Loks á fáki fráum

JÚLÍDAGAR 2010

20. – 26.7. 2010

Vorum heila viku á Kaldbak. Fórum upp eftir á þriðjudegi og biðum ekki boðanna. Sóttum hestahópinn niður á tún og könnuðum liðið. Nokkrir hestanna eru enn að stríða við þessa leiðinda kvefpest sem hefur spillt öllum fyrirætlunum um hestaferðir sumarsins. Reiðhestarnir okkar eru hins vegar í ágætu formi núna.

Öll hrossin eru vel í holdum, sum alltof feit, einkanlega stóru hestarnir mínir sem alltaf éta yfir sig. Prinsinn hafði tapað einni skeifu, en við fengum fljótlega járningamann, Birki á Hæl, og þá höfðum við hvort um sig 3 hesta til reiðar. Fórum þrjá góða reiðtúra á hverjum degi. Jafnaðist nærri því á við vikulanga hestaferð um firnindin. Mikil ánægja.

Til stóð að fara í þriggja daga hestaferð með Andreas Bergmann, miklum hestamanni sem er með athvarf á Hamarsheiði hinum megin Stóru-Laxár. Nú lítur ekki út fyrir að af því verði. Fjárans pestin helltist yfir hestahópinn hans um daginn, og býst hann ekki við að geta notað sína hesta næstu vikur.

Við förum aftur á Kaldbak áður en langt um líður og sprettum úr spori. Það verða okkar hestaferðir þetta sumarið.

Veðrið lék við okkur. Lítið varð vart rigningarinnar sem veðurstofan spáði, og hitinn fór þrisvar sinnum yfir 20°. Búið er að slá og hirða túnin og allt í miklum blóma.

Maríuerlurnar héldu uppi fjörinu á pallinum við húsið. Virðast ekki mjög hræddar við mannskepnuna. Þær eru sérlega skemmtilegir gestir, eða kannski réttara sagt nágrannar, því þær búa í grenndinni og fjölga sínum. Stelkurinn er enn eitthvað að stússa með unga, hefur miklar áhyggjur af mannaferðum og varar við með hvellum hljóðum. Hrossagaukurinn er hins vegar við sama heygarðshornið, felur sig í grasinu og flýgur ekki upp fyrir en á síðasta augnabliki. Hestunum verður stundum hverft við, en ekki hefur enn orðið óhapp af því.

Snerum á leið til höfuðborgarinnar um miðjan mánudag. Þá var komin hellirigning.