SEPTEMBERDAGAR 2010
14.9. ÞRIÐJUDAGUR
Langt síðan veðurguðirnir hafa boðið upp á 8° hita á suðvesturhorninu. Hitinn læddist reyndar yfir 10° nær hádeginu, en svo rauk vindurinn upp og blés mikinn.
15.9. MIÐVIKUDAGUR
Fagurt út að líta, en heldur hvasst til að njóta útivistar. Vindurinn þaut, en umhverfið allt baðaði sig í sólskininu. Mestur hiti var eitthvað yfir 10°.
Langar mikið til að grynna ögn á bókaflóðinu víðs vegar um húsið. Geri öðru hverju áhlaup, en enda hvert skipti með því að sökkva mér niður í einhverja bók sem ég er búin að gleyma. Árangur áhlaupsins felst einna helst í rykmokstri.
16.9. FIMMTUDAGUR
Fallegt haustveður. Heiðríkt og stillt.
Nutum fegurðar Þingvalla. Áttum reyndar von á enn meiri litadýrð eins og gerist á haustin, en fallegt er þar samt. Mikið gult, en vantar rauða lyngið. Ókum yfir Lyngdalsheiði og síðan krók til Sólheima. Virkilega gaman að skoða þorpið þar og umhverfið. Komum því miður að lokuðu húsi þar sem við ætluðum að fá okkur kaffi.
Ókum svo sem leið lá upp á Kaldbak. Notalegt og heillandi að liggja í heita pottinum í kvöldhúminu og horfa á stjörnurnar verða æ fleiri og skýrari eftir því sem frekar dimmdi. Og máninn gægðist yfir ásana. Það vantaði bara að huldufólk og dvergar stigu dans á hlaðinu!
17.9. FÖSTUDAGUR
Kalt var í morgunsárið, aðeins 2° hiti, en um hádegið var hitinn kominn í 11°. Prýðilega hlýtt á hestbaki.
18.9. LAUGARDAGUR
Fínt veður. Hægur vindur og hlýtt. Mestur hiti 12°.
Hleyptum hestunum hefðbundna hringi kringum túnin. Gott að geta hreyft þá hressilega svo að þeir standi sig vel í smöluninni á morgun.
Á Flúðum var markaðsdagur. Aðallega verið að kynna grænmeti og fleira matarkyns sem framleitt er á Flúðum og í nágrenninu. Einnig handunnar vörur, prjónaðar, saumaðar og ýmislegt unnið úr tré og leir. Mikill fjöldi fólks var á markaðinum svo að við gáfumst fljótt upp á því að reyna að skoða þetta almennilega.
19.9. SUNNUDAGUR
Allhvasst og kalt fram eftir morgni, en ágætt þegar leið á daginn. Eins gott því að í dag var smalað sauðfé á fjórum svæðum, Hrunakróki, Hrunaheiðum, Kaldbaki og Kluftum. Vorum við Jónas kölluð til verka og þótti ábyrgðin mikil. Bárum okkur mannalega þótt reynslan væri nákvæmlega engin.
Allmargir tóku þátt í leitum og var skipt á milli svæða. Þessi svæði eru erfið yfirferðar, mikið um hóla, hæðir og fjöll, hamra, gil og grjót. Endalaust brölt upp og niður í þessu makalausa landslagi. Hestar okkar eru ekki vanir slíku háttalagi og voru frekar ódælir, aðallega mínir. Lítið hrifnir af eltingaleik við óþekkar kindur fram og til baka. Allt hafðist þetta nú að lokum og litla réttin við rimlahliðið á Kaldbak fylltist gjörsamlega, en þangað var féð flest rekið. Kom nú hver bíllinn af öðrum að sækja féð og flytja til sinna heima.
Nýgræðingarnir í sauðfjársmölun voru fegnir að leggjast í bleyti til að mýkja vöðvana eftir átök dagsins. Lurkum lamin smalakerling var reyndar nokkuð drjúg með dagsverkið þegar hún staulaðist inn í rúm.
Þetta var skemmtileg reynsla, en ekki reikna ég með að við munum sækja það fast að fara í margra daga göngur á næsta ári!
20.9. MÁNUDAGUR
Jónas svaf í 11 klukkustundir eftir fjörið í gær. Algjört met. Mig dreymdi Kluftaland alþakið kindum. Vissi reyndar að nokkrar kindur sluppu úr rekstrinum í gær og um morguninn voru vinkonur okkar mættar á túnin. Við létum vita af þeim. Þurftum sjálf að fara í bæinn.