JÚLÍDAGAR 2010
27. 7. ÞRIÐJUDAGUR
Gott veður. Fremur aðgerðarlítið. Sást lítið til sólar. Mestur hiti 15°.
Herti mig upp í allsherjar þrif á heimilinu og veitti ekki af. Gengur ekki að þrífa alltaf í Varmahlíð og Kaldbak eins og jólin séu á næsta leiti, en horfa svo framhjá rykinu og skítablettunum heima hjá sér. Komst yfir helminginn. Framhald á morgun.
28.7. MIÐVIKUDAGUR
Hlýtt og notalegt veður. Sólskin drjúgan hluta dagsins. Mestur hiti 17°. Veðurkortið fullyrti hins vegar að hitinn hefði verið 23° um miðjan daginn á Kaldbak! Eins gott að sleppa hestunum við reiðtúr í slíkri hitasvækju.
Kláraði hreingerningaræðið í blíðviðrinu. Er hin ánægðasta með eigin dugnað. En að sjálfsögðu hefur enginn annar tekið eftir rykinu og skítablettunum sem voru, og enn síður tekur nokkur sála eftir því hvað húsið er orðið tandurhreint og andrúmsloftið heilsusamlegt. Örlög húsmóðurinnar! Allt í sóma og nú get ég slakað vel og vandlega.
29.7. FIMMTUDAGUR
Ágætt veður, skýjað, mestur hiti 15°, lítil úrkoma.
Sjónvarp allra landsmanna hefur lítið höfðað til mín síðustu mánuði og hefur sú staðreynd ekki valdið mér áhyggjum. Hins vegar var ég að uppgötva að farið er að bjóða upp á hitt og þetta gæðaefni á undarlegum tíma, einmitt þegar manni dettur ekki í hug að opna kassann. Þessa dagana er til dæmis sýnd þáttaröð um eyjar við Ísland og í kjölfarið þættir um friðlýst svæði og náttúruminjar á Íslandi. Gott mál. En hvers vegna er verið að sýna þessa þætti kl. 16:40 og 17:05? Fáránlegur tími.
30.7. FÖSTUDAGUR
Gott veður, sólskin með köflum, mestur hiti 15°.
Veðurfar sumarsins hefur orðið til þess að allur gróður er meiri að vöxtum en venjulega. Tré og runnar hafa vaxið meira en nokkru sinni og brekkuvíðirinn aldrei ræktarlegri, þökk sé grænsápunni. Hávaxin blóm eru hærri og stærri en áður og eru hreinlega farin að troða rósarunnunum um tær! Ég sé mig tilneydda til að grisja eitthvað öll þessi ósköp. Hóf verkið í dag. Var ekki lengi að fylla fyrsta pokann.
31.7. LAUGARDAGUR
Morguninn heilsaði með logni og þéttri þoku. Mikil rólegheit í morgunsundinu. Virðist svo sem stærstur hluti íbúanna sé á faraldsfæti utanbæjar. Kannski biðu hinir eftir að létta færi til svo að þeir gætu sólað sig á bakkanum. Sólin mætti reyndar seinni hluta dagsins og hitinn fór upp í 17°.
Dóra er komin í heimsókn frá Belgíu. Synirnir fóru í gærkvöldi með Pétri og Marcelu að taka á móti mömmu sinni, sem lenti um miðnættið. Dóra býr hjá okkur og prinsarnir verða væntanlega mestan part hér líka meðan mamma er á landinu. Gleðilátum linnir ekki!