínar og er sagt frá því og fleiru á upplýsingaspjaldi.

Á 19. öld rann skriða yfir laugina sem færði hana í kaf. Ekki var reynt að grafa þá laug upp heldur var búin til ný laug. Sú er heit og notaleg og vandalaust að ímynda sér að þar með sé fetað í fótspor Guðrúnar Ósvífursdóttur. Skemmtileg upplifun.