SEPTEMBERDAGAR 2010
7.9. ÞRIÐJUDAGUR
Enn eru sömu hlýindin, en lítið gaman að vera utan dyra þennan daginn. Eyjafjallajökull er ekki búinn að segja sitt síðasta. Sendir öskumistur í allar áttir og ber m.a. ábyrgð á því að Herjólfur kemst ekki hvenær sem er inn í Landeyjarhöfn. Mistrið sem jökullinn sendi um suður- og suðvesturlandið faldi fyrir okkur sólina og hélt viðkvæmu fólki innan dyra, enda blönduðu Markarfljótsaurar sér í málið með svifryki sem ekki bætti úr skák. Á Akureyri mældist einnig mikil svifryksmengun sem ætluð er vegna sandfoks á hálendinu
8.9. MIÐVIKUDAGUR
Rigning öðru hverju í dag. Talsverður vindur, en hlýtt. Mestur hiti um 15°.
Skemmtiferðaskip lónaði klukkutímum saman hér beint framundan. Komst ekki inn í höfn vegna vindáttar. Skipið sigldi á brott eftir 3-4 tíma. Varla hefur væst um farþegana í þessu tignarlega skipi, en reykvískir kaupmenn hafa án efa saknað þeirra.
9.9. FIMMTUDAGUR
Merkilegt veðurfar. Yfirleitt talsverður vindur, sólarlítið, en ágætlega hlýtt. Mestur hiti í dag mældist 15°.
Hef verið að tína ýmsar bækur út úr bókahillunum og rifja upp efni þeirra. Sumar eru ekki þess virði og tími til kominn að finna þeim annan samastað, jafnvel láta Sorpu um málið. Aðrar snerta mig jafnvel meira en við fyrsta lestur. Var að enda við að lesa skáldsöguna Anna, Hanna & Jóhanna eftir sænsku skáldkonuna Marianne Fredriksson. Merkileg saga, stórbrotin og feiknamikil örlagasaga. Hún á enn sæti í huga mér. Ég veit af nokkrum góðum sem bíða í hillunum.
10.9. FÖSTUDAGUR
Sama veðurfar og í gær. Reyndar örlítil rigning í morgun.
Brugðum okkur í Grasagarðinn. Þar er gróður enn víðast hvar fallegur og ljúft að reika um og skoða. Hins vegar er því miður búið að loka kaffistofunni þar sem við ætluðum að setja punktinn yfir i-ið.
11.9. LAUGARDAGUR
Breytilegt veðurfar. Rigning í morgun, frekar hógvær. Logn, sólskin og hiti 15 – 16° frá hádegi til kvölds. Þoka og suddi að kvöldi.
Tríóið mætt í morgunsundið, þ.e. Svana, Tóta og ég. Um nóg að spjalla. Mikið að gerast. Svana mætti á splunkunýjum fagurrauðum Suzuki. Glæsileg bifreið og hæfir eigandanum. Færði mér gómsæta bláberjasultu og rifsberjahlaup. Slef.
Uppgötvaði þetta ótrúlega yndislega veður um hádegið og snaraðist í gönguskó. Fór út í Gróttu. Rölti þar um ein og naut friðsældar og fegurðar. Fylgdist lengi með dílaskörfum sem sátu á klettum vestan undir Gróttu og þurrkuðu vængi sína. Mikið fjör í þúfutittlingum og steinklöppum.
12.9. SUNNUDAGUR
Lítið varð úr haustlægðinni sem veðurspámenn höfðu lofað okkur. Svolítil ólund þó í veðrinu fram á miðjan dag. Svo þornaði um og hitinn mældist 12 – 13°.
Skemmtilegur þáttur um Ómar í sjónvarpinu. Hann verður sjötugur á næstunni eins og alþjóð veit, enda búin að gefa honum afmælisgjöfina, þ.e. 12 eða 14 milljónir til að hann geti borgað skuldir sínar. Ómar er náttúrlega ekkert venjulegur. Hann er ekki nokkrum manni líkur og ekkert smáræði sem eftir hann liggur. Á sannarlega skilið að fá nokkrar milljónir til að standa undir öllu því sem hann hefur unnið að og skipta okkur svo miklu.
13.9. MÁNUDAGUR
Öðru hverju opnuðust flóðgáttir himins þennan daginn og léttu á sér snöggt og skarpt. Ágætis veður inn á milli. Mestur hiti 12°.
Minnstu munaði að ég missti algjörlega af fyrsta þætti undir nafninu Fólk og firnindi, sem hófst kl. 16:15 í sjónvarpinu. Þættirnir verða 4 talsins og eru sýndir á fáranlegum tíma sem fæstir muna eftir. Á morgun þarf maður að muna að opna kassann kl. 15:55! Meira ruglið. Sjálfur Ómar Ragnarsson er höfundur þessara þátta frá 1997 – 1998. Fallegir og vel gerðir þættir.
Skoðanir Ómars leyna sér ekki í frásögn þótt hann færi varlega í yfirlýsingum um umhverfismálin á þeim tíma sem hann vann að þessum þáttum. Nú er hann hættur slíku kurteisishjali, þótt hann sé ekki jafn afdráttarlaus og t.d. Andri Snær, sem skrifaði feikigóðan pistil í Fréttablaðið 11. september sl.
Um svipað leyti birtist grein eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing, Komið að skuldadögum í Helguvík. Greinin sú ætti að vera skyldulesning. Sigmundur hefur skrifað margar góðar greinar um virkjanamálin og álfíknina. Ómar, Andri og Sigmundur standa vaktina hvað best um þessar mundir. Að ógleymdum Guðmundi Páli Ólafssyni sem aldrei bregst.